Morgunblaðið 9. ágúst 2006:
Virkjun í óþökk
eftir Hönnu Steinunni Þorleifsdóttur

Áður en til Kárahnjúkavirkjunar kom var reynt að knýja Fljótsdalsvirkjun fram án umhverfismats í skjóli bráðabirgðaákvæðis við gömlu umhverfismatslögin. Eins og kunnugt er tókust þær fyrirætlanir ekki enda virkjunin líklega ekki nógu stór og ekki til siðs í Evrópu að sleppa umhverfismati. Eyjabakkar enda fágætir á heimsvísu eins og nokkrir tugir þúsunda Íslendinga voru meðvitaðir um.

Það var þá sem langtum stærri fyrirætlanir tóku við af hálfu Landsvirkjunar, Kárahnjúkavirkjun, en við bara vissum það ekki. Skipulagsstofnun taldi að frestir settir í umhverfismatslögunum væru ekki til þess fallnir að tryggja fullnægjandi kynningu og umfjöllun meðal stofnana, almennings og félagasamtaka í samræmi við markmið laganna um eins umfangsmikil framkvæmdaáform og Kárahnjúkavirkjun er. Landsvirkjun virtist hins vegar leggja mikla áherslu á að ekki yrði hvikað frá ríkjandi frestum og var umhverfismatið keyrt í gegn á einu ári. Ekki verður sagt að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að upplýsa landsmenn um stærð, umhverfisáhrif og afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar. Frá upphafi var viðkvæðið að það væri of seint að tjá sig um málið og jafnvel hneykslanlegt að mótmæla, sem þó er lýðræðislegur tjáningarmáti og yfirleitt merki um að eitthvað mætti betur fara.

Ekki er eðlilegt hvað Íslendingar vissu lítið um áformaða virkjun að Kárahnjúkum. Í könnun Gallups vorið 2001 vissu 64,6% úrtaksins lítið eða ekkert um áformin, 29,3% nokkuð og aðeins 6,1% töldu sig vita mikið.
Skipulagsstofnun hafnaði Kárahnjúkavirkjun með úrskurði sínum 1. ágúst 2001 vegna verulegra, óafturkræfra, neikvæðra umhverfisáhrifa en fullnaðarúrskurður umhverfisráðherra 20. desember sama ár ómerkti hann og leyfði framkvæmdina með einum 20 skilyrðum.

Þegar Norsk Hydro hætti við stóriðjuáform í Reyðarfirði í marslok 2002 var fjárfestinganefnd umsvifalaust send til New York til viðræðna við bandaríska álrisann Alcoa. Atkvæðagreiðslan á Alþingi 8. apríl 2002 um virkjun jökulsánna tveggja norðan Vatnajökuls fór fram án þess að almenningur hefði verið upplýstur um málið sem er nokkuð undarlegt miðað við umfang framkvæmdarinnar. 19. júlí 2002 skrifuðu stjórnvöld og Alcoa undir viljayfirlýsingu og hafa landverðir í orðsins fyllstu merkingu flaggað í hálfa stöng á þeim degi æ síðan. Þegar að atkvæðagreiðslunni kom um álverið í Reyðarfirði á Alþingi ári síðar, 5. mars 2003, höfðu mótmælin magnast til muna en ekki verður sagt að þingmenn hafi með atkvæðum sínum endurspeglað augljósa vakningu meðal landsmanna á sviði náttúruverndar.

Fyrir austan rís langstærsta álver landsins og háspennulínur liðast freklega um fallega dali frá virkjun til álbræðslu. Einar fimm stórar stíflur og aðrar minni ásamt skurðum, haugsvæðum og háspennulínum afmynda landslagið. Þremur þeirra er ætlað með nokkrum herkjum að mynda svokallað Hálslón sem Landsvirkjun hefur fyrir löngu tekið upp á að teikna inn á kort eins og orðnum hlut. Svæðið sem skammsýni pólitíkusa ætlar hreint að drekkja er nú betur þekkt landsmönnum og hinn áður friðaði Kringilsárrani hljómar orðið kunnuglega.

Eyjabakkamegin er nú verið að byggja fjórðu stíflu Kárahnjúkavirkjunar, Ufsarstíflu, sem stíflar Jökulsá í Fljótsdal og mynda mun eins ferkílómetra lón og gera lítið úr 15 fossum í ánni. Næst við verður Kelduá stífluð sem mynda mun átta ferkílómetra lón sem gleypir Folavatn, eitt frjósamasta stöðuvatnið á Hraunum eins og segir í Vatnalífríki á virkjanaslóð á vef Náttúrustofu Kópavogs. Ufsarlón og Kelduárlón liggja alveg við mörk Eyjabakkasvæðisins sem er á náttúruminjaskrá en Folavatn tilheyrir Eyjabökkum. Í náttúruverndaráætlun segir í svæðislýsingu: "Á Eyjabökkum fella fleiri fuglar fjaðrir en á nokkrum öðrum stað í heiminum. Þar er sérstætt og gróskumikið votlendi, m.a. flæðimýrar sem eru fágætar hér á landi, og er m.a. beitiland hreindýra, heiðagæsa og álfta." Vatnasvið lónanna er stórt og nær langt inn á Eyjabakka og verður svæðið fyrir töluverðri röskun. Hraunaveita er net af smærri stíflum og miklum skurðum sem ekki verður talið fegurðarauki á svæðinu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að tilnefna Eyjabakkasvæðið á skrá Ramsarsamningsins um alþjóðleg mikilvæg votlendissvæði.

Fimm árum eftir úrskurðina 2001 eru Íslendingar enn að uppgötva umfang framkvæmdanna við Kárahnjúka. Er nema furða að mótmælin vari enn? Fjölskyldubúðirnar við Snæfell voru mótmæli við tilurð Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuvæðingu Íslands. Þangað flykktust ungir Evrópubúar frá meginlandinu, dásamlegt fólk sem skemmtilegt var að kynnast, og þangað fórum við ansi mörg til að mótmæla þeim náttúruspjöllum sem framin eru á hálendinu norðan Vatnajökuls til þess eins að gefa erlendu stórfyrirtæki rafmagn til álbræðslu í Reyðarfirði.

Hví lá svona á? Hefði ekki verið eðlilegra að gefa sér betri tíma til rannsókna og upplýsa almenning fyrr? Fyrir kosningarnar 1999 til dæmis? Ekki vildu stóru flokkarnir neitt af umhverfismálum vita fyrir kosningar 2003 en hvað verður 2007?