Spaugstofan Ísland
eftir Elísabetu K. Jökulsdóttur

VIÐ þurfum enga Spaugstofu lengur, því Ísland er orðið ein Spaugstofa. Skipulagsstofnun dæmir Kárahnjúkavirkjun úr leik en umhverfisráðherra fellir úrskurðinn úr gildi, Þjóðhagstofnun er felld niður því hún spáir ekki nógu vel, fólk er snuprað fyrir að syngja þjóðsönginn, vinstri maður situr í stól borgarstjóra en þjónar til borðs í stóriðjupartýinu, rithöfundur er kallaður á teppið af því hann skrifar um blá hönd, rafmagnið í álið er selt svo ódýrt að þar mætti halda að væri um örvæntingarfulla vændiskonu að ræða sem þyrfti að fá fyrir næstu sprautu en ekki stolta fossaeigendur, flugmaður er kallaður á teppið fyrir að fljúga yfir landið og lýsa fegurð þess, iðnaðarráðherra þræðir náttúruperlur um hálsinn á sér, forsætisráðherra sýnir sextándualdartakta og skammar hæstarétt í öryrkjamálinu, Frikki frontur kaupir Þjóðminjasafnið og þarmeð síðasta vindil Jóns Sigurðssonar, utanríkisráðherra virðist ákveða stuðning við bush og blair við eldhúsborðið heima hjá sér og þegar alþingi fréttir af því segir það ekki múkk, á alþingi er fólki sagt að éta slátur, forsætisráðherra heldur að fólk sem leitar til Mæðrastyrksnefndar sé að svíkja út slátur, fólk má ekki mótmæla á 17. júní því það setur ljótan svip á hátíðahöldin; datt einhverjum í hug að þetta væru falleg hátíðahöld við aðstæður þar sem níðst hafði verið á lýðræðinu og friðsömum mótmælendum, vitað er að stóriðjustefna Noregs mistókst svo afhverju er verið að halda henni til haga hér og blekkja austfirðinga, afhverju þegir forsetinn, afhverju þegir háskólinn, afhverju held ég ekki kjafti? Þetta eru svo ýkt og afkáraleg atriði að þau bera ekki vott um snefil af jafnvægi. Það mætti halda þau væru í Spaugstofunni en ekki í sjálfu lýðræðisríkinu Íslandi. Lýðræðisríkið er hinsvegar orðið að Spaugstofu og það er mín trúa að enginn hlæi, það er fólk sem grætur, nema kannski örfáir einstaklingar sem sitja í Ríkisvirkjun og Landsstjórn. Þetta er þeirra einkahúmor og þetta eru menn sem hlæja aldrei nema hámarkshlátri. En þótt þeir hlæi er ekki þarmeð sagt að þeir skemmti sér. Sjónvarpið fær að halda úti Spaugstofu sem gerir grín að gríninu þeirra og þeir hlæja þegar Spaugstofumenn sjást passa sig á því að styggja engan og vera sem mest á rjúpnaveiðum. Þá nær þeirra einkahúmor hámarki, enda sýnist mér á öllu að það sé verið að einkavæða húmorinn.