Morgunblaðið 27. október 2004
Skatastaðavirkjun líka
eftir Önnu Dóru Antonsdóttur

Hitti á dögunum ungan Skagfirðing á förnum vegi. Við tókum tal saman um lífið og tilveruna, staðinn, stundina, heimahagana og talið barst óhjákvæmilega að Vötnunum. Hvaða Skagfirðing hittir þú yfirleitt, á heimaslóð eða fjarri heimkynnum, sem ekki talar um Vötnin. Hvernig er veiðin? Er lágt eða hátt í? Eru vötnin komin á, eru þau komin af? Hvernig er liturinn? Syngur hátt í þeim í dag?

Vötnin eru Skagafjörður.

-En ef þeir fíflast til að stífla, hvað verður þá um Eylendið? sagði ungi maðurinn og fannst hann komast vel að orði. Mér fannst það líka og varð hugsi, ef þeir fíflast til að stífla. Hvað gerist þá?

Samkvæmt okkar lagabálkum ber að láta fara fram umhverfismat um þýðingu þess að spilla náttúrunni? Við vitum þess nýleg dæmi að einn ráðherra getur umsnúið mati umhverfisstofnunar sér í hag. Og það er ekki endilega hagur náttúrunnar eða umhverfisins. Ekki endilega.

En friðun Austara-eylendisins í Skagafirði er á borði umhverfisráðherra. Friðun þýðir væntanlega að ekki er hægt að fara í stórvirkjanir á svæðinu. Ekki er hægt að friða með annarri hendi og spilla með hinni. Friðun merkir ekki takmörkun á eignarrétti heldur, að ekki má lengur eyðileggja, í þessu tilfelli votlendið meðfram Héraðsvötnum og lífríkið sem þar dafnar. Ekki má taka þá áhættu að ósasvæðunum verði stefnt í voða og þar með lífríki sjávar á Skagafirðinum. Friðun er í mínum huga þetta. Það má sem sagt ekki eyðileggja Vötnin.

Hvers verður minnst frá aldamótum 2000 á Íslandi eftir 50 ár, eða 100 ár? Munu menn velta fyrir sér fjölmiðlafárinu sem skall á sumarið 2004? Nei, varla nema þá nokkrir rykfallnir sagnfræðingar. En verður munað eftir Kárahnjúkum og Skatastöðum í Skagafirði? Já, því að þar verða bautasteinar um skammsýni og heimsku mannanna. Ef ekki verður af heimskunni látið.

Er svo heimskulegt að vilja græða, spyr einhver. Það eru meginrök ráðamanna að hagnaðurinn sé svo mikill, Ísland verði svo ríkt. Jæja, fyrir þremur árum setti undirrituð fram tölur frá árinu 1999, fengnar úr Mbl.-grein eftir Magnús Thoroddsen. Þær tölur hefur enginn véfengt og verða þær dregnar hér fram að nýju. Stóriðjan notaði 63,5 % raforkunnar þá og greiddi kr. 0,90 á kwst en aðrir notuðu 35,5 % heildarorkunnar og greiddu kr. 5,15 fyrir kwst (Mbl. 24. júlí 2001). Enda er það svo að fáir sjá þennan mikla gróða sem sífellt er talað um. Hefur Landsvirkjun til dæmis greitt niður erlendar skuldir okkar eins og Norðmenn létu olíuna gera. Nei, þvert á móti, Landsvirkjun safnar erlendum skuldum sem ákafast. Landsvirkjun er sem sagt ekki rekin með hagnaði sem skilar sér í ríkiskassann, okkur skattgreiðendum til góða. Ekki einu sinni eldri virkjanirnar sem ættu að vera afskrifaðar og mala gull, afrakstur þeirra fer í hítina. Í Feyki 28. apríl s.l. er vitnað í orð Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki þar sem hann ræðir virkjanir við Villinganes og Skatastaði og segir m.a.: "Auk þess sem virkjun myndi lækka orkukostnað til almennings í landinu." Hér með er lýst eftir þeim sem séð hefur lækkandi orkureikninga í kjölfar stórvirkjana.

Stórvirkjun á borð við Skatastaðvirkjun kallar að sjálfsögðu á álver. Það er svo sjálfsagt að ráðamönnum finnst varla lengur taka því að segja þetta upphátt. Og iðnaðarráðherra talar við Skagfirðinga eins og lítil börn: -Ykkur var nær, þið hefðuð átt að sýna álveri meiri áhuga. Það er þetta með áhugann á álverum, rafskautaverksmiðjum og annarri stóriðju, hann fer þverrandi. Við getum ekki haft áhuga á ferðamennsku og auglýst Ísland sem ferðamannaparadís og á sama tíma eyðilagt hverja náttúruperluna á fætur annarri. Héraðsvötn eru náttúruperla.

Stundum, nú síðast í nýlegum umræðu um lýðræðið á ráðstefnu HÍ og Mbl., hefur komið fram sú kenning að stjórnmálamenn séu innilokuð stétt. Þeir sitji í sínum ranni, sínum Babelsturni yfir sínum áhugamálum og heyri alls ekki hvað fólkið segir. Heyri ekki þá umræðu sem fram fer í kringum þá, einangrunin er svo pottþétt. Getur þetta verið tilfellið? Andstaða við stórvirkjanir og meiri stóriðju fer vaxandi, fáir ef nokkur vill álver í hvern fjörð á Íslandi en valdamenn grúfa sig bara betur yfir sitt og keyra málin áfram.
Hið alvarlega í umræðunni um virkjunarmál í Skagafirði er þetta: Villinganesvirkjun er þegar búin að fara í gegnum umhverfismat. Ef Villinganes fer inn á skipulag Skagafjarðar þá er leiðin greið, Rarik og co. getur komið daginn eftir og byrjað að sprengja. Skatastaðavirkjun á lengra í land en kvörnin malar.
Ég skora á fólk að hugsa þessi mál og hugsa upphátt. Hugsa t.d. um hvort það vill uppistöðulón í Bugum, álver við Kolkuós, Austurdal með tveimur stöðvarhúsum svo eitthvað sé nefnt. Ég sendi boltann til Valgeirs Kárasonar á Sauðárkróki og skora á hann að láta í sér heyra og koma fram með sín sjónarmið í þessu máli.