Sivjarspjöll

Úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001

Aðdragandi Kárahnjúkavirkjunar

FYRST REYNT VIÐ EYJABAKKA, KÁRAHNJÚKA SVO

MARS 2000 er fallið frá Fljótsdalsvirkjun vegna m.a. harðra mótmæla og þar með var Eyjabökkum, norðan Vatnajökuls og austan Kárahnjúkasvæðisins, bjargað frá því að hverfa undir uppistöðulón.

Kárahnjúkasvæðið í hættu þegar sumarið 2000 en fór leynt...

14. JÚLÍ 2000
berst Skipulagsstofnun tillaga Landsvirkjunar að matsáætlun um Kárahnjúkavirkjun.

MÁNUÐI SÍÐAR
16. ágúst 2000 felst Skipulagsstofnun á tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun um Kárahnjúkavirkjun með fyrirvara um nánari skoðun einstakra þátta þegar matsskýrsla yrði lögð fram.

RÚMUM SEX MÁNUÐUM SÍÐAR
23. febrúar 2001 fær Skipulagsstofnun drög að matsskýrslu um Kárahnjúkavirkjun frá Landsvirkjun [sem er í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar].

TÆPUM MÁNUÐI SÍÐAR
20. mars 2001 gerir Skipulagsstofnun ítarlegar athugasemdir við drögin.

MÁNUÐI SÍÐAR
20. apríl 2001 er matsskýrslan Kárahnjúkavirkjun, allt að 750 MW, lögð fram til Skipulagsstofnunar ásamt 26 viðaukum og 43 sérfræðiskýrslum. Auk þess eru viðbótarupplýsingar veittar sem svar við umsögnum, sérfræðiálitum og athugasemdum sem Skipulagsstofnun bárust á meðan meðferð málsins stóð hjá stofnuninni.

Samkvæmt umsögn Skipulagsstofnunar hafði Landsvirkjun ekki nema að takmörkuðu leyti orðið við ábendingum stofnunarinnar um úrbætur á matsskýrslu, eftir að drög að henni höfðu verið kynnt stofnuninni.

Landsvirkjun telur að hún hafi tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram höfðu komið af hálfu Skipulagsstofnunar á meðan á samráðsferli stóð.

HÁLFUM MÁNUÐI SÍÐAR
Skipulagsstofnun kynnir fyrirhugaða framkvæmd og auglýsir matsskýrslu Landsvirkjunar 4. maí 2001 og gefur öllum kost á að gera athugasemdir við hana í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Á fjórða hundruð einstaklingar gerðu athugasemdir við matsskýrsluna og lögðust gegn fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum.

RÚMUM ÞREMUR MÁNUÐUM SÍÐAR ... eða ári eftir að tillaga Landsvirkjunar að matsáætlun um Kárahnjúkavirkjun barst Skipulagsstofnun kveður stofnunin upp úrskurð 1. ÁGÚST 2001

ÚRSKURÐUR SKIPULAGSSTOFNUNAR
... Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða Skipulagsstofnunar ... að Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW ... muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa. Ennfremur að upplýsingar skorti um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.

Skipulagsstofnun telur að þeir frestir sem settir eru í lögunum um kynningu og ákvörðun um matsáætlun og matsskýrslu séu ekki til þess fallnir að tryggja fullnægjandi kynningu og umfjöllun meðal stofnana, almennings og félagasamtaka í samræmi við markmið laganna um eins umfangsmikil framkvæmdaáform og hér um ræðir.

... ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að Landsvirkjun hafi lagt ríka áherslu á að frá þessum frestum yrði ekki hvikað.

TÆPUM FIMM MÁNUÐUM EFTIR úrskurð Skipulagsstofnunar
er hann felldur úr gildi af umhverfisráðuneytinu 20. DES. 2001

ÚRSKURÐUR UMHVERFISRÁÐHERRA
Hinn kærði úrskurður Skipulagsstofnunar uppkveðinn 1. ágúst 2001 er felldur úr gildi 20. des. 2001.

Fallist er á hina fyrirhuguðu framkvæmd, Kárahnjúkavirkjun, með 20 skilyrðum
(þ.á m. er Landsvirkjun gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu (sem liggur við jaðar Eyjabakkasvæðisins, austan Snæfells), Laugarfellsveitu (Grjótárveita, Hölknárveita og Laugarárveita), Bessastaðaárveitu, Gilsárvötn (1), Sultarrana- og Fellssárveitu og gert að endurskoða fyrirkomulag á yfirfalli stíflu við Kelduá (2) en yfirfalli úr Hálslóni við stíflu í Desjarárdal er hafnað og skal leitt þess í stað í Hafrahvammagljúfur (3), einnig skal Landsvirkjun sjá til þess að bergganginum, Tröllkonustíg, í Valþjófsstaðarfjalli verði hlíft við raski þannig að ásýnd hans verði ekki breytt (20)).

 

"AÐ MATI RÁÐUNEYTISINS..."
ÚTDRÆTTIR ÚR NIÐURSTÖÐUM ÚRSKURÐAR UMHVERFISRÁÐUNEYTIS varðandi Kárahnjúkavirkjun

[Úrskurðurinn er alls á 125 bls. en útdrættirnir hér eru úr niðurstöðukaflanum (bls. 84-125)]
[mótmælaspjöld Hálendisgöngunnar 27. febrúar 2003 = mótmælaspja
ld]

Framkvæmdaraðili [Landsvirkjun] leggur til að eftirfarandi rannsóknir verði gerðar til að styrkja forsendur líffræðilegra varnaraðgerða vegna Hálslóns.
1. Tilraunir með mismunandi aðferðir við gróðurstyrkingu á hálfgrónu og algrónu landi.
2. Tilraunir með sáningu melgresis.
3. Tilraunir með þróun melgresissvæða.
4. Tilraunir með uppgræðslu jarðvegssára.
5. Tilraunir með áfok.
6. Rannsóknir á framvindu gróðurs og vistkerfa á eldri uppgræðslusvæðum.
7. Könnun á virkni vistgerða.
8. Þróun á aðferðum við að stöðva rof.
9. Erlend lón.

[mótmælaspjald: LANDGRÆÐSLUÆFING? EYÐILEGGJA FYRST...]

NIÐURSTÖÐUR
Framkvæmdaraðili hefur lagt fram tillögur um aðgerðir til að hemja sandfok úr Hálslóni.

[mótmælaspjald: NÓG KOMIÐ AF SANDFOKI!]

& verður að gera ráð fyrir að töluvert mistur geti myndast frá lónstæðinu við ákveðin veðurskilyrði í júní og f.hl. júlí miðað við þá forgangsröðun um fyllingu lóna sem framkvæmdaraðili hefur lagt til. Mistrið er fínkorna efni sem dreifist yfir stórt svæði þannig að reikna má með þunnu lagi á hverjum stað.
Ljóst er að röskun verður á gróðri nokkuð út fyrir mörk fyrirhugaðs lóns, bæði vegna tilkomu lónsins og mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir jarðvegsrof. Tegundasamsetning gróðurs á svæðinu (m.a. móavistinni sem mest er af austan lóns) gefur til kynna að þarna sé deiglendi og e.t.v. er þetta hluti skýringarinnar á því að svo lítill uppblástur hafi verið austan Jökulsár á Dal. Rofbakkinn sem myndast við efstu lónstöðu kann að hafa áhrif á gróður næst fyrirhuguðu lóni í þá átt að landið þorni.

Með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram til að draga úr jarðvegsrofi og áfoki vegna Hálslóns telur ráðuneytið að hægt verði að tryggja að gróðurskemmdir vegna óbeinna áhrifa Hálslóns (þ.e. vegna áfoks) verði innan viðunandi marka.
SKILYRÐI: Aðgerðir framkvæmdaraðila til að minnka jarðvegsrof og áfok úr Hálslóni skulu miðast við að hvergi myndist áfoksgeirar meðfram jöðrum Hálslóns í hönnunarstormi með 50-100 ára endurkomutíma.

[mótmælaspjald: STOFNA TIL JARÐVEGSROFS OG ÁFOKS Í GRÓÐURSÆLD MIÐHÁLENDISINS]

YFIRFALL VIÐ HÁLSLÓN UM DESJARÁRDAL
SKILYRÐI: Fyrirkomulagi á yfirfalli úr Hálslóni eins og það er staðsett og hannað við stíflu í Desjarárdal er hafnað. Hönnun aðalstíflu við Hálslón skal breyta þannig að yfirfallsvatn úr lóninu verði leitt í Hafrahvammagljúfur.

TAPAÐ GRÓÐURLENDI OG ÁHRIF ÞESS Á GRÓÐUR- OG DÝRALÍF
Rannsóknir á gróðurfari á Vesturöræfum og Brúardölum hafa leitt í ljós að í lónstæði Hálslóns sem er um 57 ferkm &
Í lónstæðinu hafa fundist og verið greindar 137 tegundir háplantna, 175 tegundir mosa, 124 tegundir fléttna og 36 sveppategundir, auk þess sem nokkuð er enn ógreint af fléttum og talsvert af sveppum. Af smádýrum fundust að minnsta kosti 296 tegundir og 24 tegundir fugla sem taldar eru til varpfugla í lónstæðinu. Gróðurgreining og flokkun í vistgerðir leiddi í ljós að um er að ræða 11 vistgerðir, en það eru allar þær vistgerðir sem skilgreindar hafa verið á Vesturöræfum og Brúardölum. Af vistgerðum í lónstæðinu eru algengastar móavist og melavist & gijamóavist & og óflokkaðir jökulmelar. Af þessum vistgerðum er giljamóavist talin mikilvægust hún er einnig gróskumikil og þar er líffræðilegur fjölbreytileiki mestur.

Í lónstæðinu mældist giljamóavist með hávaxnari gróðri og meiri þekju en í giljamóavist utan lónstæðisins. Þar þrífast margar tegundir sem fágætar eru eða sjaldgæfar á Íslandi, þ.e. ein háplöntutegund, 19 mosategundir, 13 fléttutegundir og 37 tegundir smádýra. Af þessum tegundum eru 2 mosategundir og 5 fléttutegundir á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands en 2 fléttutegundir teljast jafnframt sjaldgæfar á heimsvísu. &

[mótmælaspjald: GILJAMÓAVIST, FJÖLBREYTTASTA VISTGERÐIN]

Af vistgerðum í lónstæðinu telst giljamóavist hafa hæst verndargildi ekki síst vegna þýðingar hennar fyrir ýmsar tegundir dýra og hversu takmarkaða útbreiðslu hún hefur. Rústamýravist er hins vegar sennilega sjaldgæfasta vistgerðin á landsvísu&

[mótmælaspjald: HÁLSLÓN 57 FERKM 40 FERKM AF FÁGÆTU GRÓÐURLENDI UNDIR JÖKULVATN (RVÍK 63 FERKM)]

[mótmælaspjald: HÁLSLÓN TÍMASKEKKJA!]

Gróðurlendi á Vesturöræfum er sérstakt á landsvísu vegna þess að þetta er eini staðurinn á landinu í dag þar sem samfelldur gróður teygir sig frá fjöru, inn á hálendið og allt inn að jökli. Ljóst er að á því svæði sem fer undir Hálslón nýta um 500 pör heiðagæsa sem varplönd og beitarsvæði og að þar eru einnig mikilvæg svæði fyrir hreindýr, s.s. burðarsvæði, beitiland og farleiðir.

Að mati ráðuneytisins munu áhrifin af myndun lónsins ná út fyrir lónstæðið til nærliggjandi gróðurlenda. Eins og að framan greinir er líklegt að eitthvað áfok verði úr lónstæðinu yfir nærliggjandi gróðurlendi &

Svæðið á Hálsinum er mikilvægt á vorin fyrir hreindýr og getur skipt sköpum fyrir afkomu stofnsins í erfiðum árum.

Lónið mun rýra giljamóavist hlutfallslega mikið eða um 43% (tæpl. 9 ferkm) á Vesturöræfum og Brúardölum og er það mikið á svæðisvísu og töluvert á landsvísu, þar sem hún virðist að miklu leyti bundin við norðaustanvert landið. Lónið mun skerða um 70% af eyravist (um 1,7 ferkm) og um 27% af holtamóavist (eða um 4,5 ferkm) á Vesturöræfum og Brúardölum.

Að mati ráðuneytisins er verndargildi gróðurlenda í lónstæði Hálslóns hátt. Gróðurlendið í lónstæðinu ásamt grónu landi á Vesturöræfum er stærsta samfellda gróðursvæði í yfir 500 m hæð yfir sjávarmáli á miðhálendinu.
Við myndun Hálslóns tapast mikilvæg vor- og sumarbeitilönd hreindýra ásamt burðarsvæðum hluta Snæfellshjarðarinnar &

Jafnframt tapast varp- og beitarsvæði um 500 heiðagæsapara, en það er um 1,6% íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins. Benda má á í þessu sambandi að skv. samþykktum Ramsar-samningsins um vernd votlendis, einkum votlendisfugla, teljast svæði sem hýsa yfir tiltekið tímabil um 1% eða meira af heildarstofni ákveðinnar tegundar alþjóðlega mikilvæg.

Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og skv. samningnum um líffræðilega fjölbreytni hefur Ísland ákveðnum skyldum að gegna ganvart varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærri nýtingu hennar sem m.a. felst í því að koma eins og kostur er í veg fyrir útrýmingu tegunda. Samningurinn felur í sér að við vernd og sjálfbæra nýtingu sem getur haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni séu ákvarðanir um nýtingu teknar í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Samningurinn felur hins vegar ekki í sér skilyrðislausa tegundavernd. Sambærileg ákvæði felast í Bernar-samningnum um vernd tegunda og búsvæða þeirra í Evrópu gagnvart verndun búsvæða allra tegunda þótt áhersla sé lögð á tegundir í viðaukum samningsins.
Ráðuneytið telur mikilvægt að bæta eins og kostur er fyrir það gróðurlendi sem fer undir Hálslón.

SETHJALLAR VIÐ JÖKULSÁ Á DAL
Ráðuneytið telur að sethjallarnir hafi vísindalegt gildi og umhverfisáhrif Hálslóns á þá séu mikil.
Ráðuneytið telur að sethjallarnir hafi hátt verndargildi einkum með tilliti til þess rannsókna- og fræðslugildis sem þeir hafa að geyma varðandi myndun dala undir jökli og myndunarsögu Hafrahvammagljúfurs og tengsl hennar við veðurfarsbreytingar á nútíma og breytingar á stærð Vatnajökuls síðustu 10.000 árin.

Ekki er hægt að vernda sethjallana við myndun Hálslóns.

[mótmælaspjald: HJALLADALUR SAGA VATNAJÖKULS]

JARÐMYNDANIR VIÐ JAÐAR BRÚARJÖKULS
Við jaðar Brúarjökuls eru sérstæðar jarðmyndanir, s.s. jökulgarðar. Brúarjökull er einn mesti framhlaupsjökull landsins og í hlaupum skríður hann oft fram um marga km á skömmum tíma &

Svokallaðir Töðuhraukar eru hluti jökulgarðs í friðlandinu í Kringilsárrana sem myndaðist við framhlaup Brúarjökuls árið 1890 þegar jökullinn gekk út yfir gróið land. Garðurinn þykir sérstakur fyrir þær sakir að í honum er, auk jökulurðar, jarðvegur sem vöðlaðist upp í hann.

Það er óumdeilt að áhrif Hálslóns á jarðmyndanir við jökuljaðarinn og Töðuhraukana eru mikil.

FARVEGUR JÖKULSÁR Á DAL - HAFRAHVAMMAGLJÚFUR
Ráðuneytið tekur undir álit sérfræðinga ... að Hafrahvammagljúfur hafi fegurðar-, fræðslu- og vísindagildi á landsmælikvarða og séu fágæt á heimsmælikvarða, og að landslagsheildin á, aurar og strönd séu mikilvæg á héraðsvísu. Ekki er um það deilt að áhrif Kárahnjúkastíflu verða mikil í árfarveginum.

JARÐHITASVÆÐIN VIÐ LINDUR OG SAUÐÁRFOSS
Að mati ráðuneytisins eru áhrif Hálslóns á jarðhitasvæðin við Lindur og Sauðárfoss veruleg og þau er ekki hægt að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum.

SÉRSTÆÐAR BERGMYNDANIR
Í gljúfri Jökulsár á móts við Lindur er flikrubergslag á alllöngum kafla í bergveggnum. Litlu norðar í gljúfrinu, skammt sunnan við Sauðá á Brúardölum, er formfagurt stuðlaberg. Við myndun Hálslóns munu bergmyndanirnar í gljúfri Jökulsár ofan fyrirhugaðtrar stíflu hverfa. Ráðuneytið telur að flikrubergslagið hafi vísindalegt og fagurfræðilegt gildi.

[mótmælaspjald: HJALLARNIR! FLIKRUBERGIÐ!]

FOSSAR
Áhrif Hálslóns á Sauðárfoss og Kringilsárfoss eru mikil en ekki eru að mati ráðuneytisins til neinar raunhæfar aðgerðir til að forðast röskun þeirra.

[mótmælaspjald: KRINGILSÁRFOSS TÖFRAFOSS]

ÁHÆTTUR
Fyrirhuguð stíflumannvirki við Hálslón verða reist á jarðfræðilega ungu svæði í jaðri eystra gosbeltisins sem liggur þvert yfir Ísland ...

Skammt er til virkra eldfjalla og Eyjabakka- og Brúarjökull ganga fram úr norðanverðum Vatnajökli með reglulegu millibili. Mannvirkjum, einkum stíflum, getur stafað hætta af náttúruhamförum, s.s. vegna jarðskjálfta, eldgosa, nálægðar við jökla eða af mannavöldum, t.d. vegna skemmdarverka eða mistaka við hönnun og framkvæmd.

Verði stíflurof í Kárahnjúkastíflu, Desjarárstíflu eða Sauðárdalsstíflu, mun flóðbylgja berast niður farveg Jökulsár á Dal sem getur valdið tjóni á mannvirkjum sem fólki getur stafað hætta af. Slíkur atburður myndi skerða raforkuframleiðslu virkjunarinnar um 70% og hefði langvarandi efnahagsleg áhrif ...

Gagnvart öryggi fólks skiptir miklu máli að viðvörunartími sé meiri en 90 mínútur ef til stíflurofs kemur. Ráðuneytið telur að í öllum tilvikum muni það nást miðað við þann viðbúnað sem er fyrirhugaður af hálfu framkvæmdaraðila.

Afleiðingar stíflurofs og þá sérstaklega stíflurofs við Hálslón yrðu gríðarlegar og langan tíma tæki að lagfæra þær og endurgera mannvirki eftir slíkan atburð, auk þess sem það yrði kostnaðarsamt. Hættan á að slíkt gerist er raunveruleg enda þótt líkindi þess sú lítil.

FRAMHLAUP BRÚARJÖKULS
Brúarjökull er skriðjökull sem gengur norður úr Vatnajökli. Jökullinn hleypur með nokkuð reglulegu millibili, síðast hljóp hann árið 1964. Fyrirhugað Hálslón verður í hæstu vatnsstöðu 625 m hæð yfir sjávarmáli og mun suðurendi lónsins ná 4 km inn undir Brúarjökul eins og hann er í dag. Brúarjökull er nú á undanhaldi en talið er að hann muni hlaupa á næstu 20-30 árum og geti þá náð 6-8 km inn í suðurenda Hálslóns.

BREYTINGAR Á VATNAFARI

BREYTINGAR Á GRUNNVATNSSTÖÐU VIÐ VEITINGU JÖKULSÁR Á DAL TIL JÖKULSÁR Á FLJÓTSDAL
Framkvæmdaraðili fyrirhugar að beina Jökulsá á Dal um jarðgöng yfir í Jökulsá í Fljótsdal og auka þannig vatnsmagn árinnar.
Aukið vatnsmagn hækkar vatnsborð Jökulsár á Fljótsdal við Valþjófsstaðanes að sumarlagi um allt að 45 cm að því að talið er, í Leginum um allt að 28 cm og neðan Lagarfljótsvirkjunar niður eftir Lagarfljóti um 30-50 cm miðað við núverandi ástand.

Hækkun vatnsborðs Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts við flutning Jökulsár á Dal yfir í Fljótsdal mun auka hættuna á rofi úr bökkum, hækka grunnvatnsstöðu í allt að 500 m fjarlægð frá ánni, valda breytingum á gróðri og fuglalífi á lægstu svæðum meðfram bökkum árinnar sem og á landbúnaðarsvæðum.

ÁHRIF Á GRÓÐUR OG FUGLA MEÐ LAGARFLJÓTI OG Á HÉRAÐSSANDI
Breytingar á rennsli og vatnsborðshæð Lagarfljóts munu hafa áhrif á gróðurfar og fuglalíf meðfram bökkum fljótsins ...

Talið er að hætta á landbroti aukist meðfram ánni og m.a. tímabundið í flóðum neðan frárennslisskurðarins ...

Hætta er talin á að umhverfisáhrifin geti orðið umtalsverð á Finnsstaðanesi og Egilsstaðanesi en bæði þessi svæði eru á Náttúrminjaskrá. Einnig er talið að Dagverðargerði sé viðkvæmt fyrir breytingum þar sem gróður hefur þegar breyst vegna áhrifa af völdum bantsborðsbreytinga í tengslum við Lagarfljótsvirkjun.

Lagarfljót er mikilvægt fyrir margar tegundir fugla og fjöldi tegunda nýtir svæðið sem varpsvæði, til fæðuöflunar eða á fartíma bæði vor og haust eða til þess að fella flugfjaðrir. Svæðið við Lagarfljótsbrú er talið mikilvægt árið um kring en flestir fuglar eru þar um fartíma að vori. Breytingar á vatnshæð og rýni geta haft áhrif á fæðuframboð og fæðuöflunarsvæði í Lagarfljóti og einnig gætu orðið breytingar á gróðurfari og varpstöðum sem gætu haft áhrif á fuglastofna.

Líklegt er að um 9 ferkm gróins lands geti orðið fyrir breytingum á svæðinu frá Valþjófsstað að ósi við Héraðsflóa vegna hærri vatnsstöðu í Lagarfljóti.

Lagarfljót er nýtt af nokkrum tegundum fugla sem teljast sjaldgæfar eða eru á válista Náttúrufræðistofnunar, þ.e. gargönd, skeiðönd og hrafnsönd, sem geta orðið fyrir áhrifum af völdum vatnabreytinga. Margir fellistaðir grágæsa eru við Lagarfljót og er mikilvægastur þeirra fellistaður við Dagverðargerði þar sem hluti þeirra er á lágum nesjum sem fara munu á kaf við vatnsborðshækkun.

Að mati ráðuneytisins hafa rannsóknir á svæðinu leitt í ljós að verndargildi svæðisins meðfram Lagarfljóti, einkum Úthéraði, er hátt og að það hefur þýðingu fyrir fjölda fuglastofna, þar á meðal nokkrar sem eru einkar mikilvægir á íslenska vísu. Á svæðinu er mikið af óröskuðu votlendi með sjaldgæfum gróðurlendum og auðugu fuglalífi.

[mótmælaspjald: HVAÐ MEÐ LAGARFLJÓT?]

ÁHRIF Á GRÓÐUR OG FUGLA Á ÚTHÉRAÐI
Við byggingu Kárahnjúkavirkjunar verður grundvallarbreyting á rennsli og vatnafari Jökulsár á Dal &

Búist er við verulegum breytingum á ósasvæði árinnar og að skerjum og hólmum fækki vegna minni framburðar aurs. Verndargildi Úthéraðs er mikið og er svæðið á Náttúruminjaskrá og lífríki er þar fjölskrúðugt bæði gróðurfar og dýralíf.

Áhrif vatnsbreytinga í Jökulsá á Dal á Úthéraði verða, m.a. þær að breyting verður á grunnvatnsstöðu meðfram ánni, og mun hafa áhrif á gróðurfar, einkum á votlendi og deiglendi beggja vegna fljótsins. Talið er að þetta geti haft áhrif á fuglastofna.

Mikið fuglalíf er á Úthéraði og er varp lóms þar óvenju þétt og um 10% stofnsins verpir á svæðinu. Kjóavarp er einnig óvenju þétt og grágæsavarp er mikið á landsvísu. Þá er talið að um 5% skúms á Íslandi verpi á áhrifasvæði virkjunarinnar og að breytingar á vatnafari Jökulsár á Dal gætu haft áhrif á varpstöðvar og aðgengi að þeim á Úthéraði. Líklegt er að breytingar á rennsli Jökulsár á Dal hafi áhrifa á fæðusvæði lóms og grágæsar.

Ráðuneytið telur ljóst að breytingar á rennsli Jökulsár á Dal leiði til breytinga á gróðri og fuglalífi á Úthéraði.

[mótmælaspjald: FJÖLBREYTT FUGLALÍF Á ÓSASVÆÐI JÖKULSÁR Á DAL, HÉRAÐSSANDI, HÚSEY, Í HÆTTU]

[mótmælaspjald: STÆRSTA KJÓAVARP Í HEIMI Í HÆTTU]

ÁHRIF Á LANDBÚNAÐ
Það er mat ráðuneytisins að í gögnum um aðgerðir vegna endurheimtar landbúnaðarlands í Fljótsdalshreppi sé ekki að fullu gerð grein fyrir umfangi breytinga á landi og ekki sé ljóst hversu mikið land muni blotna upp í hreppnum. Ljóst er að gröftur nýrra skurða mun þurrka upp votlendi. Þá er ekki ljóst hver áhrifin verða af gerð varnargarðs við enda frárennslisskurðar í landi Valþjófsstaðar [í eigu kirkjunnar].

BREYTING Á LÍFSSKILYRÐUM Í LAGARFLJÓTI
Lífríki Lagarfljóts er á heildina litið fremur fábreytt en fuglar, s.s. endur og gæsir ásamt mófuglum og ránfuglum, nýta fljótið og svæðið umhverfis það sem búsvæði, felli- og náttstaði og til fæðuöflunar. Nokkur svæði við Lagarfljót eru á Náttúruminjaskrá vegna fjölbreytts fuglalífs, þ.e. Egilsstaðanes, Finnsstaðanes og votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá og Hjaltastaðaásar.

Fyrirhuguð framkvæmd mun hafa töluverð áhrif á Lagarfljót og aukið vatnsmagn í fljótinu valda hækkun vatnsyfirborðs, litur mun breytast vegna aukins svifaurs í vatninu og líklegt er að hitastif vatnsins lækki að sumri til um hálfa gráðu en haldast óbreytt að vetrinum. Þrátt fyrir takmarkaða rýni í vatninu í dag er þar töluverð gróska í efsta metra vatnssúlunnar og við strönd vatnsins.

Líklegt er að svifaur í vatninu muni fjór- til fimmfaldast og viðstöðutími vatnsins í Lagarfljóti styttast. Aukinn svifaur mun draga úr rýni í vatninu og takmarka og draga úr frumframleiðni þörunga og þar með fæðuframboði fyrir smádýrastofna, krabbadýr, fugla og fiska. Líklegt er að aukinn svifaur geti haft áhrif á göngu fiska um fljótið en í fljótinu eru bleikja, urriði, lax og hornsíli.

ÁHRIF GANGAGERÐAR Á GRUNNVATNSSTÖÐU
Frá Hálslóni er fyrirhugað að veita vatni um aðrennslisgöng í austur og síðan í norðaustur undir Fljótsdalsheiði að innsta hluta Fljótsdals þar sem stöðvarhús verður neðanjarðar. Göngin eru um 40 km löng & Göngin verða um 50-150 m neðan yfirborðs og borun þeirra kann að hafa staðbundin áhrif á grunnvatnsborðið yfir þeim.
Mikill fjöldi vatna og tjarna eru á Fljótsdalsheiði.

ÁHRIF FERSKVATNSRENNSLIS Á LAGSKIPTINGU SJÁVAR Í HÉRAÐSFLÓA OG STRAUMA ÚTI FYRIR AUSTFJÖRÐUM
Með virkjun fallvatnanna á Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fljótsdal mun rennsli ferskvatns til Héraðsflóa breytast verulega, sérstaklega síðsumars þegar áætlað er að rennslið verði um 250-300 rúmm/sek. í stað þess að vera um 670 rúmm/sek. fyrir virkjun ...

Framburður aurs og sets mun minnka um 10 milljón tonn á ári og breytast að því leyti að grófara set mun setjast til í lónunum en fínt set berast til sjávar eftir virkjun.

VÍÐERNI OG LANDSLAGSGERÐIR

NÁTTÚRUVERNDARSVÆÐI
Á áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar eru fjölmörg svæði á Náttúruminjaskrá sem ýmist eru friðlýst eða ástæða er talin til að vernda ...

Svæði á Náttúruminjaskrá sem eru friðlýst eru Kringilsárrani og Lónsöræfi sem að liggja við jaðar áhrifasvæðis virkjunarinnar. Um fjórðungur friðlandsins í Kringilsárrana mun fara undir Hálslón sem skiptir friðlandinu í tvennt. Á friðlýsta svæðinu í Kringilsárrana, friðlandi hreindýra. ...

Önnur svæði á Náttúrminjaskrá sem eru á áhrifasvæði virkjunarinnar eru 20 talsins frá jökli til sjávar en af þeim munu 6 verði fyrir talsverðri röskun og 4 fyrir lítilli röskun en hin 10 verða ósnert.

[mótmælaspjald: KRINGILSÁRRANI ER FRIÐLAND]

Þau svæði sem verða fyrir töluverðri röskun eru eftirfarandi og verður hér vísað til númera viðkomandi svæða í Náttúruminjaskrá: Snæfell, Vesturöræfi, Hafrahvammagljúfur (615), Eyjabakkar (616), Finnsstaðanes og Egilsstaðanes (647), Eylendið í Jökulsárhlíð (639), Húsey (648), votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá og Hjaltastaðaásar (605).

Svæði sem verða fyrir lítilli röskun eru Sleðbrjótsmelar (640), Jökulsárgil (641), Gilja og Hauksstaðahólar í Jökuldal (642) og Gláma og nágrenni (649).

Umfangsmestu áhrifin af virkjuninni verða á svæði nr. 615 í Náttúruminjaskrá sem nær yfir Snæfell, Vesturöræfi og Hafrahvammagljúfur enda fer hluti svæðisins undir Hálslón. Fyrirhugaðar framkvæmdir fara ekki inn á Eyjabakkasvæðið nr. 616 en Ufsárlón og Kelduárlón liggja alveg við mörk svæðisins og er hugsanlegt að einhverra áhrifa framkvæmdarinnar muni gæta á svæðinu. Vatnsborðshækkun í Lagarfljóti mun líklega valda einhverri gróðureyðingu í Finnsstaðanesi og Egilsstaðanesi. Breytingar á rennsli Jöklu og Jökulsár á Fljótsdal og Lagarfljóti koma til með að hafa töluverð áhrif á svæðin þrjú við Héraðsflóa.

Að mati ráðuneytisins hefur komið í ljós ... að verndargildi á svæði nr. 615 á Náttúruminjaskrá, þ.e. Snæfell, Vesturöræfi, Hafrahvammagljúfur er hátt. Þar eru merkar jarðfræðilegar náttúruminjar, s.s. töðuhraukarnir og sethjallarnir, og merkar líffræðilegar náttúruminjar, eins og óvenjumikil gróska og fjölbreytni vistgerða ber með sér, og mikilvægi svæðisins fyrir stofna heiðagæsa og hreindýra. Þá er það mat ráðuneytisins að svæðin þrjú við Héraðsflóa, Eylendið í Jökulsárhlíð, Húsey og votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá og Hjaltastaðaása nr. 639, 648 og 605 á Náttúruminjaskrá ásamt Finnsstaðanesi og Egilsstaðanesi hafi hátt verndargildi, einkum vegna fjölskrúðugs fuglalífs og fjölbreyttra gróskumikilla gróðurlenda.

VÍÐERNI NORÐAN VATNAJÖKULS OG ÁHRIF Á LANDSLAGSHEILDIR
Stærstu ósnortnu víðerni landsins eru Vatnajökull og svæðin umhverfis hann. Um er að ræða eitt af stærstu ósnortnu hálendisvíðernum í Evrópu.

Hugtakið landslagsheild er að mati ráðuneytisins hvers konar landslags- eða náttúrufyrirbæri sem eiga saman í náttúrunni. Landslagsheildir sem verða fyrir áhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda eru annars vegar Kárahnjúkar, Hafrahvammagljúfur, árdalurinn með sethjöllunum sunnan Kárahnjúka, Jökulsá á Dal og tengsl við síðbreytilegan jaðar Vatnajökuls og hins vegar landslagsheildin Jökulsá á Dal, áraurarnir og strönd Héraðsflóa.

[mótmælaspjald: 10.000 ÁRA SÖGU SETHJÖLLUM SUNNAN KÁRAHNJÚKA SÖKKT]

Hálslón og Kárahnjúkavegur munu skerða ósnortin víðerni, auk þess sem sjónræn áhrif verða frá helstu byggingum og stíflum.

Mest sjónræn áhrif verða auk Hálslóns af Kárahnjúkastíflu, Sauðárdalsstíflu, Desjarárstíflu, stíflu við Fljótsdalsveitu og Kárahnjúkavegi.

Ef miðað er við skilgreiningu náttúruverndarlaganna á víðernum, þ.e. að 5 km séu í næsta mannvirki ná ósnortin víðerni umhverfis Vatnajökul, að Vatnajökli meðtöldum, yfir 14.500 ferkm svæði. Ef miðað er við land utan Vatnajökuls eru ósnortnu víðernin 6.200 ferkm. að flatarmáli.

Verði af öllum áformum framkvæmdaraðila munu ósnortin víðerni skerðast um 925 ferkm. Ósnortin víðerni umhverfis Vatnajökul myndu þá ná yfir 5.275 ferkm í stað 6.200 ferkm ...

Ráðuneytið telur að áhrif framkvæmdarinnar á verndargildi landslagsheilda verði mikið og að verndargildi þeirra verði lægra eftir virkjun. Mest eru áhrifin af myndun Hálslóns og þar vegur þyngst hin sérstæða landslagsheild Kárahnjúkar, ásamt Hafrahvammagljúfrum og árdalurinnn með sethjöllunum sunnan Káranhjúka, og bein tengsl þessarar landslagsheildar við Jöklu og síbreytilegan jaðar Vatnajökuls. Þessi heild er sérstæð fyrir þær sakir að hér spila saman jökulsorfinn berggrunnur frá fyrri hluta ísaldar, gosmyndanir frá síðari hluta ísaldar, og vatnaset frá ísaldarlokum og nútíma, ásamt síbreytilegum jökuljaðrinum og rofmætti jökulárinnar sem sjá um að viðhalda landmótun á svæðinu.

FERÐAMÁL, ÚTIVIST OG HUGMYNDIR UM STOFNUN ÞJÓÐGARÐS
Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun ná yfir um 2.900 ferkm svæði á Norðausturlandi en þar af eru um 300 ferkm á hálendinu norðaustur af Vatnajökli. Nokkur hluti þess svæðis flokkast sem ósnortin víðerni.

Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verða umtalsverð og kunna að hafa töluverð áhrif á þróun ferðamennsku og útivistar á svæðinu. Framkvæmdirnar munu raska mörgum áhugaverðum stöðum fyrir ferðamenn, s.s. landslagsheildum, jarðfræðiminjum, gróðurlendum og fossum. Þá munu framkvæmdirnar breyta ásýnd landsvæðisins verulega á mörgum stöðum, t.d. með stíflum og myndun lóna, tengiskurðum, haugsvæðum, námum og vegum og um leið skerða lítt eða ósnortin víðerni nokkuð.

Verðmæti svæðisins fyrir ferðamenn er fólgið í stórbrotnu landslagi og það er hluti af stærstu ósnortnu víðernum landsins og í Evrópu ásamt þeirri náttúru sem svæðið hefur upp á að bjóða. Stærstu árgljúfur landsins eru í ofanverðum farvegi Jökusár á Dal. Helmingur hreindýrastofnsins gengur á svæðinu á sumrin og hátt í helmingur veiddra hreindýra er veiddur á Snæfellsöræfum. Þá eru Snæfellsöræfin eitt gróðusælasta hálendissvæði landsins og gróður þar óvenju gróskumikill, sérstaklega í lónstæði Hálslóns.

...að mati ráðuneytisins mun fyrirhuguð framkvæmd ekki hafa nein áhrif á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

FOSSAR
Margir fossar eru í Jökulsá í Fljótsdal, um 15 fossar 3-30 m háir eru á um 20 km kafla frá Eyjabökkum að Kleif í Fljótsdal, en aðeins fáir þeirra bera nafn. Þeir helstu eru Eyjabakkafoss (5-10 m hár), Tungufoss (5-10 m), Kirkjufoss (30-40 m), Faxi (20-22 m), Ytri Gjögurfossar, röð fossa og flúða samtals 15-20 m, og Hafursárfoss ...

...verða fossarnir að jafnaði vatnslitlir, nema þegar vatn rennur á yfirfalli úr Ufsarlóni. Yfirfallsrennsli verður algengast yfir sumartímann og má búast við að dagar með yfirfallsrennsli verði á bilinu 30-100 á ári.

Mestar breytingar verða á fossum sem næstir eru stíflustæðinu en áhrifin minnka eftir því sem fjær dregur stíflunni.

Fossar sem breytast við framkvæmdir á Fljótsdalsheiði eru í Bessastaðaá, í Hölkná, í Laugará ...

Um 20 fossar sem ráðuneytið telur hafa verndargildi munu verða fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd, fyrir utan þá fossa sem verða fyrir áhrifum vegna Hálslóns.

Að mati ráðuneytisins eru áhrif virkjana ... á fossa mikil.

... gerir ráðuneytið það að skilyrði m.a. að fallið verði frá framkvæmdum við Hafursárveitu og Laugarfellsveitu. Við það er dregið verulega úr áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfi og verða m.a. Hafursárfoss, Grjótárfoss, Hölknárfoss, Slæðufoss og Stuðlafoss óbreyttir frá því sem nú er.

HAFURSÁRVEITA
Áætluð Hafursárveita liggur við jaðar Eyjabakkasvæðisins.
SKILYRÐI: framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu.

LAUGARFELLSVEITA
Laugarfellsveita er samheiti yfir þrjár veitur, Grjótárveitu, Hölknárveitu og Laugarárveitu.
SKILYRÐI: Framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Laugarfellsveitu.

HRAUNVEITA
Í ... verkhluta fyrirhugaðrar framkvæmdar verður rennsli 6 vatnsfalla á austasta hluta framkvæmdasvæðisins virkjað; um er að ræða Sultarranaá, Fellsá, Grjótá, Innri- og Ytri-Sauðá og Kelduá.
SKILYRÐI: Framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Sultarrana- og Fellsárveitu. Jafnframt endurskoði hann fyrirkomulag á yfirfalli stíflu við Kelduá í þeim tilgangi að draga eins og kostur er úr þeim umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

BESSASTAÐAÁRVEITA
SKILYRÐI: Framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Bessastaðaárveitu og Gilsárvötn.

DÝRALÍF

HREINDÝR
Íslenski hreindýrastofninn hefur frá fyrri hluta síðustu aldar haldið sig á Austurlandi...

Um helmingur stofnsins hefur gengið á Vesturöræfum ... og um 86% þeirra hafa gengið á Vesturöræfum og í Kringilsárrana og Sauðafelli. Að jafnaði hefur því um þriðjungur stofnsins gengið vestan Snæfells. Hreindýrin hafa verulegt verndargildi í íslenskri náttúru þrátt fyrir að þau hafi verið flutt til landsins fyrir rúmum 200 árum.

Framkvæmdir við fyrirhugað Hálslón og aðrir verkþættir ... munu hafa áhrif á búsvæði hreindýra á Vesturöræfum og ... á svæði hreindýra & undir Fellum og í Múla. Varnagarðar við Hálslón, allt að 3,5 m háir lónmegin, og girðingar meðfram lónstæðinu ásamt setgildrum kunna að hindra enn frekar ferðir hreindýra yfir lónið.

Mikilvæg burðarsvæði hreindýra munu fara undir Hálslón og einnig mikilvæg vor- og sumarbeitilönd á Hálsinum.

Þá munu lón, stíflur, vegir og önnur mannvirki framkvæmdarinnar hafa áhrif á beitilönd og farleiðir hreindýra á vorin og haustin og m.a. torvelda ferðir dýranna yfir Jöklu milli Vesturöræfa og svæða við Sauðafell og Kringilsárrana ...

Röskun á vorfari gæti haft áhrif á burð og þannig dregið úr nýliðun stofnsins en truflun á haustfari gæti aftur á móti seinkað fengitíma og þar með burði. Röskun á farleiðum getur leitt til þess að dýrin breyti farleiðum sínum og ágangur þeirra því aukist á öðrum svæðum.

[mótmælaspjald: GRIÐLAND HREINDÝRA Í RYKBINDINGU?]

SELIR
Ætla má að heildarfjöldi sela í Héraðsflóa sé á bilinu 600-1000 ef miðað við að í dag séu um 400 urtur. Landselur var mikið nýttur við Héraðsflóa á árum áður en dregið hefur úr selveiðum...

Stærstu selalátur á svæðinu frá Skaftafellssýslu til Húnaflóa eru við Héraðsflóa. Breyting á rennsli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts og minni framburðar ánna mun leiða til þess að breytingar verða á bökkum og eyrum árna vegna minni framburðar er talið að ströndin færist inn um 100-200 m á næstu 100 árum vegna framkvæmdarinnar.

...er stofnstærð landsels við landið nú áætluð um 15.000 skv. nýjustu talningum og stofnstærðarmati.

Að mati ráðuneytisins er ljóst að framkvæmdin mun hafa í för með sér breytingar á aurasvæðum við Héraðsflóa en þar eru helstu selalátur landsels á Austurlandi. Talið er líklegt að við það muni selum fækka við Héraðsflóa.

[mótmælaspjald: 10% AF LANDSEL Í HÆTTU (STOFNINN 15.000)]

VEGIR, NÁMUR, HAUGSVÆÐI OG GANGAGERÐ
Í tengslum við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun verður nauðsynlegt að opna námur, leggja vegi og vinnuslóða, gera jarðgöng og haugsetja efni sem ekki nýtist til mannvirkjagerðar.

NÁMUR
Vegna stíflugerðar við Hálslón er ráðgert að opna 13 námur, þ.e. eftir að hætt var við áform um námu & í Sauðarárdal& 8 námur eru í lónstæði, 3 eru bæði í og utan lóns, þ.e. útlínur þeirra ná út fyrir efstu vatnsstöðu í lóni. 2 grjótnámur eru alfarið utan lónstæðis &

Gert er ráð fyrir að taka þar 2,6 milljónir rúmm og 0,1 milljónir rúmm.
Vegna gerðar Kárahnjúkavegar er gert ráð fyrir að taka 0,34 milljónir rúmm úr allt að 11 námum í og við fyrirhugað vegstæði.

Við efnistöku og frágang efnistökusvæða verða breytingar á landslagi, lífríki og vatnafari og varanlegt rask vegna vega- og slóðagerðar í tengslum við það.

HAUGSVÆÐI
Efni sem ekki nýtist til mannvirkjagerðar verður að haugsetja. Um er að ræða efni úr jarðgöngum, stíflustæðum, skurðum og undan vegum.

VEGIR
Framkvæmdaraðili gerir ráð fyrir að leggja allt að 100 km af vegum og vegslóðum í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd. Stærsta einstaka framkvæmdin er svonefndur Kárahnjúkavegur, uppbyggður vegur sem fyrirhugaður er frá núverandi vegi á Fljótsdalsheiði við Laugarfell til vesturs að Sauðárdalsstíflu við Hálslón. Heildarlengd vegarins er um 28 km [lagður sl. haust]. Auk þess er fyrirhugað að endurgera veg úr Hrafnkelsdal að Kárahnjúkavegi, lagfæra veg frá Brú í Jökuldal að vesturenda stíflustæðis við Hálslón&

Landslag, vatnafar og lífríki breytist vegna efnistöku og vegalagningar og lagfæring á röskuðum svæðum verður sjaldan í fullu samræmi við aðstæður eins og þær voru fyrir framkvæmdina. Áhrif vega- og slóðagerðar á náttúrufar er umtalsvert og líklegt að umferð geti haft áhrif á far hreindýra, sérstaklega á framkvæmdatíma.
SKILYRÐI: Ekki er fallist á fyrirhugað efnisnám í Hvannstóðsfjöllum&

HAGRÆNIR ÞÆTTIR

ALMENNT
Í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdar á umhverfið er markmið laganna ennfremur að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar svo að almenningur geti komið að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.

[mótmælaspjald: UPPLÝSING RÍKISINS FALIN Á WWW.LAGABIRTING.IS]

Hugtakið umhverfi er & : Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.

& þarf þannig leyfi Alþingis til að reisa raforkuver &

Þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar taka slíka ákvörðun sem þessa hljóta þeir að vega og meta kosti framkvæmdarinnar, þ.á m. áhrif hennar á efnahag þjóðarinnar og þjóðlíf almennt.

[Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal (503) samþykkt á Alþingi, 8. apríl 2002: já 44, nei 9, 2 greiddu ekki atkv., 8 fjarverandi (þar af einn í leyfi)]

Þáttur í atvinnufrelsinu er að mönnum sé frjálst að stunda þann atvinnurekstur sem þeir kjósa. Það samrýmist þar af leiðandi ekki fyrirmælum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi að stjórnvöld leggi mat á arðsemi fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi, án skýrrar lagaheimildar, heldur er það hlutverk eigenda og stjórnenda atvinnufyrirtækja. Skv. lögum & um Landsvirkjun er það stjórn fyrirtækisins, í umboði eigenda þess, þ.e. íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, sem tekur ákvörðun um byggingu nýrra raforkuvera&

[mótmælaspjald: ER LANDSVIRKJUN ALLT LEYFILEGT?]

[mótmælaspjald: LANDSVIRKJUN RÍKI Í RÍKINU]

&taldi framkvæmdaraðili að heimila ætti hina fyrirhuguðu framkvæmd vegna þess þjóðhagslega ávinnings sem af henni hlýst og vegna ávinnings fyrir atvinnu á Austurlandi. Undir þessa aðferðarfræði er síðan tekið í úrskurði Skipulagsstofnunar þar sem neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið eru lögð á vogarskál andspænis efnahagslegum ávinningi af henni.

SAMFÉLAGSLEG ÁHRIF Á AUSTURLANDI
Af matsgögnum má ráða að ekki verði ráðist í fyrirhugaða virkjunarframkvæmd nema að sala þeirrar orku sem virkjunin mun framleiða sé tryggð og að bygging fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði sé háð því að leyfi til virkjunarinnar fáist.

[Álverksmiðja í Reyðarfirði (509) samþykkt á Alþingi 5. mars 2003: já 41, nei 9, 1 greiddi ekki atkv., 12 fjarverandi (þar af 3 í leyfi)]

VERÐMÆTAMAT NÁTTÚRU
Því hefur verið haldið fram að meta eigi sérstaklega til fjár við mat á umhverfisáhrifum þau náttúrugæði sem verða fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd. Framkvæmdaraðili telur að ekki beri að gera slíkt verðmætamat.

FORNMINJAR
Framkvæmdir vegna Kárahnjúkavirkjunar munu hafa áhrif á þekktar fornminjar á framkvæmdasvæði virkjunarinnar frá Hálslóni til strandar. 6 fornminjar munu lenda undir Hálslóni og Hraunaveitu og alls 18 minjastaðir geta verið í hættu vegna vatnsaga, rofs eða annarra áhrifa. Auk þess eru um 50 staðir með menningarminjum án mannvistarleifa, s.s. vöð og ferjustaðir, sem kunna að verða fyrir áhrifum en njóta ekki sömu verndar og aðrar menningarminjar.

VALÞJÓFSSTAÐARFJALL Í FLJÓTSDAL
Í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal er eitt af kunnustu þversniðum í blágrýtishraunlög á landinu. Þar veldur mestu mikill og óvenjulegur berggangur, Tröllkonustígur, sem sker basalthraunlögin í fjallinu.
SKILYRÐI: Framkvæmdaraðili skal sjá til þess að bergganginum, Tröllkonustíg, í Valþjófsstaðarfjalli verði hlíft við raski þannig að ásýnd hans verði ekki breytt.

NIÐURSTAÐA
Dæmi um umtalsverð umhverfisáhrif er staðsetning framkvæmdar á viðkvæmu svæði&

&ber ekki skilyrðislaust að leggjast gegn framkvæmd, þótt hún hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér&

&telur ráðuneytið að ekki sé heimilt að leggjast gegn framkvæmd & nema ljóst sé eða að minnsta kosti að verulegar líkur séu á því að hún muni hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu &

Þegar umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar eru virt í heild, að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem að framan greinir, er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri hinn kærða úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og fallast á framkvæmdina með & skilyrðum&

Með vísun til alls þess sem að framan greinir lítur ráðuneytið svo á að sú niðurstaða sé í fullu samræmi við íslensk lög og skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðasamningum.

Þegar um er að ræða jafn umfangsmikla framkvæmd og þá, sem fjallað er um í úrskurði þessu, kunna áform framkvæmdaraðila um einstaka verkþætti að taka breytingum á framkvæmdatíma. Þær mega þó ekki verða til þess að umfang og eðli framkvædarinnar breytist í ljósi þess mats á umhverisáhrifum sem fram hefur farið og úrskurður þessi tekur til.

[mótmælaspjald: SIVJARSPJÖLL]

[mótmælaspjald: JÖRÐIN GRÆTUR OG VALGERÐUR HLÆR]

VIÐLAGIÐ Í ÚRSKURÐI UMHVERFISRÁÐUNEYTISINS
Hér er síðan í lokin viðlagið í úrskurði umhverfisráðuneytisins sem endurtekur sig aftur og aftur (hér dregið saman í eitt).

Aðaláhyggjuefni umhverfisráðuneytisins virðist ekki vera veruleg og óafturkræf spjöll á náttúru og dýralífi norðan Vatnajökuls heldur:

VIÐ UMFJÖLLUN RÁÐUNEYTISINS UM ÁHRIF FRAMKVÆMDARINNAR á gróðurlendi sem fer undir Hálslón og áhrif þess á gróður og dýralíf - á farveg Jökulsár á Dal og Hafrahvammagljúfur - á breytingar á grunnvatnsstöðu við veitingu Jökulsár á Dal til Jökulsár í Fljótsdal - á gróður og fugla með Lagarfljóti og Héraðssandi - á gróður og fugla með Jökulsá á Dal og á Úthéraði - á landbúnað - á lífsskilyrði í Lagarfljóti - á breytingar á ferskvatnsrennsli og aurframburð í Héraðsflóa - á náttúruverndarsvæði - á víðerni norðan Vatnajökuls og landslagsheildir - á ferðamál - á útivist og hugmyndir um stofnun þjóðgarða - á fossa - á hreindýr - á landseli - á fornminjar HEFUR EKKERT KOMIÐ FRAM SEM BENDIR TIL ÞESS AÐ FYRIRHUGUÐ FRAMKVÆMD FARI Í BÁGA VIÐ LÖG, REGLUR EÐA ALÞJÓÐASAMNINGA OG ÞVÍ SÉ EKKI TILEFNI TIL VEGNA ÞEIRRA ÁHRIFA AÐ LEGGJAST GEGN FRAMKVÆMDINNI.

Sannfærandi, ekki satt?

[mótmælaspjald: LÖGBANN Á FRAMKVÆMDIR VIÐ KÁRAHNJÚKA]

Úrskurður umhverfisráðherra var kærður og flakkaði kæran lengi vel á milli héraðsdóms og Hæstaréttar áður en varakrafan um að úrskurður umhverfisráðherra verði felldur úr gildi var loks send í hérað til efnisumfjöllunar. 21. maí 2003 voru ríkið og Landsvirkjun síðan sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur og segir í dómnum að þótt annmarkar hafi verið á málsmeðferð og úrskurðinum væru þeir ekki svo alvarlegir að ómerkja bæri úrskurðinn... og enn, er málið kom í þriðja sinn fyrir Hæstarétt, var felldur dómur í byrjun árs 2004: "Talið var að markmið laga um mat á umhverfisáhrifum væri meðal annars að stuðla að því að áður en ráðist væri í framkvæmdir SEM KUNNI AÐ HAFA Í FÖR MEÐ SÉR UMTALSVERÐ ÁHRIF Á UMHVERFIÐ lægju fyrir upplýsingar og könnun á þeim áhrifum og að almenningi væru kynntar þær upplýsingar og gefinn kostur á að tjá sig um þær. YFIRLÝST MARKMIÐ LAGANNA VÆRI HINS VEGAR EKKI AÐ BANNA ALMENNT SLÍKAR FRAMKVÆMDIR".

Fleiri kærur eru enn í dómkerfinu hér en í öllu ferlinu virðist aldrei hafa verið gert ráð fyrir því að þær falli ríkinu eða Landsvirkjun í óhag...

Stjórnvöld virðast ekki gera ráð fyrir sjálfstæði íslenskra dómstóla& því ekki?

[mótmælaspjald: ÍSLAND EKKI RÉTTARRÍKI?]

Einnig hafa íslensk umhverfissamtök, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og aðrir íslenskir ríkisborgarar sent kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Brussel vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda á löggjöf EES-svæðisins við umhverfismat á Kárahnjúkavirkjun. Jafnframt er þess krafist að ESA sendi málið áfram til EFTA dómstólsins.

Vonin lifir enn um að ekki verði af ófyrirgefanlegum náttúruspjöllum norðan Vatnajökuls við Kárahnjúka vegna stórfelldra virkjunarframkvæmda&

Og að stærsti þjóðgarður Evrópu verði þar til öllum til ómældrar ánægju.

N á t t ú r u h a m f a r i r í væntum eða k r a f t a v e r k?

ATKVÆÐAGREIÐSLURNAR Á ALÞINGI UM KÁRAHNJÚKAVIRKJUN OG ÁLVER

VIRKJUN JÖKULSÁR Á BRÚ OG JÖKULSÁR Í FLJÓTSDAL (503)
- S A M Þ Y K K T - 8. apríl 2002 kl. 15.39 -
JÁ 44, NEI 9, 2 greiddu ekki atkv., 8 fjarverandi (þar af 1 í leyfi)

ÁLVERKSMIÐJA Í REYÐARFIRÐI (509)
- S A M Þ Y K K T - 5. mars 2003 kl. 13.52 -
JÁ 41, NEI 9, 1 greiddi ekki atkv., 12 fjarverandi (þar af 3 í leyfi)
[mótmælaspjald: eru þingmenn náttúrulausir?]


NÁNAR UM ATKVÆÐAGREIÐSLURNAR Á ALÞINGI

8 SÖGÐU NEI Í BÆÐI SKIPTIN

Árni Steinar Jóhannsson Vinstri grænum, Jón Bjarnason Vinstri grænum, Kolbrún Halldórsdóttir Vinstri grænum, Rannveig Guðmundsdóttir Samf., Steingrímur J. Sigfússon Vinstri grænum, Þórunn Sveinbjarnardóttir Samf., Þuríður Backman Vinstri grænum og Ögmundur Jónasson Vinstri grænum


2 SÖGÐU NEI Í ANNAÐ SKIPTIÐ AF TVEIMUR
Sverrir Hermannsson Frjálslyndum sagði NEI í fyrra skiptið en var fjarv. í það síðara
Katrín Fjeldsted Sjálfst., sem sat hjá í fyrra, steig skrefið til fulls nú og sagði NEI


1 SAT HJÁ Í FYRRA SKIPTIÐ OG VARAÞINGMAÐUR HANS SÖMULEIÐIS Í ÞAÐ SEINNA
Guðjón A. Kristjánsson Frjálslyndum sat ekki hjá í fyrra skiptið af umhverfisástæðum heldur af því að virkjunin var ekki lengur skilyrt atvinnuuppbyggingu á Austurlandi... en PBj (varaþ.) sat þó einnig hjá í seinna skiptið


8 VORU FJARVERANDI Í FYRRA SKIPTIÐ (VIRKJUNIN)
Ásta R. Jóhannesdóttir Samf., Björn Bjarnason Sjálfst., Davíð Oddsson Sjálfst., Gunnar Birgisson Sjálfst., Guðmundur Árni Stefánsson Samf., Lára Margrét Ragnarsdóttir Sjálfst., Ólafur Örn Haraldsson Framsókn (í leyfi) og Sigríður Jóhannesdóttir Samf.


12 VORU FJARVERNADI Í SEINNA SKIPTIÐ (ÁLVERIÐ)
Ásta R. Jóhannesdóttir Samf., Einar K. Guðfinnsson Sjálfst., Gísli S. Einarsson Samf., Guðmundur Árni Stefánsson Samf. (í leyfi), Guðrún Ögmundsdóttir Samf., Halldór Ásgrímsson Framsókn, Ísólfur Gylfi Pálmason Framsókn (í leyfi), Jóhann Ársælsson Samf., Kristján L. Möller Samf., Lára Margrét Ragnarsdóttir Sjálfst. (í leyfi), Sverrir Hermannsson Frjálslyndum og Össur Skarphéðinsson Samf.
[mótmælaspjald: álbullur við völd]
---------------------------------------
KÁRAHNJÚKAVIRKJUN OG ÁLVER Á ALÞINGI - SAMANTEKT
ALLIR SJÁLFSTÆÐISMENN SÖGÐU JÁ NEMA Katrín Fjeldsted
(fjarv. í bæði skiptin: Lára Margrét Ragnarsdóttir en tók ekki þátt í umræðum)
ALLIR FRAMSÓKNARMENN SÖGÐU JÁ
ALLIR SAMFYLKINGARMENN SÖGÐU JÁ NEMA Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir
(fjarv. í bæði skiptin: Ásta R. Jóhannesdóttir, sem tók ekki þátt í umræðum, og Guðmundur Árni Stefánsson sem þrasaði feitt)
ENGINN FRJÁLSLYNDUM SAGÐI JÁ
ÖLL VINSTRI GRÆNUM SÖGÐU NEI
----------------------------------------------
Örlagatímabilið 20. desember 2001 til 5. mars 2003

[mótmælaspjald Hálendisgöngunnar 27. febrúar 2003: HJÁLP! ÞAU HLUSTA EKKI!]

Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar var ekki á dagskrá fyrir kosningar 1999, allir samningar þrælundirritaðir fyrir kosningarnar 2003 enda tíðkast upplýsing almennings, heilbrigð umræða og þjóðaratkvæðagreiðsla aðeins í þróuðum lýðræðisríkjum&

Hvað hefur þjóðin fengið að segja um málið?

Koma virkjunarframkvæmdir á Íslandi engum við nema Landsvirkjun?

ps
[mótmælaspjald: ég elska Ísland - Ísland elskar mig]