Athugasemdir við pistil Viðars Hreinssonar "Bókstafstrú tæknihyggjunnar"
eftir Jakob Björnsson, fyrrv. orkumálastjóra


Að brjóta undir sig náttúruna

Viðar segir um undirritaðan: "Þar að auki byggjast rök hans á því úrelta viðhorfi að vilja brjóta undir sig náttúruna til hagnaðar með svipuðum hætti og ein þjóð vill brjóta undir sig aðra".

Þessi samanburður er óviðeigandi. Að líkja nýtingu mannsins á náttúrunni við kúgun og undirokun eins hóps manna á öðrum hópi manna er ekki sæmandi málflutningur.

Samskipti mannsins við náttúruna sem hann nýtir eru með allt öðrum hætti en samskipti drottnara við undirokaða. Drottnari getur brotið niður vilja hins kúgaða og sett sinn eigin vilja í hans stað. En "til þess að öðlast vald yfir náttúrunni verða menn að hlýða lögum hennar" skrifaði enski heimspekingurinn Francis Bacon árið 1420, löngu fyrir daga iðnbyltingarinnar og tækniþróunar nútímans. Vegurinn til valds yfir náttúrunni liggur sem sé gegnum hlýðni við lög hennar. Maðurinn á þess engan kost að brjóta náttúrulögmálin eins og drottnari brýtur vilja hin undirokaða. Hversu feginn sem ég vildi get ég ekki brotið lögmálið um viðhald orkunnar og framleitt orku úr engu.

Vísindaleg þekking og tæknikunnátta komin fram úr getunni til að beita henni skynsamlega

Viðar segir: "Það hefur lengi verið áhyggjuefni að vísindaleg þekking og tæknikunnátta sé komin langt fram úr getu manna til að beita henni skynsamlega....".

Þetta er ekki rétt. Áhyggjuefnið er fólgið í öðru. Það sem Viðari yfirsést er að allt er bæði hægt að nota (til góðs) og misnota, þ.e. nota til ills. Venjulegan búrhníf má bæði nota til að skera brauð handa hungruðu barni og misnota til að reka það sama barn á hol. Nákvæmlega sömu þekkinguna má nota til að vinna bug á mannskæðum sjúkdómum og misnota til að búa til sýklavopn þar sem sömu sjúkdómum er beitt til að drepa fólk. Kjarnorku má nota til að framleiða rafmagn fyrir almenning og misnota til að kasta kjarnorkusprengju á almenning. Eftir því sem vísindaleg þekking og tæknikunnátta verður háþróaðri aukast möguleikarnir á að nota hana manninum til góðs. En samtímis aukast líka möguleikarnir til misnotkunar. Áhyggjuefnið liggur í vanþróuðum siðferðisþroska mannsins en ekki í háþróaðri vísindaþekkingu og tæknikunnáttu hans. Skilin milli notkunar og misnotkunar eru siðferðislegs eðlis en ekki vísindalegs eða tæknilegs.

"Tilfinningarök"

Viðar segir: "Á bak við orð Jakobs um að tilfinningarök séu "endaleysa" er sú ranghugmynd að svökölluð rökhugsun sé æðri hinu huglæga".

Hér kýs Viðar að brengla orð mín og leggja síðan út af brengluninni. Ég sagði: "Viðar talar um "tilfinningarök". Þetta orð er endaleysa. Tilfinningar eru eitt og rökhugsun annað. Tilfinningaástæður er gott og gilt orð en ekki tilfinningarök. Stærðfræði er fullkomnasta form mannlegrar rökhugsunar. Þar gætir tilfinninga ekki. En hvorttveggja er manninum jafnmikilvægt og hann getur án hvorugs verið".

Eins og sjá má eiga ummæli Viðars um að ég telji að "rökhugsun sé æðri hinu huglæga" enga stoð í orðum mínum. Það sem ég var að segja var einfaldlega að tilfinningar eru eitt og rökhugsun annað. Dæmið sem ég tók af stærðfræðinni, þar sem tilfinningar koma ekkert við sögu, var einmitt til að undirstrika það. Margir hafa kynnst stærðfræði meira eða minna í sínu skólanámi og vita að þar koma engar tilfinningar við sögu heldur aðeins rök. En ég tók fram að hvorttveggja, rökhugsun og tilfinningar, væri manninum jafnmikilvægt.Að hnýta saman í eitt orð tvennt sem ekkert hefur með hvort annað að gera er að sjálfsögðu endaleysa.

Að nota náttúruna og að njóta hennar

Viðar segir: "Hugsandi menn eru hættir að skoða náttúruna einvörðungu út frá notagildi. Því fellur sú bábilja um sjálfa sig að öll náttúruverndarumræða snúist í raun um "fagurfræðileg" not sem séu einungis uppbót stórborgarbúa fyrir "náttúrusvelti"". Skömmu áður hafði hann sagt: Úrelt hugmynd um drottnun mannsins yfir náttúrunni liggur að baki einfeldnislegri þrískiptingu Jakobs á notum manna af henni".

Af þessari umsögn má ráða að Viðar hefur ekki skilið hvað ég var að fara. Ég greindi not mannsins af náttúrunni í þrjá meginflokka: (1) Efnahagsleg not, (2) þekkingarnot og (3) fagurfræðileg not. Þetta er gróf skipting en hún er ekki einfeldnisleg. Hverjum þessara meginflokka má síðan skipta í undirflokka. Orðið not (þ.e. náttúrunot í því samhengi sem hér er um að ræða) er hér með vilja haft í nokkru víðtækari merkingu en gert er í daglegu tali þar sem það er oft einskorðað við efnahagsleg not. Þekkingarnot fela í sér að svala eðlislægri þörf mannsins til að skilja náttúruna og rannsaka hana. Fagurfræðileg not fela í sér "að fullnægja eðlislægri þörf manna til að umgangast náttúru sem er ósnortin af athöfnum hans til að skoða hana sakir fegurðar, mikilfengleika eða sérkenna, í því skyni að lyfta sér yfir hið hversdagslega".

Not af náttúrunni fela í sinni víðtækustu mekingu í sér fullnægingu hverskonar mannlegra þarfa með aðstoð hennar. Þessar þarfir má greina sundur í efnhagslegar þarfir, þekkingarþarfir og fagufræðilegar þarfir. Fagurfræðileg náttúrnot, þ.e. uppfyllingu þessara síðastnefndu þarfa, er algengara að kalla að njóta náttúrunnar en að nota hana. En í eðli sínu eru það samt not, þ.e. uppfylling mannlegra þarfa.

Miklar efnahagslegar framfarir í heiminum og stöðugt fullkomnari tækni til að nýta náttúruna efnahagslega hafa í sameiningu leitt af sér stórlega aukin inngrip mannsins í áður ósnerta náttúru. Þessi vaxandi inngrip hafa þrengt að möguleikum manna til að njóta ósnortinnar náttúru, svo notað sé hefðbundið orðalag, þ.e. þrengt að fagurfræðilegum náttúrunotum. Samtímis hefur gífurleg fólksfjölgun í heiminum og samþjöppun fólks í risaborgir, þar sem það hefur ekki lengur ósnortna náttúru fyrir augum í sínu daglega lífi eins og var meðan flestir bjuggu í strjálbýli, stóraukið "eftirspurn" eftir "fagurfræðilegum náttúrunotum". Minnkandi "framboð" á ósnortinni náttúru samfara vaxandi "eftirspurn" skapar eðlileg spennu, óróa og kvíða um möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum fyrir fagurfræðileg náttúrunot. Það er þetta sem hefur skapað umræðu nútímans un nauðsyn náttúruverndar ásamt ótta um að komandi kynslóðir muni heldur ekki geta fullnægt þörfum sínum fyrir efnahagsleg náttúrunot vegna þess að auðlindir jarðar gangi til þurrðar.

Það er þessi vanmáttur fólks til að geta notið ósnortinnar náttúru, til að geta fullnægt þörfum sínum fyrir fagurfræðileg náttúrunot, sem ég nefndi fagurfræðilegt náttúrusvelti í innleggi mínu.

Dreifðar byggðir með fjölbreytni í atvinnuháttum og mannlífi

Viðar talar um þetta sem "menningarlega auðlegð". Sannleikurinn er sá að á tímum hinna dreifðu byggða á Íslandi, þegar þéttbýlisstaðir voru naumast til að heitið gæti, var atvinnulífið með eindæmum einhæft um allt land. Það var takmarkað við landbúnað með orfi og ljá og útibeit og sjósókn á grunnslóð á árabátum á svæðum næst sjónum. Fjölbreytni sú sem Viðar talar um í atvinnuháttum var einfaldlega ekki til staðar.

"Útnárinn" Austfirðir

Viðar segir: "Annars væri það rökrétt afleiðing af viðhorfum Jakobs að Austfirðir og aðrir útnárar legðust í eyði".

Við þetta er það að athuga að ég hef aldrei litið á Austfirði sem "útnára". Austfirðir búa yfir verðmætum náttúruauðlindum í formi fiskimiða, góðra landkosta til búskapar og skógræktar á Fljótsdalshéraði og síðast en ekki síst sumra hagstæðustu virkjunarkosta landsins sem byggjast einkum á hinni einstæðu fallhæð sem þar er fáanleg, meiri en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Fallhæð Kárahnjúkavirkjunar einnar er meiri en samanlögð fallhæð átta virkjana á Þjórsársvæðinu sem sumar hafa verið reistar en aðrar eru í undirbúningi. Tiltæk fallhæð hefur sem kunnugt er mikil áhrif á hagkvæmni vatnsaflsvirkjana.

Röskun á jafnvægi?

Viðar segir: "Hættan sem stafar af stóriðju á Austurlandi er einfaldlega sú að svo risavaxið fyrirtæki raskar öllu jafnvægi sem fyrir var...".

Á Austurlandi hefur fólki fækkað stöðugt um langan aldur vegna brottflutnings. Ber það vott um að þar hafi ríkt "jafnvægi"? Ég held ekki. Góðar horfur virðast hinsvegar á því að sú bjartsýni sem stóriðjunni fylgir stöðvi fólksfækkunina.

"Alcoa mun loka verksmiðjunni sjái það sér hag í því"

Þetta staðhæfir Viðar. Hér er þess að gæta að Alcoa er skuldbundið af samningi til að kaupa meginhlutann, 85%, af umsaminni raforku í 40 ár. Á meðan verður að telja það afar ólíklegt að það sjái sér hag í að loka álverinu. Ef Alcoa kærir sig ekki lengur um að eiga það er líklegra að fyrirtækið reyni að selja það öðrum fremur en að loka því og láta það sem eftir er af fjárfestingu sinni standa arðlaust en verða áfram að borga fyrir rafmagnið. Ólílegt verður að telja að ekki fyndist kaupandi sem þá ræki álverið áfram og yfirtæki raforkusölusamninginn. Hættan á að álverinu verði lokað verður því að teljast langsótt ímyndun hjá Viðari.

Náttúruspjöll

Viðar segir: "Vitaskuld verða óhjákvæmilega spjöll en það er skylda okkar að halda þeim í lágmarki. Það kemur "fagurfræðilegu náttúrusvelti" ekkert við; náttúran hefur miklu víðtækara gildi en einungis að uppfylla þá þörf".

Mikið er rætt um náttúruspjöll nú á tímum. En hvað eru náttúruspjöll? Voru það náttúruspjöll að steinboginn í Eldgjá hrundi án þess að maðurinn kæmi þar nærri? Var gosið í Heimaey náttúruspjöll? Eða Surtseyjargosið? Öskjugosin 1875 og 1961?

Orðið spjöll er gildishlaðið. Hlaðið neikvæðu gildi. Menn, einir allra lífvera, hafa forsendur til að meta gildi. Náttúruspjöll eru því breytingar á náttúrunni sem menn telja óæskilegar, neikvæðar. Þau geta orðið hvort heldur sem er af völdum náttúrunnar sjálfrar eða af mannavöldum. Muna verður að náttúran sjálf er sífellt að breyta sér án tillits til mannsins. Henni láðist alveg að setja brot steinbogans og Heimaeyjargosið í umhverfismat áður en breytingarnar urðu. Raunar hafa sumar breytingar náttúrunnar sjálfrar verið stórfelldari og afdrifaríkari en nokkrar breytingar af mannavöldum.

Maðurinn reynir eftir getu að sporna við "náttúrulegum náttúruspjöllum", þ.e. neikvæðum breytingum, að hans mati, á náttúrunni af völdum hennar sjálfrar. En geta hans í því efni er oft lítil borið saman við náttúruöflin.

Maðurinn veldur líka sjálfur náttúruspjöllum. Stundum af gáleysi eða kæruleysi, en þó oftar af því að slík spjöll fylgja sumum breytingum á náttúrunni sem hann telur æskilegar. Náttúruspjöllin eru þá fórn sem maðurinn færir til að ná því sem hann er að sækjast eftir með breytingunum. Það er þetta sem Viðar á við þegar hann talar um "óhjákvæmileg spjöll". Hann telur að slíkum óhjákvæmilegum spjöllum beri að halda "í lágmarki". En hvað er átt við með því? Oftast er það svo að meiri ávinningi fylgja meiri spjöll? Á þá að lágmarka ávinninginn til að lágmarka spjöllin? Eða á að lágmarka spjöllin sem hver eining ávinnings hefur í för með sér? Ég tel að hið síðarnefnda sé rétta svarið. Maðurinn hefur frá alda öðli þurft að bera saman ávinning og fórn. Hann hefur vanist því að meiri ávinningur kosti að öðru jöfnu stærri fórn. Það hefur kennt honum að leita ávallt leiða til að fá hverja einingu ávinnings með sem minnstri fórn.

Þetta á við hvort heldur að ávinningurinn er efnahagslegs eða fagurfræðilegs eðlis, uppfylling á þörf mannsins til að "njóta náttúrunnar". Raunar er ekki alltaf auðvelt að skilja þarna á milli. Íslensk ferðaþjónusta lifir að verulegu leyti af efnahagslegum ávinningi þess að gera ferðamönnum kleyft að njóta íslenskrar náttúru, þ.e. af "fagurfræðilegum náttúrunotum" ferðamanna.

Skipulagning hálendisins

Viðar telur mig vilja "skipuleggja allt hálendið sem allra fyrst" sem er nokkuð rétt hjá honum, en það er hinsvegar misskilningur hans að það stafi af "tilfinningalegu uppnámi" vegna þess að "náttúruvernd sé framtíðin". Vissulega mun náttúruvernd gegna mikilvægu hlutverki í framtíðinni. Hún er nauðsynleg til að við getum haft þau not af náttúrunni sem efni standa til, efnahagsleg, þekkingarleg og fagurfræðileg.

Allt fram undir þetta hafa menn lagt bílaslóðir um hálendið þvers og kruss skipulagslaust að geðþótta hvers og eins. Umferð um hálendið hefur vaxið gífurlega umfram það sem þessar ófullkomnu bílaslóðir geta með góðu móti borið. Þegar þvottabretti eða drullusvöð hafa myndast á slíkum slóðum færa menn sig einfaldlega til hliðar og mynda áður en varir ný þvottabretti og svöð. Við þurfum að leggja alvöruvegi um hálendið. Ekki skipulagslaust eins og slóðirnar hingað til heldur eftir samræmdu skipulagi og með hliðsjón af því hvernig við viljum nýta hálendið. Með alvöruvegum á ég við uppbyggða malbikaða vegi. Innan skamms mun annað ekki vera talið til vega.

Við munum nýta hálendið með margvíslegum hætti í framtíðinni. Við munum hafa þar vatnsaflsvirkjanir með miðlunarlónum, jarðgufuvirkjanir, "ósnertur" (wildernesses) þar sem eingöngu eru gönguleiðir með frumstæðum fjallaskálum, áhugaverð útivistarsvæði með greiðum aðgangi á bílum, fjallahótel af margvíslegu tagi eins og í öðrum ferðamannalöndum og svo framvegis. Menn ferðast með mismunandi hætti og ekki hentar öllum sami ferðamáti. Göngugarpar og bakpokafólk mun ferðast fótgangandi um ósnerturnar, en fólk sem ekki á eins létt með gang ferðast á bílum á önnur skoðunarverð svæði. Við verðum að muna að hálendið er sameign þjóðarinnar og allir, ekki bara fáir útvaldir, heilsuhraustir og á besta aldri, þurfa að eiga þess kost að ferðast um það.

Það er ekki vandalaust verk að samhæfa þessi mismunandi not og mismunandi þarfir mismunandi hópa með þeim hætti að ekki verði árekstrar, og samhæfa mismunandi ferðanot annarri nýtingu, svo sem til orkuvinnslu. Það verkefni er leysanlegt, en útheimtir gott skipulag. Þessvegna þurfum við að skipuleggja hálendið.

Slíkt skipulag er einnig nauðsynlegt til að koma í veg fyrir landsskemmdir af of miklum átroðningi á vissa staði eins og þegar er farið að bera á. Ísland er mjög fjölbreytilegt land og þar eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ekki er nauðsynlegt að allir fari á sömu staði. En til þess er nauðsynlegt að greiður aðgangur sé að fjölbreytilegum stöðum. Það úthemimtir greiðar, en vel skipulagðar, samgönguleiðir um hálendið.

Djúpboranir

Viðar víkur að borunum eftir jarðhita niður á mikið dýpi, 5 km eða svo, þar sem mun hærra hitastig er að finna en í hefðbundnum jarðhitavirkjunum. Það er rétt hjá honum að hugmyndir um slíkar jarðhitavirkjanir eru til skoðunar hér á landi. Ísland hefur á margan hátt góðar forsendur fyrir þær. Verði þær að veruleika hér yrðu þær hinar fyrstu sinnar tegundar í heiminum.

Enn sem komið er eru slíkar virkjanir jarðhita á algeru frumstigi og mikil óvissa ríkir enn um þá tækni sem til þarf og enn meiri óvissa um efnahagslega möguleika þeirra. Þær boranir hér á landi sem talað er um í þessu samhengi miða einmitt að því að eyða a.m.k. hluta af þeirri óvissu. En það er rétt að gera sér strax grein fyrir því að lítil von er til að virkjanir af því tagi verði lausar við umhverfisáhrif, eða því sem næst. Vatn á svona miklu dýpi hefur aðra efnasamsetningu en á yfirborði sem skapar vanda við að farga því. Mörg stærstu háhitasvæði landsins, þar sem hentugt gæti verið að reisa slíkar virkjanir, svo sem Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Askja og Kverkfjöll, eru á umhverfislega viðkvæmum svæðum. Umhverfisáhrif slíkra virkjana eru annars eðlis en vatnsaflsvirkjana en ekki endilega auðveldari viðfangs.