16. september, 2004
Búseturök stóriðju
Gunnar Hersveinn

Virkjun og álver valda "byggðaröskun" á Austurlandi. Unga háskólakynslóðin er teppt fyrir sunnan því húsaleigan er of há og störf fást ekki við hæfi. Alþjóðaháskóli hefði verið betri hugmynd.

Meginrökin fyrir virkjun og álveri á Austurlandi snerust um að leysa byggðavandann með atvinnusköpun. Þann vanda hefði átt að leysa með allt öðru móti: Alþjóðaháskóli á Austurlandi hefði t.d. verið góð hugmynd, hann hefði lokkað brottflutta aftur heim og skapað ný og óvænt tækifæri fyrir Austfirðinga. Unga fólkið hefði þá streymt aftur á æskustöðvarnar og heimaslóðir og stofnað þekkingarfyrirtæki - í stað þess að verða teppt fyrir sunnan vegna framkvæmda við virkjun og álver. Hún á jafnvel aldrei afturkvæmt vegna einhæfra atvinnumöguleika. Þetta hefði verið góð hugmynd vegna þess að 70% ungu kynslóðarinnar á Íslandi (20-24 ára) er í háskólanámi og þar af 80% kvenna í hverjum árgangi (OECD, menntaskýrslan '03, '04). Menntun fólks og væntanleg störf verða að eiga samleið.
Búseturökin sem færð voru til stuðnings stóriðju voru gölluð. Kárahnjúkavirkjun norðan Vatnajökuls og álver í Reyðarfirði skapa í raun einskonar byggðaröskun. Búist er við að smíði álversins skapi 2.300 ársverk og 1.500 manns starfi þar þegar mest lætur á næsta ári. Þegar álverið verður svo komið í notkun er búist við að hjá Fjarðaáli starfi 400-450 manns.
Konur hafa sótt fram bæði hvað háskólamenntun varðar og einnig í því að stofna sprotafyrirtæki, en virkjun og álver styðja ekki þessa þætti. Fram hefur komið að verslunar- og þjónustufyrirtækjum kvenna fækkar vegna þenslu og óhagstæðs leiguverðs á atvinnuhúsnæði í kjölfar stóriðju- og virkjunarframkvæmda.
Lofsvert er að Fjarðaál-Alcoa vilji greiða konum og dætrum þeirra götu inn í álverið með sérstakri hönnun og vaktaskipulagi, en þær konur þurfa að vera með iðnmenntun; rafvirkjar eða vélstjórar. Flestar (80%) hafa þó þegar valið háskólanám og ætla sér sennilega ekki í álver.
Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði í ræðu þegar skóflustunga að álverinu á Reyðarfirði var tekin 8. júlí í sumar, að "Hefði ekki verið ráðist í þessar framkvæmdir hefði barátta Austfirðinga orðið erfið og við þurft að horfa á eftir ungu fólki héðan af svæðinu. Nú er þessu þveröfugt farið. Nú streymir unga fólkið á nýjan leik heim á æskustöðvarnar. Nú fær það tækifæri til að nýta menntun sína á heimaslóðum." (Morgunblaðið 09.07.04). Hverrar gerðar eru rök Guðmundar?
Tilfinningarök eru ein tegund raka sem hægt er að nota til að rannsaka verðmæti og verðmætamat. Önnur gerð raka eru t.d. hagræn rök, sem varða nytjagæði. Siðferðileg rök um siðgæði. Fegurðarök um fegurðargæði, og vísindarök um vísindagæði. Allar þessar tegundir raka hafa verið notaðar í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun, en aðalatriðið er að menn beri saman rök sömu gerðar en takist ekki á með rökum sitt af hvoru tagi.
Margt ber að varast í þessari umræðu, t.d. að setja fram rök á röngum forsendum. Rök um byggð og búsetu á Austurlandi eru oft sett fram eingöngu sem hagræn rök og þar með sem andstæða "tilfinningaseminnar" hjá náttúruverndarsinnum. Þegar nánar er spurt um ástæður þá eru þær einkum sagðar hvíla á gildi þess að viðhalda tengslum við átthaga, forfeður, fjölskyldur og vini. Búseturök eru þar með í raun skýrt dæmi um tilfinningarök.
Guðmundur bæjarstjóri beitir því búseturökum sem byggjast á tilfinningasambandi við æskustöðvar og heimaslóðir. Ég held því miður að fullyrðing hans um "strauminn"styðjist ekki við traustar upplýsingar.
Núna er Kárahnjúkavirkjun í smíðum og aðkomufólk leigir húsnæði, t.d. á Egilsstöðum. Unga fólkið á Héraði og niðri á Fjörðum, sem hefur sótt sér menntun suður, norður eða til útlanda, langar sennilega aftur heim en það er tvennt sem dregur úr líkunum: annars vegar að finna atvinnu við hæfi og hins vegar að fá húsnæði því leigan er jafnhá og fyrir sunnan. Allar líkur eru á því að kúfurinn í atvinnumálum á Austurlandi verði samansettur af aðkomu-karlmönnum með iðn- og tæknimenntun. Unga fólkið getur því ekki "streymt" heim. Alcoa nær þó sennilega að draga lítillega úr þessari fyrirsjáanlegu kynjaskekkju með því að gera álverið vænlegt fyrir konur.
Búseturökin fyrir virkjun og álveri á Austurlandi standast ekki að mínu mati. Álver var alls ekki heppileg eða varanleg lausn á byggðavandanum, en byggðavandinn var sagður "stærsti vandinn sem Íslendingar berðust við" (Hjálmar Árnason, '99).
Framkvæmdirnar eru slík byggðaröskun að þær tefja fyrir uppbyggingu á sviðum sem þarfnast æðri menntunar og einkaframtaks. Fræðimaður eins og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur sá það fyrir að virkjun og álver myndi draga úr möguleikum þeirra sem vildu hasla sér völl á öðrum sviðum en stóriðju, og hafa nokkrar konur í atvinnurekstri þegar hætt rekstrinum. Ívar Jónsson viðskiptafræðingur, hefur sett fram rök um að virkjanir skapi fá störf eftir að byggingartíma er lokið og að slíkar framkvæmdir festi svæði í sessi sem lágþekkingarsamfélag.
Það þarf því að horfast í augu við það að margt tapaðist þegar ákvörðun um virkjun og álver var tekin - valið var of margt (aðkomu)fólk á of skömmum tíma, sem veldur of mikilli þenslu sem útilokar of margt æskilegt. Alþjóðaháskóli eða öflugt þekkingarfyrirtæki hefði verið langtum betri hugmynd, vegna þess að sú hugmynd er í samræmi við þá menntun sem unga fólkið fyrir austan sækir sér nú um stundir

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 16. september 2004