Bókstafstrú tæknihyggjunnar
eftir Viðar Hreinsson

Grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið fyrir rúmu ári og setti nýlega á vef Náttúruvaktarinnar hefur komið nokkru róti á tilfinningar Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra. Hann hefur trausta fótfestu í rökvísi vísindahyggjunnar þegar hann andmælir hugmyndum mínum um náttúruvernd. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að hann virðist ekki síður vera í tilfinningalegu uppnámi vegna virkjanamála en andstæðingar hans sem hann ásakar um tilfinningasemi og náttúrurómantík. Þar að auki byggjast rök hans á því úrelta viðhorfi að vilja brjóta undir sig náttúruna til hagnaðar með svipuðum hætti og ein þjóð vill brjóta undir sig aðra. Viðhorf nútímans, að starfa í sátt við náttúruna vinnur á svo stjórnmálamenn jafnt og forsvarsmenn stórfyrirtækja keppast nú um að bregða upp umhverfisvænni ásýnd hvað sem leynist þar að baki.

Það hefur lengi verið áhyggjuefni að vísindaleg þekking og tæknikunnátta sé komin langt fram úr getu manna til að beita henni skynsamlega og knýi stöðugt á um að ganga enn lengra. Það er hártogun að andmæla því með þeim rökum að tæknilega sé hægt að reisa tvíburaturna á Vatnsendahæð en það sé ekki gert vegna þess að fyrir því séu engar efnahagsforsendur. Raunin er vissulega sú að verk- og tæknifræðingar taka þátt í ákvarðanatöku og hneigjast eðlilega til að fá útrás fyrir metnað sinn með stórfenglegum áætlunum. Það er svo ráðist í þau verk sem talin eru borga sig. Umhverfið og verndun þess reynist hér á Íslandi enn vera hindrun sem stjórnvöld eiga hægt með að ryðja úr vegi.

Á bak við orð Jakobs um að tilfinningarök séu "endaleysa" er sú ranghugmynd að svokölluð rökhugsun sé æðri hinu huglæga. Sú hugmynd sprettur af úreltri tvíhyggju tilfinninga og raka sem gerir ráð fyrir ginnungagapi milli hins hlutlæga og hins huglæga. Hlutlægni er ekki síður búningur máls en inntak. Á 20. öld hafa heimspekingar og sálfræðingar sýnt fram á að þessi tvíhyggja stenst ekki. Mótaðar hafa verið kenningar um vitsmunalegt inntak tilfinninga og tilfinningalegt afl í vitsmunum. Maður reiðist t.d. vegna þess að maður hefur "hlutlæga" skoðun á athæfi einhvers. Að sama skapi er meint hlutlæg afstaða manns oft hjúpur utanum djúprætta tilfinningalega afstöðu til lífsins. Jakob bendir réttilega á að vitsmunir og tilfinningar séu manninum jafnmikilvæg. Vitsmunir eru knúnir tilfinningum og tilfinningar eiga sér rætur í vitsmunalegri afstöðu. En svo villist Jakob af leið og sér ekki að virkjanasinninn og náttúruverndarinn eru báðir reknir áfram af tilfinningum með vitsmunalegu inntaki. Sá fyrri er þeirrar skoðunar að náttúruna verði að beisla, sá síðari er þeirrar skoðunar að hennar beri að njóta án þess að beita hana valdi. Það birtist í tilfinningalegri afstöðu beggja til nýtingar náttúrunnar. Jakob ber fyrir sig engu minni tilfinningarök en náttúruverndarinn en setur samt "rökhugsun" skör ofar. Slík hugmynd um vald hins hlutlæga er beinlínis hættuleg. Með henni má réttlæta hverskonar ofbeldi gagnvart mönnum og náttúru. Það kemur málinu ekkert við að stærðfræði sé "fullkomnasta form mannlegrar rökhugsunar". Það er sama hve fullkomin formin og verkfærin eru þegar mennirnir eru ófullkomnir. Ódæði eru framin með fullkomnum verkfærum ekkert síður en göfug verk. Jakob Björnsson getur reiknað barn í konu og úr henni aftur eins og Sölvi Helgason en það kemur veruleikanum ekkert við. Skynsemi er heldur ekki það sama og rökhugsun. Hún er samvirkni fjölda þátta í mannlegri hugsun og felur í sér heildarskilning sem er því miður algerlega lokaður þeim sem aðhyllast þá vélrænu tæknihyggju sem Jakob beitir í röksemdum sínum. Þar birtist mannskilningur verkfræðings sem hefur aldrei vaxið upp úr vélhyggju.

Vandinn við Kárahnjúka og aðrar virkjanaframkvæmdir var sá að stjórnvöld reyndu af öllum mætti að halda umræðunni á sviði tæknilegra raka (efnahagslegra þar með) og sópuðu öðrum út af borðinu. Úrelt hugmynd um drottnun mannsins yfir náttúrunni liggur að baki einfeldningslegri þrískiptingu Jakobs á notum manna af henni. Hugsandi menn eru hættir að skoða náttúruna einvörðungu út frá notagildi. Því fellur sú bábilja um sjálfa sig að öll náttúruverndarumræða snúist í raun um "fagurfræðileg" not sem séu einungis uppbót stórborgarbúa fyrir "náttúrusvelti". Þótt vel megi segja að náttúran hafi enga hagsmuni, vegna þess að það hugtak á fyrst og fremst við um viðskipti meðal manna, þá breytir það engu um þá siðferðiskröfu að gengið sé um hana af virðingu og forðast eftir megni að vinna á henni spjöll. Þar fyrir utan lýtur náttúruvernd ekki síður að vistfræði og hættulegri hnignun náttúrufars á jörðinni. Enda voru það ekki síst vistfræðileg og þar með "vísindaleg" rök í úrskurði Skipulagsstofnunar sem sýndu fram á að Kárahnjúkavirkjun væri ekki góður kostur.
Dreifðar byggðir, með fjölbreytni í atvinnuháttum og mannlífi er menningarleg auðlegð sem rík ástæða er til að varðveita. Menningarleg fjölbreytni er á undanhaldi í heiminum og nú á tímum er mikið gert til að varðveita hana. Því er það fásinna að leggja einberan efnahagsmælikvarða þar á. Annars væri það rökrétt afleiðing af viðhorfum Jakobs að Austfirðir og aðrir útnárar legðust í eyði. Samkvæmt þeim geta röklausar tilfinningar eins og átthagaást ekki réttlætt það að halda óarðbærum einingum í byggð.

Hættan sem stafar af stóriðju á Austurlandi er einfaldlega sú að svo risavaxið fyritæki raskar öllu jafnvægi sem fyrir var, dregur að sér mannafla annarsstaðar að úr fjórðungnum og gerir þegar fram líða stundir erfiðara um vik að halda uppi þeim hefðbundna, smærri atvinnurekstri sem fyrir er eða byggja upp nýjan. Stóriðja felur í sér einhæfni, jafnvel þótt hún krefjist menntaðra vinnuafls en fyrr. Það hefur enn ekki verið sýnt fram á að hún hækki menntunarstig í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í þekkingarsamfélagi nútímans. Þess vegna getur stóriðja með tímanum orðið til þess að fjórðungurinn dragist aftur úr niður af því að ekki er nóg lagt í aukna menntun.

Jakob telur álvinnslu "kvenvinsamlega". En þar er fyrst og fremst um að ræða afleidd störf. Við Kárahnjúka eru það líklega störf mötuneyti og á skrifstofum. Í álveri munu kannski starfa fáeinir kvenverkfræðingar en mest munu konur stunda lægri þjónustustörf sem eru leidd af sjálfri starfseminni. Meginatvinnusköpunin verður í þungaiðnaði, byggingum, vegaframkvæmdum og þessháttar en trúlega mun smærri atvinnurekstur gjalda fyrir nálægðina við álverið (sjá t.d. grein Sigríðar Þorgeirsdóttur og Rósu Erlingsdóttur, "Of seint fyrir kynjajafnrétti?", í Mbl. 13. mars 2003).

Í dag, 12. maí 2004, birtist einmitt vísbending um ruðningsáhrifin og afleiðingar fyrir atvinnumál kvenna í Morgunblaðinu. Þar segir Helga Björg Ragnarsdóttir, atvinnu- og jafnréttisráðgjafi Norðausturkjördæmis: "Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði hefur aukist verulega á áhrifasvæði virkjunarframkvæmdanna síðustu mánuði og hefur leiguverð hækkað samhliða því. Á sama tíma hefur markaðurinn stækkað óverulega. Í dag er málum svo háttað að þjónustu- og verslunarfyrirtæki, sem algengt er að séu í leiguhúsnæði, eru og hafa verið að missa húsnæði sitt og fá jafnvel ekki annað því eftirspurnin er það mikil og sjaldgæft að slík fyrirtæki hafi bolmagn til að greiða þá leigu sem sett er upp. Það blasir því við að fyrirtækjum í eigu kvenna á svæðinu fækki verulega með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir viðkomandi aðila og lakari þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Slík þróun er svæðinu hættuleg þar sem atvinnuframboð fyrir konur á svæðinu er nú þegar fábreytt og konum hefur fækkað hlutfallslega síðustu ár".

Störf sem krefjast menntunar eru mun arðbærari en störf í hráefnisvinnslu. Það segir sig sjálft að dugnaði og sköpunargáfu eru þrengri skorður settar í einhæfri starfsemi risavaxinna iðjuvera en í samfélagi sem byggist á fjölbreyttum smærri rekstri. Maður sem vinnur í verksmiðju frá níu til fimm gengur ekki út að loknum vinnudegi og lítur í kringum sig í leit að tækifærum til nýsköpunar. Og seinheppinn er Jakob að segja að ferðamenn komi til Noregs þrátt fyrir að þar séu virkjanir og álver. Við hefðum einmitt átt að læra af reynslu Norðmanna sem hafa löngu viðurkennt hve stórkostleg mistök síðasta stórvirkjun þeirra í Alta var og olli hún þó minni náttúruspjöllum en Kárahnjúkavirkjun mun gera. Íbúar Alta syrgja glataða náttúru og talsmenn ferðaþjónustu harma eyðilagða möguleika.

Vissulega verða örlög Austfirðinga háð duttlungum ómannekjulegs risafyrirtækis sem ekki hefur skuldbundið sig til að halda uppi atvinnulífi þar til frambúðar. Alcoa mun loka verksmiðjunni sjái það sér hag í því. Þá eru nærri öll egg fjórðungsins í sömu körfunni í stað þess að með fjölbreyttari uppistöðum atvinnulífs væri áhættan minni. Það felst síður en svo lítilsvirðing við Austfirðinga í því að hafa áhyggjur af þessu.

Tæknihyggjumaðurinn Jakob skilur ekki hin huglægu rök sem ég tíundaði með því að drepa á Bjart í Sumarhúsum. Ég var ekki að boða afturhvarf til tíma og samfélags Bjarts heldur þvert á móti. Landsmenn þurftu aldrei að sundríða jökulár á hreindýrum þótt Bjartur gerði það. Fjárleit hans og sundreið var táknmynd baráttunnar. Sú barátta er arfur sögunnar sem vonandi hefur þroskað hugarfar og hugsunarhátt landsmanna. Samleikur mannlífs, lífsbaráttu og náttúru hefur margvíslegt gildi og birtist í sögunni sem á þó ætíð á hættu að hverfa. Arfur sögunnar er miklu dýpri og fjölþættari en svo að sé hægt að líta á hann sem einbera framfarasókn. Lífsbarátta fyrri tíma myndar dýrmætan reynslusjóð. Því ber okkur að líta til fortíðar með virðingu og það er útúrsnúningur hjá Jakobi að halda að ég vilji hverfa til lífshátta fortíðar. Hins vegar svipar Jakobi til Bjarts í Sumarhúsum að því leyti að hann virðist trúa á virkjanir af sömu þrákelkni og Bjartur trúði á sauðkindina.

Það er algengt að menn séu sakaðir um að vilja hverfa aftur til fortíðar ef þeir dirfast að andmæla því sem aðrir telja framfarir. Það lýsir skilningsskorti tæknihyggjunnar sem einnig kemur fram í því að telja að þau spjöll sem óhjákvæmilega stafa af búsetu manna og athöfnum réttlæti hvaða náttúruspjöll sem er. Vitaskuld verða óhjákvæmileg spjöll en það er skylda okkar að halda þeim í lágmarki. Það kemur "fagurfræðilegu náttúrusvelti" ekkert við, náttúran hefur miklu víðtækara gildi en einungis að uppfylla þá þörf. Það á einmitt ekki að skipuleggja hálendið og íslenska náttúru einungis sem auðsuppsprettu eða neyslufyrirbæri sem sé sprottið af þessu svelti. Borgir eru vistvænar að vissu leyti vegna þess að þegar fólk safnast þar saman veldur það minni spjöllum en ef öllu sem fylgir lífsháttum borgarinnar væri dreift um allar koppagrundir.

Útúrsnúningar Jakobs eru ekki svaraverðir nema fyrir það að þeir endurspegla hættuleg og mannfjandsamleg viðhorf. Þau eru leifar af þeirri smættandi vísinda- og tæknihyggju sem átti sitt blómaskeið á 19. öld og ögn fram á hina tuttugustu. Í henni fólst oftrú á það sem menn töldu lögmál um gangverk veruleikans. Síðan hafa menn uppgötvað að heimurinn er flóknari og óreiðukenndari. Hin úrelta tæknitrú er nauðhyggja á borð við dólgamarxisma og óhefta markaðshyggju nútímans. Sæluríkið á leiðarenda, í kjölfar alræðis öreiganna, var talið söguleg nauðsyn en réttlætti alræði og ofbeldi. Markaðurinn leiðréttir allt um síðir fái hann að ráða öllu segja menn í dag og blessa yfirgang hinna sterkustu sem hafa nánast útrýmt allri umræðu um siðferði og réttlæti. Og ef upp koma vandamál sem tæknin skapar mun fljótt finnast enn betri tækni til að leysa þau. Þegar hálendið hefur verið skipulagt, allir virkjunarkostir nýttir og álver risið í hverju kjördæmi rennur upp betri tíð með blóm í haga.

Jakob Björnsson vill virkja "þær orkulindir sem borgar sig efnahagslega að virkja" og hann vill líka nýta "náttúruna til að veita okkur efnahagsleg gæði". Í ljósi þess vill hann skipuleggja allt hálendið sem allra fyrst. Getur verið að sá asi stafi af tilfinningalegu uppnámi? Er hann að átta sig á því að náttúruvernd sé framtíðin og hinn gamli draumur heillar kynslóðar virkjanaverkfræðinga sem komu úr námi eftir miðja öldina sé að hverfa? Þess vegna liggi svo á að ljúka því að virkja hálendið og beisla allar jökulárnar? Ljótt ef jöklarnir hyrfu nú allir áður en það tækist. Eða veldur ný tækni uppnámi Jakobs, sem gerir orkuvinnslu ekki eins sýnilega (og glæsilega í hans augum) og stórvirkjanir? Þar á ég við djúpboranir sem valda ekki tiltakanlegum umhverfisáhrifum. Þá er borað niður á 5 km dýpi eftir margfalt meiri hita og þar með orku og mun fyrsta tilraunaborunin fara fram hér á landi nú á þessu ári (skv. viðtali við Guðmund Ómar Friðleifsson, jarðfræðing á Orkustofnun, í Mbl. 16.sept. 2003). Sú tækni sem er verið að þróa gæti gert fallvatnsvirkjanir óþarfar. Þetta veit Jakob, en kannski vill hann láta gamla drauminn sinn rætast því annars sé ævistarf hans að stórum hluta fyrir bí. Landsvirkjun vill líka ljúka þessum fallvatnaáætlunum vegna þess að þær hafa verið undirbúnar undanfarna fjóra áratugi og hefur verið eytt gífurlegu fé til þess.

Jakob Björnsson er Lenín tæknihyggjunnar á Íslandi, rétt eins og Davíð Oddsson er Lenín markaðshyggju sem einkennist í senn af ofstjórn og óstjórn eftir dyntum leiðtogans og leiðréttingum með handafli á þeim skekkjum sem hann þykist sjá í kerfinu - og báðir eru jafnalvarleg tímaskekkja. Þeir aðhyllast með sínum hætti bókstafstrú. Jakob lætur stjórnast af þeirri nítjándualdar vísinda- og tæknihyggju sem hefur ógnvekjandi ítök meðal íslenskra ráðamanna í dag. Um hana segir finnski heimspekingurinn Georg Henrik von Wright: "Bókstafstrú af sérstakri gerð er líka sú afstaða sem nefnd er vísindahyggja og felst í gagnrýnislausri og ýktri trú á að markviss skynsemi okkar, studd vísindum og tækni, geti leyst allan vanda og að vandamál sem lendi utan við þeirra svið séu einungis huglæg álitamál og verði ekki leyst með atbeina skynseminnar" (Framfaragoðsögnin, Reykjavík 2003: 244. Þorleifur Hauksson þýddi). Bókstafstrú veður víða uppi í dag. Talebanar í Afganistan sprengdu einstæð búddalíkneski um árið. Íslenskir talebanar tæknihyggjunnar sprengja einstæðar hálendisgersemar í tætlur og sökkva þeim