Ásýnd Íslands fortíð - nútíð - framtíð
eftir séra Gunnar Kristjánsson

Það er ekkert nýtt hér á landi að fjallað sé um land og landslag, lífríki og lífsskilyrði. Þemu af þessu tagi hafa löngum verið talin af hinu góða hér á landi og stoltir hafa forfeður okkar og -mæður tekið á slíkum málum. Á undanförnum árum hafa óneitanlega verið slegnir nýir strengir í lofsöng okkar um landið þar sem vitundin um lífríkið í afarstóru samhengi hefur truflað dýrðaróðinn um landið og okkur sjálf. Ósonlagið kemur okkur líka við og hafið stóra allt í kringum okkur, andrúmsloftið sjálft og allt sem því tilheyrir. Hlutleysi okkar Íslendinga í umhverfismálum er ekki lengur í gildi. Við verðum að líta í eigin barm eins og aðrir, láta lofsönginn um landið vort fagra bíða um sinn og taka til hendinni við það land sem enn blæs upp af meira krafti kannski en nokkru sinni fyrr.

Sambúð lands og þjóðar tekur sem sagt breytingum frá einum tíma til annars. Og þær stafa af viðhorfsbreytingum og þjóðfélagsbreytingum. Nú mætti því spyrja í fúlustu alvöru eitthvað á þessa leið: Hvers eðlis eru tengsl manns og náttúru í þessu landi? Hvað er land og landslag, hvað eru lækir og grös, skepnur og vötn, hvað eru heiðar og fjöll, klettar og klungur? Hvað, á tímum þegar skjótast má á öskrandi snjósleða á dagstund inn undir jökla eða þeytast um fjöll á glæsijeppum, æða meðfram Grænlands köldu klettum á nýjustu gerð af gúmmíbátum? Hvað merkir náttúran fyrir okkur Íslendingum um þessar mundir?
Hafi náttúran verið forfeðrum okkar og -mæðrum dyntóttur vinur, stundum óvinur sem þurfti að yfirbuga og sigrast á þegar svo bar undir, sigrast á með hjálp sjóferðabænar eða ferðabænar, hvað er hún þá núna? Kannski leikfang sem gaman er að kljást við, athuga hvort þessi blessuð náttúra liggur ekki flöt og máttvana fyrir tækjunum, hvort hún megi sín einhvers þegar hún er yfirbuguð undir vélaraflinu, þegar auglýsingarnar um jeppann í auðninni eru orðnar að veruleika. En um hvað snýst leikurinn: náttúruna eða tækið? Er náttúran í þessum hildarleik kannski einungis vettvangur hégómlegra uppátækja, niðurlægð og svívirt?
Eða er náttúran öðru fremur gjöful auðlind sem fyrr, gefandi raforku, fisk og ferðamenn? Er hún ekki forðabúrið mikla sem á sér tilverurétt í því einu að hún gefur af sér?

Þannig mætti velta upp spurningum og hugleiðingum um náttúruna og lífríkið, í stóru samhengi og smáu. Aða baki allra slíkra hugleiðinga er samt óhugnanleg staðreynd um ástand og innviði þessa sjálfsagða fyrirbæris sem við köllum lífríki. Sú staðreynd sem óhugnaðinum veldur er vistkreppan.

Vistkreppan stafar af vísinda- og tæknimenningu Vesturlanda og þverrandi náttúruauðlindum. Takist ekki að snúa hugsunarhætti og lífsviðhorfum til annarrar áttar blasir allsherjar skelfingarástand við gjörvöllu lífríkinu. Þessi kreppa stafar í sjálfri sér ekki af tækninni eða náttúruvísindunum heldur af hugsunarhætti og sá hugsunarháttur snýst um vald og yfirráð.

Hvernig stendur á því að maðurinn er kominn að þessum vegamótum? Hvað er það sem hefur leitt hann út í þetta fen? Um þessar mundir leita margir svara við slíkum spurningum. Og mér virðist það svar einna trúverðugast sem segir: Það sem sem veldur vistkreppunni er lífsviðhorf valdsins. Það sem þarf að gerast er gjörbreyting í hugsun, breyting sem hefur í för með sér lausn mannsins frá hugsunarhætti valdsins til samfélags við náttúruna. Lífsviðhorf valdsins byggist á viðteknum sjónarmiðum liðinna alda, hugsun nýaldar þar sem veröldinni er deilt í súbjekt og objekt eða hlut og áhorfanda.

Viðhorf manna til lífríkisins mótast í okkar heimshluta af hinni gyðing-kristnu hefð þar sem manninum er falið hlutverk hins ábyrga ráðsmanns í sköpunarverkinu. En þetta hlutverk hefur verið túlkað á hverjum tíma eftir því sem aðstæður kröfðu. Sá hugsunsarháttur sem mótar samtímann að þessu leyti á sér rætur í hugsun endurreisnarinnar á Ítalíu fyrir fjörum öldum, þar sem hinn voldugi maður er settur í öndvegi. Guð er hinn alvaldi og maðurinn er ímynd hans á jörðu. Sjálfskilningur hans fólst í valdi yfir náttúrunni: "Þekking er vald," sagði Francis Bacon.

Þessi hugsun nær fullkomnun sinni í heimspeki Frakkans Rene Descartes (1596-1650) þar sem maðurinn er skilinn frá náttúrunni, veröldin er vél, full af vélum: maðurinn er af öðrum toga spunninn, óskyldur henni og firrtur frá henni. Hér er maðurinn, þarna er náttúran. Þekking á náttúrunni fæst fyrir hugsun, stærðfræðilega greiningu. Hún fæst með því að greina efnið niður í smæstu einingar uns þar verða ódeilanlegar; einingar sem síðan má setja saman aftur að vild. Þetta er hugsun sem leiðir af sér herskara sérfræðinga sem vita allt um lítil sérsvið. Hið forna slagorð Rómverja, "deildu og drottnaðu," hefur færst yfir á sambúð mannsins og lífríkisins. Vald mannsins yfir lífríkinu hefur falist í þessu: að rannsaka, þekkja, skilgreina, deila og drottna. Ná valdi yfir lífríkinu með þekkingu.

Það er þessi cartesíska tvíhyggja sem menn telja nú rótina að vistkreppunni sem allir þekkja. Það er að segja tvíhyggja sem skilur manninn frá lífríkinu og setur hann á stall utan þess.

Og valdafíkn mannsins yfir lífríkinu hefur fært hann nær ómeðvituðu markmiði: Hvert sem litið er gefur að líta stjórnlausan ofvöxt. Er ekki fólksfjöldinn vaxinn fram úr hófi, iðnaðarvarningur, umhverfismengun, orkuþörf heimsins, og er ekki ofvöxtur í mannlegum vandamálum einkum í borgum? Og svo mikið er víst, hvernig sem allt þróast, að takmarkað forðabúr gefur ekki möguleika á ótakmörkuðum framförum.

Vistkreppan er staðreynd. Hún hefur ekki orðið til sjálfri sér. Hún er afrakstur langrar sögu, afrakstur sjálfskilnings mannsins í lífríkinu. Hún hvílir á föstum grunni, þeim grunni sem maðurinn hróflar síst við, hún hvílir á lífsskilningi Vesturlandabúans, vistkreppan er hin hliðin á vitund hans um inntak þess að vera manneskja á þesssari jörð.

Af ákveðnu gildismati leiðir ákveðið efnahagskerfi, af ákveðnu lífsviðhorfi leiða ákveðin samfélagsleg mannlífsgildi. Allt slíkt á sér langa sögu og langa órofa hefð. Merkingarvefurinn, hinn flókni og óljósi vefur gildismats og lífstilgangs, hefur á langri tíð mótað hugsun og meðvitund, samfélag og efnahagsmarkmið, undirstrauma og viðhorf samfélagsins í stóru sem smáu. Það er síður en svo sársaukalaust og átakalaust að breyta merkingarvefnum og það tekur langan tíma. En menningarsamfélag sem er þess ekki umkomið að breyta gildismati sínu og dýpstu viðmiðunum er ófært um að afstýra ógn sem að steðjar.

Nú spyrja menn hvort sú kreppa í sambúð manns og umhverfis eigi rætur sínar í þessum cartesíska hugsunarhætti, hvort kenningar Descartes hafi skilað sér í skelfilegum afleiðingum fyrir manninn. Hefur tíminn afhjúpað þennan hugsunarhátt sem blekkingu eða öllu heldur sem mistök sem hafa leitt mannkynið í ógöngur? Sú kreppa sem hér um ræðir hefur verið skilgreind rækilega í alþjóðlegum skýrslum eins og alkunnugt er, svo sem Brundtlandskýrslunni.

Ein viðbrögð sem alþekkt eru við vistkreppunni er kæruleysið, að segja sem svo: þetta er nú ekki svo slæmt eins og þessir vísindamenn og umhverfisverndarmenn vilja vera láta. Eða þá að menn trúa því að með því að halda áfram aðeins lengra þá spretti fram lausnir við öllum vanda og spyrji sem svo: getum við ekki búist við því að tækni og vísindi samtímans leysi vistkreppuna? Svo einfalt er málið því miður ekki. Tæknin sem slík er vissulega ekkert annað en afleiðing vísindanna og náttúruvísindin, þar sem leitað er þekkingar, eru góð og gild. En í hinu félagslega samhengi, að ekki sé talað um hið pólitíska samhengi, verða vísindin óhjákvæmilega verkfæri í höndum stjórnmálamanna og lúta þeim viðhorfum - fúslega eða tilneydd - sem ríkja í samfélaginu á hverjum tíma og laga sig að kröfum markaðarins. Sá farvegur sem vísindi og tækni leita í er því að öllum líkindum farvegur meirihlutans, viðtekinna lífsviðhorfa, þeirra lífsviðhorfa sem hafa búið til vistkreppuna og viðhalda henni.

Þeir sem líta svo á að vandi samtímans grundvallist á þeirri firringu frá náttúrunni sem hin cartesíska hugsun gengur út frá, þeir leita nú nýrra leiða. ekki aðeins til að bjarga náttúrunni eða sættast við náttúruna heldur til þess að finna nýja hugsun, lífvænlega hugsun, sem leiðir brott frá kreppu og firringu. Hver er sú hugsun? Hvernig er hægt - sé það hægt - að finna nýja leið til sátta milli manns og náttúru?

Á þessum vettvangi er sem betur fer um auðugan garð að gresja, þar er um að ræða hvers konar hugsun sem hafnar firringu mannsins frá náttúrunni, hafnar einnig hinni cartesísku tvíhyggju en leggur þess í stað áherslu á einingu manns og náttúru, á það staðreynd að maðurinn er einnig hluti af lífríkinu, án þess getur hann ekki lifað. Framtíð hans veltur á nýrri hugsun, á nýjum sáttmála við lífríkið, sáttmála sem setur hann sjálfan í nýtt samhengi innan þess ríkis sem hann hefur ekki viljað telja sig borgara í: lífríkisins. Óneitanlega leita margir á slóðir sem telja verður óraunsæjar og barnalegar en þarna er ekki síður að finna tilraunir til hugsunar sem reynir að setja sjálfa sig í sögulega rétt samhengi, þ.e.a.s. sem framhald af hinni cartesísku tvíhyggju, framhald sem leysir hana jafnframt af hólmi. En einnig er að finna í nálgun skáldanna hugsun og leið til að nálgast náttúruna á nýjan hátt. Þarf furfum við Íslendingar ekki að leita langt.

Á þennan hátt er tekist á við vistkreppuna, reynt að finna lífsviðhorf lífvænlegrar framtíðar.

En hvað þá um okkur Íslendinga? Hvað um þessa náttúruþjóð sem er svo saklaus og fjarri allri mengun og öllum illum samskipum við lífríkið? Hvað um okkur sem látum helst engan segja okkur fyrir verkum né hafa vit fyrir okkur fyrr en um seinan?

Náttúran er meira en vettvangur hégómlegra uppátækja eða öfugsnúinna þarfa. Hún er líka meira en ótæmandi forðabúr. Hún er meira en allt þetta. En hvað meira? Hvað býr í þessu orði "meira" þegar það er notað um náttúruna ? Hversu oft er það ekki nefnilega sem maðurinn er orðlaus þegar landið heldur honum í faðmi sér, hversu oft vantar hann orð til að tjá sig, til að tjá þetta "meira".

Mér koma skáldin í hug, einkum tvö skáld sem hafa lokið upp íslenskri náttúru, þeir Jónas Hallgrímsson og Snorri Hjartarson. Jónas var að uppgötva fegurð landsins á rómatískum tímum í evrópskri borgarmenning á fyrri hluta síðustu aldar. Fegurð sem laukst upp fyrir hverjum þeim sem las ljóð hans - og sömu áhrif hafa þessi ljóð ennþá. Snorri þekkir þessa fegurð ofurvel, hann er alinn upp á þeim slóðum sem við nú erum. Ljóð hans fjalla ekki um þá fegurð sem við blasir. Ljóð hans fjalla einmitt um þetta "meira", dýptina í sambandi manns og lands, dýptina sem snýst ekki um dýptina í landinu heldur kannski miklu heldur í manninum. Ljóðin snúast í raun ekki um landið heldur um manninn sem haldið er föngnum og gagnteknum í hinum framandi örmum. Ljóð sem kalla á þögn, virðingu, auðmýkt, samkennd,samlíðun, tilbeiðslu. Hvers vegna yrkir Snorri ekki um fuglaskyttuna eða veiðimanninn eða snjósleðaferðina eða jeppaferð á jökul? Hann yrkir á þessa leið:

Ég vil hverfa langt
langt inn í græna skóga
inn í launhelgar trjánna
og gróa þar tré
gleymdur sjálfur mér, finna
ró í djúpum
rótum og þrótt
í ungu ljósþyrstu laufi
leita svo aftur
með visku trjánna
á vit reikulla manna.

Leit að nýju lífsviðhorfi og leit að nýjum lífsstíl kallar á átök. Fráhvarf frá hinu venjubundna, frá hugsunarhætti valds og yfirráða, leitin að hinni mildu samkennd með lífríkinu verkar sem ögrun. Án meðvitaðra átaka um lífsviðhorf gerist ekkert. Hver maður sem borið hefur merki sáttargjörðarinnar við sköpunarverkið, merki regnbogans í barmi sér, merki umhverfisverndarhreyfinga, veit að slík tákn kalla á viðbrögð, iðulega fjandsamleg, því að tákn lífsviðhorfa verka á annan hátt en tákn valdsins, tákn velgengninnar, tákn fjöldans. Tákn regnbogans verkar á annan hátt en Coca Cola eða Volvo eða Madonna eða hvað þau heita öll sömul tákn þess lífsstíls sem hefur allt annað en lífvænlega framtíð í sér fólginn. Sum tákn fela í sér ögrun hagsmuna, ögrandi afstöðu til venjubundis hugsunarháttar. Hin brýnu umskipti frá hugsunarhætti sem er ábyrgur fyrir vistkreppunni yfir í hugsunarhátt lífvænlegrar framtíðar eru vissulega sársaukafull og gerast ekki án átaka og uppgjörs.

Við Íslendingar gætum vissulega verið í fararbroddi við að þróa nýja hugsun, nýtt líkan um samskipti manns og náttúru. Við gætum tekist á við mesta og alvarlegasta vanda nútímans og reynt að hugsa á lífvænlegan hátt, gera nýjan sáttmála við móður náttúru, sáttmála sem byggist á gagnkvæmu trausti og gagnkvæmri virðingu. Við gætum þetta í stað þess að reikna út hversu eitt prósent í auknum ferðamannfjölda skilar sér í mörgum milljónum þjóðartekna. Slík hugsun er úrelt. Það er brýn þörf á nýrri hugsun sem færir manninn nær náttúrunni og kennir honum að líta á sjálfan sig sem hluta lífríkisins, hugsun þar sem firringin frá lífríkinu er yfirunnin.