ALLRA HAGUR?


Í raun hafa aðeins tvær röksemdir verið tíundaðar fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri: efnahagslegur ávinningur og atvinnusköpun. Þriðja ástæðan leynist undir niðri. Tæknikunnáttan knýr á um verkið af því það er framkvæmanlegt. "Komi í ljós að verkþekking og hugsun hafi skilið að skiptum að fullu verðum við vissulega hjálparvana þrælar verkkunnáttunnar frekar en vélanna, hugsunarlausar verur sem eiga allt sitt undir hverjum þeim uppfinningum sem eru tæknilega mögulegar, sama hve banvænar þær eru," sagði heimspekingurinn Hannah Arendt fyrir hálfri öld. Nú er orðinn enn meiri aðskilnaður: milli verkkunnáttu og hagfræði annars vegar og hugsunar hins vegar. Tækni og hagkvæmni eru sjálfgefin réttlæting sem kemur í stað umhugsunar.


Bandalag ofnotaðrar hagfræði, tæknidýrkunar og skammsýnna stjórnmálamanna knýr fram skelfilegt umhverfisslys við Kárahnjúka. Þetta bandalag flaggar því sem það telur hlutlægni gegn því sem með vorkunnsömu yfirlæti er kallað tilfinningarök. Sá þykist góður sem slær vopn úr hendi andstæðings með því orði, en hann gerir sér ekki grein fyrir því að slík rök gegnsýra málflutning virkjunarsinna jafnt og annarra. Vegna þess að hagfræði er byggð á útreikningum fær hún yfirbragð hlutlægni. Tölur ljúga ekki, segja menn réttilega, en með þeim má líka reiða fram hálfsannleik og ósannindi. Forsendur eru oft valdar út frá sjónarmiðum sem eru jafn huglæg og hvað annað.


Það er margt í mannlegu samfélagi sem torvelt er að koma orðum að og ógerningur að færa í tölur og hagstærðir. Ást og dauði, fegurð og manngildi, mannréttindi, tunga og menning. Þessir þættir snerta kjarna þess að vera manneskja. Því er enn brýnna að halda fram gildi þeirra í umræðu um mikilvæg málefni til að losa hana úr þröngum farvegum efnahagslegra og tæknilegra raka. Það gildismat sem öllu virðist ráða í dag er ógnvekjandi. Grímulaus markaðshyggja síðustu ára heggur af hæl og tá, þjappar fjölbreytni lífsins í hagstærðir og verðleggur þær. Það þarf vitaskuld að beita hagspeki til að átta sig á gangverki efnahagsins og hafa hliðsjón af því hvað hlutirnir kosta. En lífið er flóknara en svo að útreiknuð hagkvæmni megi ein ráða úrslitum. Það er hættuleg uppgjöf hugsunarinnar að gangast undir alræði hagfræðiraka. Stjórnmálamenn nota oft slík rök til að afgreiða flókin mál með einföldum hætti, kannski til þess að komast hjá því að hugsa, eða til að breiða yfir eigin vanþekkingu.


Náttúran er meðal þeirra verðmæta sem torvelt er að koma á hagspekiböndum þótt það hafi í seinni tíð verið reynt með hinni svokölluðu grænu hagfræði sem ekki virðist hafa borist til eyrna íslenskum stjórnvöldum. Má ekki einfaldlega segja að verðmæti ýmissa náttúruperla sé slíkt að engin hagfræðirök séu svo sterk að þeim megi fórna? Það á vissulega við um helgistaðinn Þingvelli, Gullfoss, Geysi, og maður hélt að það ætti við um Dettifoss og Þjórsárver en er nú farinn að efast. Það ætti líka að eiga við Kárahnjúka. Þetta viðhorf, að fyrirbæri hafi gildi í sjálfum sér, óháð hagfræðilegu verðmætamati á einnig við um aðra fjársjóði, t.d. handritin og íslenska tungu sem "borgar sig" víst að leggja niður.


Kannski er líka hægt að reikna út að það borgi sig ekki að að halda Austfjörðum eða öðrum jaðarsvæðum í byggð. Þá byggist búseta þar á tilfinningarökum. En dreifðar byggðir eru þó þjóðarauðlegð rétt eins og náttúruperlur. Tækið til að halda Austfjörðum í byggð á að verða virkjun og stóriðja, af annarri stærð og eðli en atvinnulíf hingað til. Í stað þess að virkja austfirskan mannauð svo dugnaður og sköpunargáfa sem flestra geti notið sín hefur verið gripið til risavaxins úrræðis sem gleypir vinnuafl með einsleitum hætti. Meirihluti Austfirðinga virðist kjósa að leggja örlög sín í hendur risafyrirtækis sem stjórnast af duttlungum heimsmarkaðs og arðsemi.


Hluti af hnattvæðingunni er framrás alþjóðlegra auðhringa og óheft fjármagnsflóð. Í henni felast einnig möguleikar smærri menningar- og efnahagssvæða að brjótast fram á stærra sjónarsvið með sérkenni sín. Að búa yfir sérstæðri menningu og eiga einstæða nátturu felur í sér skyldur gagnvart umheiminum. Sérstaðan er lóð á vogarskál þeirrar fjölbreytni sem alþjóðahagkerfið sækir að og margir vilja verja í lengstu lög. Með því að fórna stórfenglegum náttúruverðmætum er stigið afdrifaríkt sögulegt skref. Ómetanleg verðmæti víkja fyrir einhliða efnahagsrökum. Það verður táknrænn atburður sem hefur þá merkingu að ekki taki því lengur að búa hér við þau skilyrði sem hingað til hafa dugað. Tilfinning sérstöðunnar dofnar og huglægar forsendur þess að búa í landinu rofna. Engin jökulfljót verða eftir fyrir Bjart í Sumarhúsum að sundríða á hreindýri.


Landið er afskekkt, harðbýlt og hrjóstrugt. Átökin við það, baráttan fyrir lífsbjörginni og menningarlífi, hafa haft gildi í sjálfu sér. Þessir þættir hafa verið áskorun að takast á við og hafa hert okkur og þroskað. Höldum við þeim þroska við með því að grípa til ofvaxinna, utanaðkomandi lausna í stað þess að takast af einurð á við þau skilyrði sem við búum við?


Óafturkræf náttúruspjöll eru afbrot gegn komandi kynslóðum. Fórnin er jafnörugg og dauðinn, ávinningurinn jafntraustur og hagfræðin. Einhliða dýrðarmynd virkjunarsinna getur ekki staðist. Það er lífsnauðsynlegt að átta sig á því að náttúruperlur eru verðmæti í sjálfum sér, ofar efnahagslegum rökum, rétt eins og þjóðerni og tunga. Við getum ekki leyft okkur að taka þær frá komandi kynslóðum. Með tímanum má auk þess með gætni hafa margvíslegan hagnað af þeim. Hugsanlegur ábati af virkjun og álveri hefur skammtímagildi, uppsveiflu sem jafnvel þarf að hemja um hríð, og næga atvinnu um hluta af Austfjörðum í nokkur ár. Allt þar umfram er umdeildur ávinningur sem fæst með varanlegri eyðileggingu.


Stephan G. Stephansson varaði við að láta langtímaframför víkja fyrir skammtímahag. Menn skyldu "hugsa ekki í árum en öldum, / að alheimta ei daglaun að kvöldum / - því svo lengist mannsævin mest". Stephan skyggndist lengra um framtíðina en aðrir. "Það er ekki oflofuð samtíð, / en umbætt og glaðari framtíð / sú veröld, er sjáandinn sér." Hann sneiðir að samtíðarhroka, þeirri blekkingu að hugsunarháttur augnabliksins sé hinn eini rétti, að stundargróði dagsins sé mikilvægari en framför aldanna.


Markaðssamfélagið er staðreynd hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ekki verður komist hjá þeim skilyrðum sem það býr okkur. Alræði hagnaðarsjónarmiða og óheftrar samkeppni byggist á frelsishugmyndum sem hafa snúist upp í andhverfu sína og ógna lýðræðinu. En við verðum alltaf að taka ígrundaða afstöðu í málum sem snerta umhverfi okkar, menningu, lífshætti og afkomu. Þær spurningar eru víðtækari en svo að eingöngu megi taka mið af hagkvæmni. Smæð og sérstaða eru styrkur okkar gagnvart einsleitum heimi. Missi sérstaðan lit og smæðin víki fyrir álrisum getur svo farið að ekkert haldi mönnum hér lengur. Vilji menn vinna spjöll á náttúrunni í hagnaðarskyni verður að reikna með fórnirnar sem færa þarf og hætturnar sem því fylgja. Til þess höfum við skynsemina að meta aðstæður í heild í stað þess að lúta blindum lögmálum. Stephans G. sagði fyrir hundrað árum að hugur vor og elja færi helst í að reikna út ársvexti túskildings. Enn er sorglega langt þangað til framtíðarsýn hans rennur upp: "En fram líður að því, við aldanna þörf / - ei ársgróðann - metur hver líf sitt og störf".


Viðar Hreinsson