Tilvitnanir

"Fyrir fimmtíu og fjórum árum skrifaðir þú grein, þar sem kom fram mjög ákveðin framtíðarsýn. Hver er þín framtíðarsýn í dag?
"Ég held að stærstu möguleikar okkar liggi í að efla ferðaiðnaðinn. Þar eru ómældir möguleikar. Við þurfum ekki svo mikið. Það sem ég á við er að við eigum að leggja meira fjármagn í kynningu á landi og þjóð.
Það er allt of mikið lagt undir í stóriðju. Mér finnst að það eigi að gjalda varhug við að auka stóriðju hér á landi. Til langs tíma litið held ég að hægt sé að hafa meiri tekjur af grænni stóriðju og verndun á hreinleika landsins. Það er eins og þetta stóriðjudæmi sé ekki reiknað til enda - frekar en annað. Það virðist enginn spyrja: Hvað kemur út úr henni og hvað kostar hún okkur? Hvað ætlum við að bjóða upp á og á hvaða verði? Hvaða verð ætlum við að fá fyrir landið þegar við erum búin að eyðileggja það með stóriðju?"
Gunnar Helgason hrl. Traustir skulu hornsteinar hárra sala í viðtali við Súsönnu Svavarsdóttur í Mbl 30. ágúst 1998 (24. ágúst 2004)

"Megi þjóðin eignast stjórnmálamenn sem láta sér annt um vistkerfi landsins, fegurð þess, dulúð og dásemdir..."
Guðmundur Páll Ólafsson, Um víðerni Snæfells, 2003

"Hún [Siv] lagði áherslu á að friðlýsingin sem slík væri ekki eiginleg friðun svæðisins, heldur væri um að ræða viljayfirlýsingu þingsins til friðunar, eftir væri að hafa samráð við alla hagsmunaaðila..."
Mbl. 28. október 2003, bls. 20
Fundarmenn í Reykjanesbæ áttu erfitt með að skilja "hver tilgangur friðlýsingarinnar væri, ef hann væri ekki að friða svæðið"... Er það nema von.

"Svo skrýtið sem það er þá fjalla fjölmiðlar mjög lítið um fyrstu skref virkjana þannig að manni bregður illilega í brún þegar allt í einu sjást stórvirk tæki og tól komin á staði sem maður taldi að fengju að vera í friði eitthvað lengur fyrir einni af höfuðsyndunum sjö, Græðginni."
Sesselja Guðmundsdóttir, Langisjór - Hellisheiði - Dyngjur - Brennisteinsfjöll Mbl. 11. nóvember 2003, bls. 40

"...hlutverk fjölmiðla er að færa okkur borgurunum upplýsingar, ekki innihaldslaus gífuryrði sem engin innistæða er fyrir. Þegar fjölmiðill lætur til leiðast að fjalla um haldlausar niðurstöður kannana eins og þar fari vel undirbyggðar rannsóknir á "hug" almennings er hann að bregðast upplýsingaskyldu sinni en gerist um leið leiðitamt verkfæri í höndum afla sem sjá sér hag í að móta skoðanir okkar almennra borgara sér í hag. Áhrifamáttur fjölmiðla í nútímasamfélagi er mikill og skyldunni um að upplýsa fylgir jafnframt skylda til að forðast að blekkja með villandi fréttaflutningi."
Sigurgrímur Skúlason, Eru niðurstöður ávallt fréttaefni? Mbl. 29. nóvember 2003, bls. 53

"Lýsir Friðrik því í bréfi til Guardian að hann skilji illa af hverju blaðakonan skuli gera mikið úr því að umhverfisráðuneytið hafi vísað henni á Sigurð Arnalds, starfsmann Landsvirkjunar, til að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar. Telur Friðrik að þarna hafi blaðakonuna skort skilning á íslensku samfélagi og menningu og jafnvel hafi tungumálaörðugleikar eitthvað spilað inn í. Þarna hafi ráðuneytið vísað á sérfræðing í málinu og sé slíkt alþekkt í smáum samfélögum."
DV 11. desember 2003, bls. 10

"Stórbrotið landslag, fjallendi, jökull, votlendi og áreyrar. Fjölbreyttar búsvæðagerðir, mýrar, flár, flæðiengi, vötn, tjarnir og sífreri á hálendi allt upp í 1100 m hæð. Þjórsárver er einstætt vistkerfi á heimsvísu enda afar tegundaríkt og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Þjórsárver eru ein stærsta og jafnframt ein einangraðasta gróðurvin á miðhálendi landsins. Afar fjölbreytt gróðursamfélag... Innan svæðisins eru í Þjórsá fossarnir Kjálkaversfoss (Hvanngiljafoss), Dynkur og Gljúfurleitarfoss. Hver um sig er sérstakur og saman eru þeir afar áhugaverðir sem fossaröð í stórfenglegu landslagi.
Þjórsárver og nálæg svæði hafa verið skert vegna virkjanaframkvæmda. Af þeim sökum hafa ár og lækir orðið fyrir verulegum áhrifum, vatnsmagn Þjórsár er mun minna og hefur það áhrif t.d. á fossa í ánni. Hugmyndir um virkjanir ógna svæðinu."

Úr tillögum Umhverfisstofnunar að vernd í drögum að náttúruvernaráætlun: Þjórsárver og Þjórsá - stækkun friðlands
Umhverfisráðherra hefur enn ekki valið að verja Þjórsárverin um ókomna tíð...

"Heimsmynd rúna er vistfræðilegs eðlis, ólíkt kabalískum og kristnum töfrahefðum, því rekja má einstök rúnatákn til náttúru og náttúruafla, til ákveðinnar náttúrusýnar: Að lífið streymir hingað eins og af sjálfu sér, en skapar stöðugt nýjar myndir; kemur sjálfkrafa og er sjálfu sér líkt, er annað og nýtt, en þó samt við sig, líkt og alltaf áður; hvort sem er í hvínandi brjálæði norðlægra vetra eða grænloga suðræns sumars. Í þessu býr vitund um hjól sem ekki má bresta, bóndahugsun, enda er sem náttúrumögn og guðdómar renni saman. Bændur hafa alltaf vitað manna best að æ sér gjöf til gjalda, að mönnum er óhollt að mæða jörðina með offrekju, láta sér þrútna metnað og níðast á eða fleyga hana stálum í ofstopa. Sá sem slíkt gjörir fær sköpum að mæta svo um munar."
Matthías Viðar Sæmundsson, Goðmögn og töfratákn Lesbók Mbl. 7. febrúar 2004, bls. 4-5

"Vísindamenn frá Kanada, Evrópu, Rússlandi og Japan vonast nú til að vera komnir nálægt því að líkja eftir krafti sólarinnar og búa til aðferð til þess að framleiða endalausa orku á jörðinni. ... Rannsóknin mun starfa í 20 ár, og á þeim tíma munu vísindamenn fylgjast með eins konar hægri vetnissprengju, sem mun framleiða gríðarlegt magn af orku úr aðeins smávægilegum skammti af þungu vatni. ... Samlíkingin við sólina á við rök að styðjast: þegar tvö vetnisatóm sameinast og verða að helíum myndast gríðarlegur hiti. Á hverri sekúndu breytir sólin um 600 milljón tonnum af vetni í helíum og nær þar með að lýsa upp og hita jörðina úr 140 milljón kílómetra fjarlægð. Til mikils er að vinna. Ef vísindamenn ná að framleiða orku með þessum hætti, sem er flókið og tæknilega erfitt, yrðu gróðurhúsaáhrif úr sögunni, og ekki þyrfti heldur framvegis að hafa áhyggjur af geislavirkum úrgangi úr kjarnorkuverum. Hráefni, ef svo má að orði komast, fyrir vetnissamrunann - þungt vetni - má finna í hafinu. Eitt kíló af slíku myndi nægja til þess að búa til jafn mikla orku og úr 10 milljón kílóum af eldsneyti, eins og bensíni. Bjartsýnustu menn telja líkur á að slík orkuframleiðsla með vetnissamruna verði orðin að raunveruleika eftir 30 ár."
Úr Reynt að skapa endalausa orku í Fréttablaðinu 4. desember 2003, bls. 18. Byggt á grein í The Guardian, Europe aims for endless energy um Iter-tilraunaverkefnið

"Því miður er svo oft sett samasemmerki milli náttúruverndarsinna og öfgafólks og það er ótrúlega þreytandi þegar maður fær yfir sig skítkast þegar maður segist vera náttúruverndarsinni. Öfgafólk finnst alls staðar, bæði hjá þeim sem eru á móti risavirkjunum á borð við Kárahnjúkavirkjun og hjá þeim sem eru hlynntir þeim. Ég tala ekki fyrir hönd allra annarra náttúruverndarsinna og ég er alls ekki sammála öllu því sem aðrir náttúruverndarsinnar segja. Ég er mjög glöð yfir því að þessi vefur er kominn á laggirnar en verð þó að segja að það er ekki gaman að lesa órökstuddar skammarræður þar sem náttúruverndarsinnar í gegnum tíðina eru rakkaðir niður. Við sem berjumst fyrir náttúruverndarmálum í dag erum með okkar eigin skoðanir. Það er mjög gott og nauðsynlegt að fá öll sjónarmið og hollt fyrir alla að viðra sínar skoðanir en skítkast er algjörlega ónauðsynlegt. Annars er mikið af athyglisverðu efni hérna og ég hlakka til að fylgjast með komandi umræðum."
Rannveig Magnúsdóttir, ummæli af umræðusvæði Náttúruvaktar, 28. júlí 2003

"Það er þessi íslenska þögn, svo lífgefandi á öræfum uppi, en að sama skapi þrúgandi í opinberri umræðu. Þess vegna er okkur lífsspursmál að eiga fjölmiðla sem halda vöku sinni, sem upplýsa okkur um gang mála í þessu litla en lokaða samfélagi okkar og hafa úthald og siðferðisþrek til að fylgja málum eftir og afhjúpa þegar brögð eru höfð í frammi. Hin skrínlagða heimska má aldrei ná að ríkja yfir Íslandi."
Pétur Gunnarsson, Hin skrínlagða heimska, Snæfellsblað Glettings 1998 (og 31. mars á Rás 1 sama ár)