Þjórsárver

Sátt um virkjanir og náttúruvernd eftir Gísla Má Gíslason
"...Morgunblaðið nefnir sérstaklega Þjórsárver og andstöðu við virkjanaáform þar. Um Þjórsárver er það að segja að um verndun þeirra náðist samkomuleg, sem m.a. fólst í því að nýta vatn Þjórsár með því að veita því í Þórisvatn og hlífa verunum vestan Þjórsár. Þjórsárver voru friðlýst 1981 samkvæmt Náttúverndarlögum og síðar tilnefnd sem alþjóðlega mikilvægt votlendi samkvæmt Ramsarsamningnum,sem felur í sér alþjóðlegar skuldbindingar um verndun þeirra. Þjórsárver fengu mjög háa einkunn sem náttúruverðmæti í 1. áfanga Rammaáætlunar, en meðaleinkunn hvað varðar hagnað og litla orkugetu (sambærilegt við Kröflustöð). Einnig fengu Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Dal og Markarfljót háa náttúruverndareinkunn, sem og nokkur jarðhitasvæði (t.d. Torfajökulssvæðið)."
[...]
"...Ef farið verður í framkvæmdir á Norðlingaölduveitu og nýjum áfanga Kvíslaveitu verður bætt við, er verið að seilast inn í Þjórsárver vestan Þjórsár í bága við samkomulagið frá 1981. Aukning í rafmagnsfamleiðslu verður lítil eða engin ef ekki er hægt að geyma vatnið í Þórisvatni, en það hefur orðið fullt á tímabilinu frá mars og fram í júní síðan seinasta áfanga Kvíslaveitu var lokið árið 1996. Því virðist Norðlingaölduveita vera ásókn Landsvirkjunar í vatn sem ekki er hægt að nýta nema að litlum hluta. Norðlingaölduveita er í andstöðu við niðurstöðu 1. áfanga Rammaáætlunarinnar. Þarna er Landsvirkjun að vinna gegn markmiðum iðnaðar- og umhverfisráðherranna að ná sátt um virkjanaframkvæmdir. Er ekki kominn tími til að Landsvirkjun sætti sig við niðurstöður 1. áfanga Rammaáætlunar, þeirrar sáttagerðar sem Morgunblaðið er að kalla eftir?"
(Mbl 30. júlí 2004, bls. 30)
Höfundur er prófessor í vatnalíffræði við HÍ, formaður Þjórarveranefndar og starfaði í faghópi um náttúru- og minjavernd Rammaáætlunar


Haustið 2003: Þjórsárver og Þjórsá - tillaga að stækkun friðlands

"Stórbrotið landslag, fjallendi, jökull, votlendi og áreyrar. Fjölbreyttar búsvæðagerðir, mýrar, flár, flæðiengi, vötn, tjarnir og sífreri á hálendi allt upp í 1100 m hæð. Þjórsárver er einstætt vistkerfi á heimsvísu enda afar tegundaríkt og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Þjórsárver eru ein stærsta og jafnframt ein einangraðasta gróðurvin á miðhálendi landsins. Afar fjölbreytt gróðursamfélag [...]

Innan svæðisins eru í Þjórsá fossarnir Kjálkaversfoss (Hvanngiljafoss), Dynkur og Gljúfurleitarfoss. Hver um sig er sérstakur og saman eru þeir afar áhugaverðir sem fossaröð í stórfenglegu landslagi.

Þjórsárver og nálæg svæði hafa verið skert vegna virkjanaframkvæmda. Af þeim sökum hafa ár og lækir orðið fyrir verulegum áhrifum, vatnsmagn Þjórsár er mun minna og hefur það áhrif t.d. á fossa í ánni. Hugmyndir um virkjanir ógna svæðinu."
Úr tillögum Umhverfisstofnunar að vernd í drögum að náttúruverndaráætlun: Þjórsárver og Þjórsá - stækkun friðlands


Áskorun til ríkisstjórnar Íslands um verndun Þjórsárvera 30. október 2002

"Þjórsárver eru einstakt svæði á heimsmælikvarða (...) Í Þjórsárverum er eitt víðáttumesta og fjölbreyttasta gróðursvæði á hálendinu og hýsir mesta heiðagæsavarp í heimi. Þýðing þessarar gróðurvinjar fyrir náttúruauðlegð Íslands og alls heimsins er ótvíræð enda er hún á svonefndri Ramsarskrá sem er alþjóðlegur samningur um náttúruvernd og gildir um votlendi er hafa alþjóðlegt mikilvægi, einkum fyrir vatnafugla. (...) Undirrituð átelur Landsvirkjun harðlega fyrir þá háskalegu aðför að Þjórsárverum sem fyrirhuguð Norðlingaölduveita felur í sér og skorar á ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir þessi virkjunaráform og verða við kröfum um stækkun friðlands í Þjórsárverum"

Sjónarmið fólks - eitt sjónarmið
"Það er alveg jafn sárt að sjá aðfarirnar að Kárahnjúkum. Að frekjast áfram með náttúruspjöll nú til dags er glórulaus tímaskekkja sem fer illa með framtíðarhorfur okkar allra í landi ósnortinnar náttúru og orðstír landsins út á við; að ég tali nú ekki um tiltrúna á stjórnmálamenn. Hvað hefur komið yfir ykkur? Dreymir ykkur bara um ál og gróða?"

Baráttunni fyrir verndun Þjórsárvera er fráleitt lokið!