Snæfellsöræfi

Vesturöræfi - Snæfell - Eyjabakkar

"Fjölbreytilegt landslag, jarðmyndanir og lífríki. Vel rannsakað svæði. Hátt verndargildi." (bls. 34)

Samkvæmt ljómandi snotru og skorinorðu hefti sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir umhverfisráðuneytið og lauk við í mars 2003, Náttúrufar og verndargildi náttúrufyrirbæra norðan Vatnajökuls (yfirlit) eftir Snorra Baldursson, Helga Torfason og Hörð Kristinsson, er verndargildi náttúrufars Snæfellsöræfa HÁTT.

"Verndargildi svæðisins er ótvírætt (11. tafla). Hluti svæðisins, þ.e. Kringilsárrani, er friðland samkvæmt lögum frá 1975 sökum mikilvægis fyrir hreindýr og vegna ummerkja um framhlaup Brúarjökuls. Í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndun tegunda og svæða vegna náttúruverndaráætlunar er lagt til að Snæfellsöræfi að viðbættum austurhluta Brúardala auk Kringilsárrana verði vernduð sakir "Alþjóðlegs náttúruverndargildis, sérstæðs landslags og sjaldgæfra jarðmyndana, fjölbreyttra og tegundarríkra vistgerða og lífríkis" (Ólafur Einarsson o.fl. 2002)." (bls. 35)

Mat á verndargildi náttúrufars Snæfellsöræfa (11. tafla):
ÁSÝND LANDS:
hátt = LANDSLAG : Snæfell, Dimmugljúfur, fossar, Kárahnjúkar, farvegur Jöklu og umhverfi;
hátt = GRÓÐURÞEKJA: óvenju samfelldur öræfagróður;

hátt = JARÐMINJAR: sethjallar eftir fornt jökullón, hlaupfarvegur og gljúfur, jökulgarðar, hraukar og ungar jökulmyndanir;

hátt = VISTGERÐIR: giljamóar (tegundarík vistgerð) útbreiddir, votlendi á Vesturöræfum;

SJALDGÆFAR TEGUNDIR:
hátt = PLÖNTUR: a.m.k. 16 sjaldgæfar plöntutegundir finnast á svæðinu;
miðlungs = FUGLAR: fimm tegundir á válista;
hátt = SMÁDÝR: mjög fjölbreytt, margar láglendistegundir ná inn á hálendið;

MIKILVÆGAR TEGUNDIR OG STOFNAR:
hátt = HEIÐAGÆS: um 2.200 varppör nýta svæðið (um 4,3% af stofni); um 10.000 fuglar fella flugfjaðrir á Eyjabökkum (3-4% af stofni);
hátt = HREINDÝR: um 1.500 dýr (helmingur íslenska stofnsins nýtir svæðið vor og sumar).