10. desember 2004
Nokkrar hugleiðingar í tilefni af grein Þorvarðar Árnasonar, siðfræðings, "Náttúran sem siðfræðilegt hugtak"
eftir Jakob Björnsson

1. Inngangur

Þorvarður Árnason, siðfræðingur, ritar grein í blaðið "Landabréfið" nr. 18 - 19 2002 sem nefnist "Náttúran sem siðfræðilegt viðfangsefni". Greinin reifar hugmyndir manna um þetta efni síðustu aldirnar, með áherslu á hugmyndum sem fram hafa komið á síðari hluta 20. aldar. Greinin er skilmerkileg og hlutlæg og gefur ókunnugum allgott yfirlit yfir hugmyndir manna í þessu efni. Höfundur leggur áherslu á að kynna hugmyndir fremur en að láta sjálfur beint í ljós sínar skoðanir í þessu efni enda þótt vel megi ráða í þær af efnistökunum.

Hér á eftir fara nokkrar hugleiðingar sem komu fram við lesturinn.

2. Óskilgreind eða illa skilgreind hugtök

Það er haft eftir vitrum manni að 90% alls rifrildis í heiminum eigi rót sína að rekja til þess að deilendur séu ekki að tala um sama hlutinn. Þótt það væri aðeins hálfur sannleikur hefði það gífurlegan sparnað í för með sér í tíma og fyrirhöfn að byrja á að koma sér saman um það, um hvað umræðuefni snýst áður en menn byrja að ræða það.

Í grein Þorvarðar eru allmörg dæmi um óskilgreind eða illa skilgreind hugtök. Til dæmis gildi og verðmæti. Þessi orð koma víða fyrir í greininni. Þar eru þau notuð eins og þau hafi sjálfstæða merkingu, þ.e. merkingu óháða því fyrir hvern gildið, eða verðmætið, er eða hver metur það. Gildi og verðmæti eru metanlegar stærðir en ekki mælanlegar. Við getum ekki lagt eitthvað á sjálfvirka gildisvog og fengið gildið skráð sjálfkrafa í tölvuskrá eins og við getum þegar við viljum mæla þyngd einhvers hlutar. Einungis menn hafa forsendur til að meta gildi eða verðmæti. Annað dæmi er orðin "skemma" og "eyðileggja". Hvað er átt við með þeim í því samhengi sem hér um ræðir?

Á bls.64 segir Þorvarður: "Hyrfi maðurinn af yfirborði jarðar væri náttúran eftir sem áður uppfull af verðmætum, t.a.m. þeim sem felast í nytjum einnar "ómennskrar" lífveru fyrir aðra eða í því gildi sem hver lífvera, hver tegund og hvert vistkerfi býr yfir sem slík". Hvernig er unnt að fullyrða um slíkt ef engir menn eru lengur til að meta slík gildi? Hvaða gildi, eða verðmæti, höfðu t.d. risaeðlurnar "sem slíkar" á sinni tíð? Hverjir voru til að meta það gildi?

3. Náttúran er dýnamísk en ekki statísk

Af grein Þorvarðar verður helst skilið að ef ekki væri maðurinn til að "skemma" og "eyðileggja" náttúruna héldist hún í "góðu" ástandi. Og meðal annarra orða: Hvað merkja þessi tvo orð? Þau merkja breytingar sem maðurinn telur óæskilegar. Hann einn hefur forsendur til að leggja mat á það.

En náttúran er mjög fjarri því að vera statísk, óbreytileg. Hún breytir sér ár og síð og alla tíð. Stundum svo löturhægt að maðurinn tekur varla eftir breytingunum en stundum svo hratt að það ofbýður viðbragðsflýti hans. Heimaey breyttist meira á einni janúarnóttu 1973 en á næstu sex þúsund árum þar á undan.

Sífelldur breytileiki náttúrunnar gerir það nauðsynlegt að skoða breytingar af mannavöldum í ljósi náttúrulegra breytinga. Einnig er nauðsynlegt að skoða mörg hugtök sem Þorvarður notar í ljósi þeirra. Hvað er til dæmis átt við með "velferð náttúrunnar og/eða þeirra lífvera sem í henni búa" með þessar sífelldu breytingar sem bakgrunn? Hafði t.d. útdauði risaeðlanna á sinni tíð áhrif á þá velferð og þá hver? Þorvarður segir hina visthverfu horfa "fyrst og fremst til varðveislu náttúrulegra heilda á borð við vistkerfi og tegundir". En náttúran sjálf breytir þessum vistkerfum í sífellu og hún hefur sjálf útrýmt fjölda tegunda og vistkerfa án þess að maðurinn kæmi þar nærri. Eru breytingar af mannavöldum sjálfkrafa "verri" en náttúrulegar breytingar og, ef svo er, af hverju? Á hvern hátt verri? Hvað er "varðveisla" í síbreytilegum heimi?

4. Maðurinn drottnari náttúrunnar?

Þorvarður segir: "Náttúran, sem var til skamms tíma margfaldur ofjarl mannsins, er nú mikið til umsetin af honum".

Vissulega hefur vald mannsins aukist á síðari tímum en náttúran er samt ennþá "margfaldur ofjarl mannsins". Allt tal um annað er hreint bull. Maðurinn getur ekki einu sinni komið í veg fyrir, eða stöðvað, Skeiðarárhlaup, hvað þá stýrt útgeislum sólar sem úrlitum ræður um allt líf á þessum hnetti okkar, jörðinni. Hlutfallslega litlar breytingar á henni geta þurrkað allt líf á jörðinni út, annaðhvort með því að frysta það í hel eða steikja það í hel eftir því í hvora átt breytingar á útgeislun sólar ganga.

5. Húmanisminn

Þorvarður rekur snemma í grein sinni aðalhugsun húmanismans. Húmanisminn var mótaður á tíma þegar máttur mannsins var miklum mun minni en hann er í dag og þegar hnattræn hugsun var mun skemmra á veg komin en nú. Sú grundvallarhugsun húmanismans að allir menn eigi kröfu á og rétt til virðingar og tillitssemi er vissulega enn í fullu gildi. En þörf kann að vera á að árétta að þetta sé réttur manna um alla jörð, borinna og óborinna. Þetta síðasta, að komandi kynslóðir eigi líka rétt á tillitssemi okkar sem nú lifum, er orðið nauðsynlegt að taka fram vegna þess hve máttur mannsins til að móta sjálfur framtíð sína og afkomenda sinna hefur vaxið gífurlega. Aðgerðir okkar í dag geta skipt sköpum fyrir líf afkomenda okkar; ekki bara fyrir okkur sjálf. Til þess verðum við ávallt að taka tillit í ráðstöfunum okkar og gerðum öllum.

Húmanisminn á rætur sínar í kristnum dómi enda þótt hann sé í eðli sínu sammannlegur. Það er kristindómurinn raunar líka hvort sem menn játa hann sem trúarbrögð eða ekki. Allir menn kjósa heldur að verða aðnjótandi kærleika en óvildar og haturs. En kjarni kristinsdómsins er einmitt kærleikur.

Í Fyrstu Mósebók segir svo um samskipti mannsins við náttúruna:

"Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."

Þetta er býsna ákveðinn boðskapur um hvernig manninum beri að umgangast náttúruna og afdráttarlaus guðleg heimild til handa manninum í því efni. Heimild sem felur í sér mikið traust til mannsins. Margir hafa átt erfitt með að sætta sig við svo mikið vald manninum til handa, að því er virðist í fljótu bragði án skilyrða. En því fer fjarri að Guð hafi fengið manninum þetta vald yfir náttúrunni án þess að gera kröfur til hans á móti. Þær kröfur Guðs á hendur manninum er að finna í boðorðinu:

"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."

Þetta er engin smáræðiskrafa. Í nær tvö þúsund ár hefur það verið að bögglast fyrir manninum hver sé náungi hans. Til að auðvelda skilning hans á því eru til dæmisögur sem miðast við aðstæður sem menn þekktu úr daglegu lífi þegar þær voru sagðar. Á okkar hnattvæddu og tæknivæddu tímum kemur vart annar skilningur á þessu hugtaki til greina en sá, að allir jarðarbúar séu náungar okkar, bæði þeir sem nú lifa og þeir sem á eftir koma.

Að allir núlifandi jarðarbúar eru náungar okkar táknar að okkur ber að beita því valdi sem Guð hefur gefið okkur til að nýta auðlindir náttúrunnar með þeim hætti að nýtingin komi ekki aðeins okkur sjálfum heldur öllum núlifandi jarðarbúum til góða. Okkur ber því að stuðla að því að allir jarðarbúar búi við jafngóð kjör og við sjálf. Okkur ber að vinna að því að útrýma örbirgð og fátækt í þróunarlöndunum.

Að óbornir jarðarbúar eru einnig náungar okkar leiðir af sér að okkur ber að nýta auðlindir jarðar og mæta þörfum núlifandi kynslóðar án þess að með því sé spillt möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.

Hugsunin að baki hugmyndinni um haldbæra þróun, eins og hún er skilgreind í Brundtlandsskýrslunni frægu, er þannig kristin hugsun; grundvölluð á boðorðinu um að elska náungann eins og sjálfan sig. Það er athyglisvert þegar þess er gætt að í Brundtlandsnefnd Sameinuðu þjóðanna sátu menn með ólík trúarbrögð. Það bendir til að þessi grundvallarhugsun sé ekki bundin við kristindóminn einan.

Grundvallarsiðaboðið í samskiptum mannsins við náttúruna gæti því hljóðað þannig:

Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.

En gjörið þetta með þeim hætti sem ber vott um að þið elskið náunga ykkar eins og ykkur sjálf. Náunga ykkar um alla jörð, borinn og óborinn.

Ég held því fram að þetta feli í sér alla þá siðfræði í skiptum mannsins við náttúruna sem hann muni nokkru sinni þurfa á að halda.

Þetta er hinn sanni húmanismi. Við þurfum ekki á öðrum húmanisma að halda.

Í þessu ljósi hefði niðurlag fyrstu grundvallarreglu Ríó-ráðstefnunnar átt að hljóða þannig:

"Sú viðleitni að koma á haldbærri þróun varðar allt mannkynið. Því ber réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við eigin samvisku og komandi kynslóðir". Því að við lifum ekki í sátt við komandi kynslóðir ef við eyðileggjum fyrir þeim umhverfið.

6. Skyldur okkar

Skyldur okkar eru við ofangreint siðaboð, eigin samvisku og komandi kynslóðir. Uppfylling á þeim skyldum leiðir svo af sér ákveðna hætti í samskiptum okkar við náttúruna. En skyldur okkar eru við menn, borna og óborna, en ekki náttúruna. Það er sjálft inntak húmanismans. Uppfylling á þessum skyldum tryggir hinsvegar að við "fórnum" ekki náttúrunni. Því ef við "fórnum" henni "fórnum" við manninum um leið. Maðurinn þarf á náttúrunni að halda en hún ekki á honum.

Við getum síðan gleymt öllu rugli um að dýr, plöntur eða jafnvel dauðir hlutir í náttúrunni geti tekið að sé hlutverk siðferðisveru. Gleymt djúpvistfræðihugmyndum og öðrum álíka endaleysum.

[Grein Þorvarðar má finna í Landabréfinu 18-19:1]