Lagasmuguaðförin að náttúrunni
- í skjóli bráðabirgðaákvæðis laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum lagði umhverfisráðuneytið blessun sína yfir stækkanir virkjana, lóna og jarðvarmavirkjanir án umhverfismats á árunum 1995-1997

- 1999 var reynt að smeygja 330 MW virkjun, Fljótsdalsvirkjun, í gegnum þessa smugu fram hjá umhverfismati svo hægt væri að sökkva Eyjabökkum "löglega"...

- 13. maí 2000 voru ný lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum loks sett

- 1. ágúst 2001 féll afdráttarlaus úrskurður Skipulagsstofunar um Kárahnjúkavirkjun og svarið var NEI - vegna verulegra, óafturkræfra, neikvæðra umhverfisáhrifa.

- ...og fréttastofa ríkissjónvarpsins brást enn upplýsingaskyldu sinni... Kastljósþáttur sama ágústkvöld 2001 um úrskurðinn sem Landsvirkjun og stjórnarherrum líkaði ekki en síðan ekki söguna meir það árið. Ekki þáttur um úrskurð umhverfisráðherra í desember sama ár né yfirleitt neinn þáttur um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar fram að atkvæðagreiðslunni á Alþingi í apríl 2002. Reyndar ekki neitt fyrr en í des. 2002...

- 20. des. 2001 snýr umhverfisráðherra úrskurði Skipulagsstofnunar í lagaskjólinu:

Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á gróðurlendi sem fer undir Hálslón og áhrif þess á gróður og dýralíf - á farveg Jökulsár á Dal og Hafrahvammagljúfur - á breytingar á grunnvatnsstöðu við veitingu Jökulsár á Dal til Jökulsár í Fljótsdal - á gróður og fugla með Lagarfljóti og Héraðssandi - á gróður og fugla með Jökulsá á Dal og á Úthéraði - á landbúnað - á lífsskilyrði í Lagarfljóti - á breytingar á ferskvatnsrennsli og aurframburð í Héraðsflóa - á náttúruverndarsvæði - á víðerni norðan Vatnajökuls og landslagsheildir - á ferðamál - á útivist og hugmyndir um stofnun þjóðgarða - á fossa - á hreindýr - á landseli - á fornminjar hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni til vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni.

- 20. des. 2001 er haft eftir Friðriki Sophussyni í Mogga: "það ekki koma á óvart að umhverfisráðherra hafi snúið við úrskurði skipulagsstofnunar varðandi Kárahnjúkavirkjun og í raun fallist á lagarök Landsvirkjunar sem sett voru fram í ítarlegri greinargerð með kæru fyrirtækisins..."

- 20. des. 2001 er haft eftir Davíð Oddssyni í Mogga: "að úrskurður umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun sé fagmannlega unninn og lögfræðilega vel undirbyggður..."

- sept. 2003 þegar atkvæði hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps í viðleitni hennar til að verja Þjórsárver falla Landsvirkjun í óhag reynir orkufyrirtækið með aðstoð stuðningsráðuneyta að ganga fram hjá ákvörðun hreppsins með öllum ráðum og um leið að hafa áhrif á hreppsnefndina svo hún álykti "rétt"...

- 4. okt. 2003 er haft eftir Friðriki Sophussyni í Mogga: "Enda tel ég að þeir [NCC] skilji nú betur en áður að hér á landi er farið eftir ýtrustu kröfum um mat á umhverfisáhrifum".

Veruleg, óafturkræf, neikvæð umhverfisáhrif vegna Kárahnjúkavirkjunar eru ekki verðugt "tilefni" við umfjöllun umhverfisráðuneytisins. Kallast það "ýtrustu kröfur"? Fannst þingmönnum þetta snjallt?

Hvar endar þessi blekkingaleikur? Erum við að missa okkar heimsfrægu hálendisnáttúru í milljón tonna álpott?

Markaðsskrifstofa álvæðingar
Þegar vilji stjórnvalda er sterkur í virkjunarmálum - hvað er þá náttúrunni til varnar?