Athugasemdir við pistil Viðars Hreinssonar, Allra hagur? á Náttúruvaktinni
eftir Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóra


1

Viðar byrjar á að segja Í raun hafa aðeins tvær röksemdir verið tíundaðar fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri: efnahagslegur ávinningur og atvinnusköpun. Þriðja ástæðan leynist undir niðri. Tæknikunnáttan knýr á um verkið af því að það er tæknilega framkvæmanlegt.

Þessi þriðja ástæða held ég að sé hrein ímyndun. Það er t.d. tæknilega framkvæmanlegt að reisa tvíburaturna, eins og þá sem eyðilagðir voru í New York, á Vatnsendahæð við Reykjavík. Það er meira að segja engum sérstökum tæknilegum örðugleikum bundið. Þeir myndu vissulega taka sig vel út þar og setja svip á umhverfið. Ef þeir væru reistir og hugmynd kæmi fram um að rífa þá eftir fimm ár þar frá myndi hún mæta hörðum andmælum. Slík bygging væri himnasending fyrir arkitekta, verkfræðistofur og verktaka af öllu tagi. En engin slík hugmynd hefur komið fram. Fyrir slíku verki eru engar efnahagslegar forsendur. Því dettur engum slík hugmynd í hug í alvöru.

2

Viðar talar um tilfinningarök. Þetta orð er endaleysa. Tilfinningar eru eitt og rökhugsun annað. Tilfinningaástæður er gott og gilt orð en ekki tilfinningarök. Stærðfræði er fullkomnasta form mannlegrar rökhugsunar. Þar gætir tilfinninga ekki. En hvorttveggja er manninum jafnmikilvægt og hann getur án hvorugs verið. Tilfinningum hefur stundum verið líkt við aflvél í skipi en rökhugsun, eða skynsemi, við stjórnbúnað þess. Vélarvana skip er illa statt þótt stjórnbúnaðurinn sé í lagi, en skip með aflvélina á fullu, en stjórnlaust, er engu betur sett.

3

Viðar talar um nauðsyn þess að losa umræðuna um mikilvæg mál úr þröngum farvegum efnahagslegra og tæknilegra raka. Efnahagsleg og tæknileg rök eiga fullan rétt á sér en með því er ekki sagt að ekki megi ræða mál út frá öðrum sjónarmiðum líka. Enda er það ótæpilega gert. Átök og togstreita hafa fylgt manninum frá upphafi og eru veigamikill hluti af tilveru hans. Eitt togar í þessa átt í huga hans en annað í hina. Frá örófi alda hefur maðurinn haft uppi óskir sem rekast á innbyrðis. Til að öðlast eina tegund verðmæta þarf oft að fórna öðrum verðmætum. Ekkert er ókeypis. Því verður ekki breytt.

Not mannsins af náttúrunni eru margvísleg. Þau má greina í þrjá meginflokka: (1) Efnahagsleg not (Kárahnjúkavirkjun telst til þeirra), (2) þekkingarnot, þ.e. að svala eðlislægri forvitni mannsins með því að rannsaka náttúruna (sem stendur eru þetta einu not mannsins af Surtsey) og (3) fagurfræðileg not, þ.e. að fullnægja eðlislægri þörf mannsins fyrir að umgangast náttúru sem er ósnortin af athöfnum hans og skoða hana fyrir sakir fegurðar, mikilfengleika eða sérkenna, í því skyni að lyfta sé yfir hið hversdagslega.

Um þessi síðastnefndu not snýst í raun mestöll umræða nútímans um náttúruvernd. Mikilvægi þessara nota hefur farið vaxandi með fólksfjölguninni í heiminum, en þó sérstaklega með borgvæðingunni (urbanisation). Stórborgarbúi nútímans, sem lifir og hrærist í manngerðu umhverfi dag og nótt mestallt árið, lítur af eðlilegum ástæðum ósnerta náttúru öðrum augum en sveitamaðurinn sem hefur hana fyrir augunum á hverjum degi. Þarfir sveitamannsins fyrir þessi not voru uppfylltar af sjálfu sér. Öðru máli gegnir um stórborgarbúann sem dagsdaglega hefur aðeins hús, götur og torg og manngerðan gróður fyrir augunum. Maðurinn á götunni á Manhattan hefur ekki mikið af sólarlaginu að segja. Öðru máli gegnir um manninn á götunni í Reykjavík.

Þetta hefur smám saman leitt til þess að margir stórborgarbúar nútímans finna til þess sem kalla má fagurfræðilegt náttúrusvelti, þ.e. þeir nfinna til þess að geta ekki fullnægt sínum þörfum fyrir fagurfræðileg náttúrunot.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að öll átök og árekstrar út af náttúruvernd, eins og við þekkjum þá af umræðum í blöðum og annarsstaðar, eru í raun átök milli mismunandi náttúrunota. Maðurinn og þarfir hans skipta hér einar máli en ekki einhverjir þokukenndir hagsmunir náttúrunnar. Einungis menn hafa hagsmuni. Þeir, einir allra lífvera, eru færir um að leggja mat á hag sinn og hvað verða má honum til framdráttar. En vel að merkja: Ekki er aðeins um að ræða hagsmuni núlifandi manna heldur einnig eftirkomendanna.

Þessa fagurfræðilega náttúrusveltis gætir ekki á Íslandi, enda eru engar stórborgir hér og landið mjög strjálbýlt.

4

Viðar talar um að dreifðar byggðir séu þjóðarauðleggð. Það er í meira lagi hæpið. Dreifing byggðar ræðst fyrst og fremst af atvinnuháttum og tækni þeirra. Meðan samgöngur voru lélegar, flutningatækni frumstæð, útgerð stunduð á árabátum og landbúnaður með orfi og ljá og útibeit var það fólki blátt áfram lífsnauðsyn að búa í næsta nágrenni við þær náttúruauðlindir sem það nýtti, graslendi og fiskimið á grunnslóð. Dreifð byggð var því lífsnauðsyn. Hún hafði hinsvegar ókosti í för með sér svo sem erfiða aðdrætti á kaupstaðavöru og flutninga afurða í kaupstað, einangrun og erfið samskipti við annað fólk. Með breyttum atvinnuháttum breyttist byggðamynstrið. En margir, jafnvel ráðamenn, hafa átt erfitt með að skilja þetta samhengi og hafa talað um byggðaröskun og reynt, jafnvel fyrir opinbert fé, að standa gegn breytingunum. Að verulegu leyti án árangurs.

5

Viðar talar einnig um að stóriðju á Austurlandi sé ætlað að koma í stað þess að virkja austfirskan mannauð svo dugnaður og sköpunargáfa sem flestra geti notið sín&. Hér er sú bábilja á ferðinni sem margoft hefur sést í umræðunni að ein atvinnugrein komi í stað annarrar. Í reynd kemur ein atvinnugrein til viðbótar við aðrar en ekki í stað þeirra. Hversvegna í ósköpunum skyldi álver á Reyðarfirði hindra það að austfirskur mannauður sé nýttur? Hvernig í ósköpunum skyldi slíkt álver hindra að menntun og rannsóknir verði efldar á Egilsstöðum?

Þvert á móti. Hluti mannauðsins verður einmitt nýttur í álverinu. Margir ganga með rangar og úreltar hugmyndir um álver. Sannleikurinn er sá að nútíma álver á fátt nema nafnið sameiginlegt með álveri um miðbik 20. aldar. Því valda tækniframfarir; ekki síst framfarir í stýritækni á framleiðslunni. Það eru einmitt þær framfarir sem hafa gert álverinu í Straumsvík fært að draga úr losun sinni á flúorkolefnum, sem eru 6.000 til 9.000 sinnum virkari gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur, um meira en 90% frá 1990. Þessar tækniframfarir gera jafnframt auknar kröfur til menntunar starfsfólksins og breyta eðli vinnunnar í álverum. Gera hana tæknivæddari. Það á við um álvinnslu eins og margar aðrar atvinnugreinar að hlutur þjónustu fer þar vaxandi. Það, ásamt fleiru, gerir hana jafnframt kvenvinsamlegri.

Auðvitað munu ekki allir Austfirðingar starfa í álverinu. En það, ásamt sjávarútvegi og fiskvinnslu, mun mynda kjarnann í atvinnumálum fjórðungsins. Við hlið þess kjarna, og sumpart í tengslum við hann, mun svo margt annað þrífast. Þar á meðal menntun og rannsóknir og ferðaþjónusta. Reynslan frá öðrum álvinnslulöndum bendir ekki til að það tvennt geti ekki farið saman enda þótt fæstir ferðamenn komi sérstaklega til að skoða álverið eða Kárahnjúkavirkjun. Margir ferðamenn koma til Noregs og eru þar þó bæði mörg álver og margar virkjanir.

Viðar talar um að meirihluti Austfirðinga virðist kjósa að leggja örlög sín í hendur risafyrirtækis sem stjórnast af duttlungum heimsmarkaðs og arðsemi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn tala niður til Austfirðinga sem óvita sem viti naumast hvað þeir séu að gera. Það er ekki sæmandi. Og stjórnast ekki fiskmarkaðir erlendis og fleira líka af duttlungum heimsmarkaðs og arðsemi? Jafnvel allur heimsmarkaðurinn. Eigum við að snúa aftur til tíma Bjarts í Sumarhúsum í von um að geta verið óháðir því sem gerist í útlöndum?

6

Viðar segir : Ómetanleg verðmæti víkja fyrir einhliða efnahagsrökum. Það verður táknrænn atburður sem hefur þá merkingu að ekki taki því lengur að búa hér við þau skilyrði sem hingað til hafa dugað. Tilfinning sérstöðunnar dofnar og huglægar forsendur þess að búa í landinu rofna. Engin jökulfljót verða eftir fyrir Bjart í sumarhúsum að sundríða á hreindýri.

Hefur ekki öll viðleitni þjóðarinnar á 20. öld til að sækja fram til betri lífskjara haft þá merkingu að ekki taki því lengur að búa hér við þau skilyrði sem hingað til hafa dugað, þ.e. fram að þeim tíma að sú sókn til betri lífskjara hófst? Á ekki öll framfarasókn rót sína í óánægju með ríkjandi skilyrði? Ég held það. Er virkilega eftirsjá eftir því að ekki þurfi lengur að sundríða jökulsár á hreindýrum? Hvert var inntakið í lífi Bjarts? Þrældómur og örbirgð. Var sérstaða þess þrældóms og þeirrar örbirgðar eftirsjárverð? Nei. Ég tel ekki vera eftirsjá eftir því fátækrahverfi sem byggðin á Jökuldalsheiði var. Ekki fremur en eftir fátækrahverfunum í útjaðri Bombay, São Paulo eða Rio de Janeiro.

Ennfremur segir Viðar: Landið er afskekkt, harðbýlt og hrjóstrugt. Átökin við það, baráttan fyrir lífsbjörginni og menningarlífi hafa gildi í sjálfu sér. Þessir þættir hafa verið áskorun að takast á við og hafa hert okkur og þroskað. Höldum við þeim þroska við með því að grípa til ofvaxinna utanaðkomandi lausna í stað þess að takast af einurð á við þau skilyrði sem við búum við.

Hafði þrældómurinn og hungrið gildi í sjálfu sér? Ég held ekki. Vissulega höfum við týnt niður ýmsum vinnubrögðum sem tíðkuðust á sárustu fátæktarárunum. En þau voru svo sannarlega ekki þess virði að viðhalda fátæktinni þeirra vegna. Og við höfum lært ný vinnubrögð í staðinn, þar á meðal í togaraútgerð. Og munum læra enn ný í framtíðinni. Álvinnsla er okkur ekki ofvaxnari nú en togaraútgerð var okkur á fyrri hluta 20. aldar.

7

Viðar segir: Óafturkræf náttúruspjöll eru afbrot gegn komandi kynslóðum. Hvað eru náttúruspjöll? Voru það náttúruspjöll að byggja borg á Seltjarnarnesi og gerbreyta nesinu með því á óafturkræfan hátt og þurrka út ummerki ísaldarjökulsins þar? Eða að mylja hraunið við Hafnarfjörð niður í húsgrunna og byggja á því hús? Enginn mannlegur máttur fær endurskapað kynjamyndirnar í því hrauni. Eða að gera uppfyllingu undir breiðgötu í fjörunni framan við gömlu Skúlagötuna? Eða að leggja fjörur með fuglasöng og skeljum undir bryggjur, viðlegukanta, frystihús og fiskimjölsverksmiðjur víðsvegar um land? Eða.. Eða. Langflestar þessar aðgerðir eru óafturkræfar. Var þetta allt afbrot gegn komandi kynslóðum? Fáir held ég að svari þeirri spurningu játandi.

8

Það er vissulega rétt að mörg umsvif mannsins hafa áhrif á náttúruna sem kallast mega neikvæð þegar þau eru skoðuð í einangrun og án tillits til þess sem vinnst með þeim. En sú spurning sem máli skiptir er þessi: Er hætta á að við hér á Íslandi lendum í fagurfræðilegu náttúrusvelti? Það er ekki umdeilt að maðurinn hefur þörf fyrir að umgangast náttúru sem er ósnortin af athöfnum hans og skoða hana fyrir sakir fegurðar, mikilfengleika eða sérkenna, í því skyni að lyfta sé yfir hið hversdagslega. Til að halda andlegri heilsu. Munum við hér á landi lenda í vandræðum með að uppfylla þá þörf? Í mörgum þéttbýlum löndum hafa menn gert það. Þar verður fólk að ferðast til útlanda til að uppfylla hana.

Svarið er nei. Ísland er með strjálbýlli löndum í heiminum. Það er auðugt að mikilfenglegri og fjölbreyttri náttúru. Stór hluti þess er og verður óbyggður. Við munum því ekki lenda í slíku svelti þótt við virkjum þær orkulindir sem borgar sig efnahagslega að virkja og nýtum náttúruna til að veita okkur efnahagsleg gæði. En það þarf að gera skipulega. Brýna nauðsyn ber til að skipuleggja allt landið. Ekki síst hálendið. Og það þarf að gera fljótt.