Fjölmiðlar og valdið
Mikið er rætt um eigendur, auglýsendur og fjölmiðla um þessar mundir en næsta lítið um fjölmiðla gagnvart valdinu.

Úrskurður umhverfisráðherra 20. des. 2001 gerði fjölmiðla þegjandalega um jólin og fram eftir vori og þó átti Alþingi landsmanna eftir að fjalla um Kárahnjúkavirkjun...

Fjórða valdið sofnaði á verðinum eða þorði ekki að halda höfði. Hvað á maður að halda?

Hví var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar ekki lengur rædd í fjölmiðlum? Ekkert Kastljós um málið í heitlt ár... Hafði valdið talað? Löggjafarvaldið var það ekki neins virði? Eða var þetta hræðsla við að vekja almenningsálitið valdinu til vanþóknunar? Umræða var á þingi um vorið 2002 og atkvæði féllu að mestu eftir flokkslínum 8. apríl 2002.

Merkileg þessi fjölmiðlaþögn fram að því.

Upplýsingaskortur
Það hefur sannast að versti óvinur náttúruverndar og besti vinur verstu virkjunarframkvæmda í þágu stóriðju er upplýsingaskortur almennings enda leggja framkvæmdaaðilar og stuðningsráðuneyti þeirra yfirleitt ríka áherslu á að taka ákvarðanir fyrir luktum dyrum til að forðast almenningsálitið og vinna allan ágreining á tíma.

Skollaleikur
Þess utan gengur háskaleg mistúlkun á lýðræði í hæstu hæðarbrekkum eins og vírus í þrungnu lofti: Eða kannast ekki einhver við þessar kæfandi fullyrðingar "það er búið að ákveða þetta" eða "það þýðir ekkert að mótmæla"?

Umhverfisréttur og mannréttindi
Virkni og þátttaka almennings er meginatriði í náttúruverndarmálum en til þess þurfa upplýsingar að ná til almennings! Hver á að sjá um það? Frjáls félagasamtök um verndun náttúrunnar? Fjölmiðlar? Háskólasamfélagið? Umhverfis- og náttúrufræðistofnanir ríkisins? Hver er annars upplýsingaskylda Alþingis? Hví sefur Árósarsamningurinn í nefndum Alþingis?

Árósasamningurinn
Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samningurinn steinsefur á Alþingi í áralangri bið eftir staðfestingu. Hví skyldi það vera?

Baráttan
Baráttuna sjálfa gegn verulegum óafturkræfum spjöllum á náttúrunni hefur tilfinnanlega vantað betri upplýsingar og tíma, skipulagningu og alþýðukraft.

Fjölmiðlaumfjöllun
Hefur Landsvirkjun alltaf síðasta orðið? Sér Sagafilm um sjónvarpsfréttirnar fyrir Landsvirkjun, sér í lagi um framkvæmdir við Kárahnjúka? Hefur fréttamennska lagst niður? Sjá stjórnvöld og stórfyrirtæki um að mata fjölmiðla sem gengið hafa í barndóm? Hentar flýtifréttamennsku sem má ekki vera að neinu... ekki satt? Hvar er vönduð umfjöllun sem þorir og hvar er umhyggja fjölmiðla fyrir almannaheill eða þá náttúru landsins?