Vatnajökull; ísiþakinn dormandi eldrisi
eftir Ástu Þrleifsdóttur

Í umfjöllun um Kárahnjúkavirkjun hefur því jafnan haldið fram að virkjuninni muni ekki stafa hætta af eldvirkni. Orðrétt segir í matsskýrslu:

"Núverandi jarðfræðivitneskja bendir ekki til að um virkar eldstöðvar sé að ræða undir Vatnajökli á vatnasviði Jökulsár á Dal. Ólíklegt þykir því að komi til uppsöfnunar vatns, sem gæti brotist fram í einu vettvangi og valdið stórfelldum flóðum".

Vatnajökull er ísiþakinn eldrisi sem vakir og sefur á víxl. Rannsóknir á öskulögum frá Vatnajökuli sýna að eldvirkni í Jöklinum virðist vera í 200 ára hrinum. Ein hrina náði hámarki í kringum 1700, sú næsta um aldamótin 1900 en þá tók að draga úr eldvirkni og síðustu 50 ár hafa verið með allra rólegustu tímabilum í eldgosasögu Vatnajökuls. Ef síðustu þúsund ár eru skoðuð má leiða að því líkur að eldvirkni í Jöklinum muni fara vaxandi er líður á þessa öld.

Vatnasvið Jökulsár á Brú er mikið og þar af eru um 1000 km2 undir jökli. Áhrifa tveggja eldstöðvarkerfa gætir á vatnasviðinu. Annað kerfið nær frá Öræfajökli í suðri, norður um Esjufjöll, ofan við Brúarjökul í Snæfell. Hitt kerfið er Kverkfjöll, ein af virkari eldstöðvum landsins, sem gnæfa yfir Brúarjökul til vesturs. Erfitt er að staðsetja gos í gömlum heimildum með nokkurri vissu, því kunna sum þeirra eldgosa sem talin eru í Grímsvötnum hafi í raun átt uppruna sinn á syðsta hluta Kverkfjalla. Á kortum af eldstöðvakerfinu í Kverkfjöllum sést m.a. 20 km langur eldhrygg sem liggur til suðurs inná vatnasvið Jökulsár á Brú. Gos á þessum eldhrygg geta því valdið flóðum í Jökulsá á Brú.

Stundum virðast gos í Vatnajökli hafa orðið á vatnaskilum undir miðjum jöklinum, því hlaup hafi orðið samtímis, beggja vegna undan jökulröndinni. Ekki er ólíklegt að uppruni hins stóra og langvinna hlaups sem hófst 16. október 1963 hafi verið eldgos, án þess að menn yrðu þess varir, gosið hafi einfaldlega ekki náð yfirborði eða ekki sést en ummerki eldgos í jöklum hverfa á örstuttum tíma. Þá urðu miklar breytingar í Jökulsá á Brú, Jökulsá á Fjöllum og ám undan Síðujökli sem allar flæddu samtímis, gífurlega aurugar, sem er afar óvenjulegt seinni hluta október en þá eru jökulár venjulega vatnslitlar of þverrandi. Að þessu sögðu er rétt að skoða annál atburða í Jökulsá á Brú í ljósi þeirra framkvæmda sem nú eru hafnar.
Annáll nokkurra atburða í Jökulsá á Brú

Það er rétt mat að virkjuninni muni varla stafi hætta af hraunrennsli eða gjóskufalli enda mannvirkin fjarri eldstöðvum öðrum en Snæfelli, ef það skyldi rumska af löngum svefni. Það er ljóst að líftíma virkjunarinnar kann að vera hætta búin vegna hamfaraflóða svo sem hér er lýst í annáll þekktra framskriða og/eða eldvirknitengdra hlaupa í Jökulsá á Brú. Skortur er á heimildum framan af enda var lítið um annálaskrif á Austurlandi:

i. Hrafnskelssaga Freysgoða - mikið flóð braut náttúrulega steinbrú af ánni.

ii. Árið 1625 varð gífurlegt hlaup, gekk Jökulsá á Brú um 30 föðmum hærra en vant er og braut af sér brúna við Fossvelli. Á sama tíma varð vart umbrota í Vatnajökli. Líklegt verður að teljast að orsaka hamfarahlaupsins 1625 sé að leita í eldvirkni enda fylgdi líka mikill ókyrrleiki, jarðskjálftar.

iii. Árið 1638 sást til eldglæringa í austanverðum Vatnajökli. Hinn 27. febrúar kom upp eldur með ógurlegum loga austur á fjöllum svo loftið varð hvarvetna í glæringum, en vötn öll á Austurlandi fylltust flóði og báru mikinn vikur á sjó út , en fyrir því að þá var vetur og eldurinn var fáa daga uppi, þá máttu menn ekki vita hvar hann brann (Skarðsannáll).

iv. Árið 1695 varð mikið hlaup í ánni, brúnna tók af og var ný brú byggð og tekin í notkun árið1698 (Fitjaannál).

v. Um 1730 - líklegt framhlaup í Brúarjökli, vatnavextir, brak og brestir. Sveinn Pálsson lýsir þessu í Jöklariti sínu og tekur það sérstaklega fram að vatn Jöklu sé mjög ljótt, en það orð hefur lengi verið á Jöklu að hún sé allra áa skítugust og er þar átt við aurburð. Í Ferðabók Ólafs Ólavíusar er getið um óvenjuleg hlaup eða flóð í Jöklu sem standi með miklum vatnavöxtum í allt að 12 vikur.

vi. 1810 - framhlaup í Brúarjökli, töðuvaxnir haugar sem jökullinn braut niður í hlaupinu 1889-1890 eru sagðir myndaðir í þessu framhlaupi sem hlýtur því að hafa verið mikið.

vii. 21. ágúst 1872 heyrðust í Eiðaþinghá á Austurlandi og víðar dynkir og ógurlegir brestir, þeir voru tíðastir um morguninn og voru taldir 30 frá kl. 9-11 f.h.; brestirnir virtust vera í nónsstað og leiða til útsuðurs, í stefnu á öræfin upp af Fljótsdal. Töldu menn þetta vera eldgosabresti og umbrot í Brúarjökli eða einhversstaðar norðantil í Vatnajökli.

viii. Haustið 1883, 8. október sást á Hjeraði eldur í Vatnajökli, suðvestur af Snæfelli, í Kverkfjöllum?

ix. Árið 1890. Fyrir jól 1889, urðu menn varið við óvanalegan vöxt og jökulkorg í ám þeim sem falla undan Brúarjökli, fór að bera á miklum jökulleir, sem fór vaxandi. Um hátíðir var leirburður orðinn svo mikill, að ef sökkt var fötu í ánna og vatnið látið setjast, var nær helmingur jökulleðja. Sauðamaður frá Kóreksstöðum í Hjaltastaðaþinghá sá um nýjársleytið af fjallinu upp frá bænum, eld mikinn hlaupa upp í jöklinum, inn til Snæfells, eða að svipuðum stað og 1883.. Um sama leyti eða litlu síðar urðu menn varir við nokkra jarðskjálfta. Dunur og dynkir heyrðust líka um veturinn og vorið og eina helgi í júlí varð mikill jakaburður og vatnavöxtur í Jökulsá er hélst í nokkra daga. Skömmu síðar fóru tveir menn inn á Vesturöræfi og sáu þeir það að Brúarjökull var allur brotinn og hlaupinn út að Sauðá, á að giska 1,5 mílu frá fastajöklinum jökulbrúnin reis hátt eða eina 60-70 metra og hafði flett upp og yfir sig grónu landi. Í suðvestur af Snæfelli sást í gjáarbarm inn í jöklinum, lá sú gjá frá austri til vesturs. Breyting varð á rennsli jökulkvíslanna í þessum umbrotum. Í þessu hlaupi eru myndaðir hraukarnir eða jökulgarðarnir á Kringilsárrana sem eru einstæðir á heimsmælikvarða.

x. Í júlí 1903 varð allnokkurt öskufall, alveg austur á Vopnafjörð, á sama tíma varð Jökulsá á Brú óvenju vatnsmikill og kann því að hafa verið uppi eldur ofan Brúarjökuls.

xi. Í júlí 1934 varð umtalsvert hlaup í Jökulsá með miklum aurburði. Þar sem áin fór yfir tún var ekki nytjað næstu ár á eftir vegna sands. Einn maður fórst í hlaupinu þegar ólgandi straumurinn skall á kláfnum yfir ánna. Kann þetta hlaup tengist eldgosi í Vatnajökli og Skeiðarárhlaupi á sama tíma.

xii. Árið 1938 varð fremur lítið framhlaup með vatnavöxtum, í Brúarjökli.

xiii. Árið 1963 mikið framhlaup í Brúarjökli og vöxtur í Jökulsá svo aurburður jókst til muna. Svo mikill var aurinn í ánni þegar tekið var sýni í flösku var meira en helmingur sandur og leðja. Engar heimildir eru um að eldvirkni sé uppi í Vatnajökli, sem fyrr kann að vera eldgos þó enginn verði þess var. Hámarki náðu vatnavextir haustið 1964 og hefur áin ekki staðið svo hátt síðan. Ummerki um þetta hlaup er víða að finna við ána en miklar hrúgur af grófum sandi standa enn uppi í lækjarfarvegum. Aurburðurinn var gífurlegur, Jökulsá fyllti farveg sinn á Héraðsandi og flæmdist um. Í kjölfarið voru reistir varnarveggir, m.a. við Hnitbjörg, til varnar því að áin bryti frekara land. Svo mikið efni, möl og sandur, auk gruggsins, settist til á láglendi að upprunalegur farvegur árinnar fylltist svo áin komst ekki fyrir og flæmdist undan. Hlaupið stóð í rúmt ár, í kjölfarið hófust vatna- og svifaursmælingar í Jökulsá á Brú, vorið 1965.

Þegar reisa á mannvirki fyrir hundruð milljóna króna þarf áhættumat að taka tilliti til allra þátta. Eldvirkni er sleppt í áhættumati enda ekki um bein áhrif að ræða heldur afleiðingar eldvirkni í tug kílómetra fjarlægð, sem kunna engu að síður að hafa afdrifaríkar afleiðingar með jakaburði, vatnavöxtum og aurburði. Mælingar þær sem notaðar eru við útreikning á væntanlegum líftími lónsins, eru meðaltal svifaursmælinga frá árinu 1965. Grófa efnið, sandur og möl hafði þá fyrir löngu sest til og er ekki með í útreikningum en nákvæmlega þetta efni mun setjast til á lónsbotninum við stífluna. Starfstími Kárahnjúkavirkjunnar kann því að verða mun styttri en gert er ráð fyrir í áætlunum.

Samkvæmt skýrslu Landsvirkjunar má búast við hlaupi í Jökulsá innan 30 ára og ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júní 2003