Einbúinn við Jöklu
eftir Davíð Hjálmar Haraldsson

Við straumharða Jöklu bjó stórskorinn þegn
er stoltur þar langdvölum undi
og útlegðin var honum ekki um megn
því annað ei þekkti né mundi.

Og einbúinn þarna á bakkanum bjó,
af brimþungri elfunni hristur,
á veturna nístur af vindi og snjó,
á vorin af sólinni kysstur.

Og oft var hún Jökla svo úfin og svöl
að ógn var af straumþungans mætti,
en samt bjó hann frekar við sælu en kvöl
og sjaldan við móðuna þrætti.

Og dalurinn þeirra með dældir og börð
með dansandi blómum og fléttum
var leiksvið og skjól fyrir hreindýrahjörð
og hópa á vængjunum léttum.

En svo kom´í dalinn eitt sólþrungið vor
tvö saman þau Mammon og Ála
og einungis sáu þau urð, grjót og for.
Hjá Alcoa voru á mála.

Og saman þau eru að gera þar garð
- með grjóti og sementi styrkja -
því til þess að gefa þar Alcoa arð
þarf alltaf að stífla og virkja.

Þá stíflan er komin og stendur þar full
með stóreflis virkjun í dalnum,
þá malar hún Alcoa gæði og gull
þótt gróðurinn liggi í valnum.

Því fyllast mun dalur og færast á kaf
af forugu jökulárvatni
og allt hverfur lífið sem Guð þarna gaf
og gætti af eilífri natni.

Og einbúinn dapur þar örlögum kveið
því alltaf var stíflan að hækka
og dauðinn það eina er dalsins hans beið
og dögunum tekið að fækka.

Svo var það einn daginn er vorsólin hló
og vetrarsnjór blánaði af klökkva,
að örvænting dauðans um æðarnar smó.
Hann ákvað að lokum að stökkva.

Og faðmurinn Jöklu svo ferlega grár
tók fúslega honum á móti.
Hvar einbúinn fyrrum stóð efldur og hár
nú aðeins sést mosi á grjóti.

- - - - -

Ef Mammon og Ála fá mótað vort land
-sem mörgum finnst hreinast og tærast -
þá óðar mun hverfa í aurvatn og sand
það allt sem oss núna er kærast.

Þótt sumt eflaust týnist og sökkvi í for
má samt ennþá hættunni verjast
og kannske vér eigum hér kjark til og þor
og kunnum til sigurs að berjast.

Nú ber oss að móta og bæta vorn heim
með breytni og skynsömum orðum
og loks skila arfi sem líkustum þeim
er landnemar gáfu oss forðum.