Blaðagreinayfirlit
Apríl 2004


Stjórnarandstaðan gagnrýnir vinnubrögð á Alþingi: Um 60 þingmannamál enn óafgreidd Fréttablaðið 29. apríl, bls. 16
"Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu athugasemdir við störf þingsins á Alþingi í vikunni eftir að Halldór Blöndal, forseti Alþingis, lýsti því yfir á fundi þingflokksformanna að ákveðið væri að þingmenn fengju ekki að mæla fyrir þeim þingmannamálum, sem enn biðu þess að komast á dagskrá á Alþingi.
"Þingdagana til þingloka á greinilega að nýta til þess að afgreiða stjórnarmálin. Þetta berst okkur á sama degi og því er lýst yfir að þingið verði jafnvel starfandi fram í maílok, þar sem forsætisráðherra ætlar að setja lög um fjölmiðla," sagði Rannveig Guðmundsdóttir, Samfylkingunni, og taldi það óásættanlegt að ekkert samráð skyldi haft við stjórnarandstöðuna um þingið framundan.
"Alls bíða 56 þingmannamál umræðu, eða 23 frumvörp og 33 þingsályktanir. Ég krefst þess að forseti Alþingis endurskoði ákvörðunina og setjist yfir það með þingmönnum, hvernig halda skuli á málum," sagði Rannveig.
Halldór Blöndal sagðist ekki kannast við að hafa hafnað því að ákveðin þingmál yrðu sett á dagskrá og benti á að af 88 þingmannafrumvörpum hefði 55 verið vísað til nefndar, auk 114 þingmannatillagna.
"Ég tel ekki horfur á því að svigrúm verði til þess að mál þingmanna verði tekin til umræðu," sagði hann."

Vilja út úr Landsvirkjun Mbl.. 28. apríl, bls. 2
"Borgarstjóra Reykjavíkur hefur verið falið að leita eftir viðræðum við Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um hvernirg Reykjavíkurborg geti losað sig út úr eignarhaldi og ábyrgðum á raforkuframleiðslu Landsvirkjunar."

Norðlingaölduveita tilbúin fyrir næstu stækkun Mbl. 21. apríl 2004, bls. 6
"Sem kunnugt er gat Landsvirkjun ekki útvegað Norðuráli umbeðna orku þar sem framkvæmdum við Norðlingaölduveitu var slegið á frest. Friðrik [Sophusson] sagði fyrirtækið hins vegar geta útvegað orku fyrir frekari stækkun á Grundartanga, eftir fimm til sex ár. "Við erum að vonast til þess að þá verði Norðlingaölduveitan komin í höfn," sagði Friðrik, en viðræður hafa staðið yfir í vetur við hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps um lónhæð veitunnar og samhliða framkvæmdir. Nú lægi það fyrir, eftir að niðurstöður nýrra hæðarútreikninga urðu ljósar, að umhverfisáhrif veitunnar væru mun minni en talið var í fyrstu og viðunandi að mati Landsvirkjunar þegar lónið yrði utan friðlandsins í þjórsárverum og gróðureyðing yrði engin. Framkvæmdirnar gætu vonandi farið fljótlega í skipulagsvinnu innan hreppsins, en meirihluti hreppsnefndar hefur verið andvígur áformum Landsvirkjunar. Sagðist Friðrik finna fyrir meiri vilja en áður meðal nefndarmanna að ganga til samninga við Landsvirkjun en þetta mál myndi væntanlega ekki skýrast fyrr en síðar á þessu ári."

30. mars 2004 var lögð fram eftirfarandi fyrirspurn á Alþingi: "Hvernig stendur á því að Landsvirkjun notaðist ekki við rétt gögn úr landmælingum við undirbúning ákvarðana um veituframkvæmdir við Norðlingaöldu?" Sem enn hefur ekki verið svarað.
28. október 2003 var lögð fram þingsályktunartillaga um
Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Samvinnunefnd um miðhálendi Íslands "hefur samþykkt að setja af stað samráðsferli vegna óska Landsvirkjunar um breytt svæðisskipulag miðhálendis vegna Norðlingaölduveitu..."

Landsvirkjun heldur enn úti Norðlingaölduveituvef og er þar með tölvumynd (þ.e. gróðurlausa) af lónhæð í 575 metrum yfir sjávarmáli (sic). Vefurinn er greinilega í bið því hann er hálfmáttlaus og slóðirnar virka illa.

Impregilo og Alþingi Mbl. 20. apríl 2004, bls. 28 (í seinni hluta leiðara)
"Impregilo hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að mótmæla ásökunum í garð fyrirtækisins, sem fram koma á Alþingi hvort sem er í umræðum eða í formi þingskjala. Fyrirtækið hefur fullan rétt á að kalla slíkar ásakanir rógburð eða nota hver þau orð, sem fyrirtækinu hentar í þessu tilviki. En það er eitt, sem þetta fyrirtæki getur ekki leyft sér: Það getur ekki leyft sér að gera athugasemdir við að því sem það telur "alvarlegar og rangar ásakanir" skuli dreift á Alþingi Íslendinga."

Um andlát Más Haraldssonar, bónda á Háholti og oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem lést 15. apríl aðeins 50 ára að aldri, Mbl. 18. apríl 2004, bls. 4.
"Hann leiddi meirihluta hreppsnefndar á umbrotatímum þegar áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu voru til umfjöllunar. Barðist Már gegn þeim framkvæmdum, alveg fram á síðasta dag. Auk bústarfa og hreppsnefndarsetu átti Már sæti í Þjórsárveranefnd og ýmsum nefndum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga."

Skrifað undir tímamótasamninga í gær um raforkusölu til stækkunar Norðuráls á Grundartanga. Fyrsti orkusamningur án þátttöku Landsvirkjunar Mbl. 18. apríl 2004, baksíðu

Í góðri trú eftir Pétur Gunnarsson (aðsend grein), Mbl. 17. apríl 2004, bls. 35.
"...það fer vart fram hjá álrisum heimsins að á Íslandi er Landsvirkjun ríki í ríkinu og umhverfisráðherrann nánast eins og blaðafulltrúi þar á bæ. Mönnum er líka í fersku minni þegar iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Landsvirkjun dreifði bæklingi á ensku þar sem þau boð voru látin út ganga að Ísland væri kjörið til stóriðju vegna þess að "starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis eru vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála" (Lowest energy prices, 1995)."

Dæmd til að greiða laun vegna rannsókna á Norðlingaöldu: Ekki sýnt fram á að krafan sé ósanngjörn Mbl. 16. apríl 2004, bls. 8
Myndatexti: Krafa dr. Ragnhildar Sigurðardóttur tengist rannsókn hennar á svæði Norðlingaölduveitu. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi henni í vil. Millifyrirsögn: Mat VSÓ stóðst engan veginn

Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna ársins 2003: Blaðamenn Morgunblaðsins með þrjár tilnefningar Mbl. 16. apríl 2004, bls. 12
"Björn Jóhann Björnsson, Morgunblaðinu, fyrir hlutlæg og umfangsmikil skrif um stóriðju og virkjanamál á tilfinningaþrungnum umbrotatímum."
Í því sambandi er vert að minna á litla umfjöllun Moggans árið 2002 um Kárahnjúkavirkjun (frá úrskurði umhverfisráðherra des. 2001 að atkvæðagreiðslu á Alþingi í apríl 2002) sem og þögn Kastljóssins á sama tíma.

Athugasemd við athugasemd LV frá Jóhanni G. Bergþórssyni Mbl. 16. apríl 2004, bls. 35

Athugasemd frá Landsvirkjun í tilefni af grein Jóhanns Bergþórssonar Mbl. 15. apríl 2004, bls. 9

Er þörf á Norðlingaölduveitu? eftir Gísla Má Gíslason Mbl. 14. apríl 2004, bls. 27
"Er því ekki rétt að þjóðin sameinist um stefnu heimamanna um stækkun friðlands í Þjórsárverum, þeirri gróðurvin hálendisins sem allir eru sammála um að sé vistfræðilega mikilvægasta votlendi landsins?"

Kárahnjúkar, yfirlýsingar stjórnarformanns LV eftir Jóhann Bergþórsson Mbl. 14. apríl 2004, bls. 26

Virkara lýðræði Mbl. 13. apríl 2004, bls. 24 í fyrri part leiðara:
"Við getum tekið frumkvæði um að leggja ákveðin málefni fyrir þjóðina ýmist á landsvísu eða á sveitarstjórnarstigi til ákvörðunar. Sú aðferð er bæði eðlileg og sjálfsögð og hún leysir líka margan vanda. Hún kemur í veg fyrir, að sérhagsmunahópar geti stöðvað framgang mála eða haft óeðlieg áhrif á mál. Enginn getur deilt við þann dómara, sem þjóðin sjálf er í beinni atkvæðagreiðslu. Þetta á t.d. við um málefni, sem hafa klofið þjóðina í tvennt, svo sem varðandi virkjanafræmkvæmdir og aðrar framkvæmdir á hálendinu."

Óánægja með framkvæmd lýðræðis Mbl. 11. apríl 2004, bls. 10-11
Opnugreinin er myndskreytt með mynd úr Hálendisgöngunni. Myndatexti: "Fjórðungur svarenda segist hafa reynt að hafa áhrif á stjórnmálaákvarðanir varðandi umhverfismál"
Baksíða: yfirfyrirsögn: Helmingur þjóðarinnar er óánægður með þróun lýðræðis samkvæmt könnun 73% vilja þjóðaratkvæðagreiðslur í auknum mæli [skoðanakönnun Siðfræðistofnunar og Félagsvísindastofnunar HÍ og Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg vorið 2003. Póstlistakönnun. 1.500 manna slembiúrtak úr þjóðskrá. 18-75 ár. Svörunin ríflega 40%]

Fríríkið við Kárahnjúka Aðsend grein eftir Guðmund Ármannsson Fréttablaðið 10. apríl 2004 bls. 14
"Það er alveg ótrúlegt að svona ástand skuli geta skapast í okkar landi og verkalýðshreyfingunni skuli lítið verða ágengt í aðgerðum varðandi afkomu þessa fátæka verkafólks. Er þetta það sem koma skal? Hver er samkeppnisstaða íslenskra verktaka sem verða að virða lög og reglur án nokkurrar miskunnar, að keppa við annað eins? Eða er kannski komin fyrirmyndin; að flytja bara inn þrælahópa til verka. Nú er engin launung að hið lága tilboð ítalska verktakans byggðist ekki síst á þessu ódýra vinnuafli sem er notað og því er dapurlegt að þessi stærsta framkvæmd Íslandssögunnar (sem varð reyndar ekki stór fyrr en öll leyfi og atkvæðagreiðslur voru í höfn) hefur ekki forsendur til að fara eftir lögum og reglum sem gilda hér á landi. Ég spyr, hvar er stolt okkar þings og þjóðar að standa fyrir slíku?"

Ógnin af umhverfisvernd DV 6. apríl 2004, bls. 2
"Við eigum bágt með að sjá hvers vegna íslenskir stjórnmálamenn kjósa að vera í stríði við umhverfisverndarsinna. Okkur finnst þeir ættu frekar að tala máli umhverfisverndar og vera til stakrar fyrirmyndar í þeim málum." [Fyrst og fremst grein]

Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar krefur Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra svara um hvað hún ætli að gera við vandamálið Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformann Landsvirkjunar. Jóhannes á að taka pokann sinn DV 6. apríl 2004, bls. 12
"Þetta voru mjög vanhugsuð ummæli af hans hálfu."
Myndatextar: Jóhannes Geir Sigurgeirsson: Ummæli hans hafa vakið hörð viðbrögð. / Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra: Svarar ekki skilaboðum. / Árni Þór Sigurðsson foseti borgarstjórnar: Iðnaðarráðherra verður að svara því hvort Jóhannes haldi starfi sínu. / Álfheiður Ingadóttir fulltrúi í stjórn Landsvirkjunar: Miður að Jóhannes dró ekki ummæli sín betur til baka. / Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður: Ekki í fyrsta sinn sem orð Jóhannesar vekja hörð viðbrögð.

VSÓ og Landsvirkjun báðu dr. Ragnhildi Sigurðardóttur um sérfræðilega matsvinnu en sættu sig ekki við umfang vinnunnar og niðurstöðurnar. Hún vann fullnaðarsigur fyrir dómi og fyrirtækin fengu skömm í hattinn Dómurinn sigur fyrir íslenska vísindamenn DV 3. apríl 2004, bls. 6
"Þetta er mikill sigur fyrir íslenska vísindamenn þar sem hann veitir þeim stuðning til að stunda og skila faglegri, hlutlausri vinnu. Að því tilskyldu að VSÓ áfrýi ekki þá er tveggja ára málaferlum loksins lokið. Fyrir mér er úrskurðurinn mikill léttir, þrátt fyrir að hann hafi í rauninni verið fyrirsjáanlegur og frekari staðfesting á þeim óvönduðu vinnubrögðum sem VSÓ og Landsvirkjun höfðu í frammi gagnvart skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu og ennfremur áfellisdómur yfir framgöngu þeirra gagnvart mér," segir dr. Ragnhildur Sigurðardóttir, en í gær vann hún dómsmál gegn VSÓ ráðgjöf ehf. í deilumáli sem snerist einkum um vinnuframleag hennar vegna umhverfismatsins sem VSÓ annaðist fyrir Landsvirkjun og um höfundarrétt að hennar vinnu." Myndatexti: Ætluðu VSÓ og Landsvirkjun að hegna henni?

HaSt