Stefnir fyrirtækjarekstri kvenna í voða
eftir Helga Seljan Jóhannsson

Jafnréttisráðgjafi Norðausturkjördæmis segir að verslunar og þjónustufyrirtækjum kvenna fækki nú vegna þenslu og hærra leiguverðs á atvinnuhúsnæði í kjölfar stóriðju- og virkjunarframkvæmda. Konur í verslunarrekstri á Egilsstöðum funduðu á dögunum vegna ástandsins en 3-4 verslunar- og þjónustufyrirtæki í eigu kvenna sjá fram á að þurfa að loka vegna þessa. En tvö slík hafa þegar hætt rekstri af sömu ástæðum.

Verslunareigandi á Egilsstöðum, og ein fundarkvenna, segist sjá fram á að þurfa jafnvel að hætta rekstri vegna húsnæðisleysis þar sem leiguverð sé orðið það hátt. ,,Konum á Austurlandi mun fækka enn meir í hlutfalli við karla ef ekkert verður að gert, segir jafnréttisráðgjafinn sem fullyrðir jafnframt að launamunur kynjanna hér eystra, sem í dag er einn sá mesti á landinu, muni aukast þrátt fyrir aukin atvinnutækifæri í kjölfar stóriðju.

Konum fækkar enn hlutfallslega

Í grein í MBL í síðustu viku [12.05 04, bls. 29: Atvinnurekstri kvenna á Austurlandi ógnað] sem Helga Björg Ragnarsdóttir, jafnréttis- og atvinnuráðgjafi Norðausturkjördæmis, reit segir að vegna aukinnar þenslu á Austurlandi hækki nú leiguverð á atvinnuhúsnæði verulega sem aftur valdi því að smáum fyrirtækjum heimamanna sé þar með gert erfiðara um vik að halda sínu húsnæði eða leigja sér nýtt. Hún kallar eftir ábyrgð stjórnvalda í málinu. Helga segir í grein sinni að fyrirtækjum kvennna sé sérstaklega hætt við að lenda í slíku enda séu þau fyrirtæki jafnan í þeim geira sem þróunin komi hvað harðast niður á. Helga segir jafnframt að ,,í byggðaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2002-2005 sé einungis farið fáum orðum um þennan vanda sem einkenni landsbyggðina og eigi án efa stóran þátt í þeirri þróun að fleiri konur flytjast af landsbyggðinni en karlar. En fram kemur í grein Helgu að hlutfall kvenna í atvinnurekstri sé einungis 18% og að hlutfall kvenna í opinberum styrkjum til atvinnurekstrar sé einungis 20%, þar sé ekki tekið til opinberra lánveitinga ellegar hlutabréfakaupa enda myndi þá talan eflaust lækka að sögn jafnréttisráðgjafans. Undir lok greinarinnar segir svo ,,Í dag er málum svo háttað að þjónustu- verslunarfyrirtæki, sem algengt er að séu í leiguhúsnæði, eru og hafa verið að missa húsnæði sitt og fá jafnvel ekki annað því eftirspurnin er það mikil og sjaldgæft er að slík fyrirtæki hafi bolmagn til að greiða þá leigu sem sett er upp. Það blasir því við að fyrirtækjum í eigu kvenna á svæðinu fækki verlulega með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir viðkomandi aðila og lakari þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Slík þróun er svæðinu hættuleg þar sem atvinnuframboð fyrir konur á svæðinu er nú þegar fábreytt og konum hefur fækkað hlutfallslega síðustu ár.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

Jafnréttisráðgjafi Norðausturkjördæmis um stóriðjuframkvæmdir:
,,Launamunur mun aukast

Helga Björg Ragnarsdóttir, atvinnu- og jafnréttisráðgjafi Norðausturkjördæmis, átelur stjórnvöld og byggðastefnu þeirra í MBL grein í síðstu viku. Jafnréttisráðgjafinn segir fyrirtækjarekstri kvenna á Austurlandi nú ógnað vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í að taka á þeim málum og óhagstæðra reglna Byggðastofnunar. Helga segir í grein sinni að fyrirtækjum kvenna stafi bráð hætta af ástandinu enda séu þau fyrirtæki jafnan í þeim geira sem þróunin á leigumarkaði komi hvað harðast niður á auk þess sem fleira komi til. Jafnréttisráðgjafinn hélt fund með konum í slíkum rekstri á Egilsstöðum í síðustu viku þar sem slæm staða þessara kvenna var rædd.

Helga Björg segir í samtali við Austurgluggann að grípa hefði átt til ráðstafana mun fyrr vegna þess ástands sem nú sé staðreynd í verslunar- og þjónusturekstri á Héraði, ástands sem Helga segir að muni að óbreyttu skapast í Fjarðabyggð og víðar á Austurlandi verði ekki gripið til aðgerða. ,,Við funduðum um þetta mál með konum í verslunarrekstri á Egilsstöðum í gær (miðv.12.maí) og þar kom fram að tvö fyrirtæki hafa þegar þurft að hætta vegna þessa og að annarra fjögurra bíða hugsanlega sömu örlög, segir Helga. Hún segir það áhyggjuefni ef heimaaðilum í verslunar- og þjónusturekstir fækki á þeim uppgangstímum sem nú séu hér eystra þvert ofan í það sem haldið hafi verið fram áður. ,,Það er alveg ljóst að þau fyrirtæki sem konur reka hvað helst, lítil og meðalstór verslunar- og þjónustufyrirtæki, eiga erfitt uppdráttar í þessari þenslu sem nú er á leigumarkaði, enda eru þau fyrirtæki oftar en ekki í leiguhúsnæði þar sem velta þeirra leyfir ekki annað og við því þarf að bregðast af stjórnvöldum, segir Helga sem telur þessa tegund fyrirtækja ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnvalda þrátt fyrir mikilvægi þeirra í byggðaþróunarlegu tilliti þar sem laun kvenna á almennum markaði séu mjög lág. ,,Það er ljóst að konum hefur fækkað hlutfallslega mun meira en körlum hér á Austurlandi auk þess sem laun kvenna á almennum vinnumarkaði eru með því lægsta sem þekkist á landinu, þrátt fyrir að karlar hér hafi hlutfallslega há laun, þess vegna er það slæmt ef konum sem vilja fara út í atvinnurekstur er gert efiðara um vik að koma undir sig fótunum vegna utanaðkomandi aðstæðna, segir Helga Björg.

Afleidd störf hífa ekki upp laun kvenna

Aðspurð um hvort um vaxtaverki sé ekki að ræða, þ.e. að úr rætist þegar fjölgi á svæðinu og regla kemst á atvinnulífið eftir lok stóriðjuframkvæmdanna, segir Helga áhyggjur sínar nú einkum vera þær að þenslan sem nú ríki komi til með að hafa það mikil áhrif á stöðu þessara fyrirtækja að hugsanlega verði erfitt að byggja þau upp aftur. ,,Jafnvel þó leigumarkaðurinn sem slíkur komi til með að breytast aftur og verð þar að lækka þá er svo mikið fleira sem ógnar þessum atvinnurekstri sem verður að grípa til aðgerða gegn. Aðspurð um hvort afleidd störf, af stóriðjuframkvæmdum, laxeldi og fleiri greinum sem reiknað er með að verði til á næstu árum hér eystra, muni ekki koma til með að hífa upp laun kvenna frá því sem nú er segir Helga svo ekki að vera. Launamunur kynjanna mun þvert á móti aukast enda eru þau störf sem talað er um sem afleidd flest á sviði opinberrar þjónustu og laun þar munu ekki koma til með að hækka þó laun eins atvinnurekenda eins og Fjarðaáls hækki laun hugsanlega eitthvað frá því sem nú er.

,,Ástandið er slæmt

Erla Jónsdóttir hefur rekið húsgagnaveslunina ,,Hjá Erlu á Egilsstöðum í að verða fimm ár. Hún sér nú fram á að þurfa að óbreyttu að hætta rekstirnum vegna hækkunar á leiguverði á Egilsstöðum og hárra flutningsgjalda. Saga Erlu er ekki einsdæmi eins og fram kom á fundinum í liðinni viku. ,,Ástandið er slæmt, segir Erla aðspurð um stöðu mála hjá fundarkonum sem allar eru í verslunarrekstri á Héaði. ,,Við vorum þarna 12 konur af Egilsstöðum sem erum allar í svipaðri stöðu vegna húsnæðis undir okkar rekstur, segir Erla sem á tvo mánuði eftir af leigusamningi sínum en sér ekki fram á að fá leiguhúsnæði undir reksturinn sem leyfi einfaldlega ekki þá háu leigu sem nú er á svæðinu í kjölfar stórframkvæmda. Hækkunin hefur verið slík. ,,Það segir sig sjálft að ef heimaaðilar í reksti verða að hætta að þá verða hér eingöngu útibú fyrirtækja af höfuðborgarsvæðinu - fyrirtæki sem við erum ekki samkeppnishæf við sökum þátta eins og flutningskostnaðar sem er einn stærsti kostnaðarþáttur hjá verslunarfyrirtækjum úti á landi auk þess sem þetta leiðir af sér að minna fjármagn verður eftir á landbyggðinni en ella. Hún segir gríðarháan flutningskostnað t.d. leiða það af sér að möguleikar hennar á því að selja fólki af höfuðborgarsvæðinu vörur séu litlar sem engar.,,Fólk er tilbúið að versla hjá okkur en ef þau sjá fram á að greiða flutningskostnaðinn gera þau það ekki, segir Erla og fullyrðir að fleira geri rekstri sem hennar erfitt fyrir sökum þess að ekki sé hægt að sækja fjármagn í slíkan rekstur til opinberra lána- og fjármögnunarstofnana. ,,Þessar stofnanir taka ekki þátt í að styðja við fyrirtæki í samkeppnisrekstri eins og verslun og þjónustu auk þess sem Byggðastofnun lánar ekki til rekstrar án þess að fyrirtækið sé í eigin húsnæði, vegna veðs. Ég gæti keypt mér bát og fengið lán út á hann en ekki í þennan rekstur, segir Erla sem telur að þetta fyrirkomulag sé öllum verslunarrekstri á landsbyggðinni erfitt. ,,Það er ljóst að ef ekkert verður gert þá mun verslun verða ansi einsleit hér. Það sem er að gerast hér á Egilsstöðum nú mun gerast í Fjarðabyggð og annarsstaðar þegar þenslan fer á fullt þar ef ekkert verður að gert. Það er áhyggjuefni fyirr alla sem litu á þessar stórframkvæmdir sem tækifæri til að styrkja allt Austurland, segir Erla Jónsdóttir, verslunareigandi á Egilsstöðum.

Greinarnar birtust í vikublaðinu Austurglugganum