Mannréttindi að vita og taka þátt

Baráttuhópurinn, sem hlaut nafnið Náttúruvaktin eldsnemma á degi Hálendisgöngunnar í febrúar 2003, varð til vegna þess einfaldlega að allt virtist hafa brugðist í náttúruverndarmálum í forleik síðustu virkjunarframkvæmda. Við höfðum ansi mörg þá óþægindatilfinningu að hafa verið svikin um þau sjálfsögðu mannréttindi að vita í tæka tíð, svikin um upplýsingar og umhugsunarfrest, svikin um orðið, svikin um eðlileg skoðanaskipti og gjörsamlega svikin um ákvörðunarrétt

Samtökin Náttúruvaktin voru stofnuð til að fylgja markmiðum baráttuhópsins eftir af frekari krafti

Náttúruvaktin hvetur stofnanir sem bera forliðinn umhverfis- eða náttúru- í heiti sínu til að standa vörð um ósnortna náttúru landsins

Náttúruvaktin fagnar þeim fræðingum náttúrunnar sem ganga fram fyrir skjöldu í tæka tíð og fræða almenning um það sem í húfi er hverju sinni þegar virkja skal í okkar viðkvæmu náttúru

Náttúruvaktin vildi gjarnan sjá aðhaldshlutverk fjölmiðla stærra gagnvart valdhöfum og stórfyrirtækjum

Náttúruvaktin mótmælir eindregið ríkisstyrktum náttúruskemmdum


© Jóhann Óli Hilmarsson

Tilurð Náttúruvaktarinnar

Náttúruunnendur, Kárahnjúkavirkjunarandstæðingar, áhugafólk um verndun Þjórsárvera og annað baráttufólk fyrir verndun hálendisnáttúru Íslands hlaut samnefnarann Náttúruvaktin á degi Hálendisgöngunnar 27. febrúar 2003. Vefurinn natturuvaktin.com var stofnaður á ársafmæli baráttuhópsins fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði, Náttúruvaktinni. Samtökin Náttúruvaktin voru stofnuð 2. október 2004.

Baráttan fyrir verndun hálendisins hefur á stundum verið erfið og einmanaleg og hafa undirtektir og árangur sjaldnast staðið undir væntingum, en smám saman hefur safnast í hópinn og við loks líka - jafnvel þótt árangur hafi lengi vel verið nokkuð rýr. Mikil og skemmtileg sjálfboðavinna skapaðist við undirbúning Hálendisgöngunnar, m.a. voru mótmælaspjöld máluð í eina tíu daga í aðdraganda hennar. Sú nýjung var innleidd að mála slagorðin báðum megin svo ljósmyndarar fjölmiðla gætu ekki valið bakhliðina án þess að fram kæmi hverju verið væri að mótmæla. Stemningin í göngunni er öllum eftirminnileg.