Lög Náttúruvaktarinnar


1. Nafn samtakanna er Náttúruvaktin

2. Aðsetur og varnarþing Náttúruvaktarinnar er í Reykjavík

3. Markmið samtakanna er:
- að berjast fyrir verndun hálendis Íslands
- að stuðla að fræðslu og þekkingu á náttúru Íslands
- að stuðla að bættri lagasetningu í þágu náttúruverndar
- að efla samstarf við innlend og erlend náttúruverndarfélög
- að stuðla að lýðræðislegum ákvörðunum í umhverfismálum

4. Allir áhugamenn um náttúruvernd geta orðið félagar með því að greiða árgjald.
Stofnfélagar geta þeir orðið sem ganga í félagið fyrir 27. febrúar 2005.

5. Fyrir Náttúruvaktinni ræður fimm manna stjórn og ræður hún öllum málum milli aðalfunda.
Stjórnarmenn ákveða hver gegnir hlutverki talsmanns hverju sinni. Stjórnarfundir eru löglegir ef þrír stjórnarmenn eru mættir enda hafi allir stjórnarmenn verið boðaðir á fundinn með löglegum hætti. Tillögur um nýja stjórnarmenn skulu berast sitjandi stjórn og félagsmönnum eigi síðar en tíu dögum fyrir aðalfund eða félagsfund fari stjórnarkjör fram á félagsfundi.

6. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Til aðalfundar skal boða með að minnsta kosti tíu daga fyrirvara með fréttatilkynningu í minnst einu dagblaði og útvarpi. Allir félagsmenn skulu fá fundarboð með tölvupósti sé þess kostur, aðrir fá bréflegt fundarboð. Til félagsfundar skal boða með sama hætti. Allir skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi og eru jafnframt kjörgengir. Fimm stjórnarmenn, tveir varamenn, auk tveggja skoðunarmanna reikninga, skulu kosnir á aðalfundi til hálfs árs sem framlengjanlegt er í eitt ár á félagsfundi. Stjórn skal leggja fram skýrslu á aðalfundi um starf Náttúruvaktarinnar, endurskoðaða reikninga til samþykktar, skrá yfir styrktaraðila, fjárhagsáætlun og mál er varða stefnu og starf Náttúruvaktarinnar.
Ákvörðun um árgjald skal tekin á aðalfundi.
Reikningsárið er almanaksárið.
Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, að lagabreytingum undanteknum. Eftir aðalfund skal halda stjórnarfund svo fljótt sem auðið er og skulu stjórnarmenn skipta með sér verkum.

7. Til félagsfundar getur stjórnin boðað en einnig skal boða til félagsfundar ef 25 félagsmenn óska þess skriflega eða með tölvupósti. Félagsfundur skal haldinn eigi sjaldnar en þrisvar sinnum á ári. Dagskrá félagsfundar skal tilkynnt um leið og boðað er til fundarins. Heimilt er að boða til félagsfundar með stuttum fyrirvara en ávallt þó með að minnsta kosti þriggja daga fyrirvara. Félagsfundur hefur heimild til að semja og samþykkja ályktanir.

8. Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast tveimur vikum fyrir aðalfund svo hægt verði að tilkynna tillögurnar í fundarboði. Til að lagabreytingar nái fram að ganga þarf samþykki með 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi og skulu minnst 25 skuldlausir félagsmenn vera viðstaddir.

9. Eigi má slíta samtökunum nema á aðalfundi með lágmarksþátttöku helmings félagsmanna og þarf til þess 2/3 atkvæða. Ef til slita kemur renni eignir samtakanna til náttúruverndar á Íslandi samkvæmt ákvörðun aðalfundarins enda sé þeim varið í anda 3. greinar laga Náttúruvaktarinnar. Um slit samtakanna skal haft samráð við ríkisskattstjóra.

10. Stjórnin boðar til aðalfundar.