Fréttatilkynning til allra fjölmiðla frá Náttúruvaktinni, baráttuhópi um náttúruvernd og virkara lýðræði

Náttúruvaktin hefur fylgst af áhuga með með átökum Jökulsár á Brú og Landsvirkjunar/Impregilo undanfarna daga. Ýmislegt sérkennilegt hefur komið fram í fréttum sem rétt er að staldra við.

Fulltrúar Landsvirkjunar virðast fara mjög frjálslega með hugtakið "500 ára flóð" í ljósi þess að vatnsmagn hefur aðeins verið mælt í tæp 40 ár, eða frá árinu 1965.

Fyrstu ár mælinga voru harðinda- og hafísár og þá var bráðnun afar lítil. Það lækkar meðaltalsrennslið. Í ágúst 1977 mældist rennslið 1.030 rúmmetrar á sekúndu, í ágúst 1991 var það um 1.020 m3 og þessa dagana, 13 árum síðar virðist það jafnvel geta farið enn hærra. Nær væri að kalla þetta 13 ára flóð! Veðurfar fer nú hlýnandi og af þeim sökum eykst bráðnun jökla.

Það er því hrein markleysa þegar talsmenn framkvæmdanna tala um 500 ára flóð, sem fréttamaður Ríkisútvarpsins hefur síðan haft eftir þeim gagnrýnislaust í tíma og ótíma. Aðeins núna á framkvæmdatímanum munu rennslissveiflurnar hafa áhrif og það kemur væntanlega í ljós á næstu dögum hvort þau áhrif verði varanleg. Eftir að aðalstíflan hefur verið reist eru slíkar sveiflur ekki "áhyggjuefni".

HLAUPIN í Jöklu eru hins vegar áhyggjuefni. 1963-64 náði vatnið á brúarstæðinu mun hærra en það gerði nú og þá var engin stífla í gljúfrunum sem hélt uppi vatnsborðinu. Í hlaupum verður vatnsmagnið margfalt hærra og kann að nema þúsundum rúmmetra á sekúndu. Giskað hefur verið á að árið 1890 hafi það verið yfir 5000 m3, enda bárust þá ísjakar úr jöklinum alla leið niður á Héraðsflóa. Síðustu hlaup hafa verið á 30-70 ára fresti og nú eru einmitt liðin 40 ár frá síðasta hlaupi.

Náttúruvaktin bendir á þessar augljósu hættur, fordæmir tilhneigingu framkvæmdaraðila til að gera lítið úr þeim og bendir á hina miklu ábyrgð þeirra og stjórnvalda, fari eitthvað úrskeiðis.

Ennfremur skal bent á að framkvæmdaraðilar og stjórnvöld hafa ekki nema að sáralitlu leyti brugðist við athugasemdum sem Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur ritaði 14. febrúar 2002 um ýmsar hættur sem af framkvæmdunum geta stafað. Þar kemur meðal annars fram að gagnstætt því sem umhverfisráðherra heldur fram hafi virkjunin neikvæð gróðurhúsaáhrif, vegna þess mikla magns næringarefna sem sökkva munu á botn Hálslóns í stað þess að næra grænþörunga á hafi úti.

Grímur segir: " Undirritaður telur að aukin gróðurhúsaáhrif fylgi Kárahnjúkavirkjun, vegna minnkaðrar upptöku koltvísýrings í hafi. Nú virðist almennt viðurkennt að ummyndun steindarinnar plagíoklas yfir í kalaónít og síðan áfram yfir í kalk í sjó, bindi feiknarlegt magn gróðurhúsalofttegunda við strendur Íslands. Hvað verður um þetta ferli við að mestur hluti aursins í Jöklu stoppar í Hálslóninu í stað þess að lenda úti í sjó? Þetta hlýtir að vera brennandi spurning, ekki síst fyrir íslenska stjórnmálamenn, sem nú óska undanþágu frá Kyoto-bókuninni vegna "hreinleika" vatnsorkunnar. Verður að teljast líklegast að bindingin minnki og að virkjunin teljist þar með ekki "hrein" í Kyoto skilningi".

Í matsskýrslu Landsvirkjunar kemur fram að ekkert bendi til "að um virkar eldstöðvar sé að ræða undir Vatnajökli á vatnasviði Jökulsár á Dal". Þetta er ALRANGT. Í rannsóknum Helga Björnssonar og Páls Einarssonar frá 1990 er FULLYRT að eldvirkni sé á vatnasviði Jökulsár á Brú.

Náttúruvaktin minnir á að umhverfisráðherra nam úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar gegn Kárahnjúkavirkjun með plaggi þar sem ekki má á milli sjá hvort er vitlausara, umhverfismatið eða hættumatið, þar sem lítið er gert úr flóða- og hlaupahættu af Jöklu. Hver er ábyrgð ráðherra í þeim efnum ef illa fer?

Náttúruvaktin bendir á að á vef hennar natturuvaktin.com má finna greinargóða grein Ástu Þorleifsdóttur jarðfræðings um hlaup í Jökulsá á Brú, umfjöllun um bréf Gríms Björnssonar jaðeðlisfræðings með athugasemdunum 10, og um úrskurð umhverfisráðherra gegn úrskurði Skipulagsstofnunar.

Landsvirkjun hefur verið yfirgnæfandi í fréttaflutningi af flóðunum og fjölmiðlar virðast vera fullháðir fyrirtækinu varðandi upplýsingar. Um leið eru upplýsingar þeirra um náttúrufar oft afar ófullnægjandi og greinilegt er að vísvitandi er reynt að breiða yfir hætturnar. Getur verið að sú sé einnig raunin með aðrar hliðar málsins og alvarlegar hættur komi í ljós í umhverfisáhrifum jafnt og efnahagsáhrifum?

Hlýtur ekki undirbúningi Landsvirkjunar að vera mjög ábótavant fyrst vatnavextirnir í Jöklu nú komu þeim í opna skjöldu þannig að verulegt hættuástand skapaðist á tímabili í síðustu viku? Þetta kann að vera vísbending um að Landsvirkjun vanmeti viljandi eða óviljandi náttúrulegar aðstæður og taki ekki aðvaranir vísindamanna nægilega alvarlega.

Til fróðleiks fylgir hér samantekt úr niðurlagi bréfs Gríms Björnssonar frá 14. febrúar 2002:
"Eftirfarandi atriði tel ég óskýrð og/eða verulega áhættuþætti við gerð Kárahnjúkamiðlunar, sem skýra/hrekja verði áður en Alþingi samþykkir lög um virkjunina:
-Þungi miðlunarinnar getur valdið landsigi svo nemi e.t.v. metrum og þar með skertri afkastagetu lónsins.
-Verulegar líkur eru til þess að sjálf Kárahnjúkastíflan verði reist á virku sprungusvæði.
-Því telur undirritaður hættumat það sem kynnt er í matsskýrslu Landsvirkjunar algerlega óviðunandi, líkur á stíflurofi séu umtalsverðar , og meðan svo er eigi virkjunin ekkert erindi inn á Alþingi.
-Þungi Hálslóns veldur tilfærslum á kviku og kann þannig að hafa áhrif á eldvirkni nærri lóninu.
-Til stendur að bora jarðgöng virkjunarinnar með tækni sem er óþekkt og óreynd á Íslandi.
-Þétting jarðganga getur orðið tímafrek og tafsöm, og þannig hægt á lúkningu virkjunar.
-Gera verður ráð fyrir talsverðum leka Hálslóns og þar með skertum afköstum virkjunar.
-Miðlunin dregur úr náttúrulegri bindingu gróðurhúsalofttegunda í hafi.
-Lífmassar í hafi kunna einnig að finna fyrir lónsmiðluninni."

10. ágúst 2004