Hernaðurinn gegn landinu

Útdráttur úr grein Halldórs Laxness sem birtist í sunnudagsblaði Tímans 17. janúar 1971, bls. 36-41

Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsíngum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vita að okkur sé nokkur vorkun í þessum pósti.
(...)
Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lýngi og kjarri, og sumstaðar hefur nálgast að vera skógland, hér var líka gnægð smárra blómjurta, og mýrar vaxnar háu grasi, sefi og stör, morandi af smákvikindum allskonar og drógu að sér fugla svipað og Þjórsárver gera enn þann dag í dag.
Mart bendir til þess að fólk er hér settist að hafi litið á náttúru Íslands einsog bráð sem þarna var búið að hremma. Skynbragð á fegurð lands var ekki til í þessu fólki. Slíkt kom ekki til skjalanna fyren þúsund árum eftir að híngað barst fólk.
(...)
Hafi einhverntíma verið hlýrra og lygnara hér en núna, þó ekki hefði verið nema í þúsund ár (...) þá er ekkert því til fyrirstöðu, að Ísland hafi alt verið grænt, kanski skógur á Srpengisandi. Að hinu leytinu hafa menn séð landsvæði sem í æsku þeirra voru græn og fögur verða að Sprengisandi.
Vindar voru ugglaust orðnir óvnir gróðurs á hálendinu fyrir landnámstíð. Síðan kom mannfólk...
(...)
Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins.
(...)
Nú, þegar ætla mætti að nóg væri að gert um sinn í náttúruspillíngu og kominn tími til að spyrna við fæti, þá bætist niðurbrotsöflum landsins stórtækari liðstyrkur en áður var tiltækur.
Til að bæta lífsskilyrði almenníngs hefur nú verið settur upp kontór á vegum Iðnaðarmálaráðuneytisins, nefndur Orkustofnun, og á að undirbúa hér stóriðju sem knúin sé afli úr vötnum landsins.
(...)
Draumurinn um verksmiðjurekstur hér á landi og íslendínga sem verksmiðjufólk er ekki nýlunda, skáld síðustu aldamóta sáu í vondraumum sínum glaðan og prúðan iðnverkalýð á Íslandi. Fyrir skömmu sá ég haft eftir einum forgaungumanni stóriðju á Íslandi, í umræðum á málfundi, að eina vonin til þess að íslendingar gætu lifað mannsæmandi lífi í þessu landi (orðatiltækið hefur heyrst áður), sé sú að gera þjóðina að verkamönnum erlendra stóriðjufyrirtækja.
(...)
Vandræðin byrja þegar stofnun, sem fæst við niðurskipun orkuvera handa einhverri tilvonandi stóriðju, veitir virkjunarfyrirtækjum fríbréf til að darka í landinu eins og naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstök pláss sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar sagnhelgi eru ekki aðeins íslensku þjóðinni hjartfólgin, heldur njóta frægðar um víða veröld sem nokkrir eftirlætisgimsteinar jarðarinnar.

Ég sagði að vandamálið væri ekki stóriðja sem dembt væri yfir okkur með offorsi að nauðsynjalausu. Vandamálið er oftrú þeirra í Orkustofnun á endalausar málmbræðslur sem eiga að fylla þetta land. Þá fyrst er land og lýður í háska þegar svona kontór ætlar með skírskotun til reikningsstokksins að afmá eins marga helga staði Íslands og hægt er að komast yfir á sem skemmstum tíma, drekkja frægum bygðarlögum í vatni (tólf kílómetrum af Laxárdal í Þíngeyarsýslu átti að sökkva samkvæmt áætlun þeirra), og helst fara í stríð við alt sem lífsanda dregur á Íslandi.
(...)
Í okkar parti heimsins á öld þegar allir eru orðnir fátækir af að vaða í einskisnýtum peníngum, þá er þeim mönnum hættast sem hafa ekki áður hnoðað hinn þétta leir. Að hlunnfara svona menn heyrir undir lögmál viðskiftalífsins. Nema bændur við Mývatn, frægir af sambýlisháttum sínum hver við annan og við náttúruna kringum sig (...) þessir menn vakna nú upp við það einn góðan veðurdag að hinu fagra lífi Mývatns hefur verið snúið í skarkandi stóriðju. Og þjóðin öll, við sem tignuðum þetta norðlæga landspláss þar sem lífgeislar íslenskrar náttúru eru dregnir saman í eina perlu, við uppgötvum einnig um seinan að þessi staður, sem hefði átt að standa undir þjóðgarðslögum samfara fullkominni náttúruvernd, hefur verið afhentur erlendu félagi til að klessa niður einhverskonar efnabrennsluhelvíti á vatnsbakkanum.
(...)
Laxárvirkjunarstjórn á Akureyri gerir áætlanir með fulltíngi Orkustofnunar og hefur valdið blöskrun landlýðsins á síðustu misserum, og má segja alls heimsins ef miðað er við þá sem láta sig verndun lífs á jörðinni nokkru skifta. Snilli þessa félags er í því fólgin að hafa látið sér detta í hug áætlun um að minstakosti 54ra megóvatta orkustöð í Laxá samfara algerðri eyðileggingu Laxár og Mývatns ásamt með bygðum sem við vötn þessi eru kend.
(...)
Þessir þrír púnktar skýra sig nokkurneginn sjálfir. Hinn fyrsti, að bæta skilyrði almenníngs, er sú varajátníng sem nú á dögum er höfð uppi í tíma og ótíma í öllum tilfellum þar sem áður fyr var vant að segja í jésúnafni amen.
Fyrirætlun um að vinna orku handa nærliggjandi héruðum, samfara eyðileggingu á náttúru Laxár- og Mývatnssvæðisins, vitnar um hvílíkur griður reikningsstokkurinn getur orðið í höndum ofsamanna. Það hefur verið bent á óþrjótandi aðrar leiðir til að sinna takmarkaðri orkuþörf þessara fámennu bygðarlaga án þess troðnar séu illsakir við landslýðinn.
(...)
Annar kontóristi úr Orkustofnun kom í útvarpið og talaði um Gullfoss. Rannsóknir og mælíngar hafa verið gerðar á fossinum, sagði þessi maður, og hægt að leggja til atlögu við vatnsfall þetta með litlum fyrirvara. Eru svona ræður haldnar til að storka landslýðnum, eða hvað? Einginn virðist þó kippa sér upp. Landslýðurinn hlustaði með þolinmæði sem mátti heita kristileg. Manni skildist að Gullfoss ætti að vera hafður í nýar málmbræðslur, meira alúminíum, að sínu leyti einsog vakir fyrir laxárvirkjunarnefnd nyrðra: stórir orkunotendur að utan gefa sig vonandi fram!
Það var fróðlegt að heyra að Gullfoss hefði líka verið tekinn í karphúsið af verkfræðíngakontór Iðnaðarmálaráðuneytisins. Í æsku minni var til kona skamt frá Gullfossi, Sigríður nokkur í Brattholti, og lét til sín taka í samskonar máli þegar útlendir oog innlendir ofurhugar ætluðu að taka höndum saman og gánga í skrokk á Gullfossi. Slíkar konur virðast því miður vera horfnar úr nágrenni þessa vatnsfalls.
Málsvari Orkustofnunar lýsti því að væntanleg virkjun fossins yrði framkvæmd þannig að farvegi Hvítár yrði breytt en fossstæðið þurkað. Þó hafði hann í pokahorningu einkennilega viðbót við hugmynd sína. Hann gerði ráð fyrir að tilfæringar yrðu settar í ána til að hleypa fossinum á aftur ef túristar kæmu, svo hægt væri að kræla útúr þeim svolítinn aðgángseyri. Spurning: Hvað eigum við íslendíngar að gera við alla þessa penínga þegar búið er að útanskota fyrir okkur fegurstu stöðum landsins?
(...)
Nú vaða menn uppi sem er mest í mun að sökkva vin þeirri í vatn sem vindurinn hefur skilið eftir í hálendinu, Þjórsárverum...
(...)
Náttúrufræðingar hvaðanæva úr heimi, einstakir og fleiri saman, hafa sárbeðið ríkisstjórn Íslands, alþíngi og loks landslýðinn sjálfan að þyrma Þjórsárverum frá tortímíngu sem þeirra bíður um leið og hafinn er þriðji áfángi Þjósárvirkjunar.
Alþjóðleg samtök gegn náttúruskemdum héldu þíng í London í september síðastliðnum og tjáðu sig reiðubúin að kosta líffræðilegar rannsóknir á þessari paradís Íslands þar sem tíuþúsund heiðargæsahjón eru fulltrúar almættisins í norðlægri túndru umluktri eyðimörk. Þingheimur lét í ljós i þá von sína Íslandi til handa að lanið mætti halda þessum gimstein sínum óspiltum um aldir.
(...)
Á ofangreindu alþjóðaþingi náttúruverndara í London kom aðeins einn maður fram sem andstæðingur Íslands. Hann var sendur þángað af Orkustofnun í Reykjavík. Þessi maður lagði í ræðu sinni áherslu á að íslendingar væru einganveginn reiðubúnir að hætta við framkvæmdirnar í Þjórsárverum (orðrétt úr Morgunblaðinu 24ða september 1970).
Meiníngin í þessu afundna svari íslendíngsins er glögg: Orkustofnun hefur aungvar skyldur við lífið í landinu. Hestaflið í almættinu er verðlaust í Orkustofnun. Við erum rökheldir íslendingar og ef við höfum byrjað að trúa einhverri vitleysu haungum við fastir í henni til eilífðarnóns. Við höfum leyfi til að fara með Ísland einsog við viljum.
Gagnvart almenníngi á Íslandi felur svarið í sér að nú höfum við unnið þau verk fyrir fé ykkar skattþegnanna, að þið tapið því öllu nema við fáum meira fé til að halda áfram!
(...)
Á jólum 1971.