Fréttir

Kárahnjúkavirkjun mótmælt við íslenska sendiráðið í London
Hópur frá náttúruverndarsamtökunum Earth First mótmælti Kárahnjúkavirkjun fyrir framan íslenska sendiráðið í London og ræddi við Ólaf Sigurðsson, starfsmann sendiráðsins. Hópurinn sagði að náttúruverndarsinnar í Evrópu væru íslenskum stjórnvöldum reið vegna þeirra náttúruspjalla sem framkvæmdirnar við Kárahnjúka hafa í för með sér. Einnig tilkynnti hópurinn að Earth First og önnur evrópsk náttúruverndarsamtök væru staðráðin í að vinna gegn Kárahnjúkavirkjun og öðrum framkvæmdum skaðlegum náttúru Íslands.Michael Murphy og Ólafur Sigurðsson ræða saman

Mótmælandinn Michael Murphy ræddi við Ólaf Sigurðsson, starfsmann íslenska sendiráðsins í London og ku Ólafur hafa varið íslensk stjórnvöld með þeim rökum að vatnsorka væri eina orkulind Íslendinga og eini raunhæfa efnahagslausnin til að vega á móti fiskiðnaði. Murphy sagði hins vegar að hvorki Kárahnjúkavirkjun né álverið í Reyðarfirði gæti verið Íslendingum til hagsbóta þar sem framkvæmdirnar sköðuðu náttúruna, verðmætustu eign þjóðarinnar. Hann spáði því einnig að mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun færu vaxandi í Bretlandi og að framkvæmdirnar hefðu neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn á Íslandi, sérstaklega þar sem þær koma í kjölfarið á hvalveiðum Íslendinga. (28. ágúst 2004)


Mótmælendur fyrir framan íslenska sendiráðið í London

Innsetningarræða forseta Íslands 1. ágúst
Morgunblaðið 3. ágúst 2004: Hvert er erindi Íslendinga? "...Forlögin hafa fært okkur einstakt land, víðáttu og fegurð, litadýrð og náttúruundur, öræfi og grösuga dali, straumþungar ár og iðandi fossa.
Við skulum kappkosta að varðveita vel þetta draumaland sem við höfum fengið í arf svo að börn okkar og afkomendur geti um aldur og ævi þakkað þau forréttindi að vera Íslendingur
..."
(5. ágúst 2004)

Ummæli forseta fyrir forsetakosningar
Það sem forseti Íslands sagði mánudaginn 21. júní 2004 í Íslandi í dag á Stöð 2 kom okkur á náttúruvaktinni mjög á óvart og urðum við reyndar sum hver bálreið og átti hver það við sig hvernig hann brást við en við skiluðum ansi mörg auðu í mótmælaskyni. Hvað sagði hann nákvæmlega? Hann var spurður: "Það hafa komið upp fjölmörg mál, líka í þinni tíð sem hafa kallað á umræðu um að nýta málskotsréttinn.... (ÓRG: Það er rétt...) Það er öryrkjamálið, það er Kárahnjúkamálið. Hvað er öðruvísi í þessu máli?"
Ólafur Ragnar svarar: "Ég hef fagnað því núna síðustu daga að fyrirrennari minn ágætur hefur lýst því yfir að ef hún hefði verið forseti í Kárahnjúkamálinu myndi hún hafa beitt málskotsréttinum í Kárahnjúkamálinu. Vegna þess að sumir hafa viljað túlka yfirlýsingu hennar um EES-samninginn á þann veg að búið væri að ýta málskotsréttinum til hliðar og nú hefur Vigdís alveg tekið af skarið með það og sagt að hún hefði í Kárahnjúkamálinu beitt málskotsréttinum. Ég..." Spyrjandi óþolinmóður grípur fram í: "Ólafur, hvað er örðuvísi við þetta mál? Forsetinn: "Já, ég ætla að svara því...
Ég er hins vegar ekki sammála því vegna þess í Kárahnjúkamálinu hafði rækilega um það verið fjallað í í alþingiskosningum, það hafði verið lengi á dagskrá varðandi stefnu flokkanna, það var kosið til þings á þessum grundvelli. Varðandi öryrkjamálið þá var það fyrst og fremst hvort að það stæðist stjórnarskrá. Það er dómstóla að skera úr því."
Öllum þeim sem heyrðu þetta eða fréttu af þessu blöskraði ummæli forsetans og þau bárust eins og eldur í sinu út um allt. Hann hafði sagt í Kastljósi að hann hefði íhugað að skjóta þessum tveim málum til þjóðarinnar. Þarna er hann að réttlæta ákvörðun eða ákvörðunarleysi sitt á afar, ef má komast svo að orði um orð forseta, ódýran hátt. Það sem sæmir ekki svo háttsettum manni er að ganga svo fram af heiðvirðu fólki; hann fer einfaldlega ekki með rétt mál.
Um málið hafði ekki verið fjallað rækilega í Alþingiskosningunum sem skiptu máli varðandi Kárahnjúkavirkjun, þeirra sem fram fóru árið 1999, það les enginn stefnuskrá flokkanna, það var aldrei haft hátt um fyrirætlanir í þessu máli og það var hreint alls ekki kosið til þings á þessum grundvelli! Halló! Minni landsmanna er nú ekki svo skert að 2004 sé hægt að fara með tóma vitleysu. Landsvirkjun og co vanvirtu m.a. ríkisstofnun og Alþingi landsmanna og eðlilegri framvindu í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða út verkfræðivinnu Kárahnjúkavirkjunar FYRIR úrskurð Skipulagsstofnunar og FYRIR atkvæðagreiðsluna á Alþingi. Þetta mál var keyrt í gegn án tilhlýðilegar kynningar á réttum tíma, þ.e. FYRIR kosningar, og alla leið með þvílíkum þótta að vart finnast verri dæmi. Og það er ekkert lýðræðislegt við ákvörðunarferli Kárahnjúkavirkjunar. Það er ekki að ástæðulausu að Skipulagsstofnun gerði athugasemd við kynningartímann sem hún hafði lögum samkvæmt. Ritstjóri vefsíðunnar leyfði sér að fara fram á það opinberlega (Rás 2 í dægurmálaútvarpinu 27.6) að forseti Íslands biðjist afsökunar á ummælum sínum. (29. júní 2004; leiðr. 4. ágúst)

Fugla- og náttúruskoðun í friðlandinu í Flóa
Lagt verður upp í gönguna kl. 20 á sunnudagskvöld (13. júní) og gengið eftir fræðslustíg um friðlandið, sem hefst og endar í Stakkholti. Ekið er upp í friðlandið frá afleggjara að bænum Sólvangi og er vegvísir við Eyrarbakkaveg, sem á stendur: Nesengjar, friðland fugla. Annar vegvísir með korti er við Sólvang. Um 4 km eru frá þjóðveginum að Stakkholti. Kort og fleiri upplýsingar eru á vef Fuglaverndar.
Fuglalíf er nú í hámarki og ómar loftið af söng lóma, lóuþræla, jaðrakan, hrossagauka, þúfutittlinga og margra annarra fugla. Fuglarnir eru venjulega fjörugastir kvölds og morgna. Einnig verður hugað að gróðri og öðru lífi, en hin sjaldséða sjöstjarna er nú í blóma. Fjölfróðir náttúruvísindamenn verða með í för. Friðlandið er samstarfsverkefni Fuglaverndar og Árborgar og er styrkt af Pokasjóði. Munið eftir stígvélunum og sjónaukanum. (11. júní)

Námskeið um borgaralega óhlýðni eða borgaralegt hugrekki að nýta sér mótmælafrelsi
Í nútíma lýðræðissamfélagi er borgaralegt hugrekki mikilvæg gdygð. Það er mikið ánægjuefni að hingað til lands hefur verið boðið alþjóðlega þekktum sérfræðingum og aktívistum til að halda námskeið í borgaralegu
hugrekki eða borgaralegri óhlýðni. Rithöfundurinn Milan Rai og listakonan Emily Johns eru breskir friðar-
og umhverfisverndarsinnar. Þau munu halda þrjú námskeið um borgaralegt hugrekki dagana 12.-14. júní. Hægt er að velja um laugardaginn 12. kl. 15-20, sunnudaginn 13. eða mánudaginn 14. júní. Áhugahópur um virkara lýðræði.
Ekki þó víst að enn sé pláss! (12. júní). Upplýsingar á Gagnauganu (af forsíðu frá 30. maí)

Viðurkenning frjálsra félagasamtaka fyrir að hafa skarað fram úr með framlagi sínu til náttúruverndar og umhverfismála 2. júní síðastliðinn var Elínu Pálmadóttur blaðamanni veitt viðurkenningin fyrir framlag sitt í áratugi. Fjórir náttúrufræðingar höfðu síðustu ár fengið viðurkenninguna: Guðmundur Páll Ólafsson, Helgi Hallgrímsson, Sigrún Helgadóttir og Hjörleifur Guttormsson. Eins og kunnugt er hefur Elín m.a. beitt sér fyrir verndun Þjórsárvera. Ein setning er ritstjóra sérstaklega minnisstæð úr ávarpi Elínar: "Almenningur hefur ekki tíma til að átta sig á valkostum". Veit fólk annars um Kvíslárveitu 6 sem er falin í nýjum búningi í núverandi tillögum að Norðlingaölduveitu? (6. júní)

Dr. Louise Crossley umhverfis- og vísindasagnfræðingur heldur fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni þriðjudaginn 25. maí kl. 20: Baráttan gegn Franklin-virkjuninni í Tasmaníu og barátta gegn höggi ósnortinna skóga (20. maí)
Ýmislegt má finna um Franklin-ána í Tasmaníu og baráttuna fyrir verndun hennar gegn ásælni áljöfra á árunum '70-'80 á
vefsíðu alþingismanns Tasmaníu, Bob Brown. Einnig má fræðast um þau öflugu samtök sem urðu til í baráttunni og sigrinum sem vannst í Tasmaníu The Wilderness Society Defending Australia's WildCountry. Ebro-áin sleppur með skrekkinn á Spáni Spain to scrap disputed river rerouting, says Zapatero (22. maí) Sjá einnig Ástralir áttuðu sig eftir Gunnar Örn Sigvaldason og Sigríði Þorgeirsdóttur; stytt útgáfa af greininni birtist í Mbl. 27. febrúar 2003 (23. maí)

Alþjóðlegur náttúruverndardagur sem lagt er til að verði tileinkaður hafinu laugardaginn 5. júní 2004 - en hvert land velur sér þó umfjöllunarefni eftir aðstæðum, t.d. í Ástralíu er það verndun fornra villtra skóga (15. maí / 22. maí)

Fræðslufundur um leiðir og aðferðir í umhverfisbaráttu verður haldinn laugardaginn 22. maí kl. 15-18 í stofu 304 í Árnagarði Háskóla Íslands.
Erindi flytur dr. Louise Crossley umhverfis- og vísindasagnfræðingur. Hún hefur kennt umhverfisstjórnun og áhættumat vi umhverfisfræðadeild Tasmaníuháskóla og stýrt áströlskum rannsóknastöðvum á Suðurskautslandinu þar sem lögð er áhersla á umhverfisstjórnun og er einn aðalhöfunda leiðsögubóka um Suðurskautslandið.
Einnig hefur hún birt greinar um fræði sín og er höfundur útvarps- og sjónvarpsefnis um vísindi og samfélag, umhverfi og náttúru (21. maí)

Kvikmyndahátíð Landverndar Náttúra Íslands í lifandi myndum í Háskólabíói 20. maí. Hátíðin hefst á uppstigningardag kl. 11 og eru myndir sýndar allan daginn, sú síðasta kl. 18. Passi á allar myndirnar kostar 1000 krónur. Klukkan 14 verður mynd Páls Steingrímssonar og Magnúsar Magnússonar frumsýnd World of Solitude (um Vatnajökul og nágrenni) (15. maí)

Fjöldafundur á Austurvelli miðvikudaginn 19. maí kl. 12.10
STÖNDUM VÖRÐ UM LÝÐRÆÐIÐ! ALLIR Á VÖLLINN! SÝNUM ÞEIM RAUÐA SPJALDIÐ!
Hingað og ekki lengra! Mætum með rauða og gula spjaldið, dómaraflautur, lúðra, trommur, hrossabresti, ýlur og blístrur. Látum í okkur heyra! Ýlur og blístrur verða til sölu. Rauðum og gulum spjöldum verður dreift.

Lýðræði byggist á umræðum, gagnsæi, ábyrgð, virðingu og trausti. Íslensk stjórnvöld sniðganga lýðræðislega umræðu í hverju málinu á fætur öðru og beita handafli til að koma fram málum. Írak, útlendingalög, umhverfismál, öryrkjar, réttindi launafólks, Hæstiréttur, Umboðsmaður Alþingis, kærunefnd jafnréttismála, og nú síðast fjölmiðlar. Nú er mælirinn meira en fullur. Leikreglur lýðræðisins eru ekki virtar. Við erum þjóðin, við berum ábyrgð á lífinu í landinu og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Látum í okkur heyra. Þrengjum okkur í gegnum hlustir ráðamanna. Við viljum raunverulegt lýðræði! Hingað og ekki lengra! Við mótmælum öll!
Áhugahópur um virkara lýðræði boðar til fjöldafundar á Austurvelli miðvikudaginn 19. maí kl. 12.10

Fuglavernd stendur fyrir kríudegi við Tjörnina (Þorfinnstjörn í Hljómskálagarðinum) í dag, 15. maí, kl. 15 og flórgoðadegi við Ástjörn í Hafnarfirði á morgun kl. 14-16. Ástjörn er syðst í Hafnarfirði, austan Reykjanesbrautar og er farið að tjörninni um hið nýja Áshverfi (15. maí 2004)

Viðar Hreinsson og Jakob Björnsson skrifast á um virkjunarmál (13. maí 2004)

Hádegiserindi Náttúrfræðstofnunar Íslands (22. október 2003 til 12. maí 2004)

Loftslagsráðstefna Hótel Nordica laugardaginn 24. apríl (22. apríl)
Fyrirlesarar kl. 9-18 frá Kanada, Svíþjóð og Noregi ásamt Halldóri Þorgeirssyni (umhverfisráðuneyti), Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur (UNIS Svalbarða) og Halldóri Ásgrímssyni. Vísindavika 21.-28. apríl en dagskrár er ekki getið annarrar en laugardagsins. Samkv. Mbl. 22. apríl (bls. 12): "Hátt í tvö hundruð innlendir og erlendir vísindamenn, sem fást við rannsóknir á loftslagi, lífríki, umhverfi og mannlífi norðurslóða, taka þátt í ráðstefnunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu" og að dagskráin hafi hafist með vinnufundum...

Dagur umhverfisins í Smáralind á vegum umhverfisráðuneytisins 24. og 25. apríl (19. apríl)
Á séríslenskum umhverfisdegi í tilefni af fæðingardegi Sveins Pálssonar náttúrufræðings 1762 vekur nokkra athygli kynning Alcan á Íslandi hf.: fyrirtækið "kynnir umhverfislega kosti áls, sem oft hefur verið kallað græni málmurinn". Eins og allir vita er álbræðsla orkufrekur iðnaður sem kallar á miklar virkjanir sem oftar en ekki eru afar óumhverfisvænar í okkar viðkvæmu hálendisnáttúru. Að öðru leyti sjá dagskrána í verslunarmiðstöðinni.

Kynning í Öskju á rannsóknum í raunvísindum við Háskóla Íslands 16. og 17. apríl (11. apríl 2004)
Tuttugu mínútna fyrirlestrar í sal N-131 eða N-132 og í Norræna húsinu báða dagana. Veggspjöld á 1. hæð Öskju með stuttum textum um ýmis efni (jarðvísindi, eðlis-/veður-/efna-/land-/stærð-/matvæla- og líffræði). Þingið stendur í tvo daga, föstudaginn 16. apríl 13.30-17 og laugardaginn 17. apríl 9-17.30. Veitingar í boði raunvísindadeildar í kaffihléum báða dagana. Ókeypis og öllum opið (sjá einnig viðtal bls. 8 Mbl. 11. apríl). Í beinu framhaldi verður náttúrufræðahúsið, Askja, opið almenningi sunnudaginn 18. apríl kl. 13-17. Þá gefst kostur á að kynnast enn frekar þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í Öskju í líf- og jarðvísindum, hlusta á fyrirlestra og skoða afrakstur margvíslegra rannsókna.

Stjórnarformaðurinn biðst afsökunar á orðum í garð umhverfisverndarsinna (4. apríl 2004)
Hádegisfréttir Rásar 1 4. apríl 2004: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, hefur dregið til baka ummæli sem hann lét falla á samráðsfundi Landsvirkjunar í fyrradag. Hann hefur einnig beðist afsökunar á orðum í garð umhverfisverndarsinna. Þau hafi einungis komið fram í skrifaðri ræðu sem var dreift til fjölmiðla. Jóhannes Geir segir í tilkynningu að orðið "óprúttinn" sem hann hafði uppi um áróður umhverfisverndarsamtaka gegn Kárahnjúkavirkjun hafi aðeins komið á prent í skrifaðri ræðu sem var dreift á fundinum. Hann hafi strikað orðið út úr ræðunni áður en hann flutti hana. Jóhannes biðst afsökunar á þessum mistökum."

Ómálefnaleg orðræða stjórnarformanns Landsvirkjunar (3. apríl 2004)
Mótmæli Náttúruverndarsamtaka Íslands Lágkúra Landsvirkjunar
Mótmæli framkvæmdastjóra Landverndar "Óprúttinn áróður, þjóðernisremba" og andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar: Mín skoðun

Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005 (3. apríl 2004)
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Köln, Fort Collins/Colorado, Lancaster/New York, Reykjavík, Nancy/Frakklandi, Berlín og Boston.

VERKFRÆÐINGAR OG UMHVERFIÐ (31. mars 2004)
Miðvikudaga í sal 1 í Háskólabíói hafa verið flutt erindi um umhverfismál á vegum umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar Háskóla Íslands. Vegna forfalla flutti Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri hjá Orkustofnun, það sem líklega er síðasta erindið miðvikudaginn 31. mars kl. 11-12.15 um rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda (Sveinbjörn er ákaflega góður fyrirlesari sem á auðvelt með að setja flókin efni fram á skýran hátt)

Regnhlífamótmæli í Tate Modern í London (21. mars 2004)
Kárahnjúkavirkjun var mótmælt á síðasta degi sýningar Ólafs Elíassonar Weather Project.

Nýjar greinar í greinasafni Náttúruvaktarinnar (16. mars 2004)
Í greinasafni Náttúruvaktarinnar eru komnar greinarnar "Hin skrínlagða heimska" eftir Pétur Gunnarsson og "Allra hagur?" eftir Viðar Hreinsson. Einnig hafa bæst við þýðingar á grein Torgny Norden sem birtist í Göteborgs-Posten í janúar síðastliðnum og á grein eftir Mark Lynas úr desember-hefti The Ecologist.

Pokasölunni er lokið... (6. mars 2004)
Sala burðarpoka með merki Náttúruvaktar stóð einungis 27. feb. - 6. mars því þeir seldust upp! Stofnað var til pokasölunnar til að standa straum af kostnaði við leigu á léni fyrir upplýsingavef Náttúruvaktar, natturuvaktin.com, og salan til styrktar vefnum gekk vonum framar :) Kærar þakkir fyrir stuðninginn.
Það skal tekið fram að allir gefa vinnu sína við vefinn.

Fundur í Norræna húsinu fimmtudaginn 4. mars kl. 16.30 um um frumvarp umhverfisráðherra um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
Fimmtudaginn 4. mars kl. 16.30 um verður haldinn fundur í Norræna húsinu um frumvarp umhverfisráðherra um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, einkum bráðabirgðaákvæði III sem fylgir með frumvarpinu og - ef samþykkt verður - mun opna fyrir hækkun stíflu í Laxá um 10-12 metra. Að fundinum standa Fuglaverndarfélag Íslands, Landssamband stangaveiðimanna, Náttúruverndarsamtök Íslands og Samtök um náttúruvernd á norðurlandi (SUNN). Erindi: Gísli Már Gíslason, prófessor við HÍ. Einsöngur: Kristinn Sigmundsson við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Ávarp: Ingólfur Jóhannesson, formaður SUNN.

Vefur Náttúruvaktar opnaður (2. mars 2004)
Í tilefni eins árs afmælis Náttúruvaktarinnar 27. febrúar opnuðu Kristín Halla Helgadóttir, 10 ára, Ívar Hannes Pétursson, 9 ára, og Þórey Nína Pétursdóttir, 7 ára, nýjan vef Náttúruvaktarinnar.