Framtíðarhugmynd 1994...

Úr bók sem iðnaðarráðuneytið gaf út í maí 1994: Innlendar orkulindir til vinnslu raforku (bls. 19)

Mynd 3.4 tengist kafla sem nefnist "Framtíðarflutningskerfi"
"Helstu virkjunarkostir landsins eru á Suðurlandi og Austurlandi auk Norðurlands. Það er ljóst að ef ná á fram hagkvæmni þess að reka vantsaflsvirkjanir í samtengdu kerfi, þarf að tryggja að flutningskerfið geti annað þeim árstíðabundnu flutningum á raforku sem þurfa að vera milli landshluta. Framtíðarháspennulínur milli Suðurlands og Austurlands er áætlað að leggja yfir hálendið um Sprengisand og Ódáðahraun." (...)

"Eins og áður sagði er staðarval nýrra stórnotenda og stórvirkjana sá þáttur sem ræður mestu um framtíðarflutningskerfið. Því er nauðsynlegt að taka tillit til kostnaðar og öryggis flutningskerfisins við slíkt val, þar sem afhendingaröryggi raforkunnar mun byggjast að stórum hluta á því vali."

Sighvatur Björgvinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, skrifar inngang sem hér er vitnað í:
"Skýrsla þessi er gerð til þess að framfylgja starfsáætlun ríkisstjórnarinnar jafnframt því sem henni er ætlað að stuðla að markvissri umræðu um það hvernig við getum nýtt orkulindir þjóðarinnar til að bæta lífskjör hennar í framtíðinni." (...)

"Rétt er að taka skýrt fram að í fylgiskjölunum [frá Orkustofnun um vatnsorku og jarðhita bls. 35-153] er ekki lagt mat á að hve miklu leyti sjónarmið náttúruverndar eða önnur umhverfissjónarmið koma til með að hafa áhrif á ákvörðun um einstaka virkjanakosti. Fjallað er um viðhorf til umhverfis- og þróunarmála á alþjóðavettvangi og gerð grein fyrir hvernig nýting orkulinda þjóðarinnar fellur að þeim. Þrátt fyrir að beislun vantsaflsins fylgi ekki mengun og mengun samfara nýtingu jarðvarmans sé lítil borin saman við brennslu jarðefnaeldsneytis verður ekki komist hjá því að virkjanir hafi áhrif á umhverfi og rekist á við aðra landnotkun. Þessum þáttum eru gerð nokkur skil í skýrslunni. Loks er í henni fjallað um þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi fyrir Íslendinga til að hagnýta orkulindir sínar í stórum stíl á næstu áratugum. Þeir eru í fyrsta lagi til framleiðslu orkufrekra iðnaðarafurða, í öðru lagi beinn útflutningur raforku og í þriðja lagi framleiðsla á eldsneyti.
Skýrslan er að mestu leyti samhljóða skýrslu um nýtingu innlendra orkulinda til raforkuvinnslu, sem lögð var fyrir Alþingi á 117. löggjafarþinginu í apríl 1994. Að gerð þeirrar skýrslu unnu auk starfsmanna iðnaðarráðuneytisins, fulltrúi umhverfisráðherra og starfsmenn Landsvirkjunar og Orkustofnunar."