Eldri fréttir

Sameiginleg umsögn náttúruverndarsamtaka
Umsögn um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða pdf-skjal
Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi
Félag um verndun hálendis Austurlands
Framtíðarlandið
Fuglavernd
Landvernd
Náttúruvaktin
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN)

Sól á Suðurlandi

(12. nóvember 2011)

Náttúruvernd og skipulag
Vorráðstefna Náttúruverndarsamtaka Austurlands á Djúpavogi við Berufjörð laugardaginn 4. júní 2011. Fyrirlestrar, gönguferð og kvöldvaka. Skráning og dagskrá á vef NAUST
(30. maí 2011)

Talsvert neikvæð áhrif vegna 5. álversins
Alcoa er framkvæmdaraðili verksins en mat á umhverfisáhrifum er unnið af HRV Engineering. "Alls myndu 17 þúsund hektarar af ósnortnu víðerni skerðast vegna álvers á Bakka og tengdra framkvæmda. Umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda er lýst í nýrri frummatsskýrslu. Áhrif á landslag og útivist í ósnortinni náttúru eru metin talsvert neikvæð." 17 þúsund hektarar myndu spillast. Fyrirhuguð er allt að 346 þúsund tonna framleiðsla... af stakri hugmyndafátækt. Sjá frummatsskýrsku á vef Skipulagsstofnunar. Frestur til að gera athugasemdir til 14. júní 2010.
(30. apríl 2010)

Náttúrverndarþing laugardaginn 24. apríl 2010 í MH kl. 10
Náttúru- og umhverfisverndarsamtök á Íslandi boða til náttúruverndarþings í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð laugardaginn 24. apríl nk. kl. 10-15.30: Náttúruvernd á krossgötum vörn og sókn.

Náttúruverndarþing er haldið til að leiða saman alla þá sem hafa áhuga á umhverfis- og náttúruverndarmálum. Markmiðið er að skapa öflugan grundvöll samstarfs og umræðu um málefni og baráttuaðferðir náttúruverndarfólks og náttúruverndarsamtaka á Íslandi. Sjá dagskrá málþingsins á vef Landverndar.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku hjá Landvernd. ALLIR VELKOMNIR !

Dagskrá þingsins er tvíþætt. Fyrri hluta dags verða flutt erindi um verkefni sem verið hafa til skoðunar og í umræðunni að undanförnu s.s. rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, verndun jarðminja á framkvæmdasvæðum, endurheimt votlendis, loftslagsbreytingar og löggjöf um náttúruvernd. Einnig verður fjallað um stöðu og þýðingu náttúruverndar og spáð í framtíðina. Seinni hluti þingsins verður að hætti Heimskaffis helgaður málstofum um verkefnin framundan og leiðir til að takast á við þau.

Mikilvægt er að náttúruverndarfólk fjölmenni á þingið til að leggja á ráðin og hafa áhrif á þróun náttúruverndar á Íslandi til framtíðar. Boðið verður upp á kaffiveitingar, súpu og brauð í hádeginu.

Þingið er haldið á vegum helstu náttúruverndarsamtaka á Íslandi í dag. Hugmyndin er að halda náttúruverndarþing frjálsra félagasamtaka (Non-governmental organization: NGO) annað hvert ár í framtíðinni.
(20./30. apríl 2010)

Forsendur umhverfisins og samfélagsins
Það er frískandi að lesa ummæli umhverfisráðherra um yfirlýsingar SASÍ (SI/ASÍ).
(7. mars 2010)

Vönduð miðlun, gagnrýnin hugsun og samfélagsleg ábyrgð
Fín grein eftir Gunnar Hersvein í Fréttablaðinu um mál sem varðar allt þjóðfélagið og alla málaflokka
Vandi íslenskra fjölmiðla: "Sögulegir atburðir eiga sér stað sem skilja á milli feigs og ófeigs, og vönduð miðlun til þjóðarinnar getur ráðið úrslitum um framhaldið. En hvað gerist þá? Fréttamenn missa vinnuna og þeir sem eftir eru hafa æ sjaldnar tíma til að vanda sig sökum álags." Og starfshópur menntamálaráðherra um almannaútvarp á Íslandi skilar áhugaverðri skýrslu Tryggja þarf sjálfstæði RÚV.
(27. janúar 2010)

2010 ár líffræðilegrar fjölbreytni
Nokkrar skýrslur eru til, s.s. 1)
Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Stefnumörkun til 2020. Umhverfisráðuneyti 2002. 2) Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni. Umhverfisendurskoðun. Ríkisendurskoðun 2006. 3) Líffræðileg fjölbreytni. Stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Umhverfisráðuneyti, drög október 2007.
En hvað svo?
Aðeins tvær landsskýrslur hafa borist til höfuðstöðva (Ríó)samningsins um Líffræðilega fjölbreytni í Montreal, sú fyrsta er frá 2001 og hin frá 2003; síðan ekki söguna meir... Öll hin Norðurlöndin eru duglegri þar en við, eins og alltaf. Engin Stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni (NBSAP: National Biodiversity Strategy and Action Plan) hefur verið lögð fram enn, en það var verið að leggja lokahönd á hana 2007... (sjá drögin). Gerist loks eitthvað í ár?
Síðan er það Cartagena-bókunin um lífvernd (Cartagena Protocol on Biosafety - CPD). Ísland skrifaði undir 2001 og síðan ekki söguna meir. Öll Norðurlöndin nema Ísland hafa staðfest hana. Í fjöldamörg ár hefur staðið á vefjum umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar: "verið er að vinna að staðfestingu" og einnig í bæklingnum Velferð til framtíðar frá 2002, bls. 61. Lög um erfðabreyttar lífverur hafa þó verið í gildi hér á landi síðan 1996.
(11. janúar 2010)

Breytt nálgun umhverfisvalda á loftslagsvandanum
"Skynsamlegt að fjárfestingum sé beint strax í átt að loftslagsvænni tækni" (bls. 221). Setningarbrot úr:
Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Skýrslan (pdf-skjal). NSÍ bendir á skilgreiningu á nettóútstreymi (bls. 13): "útstreymi að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu" og tilheyrandi skiptimarkaði. Í skýrslunni kemur reyndar fram að óvissa er um að endurheimt votlendis sé talin til mótvægisaðgerða af SÞ (bls. 9). Þó vakti Þórunn Sveinbjarnardóttir, þá umhverfisráðherra, einmitt "athygli á tillögu Íslands um að endurheimt votlendis verði viðurkennd formlega sem leið til að binda kolefni úr andrúmslofti" á 14. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í desember 2008. Ja hérna, ekki er allt sem sýnist. Að lokum mætti benda á það sem skýrslan fjallar ekki um: "Auk þjóðhagfræðilegra áhrifa er ekki metin hin ýmsu jákvæðu ytri áhrif sem hljótast vegna mótvægisaðgerða, svo sem bætt heilsa og minni loftmengun vegna aðgerða í samgöngum." (bls. 220).
(12. / 13. júní 2009)

Náttúruverndaráætlun 2009-2013
"Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu 13 svæða til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru landsins, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar." Stjórnartillaga lögð fram 27. maí sl. Fyrri umræða 4. júní.
(8. júní 2009)

Útdráttur og frestur ein vika... út af erfðabreyttu byggi
Opið bréf til Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra vegna Útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Sjá einnig Ræktun mannapróteina í íslenskri náttúru og Gagnlegur fundur um erfðabreyttar lífverur.
(29. maí / 11. júní 2009)

Suðvesturlínur
"Núverandi meginflutningskerfi raforku til og frá Reykjanesskaga er rekið á 132 kV spennu og er fulllestað í dag. Virkjanir á Suðurnesjum eru jarðgufuvirkjanir, en slíkar virkjanir henta illa þegar bregðast þarf við sveiflum og halda uppi jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar á orkumarkaði. (...) Fyrirhugaðar framkvæmdir ná yfir stórt svæði á Suðvesturlandi [liggja um tólf sveitarfélög] og fela í sér uppbyggingu á orkuflutningskerfi á 220 kV spennu um Reykjanesskaga og á 400 kV kerfi frá Hellisheiði að nýju tengivirki við Hrauntungur ofan við byggð í Hafnarfirði. Jafnframt þarf að tengja kerfið við fyrirhugaðar virkjanir við Hverahlíð og Bitru á Hellisheiði og styrkja tengingar frá starfandi virkjunum á Reykjanesi og í Svartsengi. Við kerfið tengist einnig orkufrek starfsemi, s.s. netþjónabú og fyrirhugað álver í Helguvík." (útdráttur úr frummatsskýrslu á bls. i-ii). Framkvæmdin var auglýst í gær. Frummatsskýrsla (pdf-skjal) til athugunar. Setning eins og eftirfarandi er ekki beint traustvekjandi: "Áhrif frá segul- og rafsviði eru staðbundin og afturkræf og teljast því óveruleg." (bls. 176-177). Frestur til athugasemda til 2. júlí 2009.
(21. maí 2009)

Alþjóðlegi farfugladagurinn
Haldið verður upp á alþjóðlega farfugladaginn á Álftanesi laugardaginn 9. maí. Boðið verður upp á gönguferð og fuglaskoðun, leiðbeiningar um fuglaljósmyndun og ýmsar upplýsingar um fugla, ferðir þeirra og farleiðir og um náttúru Álftaness. Allir velkomnir!
Umhverfisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Sveitarfélagið Álftanes, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Fuglavernd halda sameiginlega upp á daginn
.
(4. maí 2009)

Er nýting jarðvarma sjálfbær?
13. stefnumót umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða. Fjallað verður um áhrif jarðvarmavirkjana á loftgæði og háhitasvæði. Stefán Árnórsson, prófessor við Háskóla Íslands: Háhitasvæði: umhverfisáhrif eða sjálfbær nýting. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun: Jarðhitavirkjanir og brennisteinsvetni. Fundurinn verður í fundarsal Þjóðminjasafnsins miðvikudaginn 6. maí 2009 kl. 12-13.30. Stefnumótin eru opnir fundir um umhverfismál sem efst eru á baugi hverju sinni. Allir velkomnir!
(4. maí 2009)

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar stofnaður
"Markmið sjóðsins er að auka almenna þekkingu á íslenskri náttúru svo að umgengni okkar og nýting á verðmætum hennar geti í ríkari mæli einkennst af virðingu og skynsemi. Samhliða er leitast við að bæta tengsl Íslendinga við náttúru landsins og efla með því gott hugarfar, mannlíf og atvinnustarfsemi í sátt við umhverfið." (Af vef sjóðsins)
(21. mars 2009)

Náttúru- og umhverfisfræði við LbhÍ
"Áhersla er lögð á náttúru Íslands, áhrif mannsins á umhverfið, sjálfbæra nýtingu náttúrugæða og náttúruvernd. Markmið námsins er að útskrifa nemendur með góða undirstöðu í náttúrufræðum með sérþekkingu á íslenskri náttúru." Sjá nánar vefsíðu Landbúnaðarháskóla Íslands.

(6. mars 2009)

Umhverfis- og auðlindafræði við HÍ
"Meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði er 2 ára, 120 ECTS eininga, rannsóknatengt nám sem felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og rannsóknum. Námið er samsett úr margvíslegum kjarna- og valnámskeiðum auk rannsóknarverkefnis. Nemendur fá því yfirgripsmikla þverfræðilega þekkingu, þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og rannsóknum. Þeir fá auk þess þjálfun í að kryfja vandamál, rökræða og koma máli sínu og gagnrýni á framfæri." Námskeið eru mestmegnis á ensku. Sjá nánar vefsíðu Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur vegna náms haustið 2009 hefur verið framlengdur til 15. apríl.
(6. mars 2009)

Sameiginlegt mat - álver, jarðgufuvirkjanir og háspennulínur
Alcoa, Þeistareykir ehf., Landsvirkjun og Landsnet hf., kynna sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru í Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi.

Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 eru framkvæmdirnar háðar sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum, í samræmi við 2. mgr. 5. greinar í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Matsvinnan er hafin og frá 20. febrúar má nálgast drög að tillögu að matsáætlun á heimasíðum Alcoa, Þeistareykja ehf., Landsvirkjunar, Landsnets hf. og Mannvits hf.

Sömuleiðis drög að tillögu að matsáætlun vegna Kröfluvirkjunar II. Landsvirkjun hafði áður lagt fram tillögu að matsáætlun Kröfluvirkjunar II, sem var dregin til baka þann 6. nóvember 2008.

Frestur til að gera athugasemdir er til 6. mars 2009.
(27. febrúar 2009)

Umhverfis- og auðlindastjórnun
Haf- og strandsvæðastjórnun er krefjandi og metnaðarfullt meistaranám í umhverfis- og auðlindastjórnun sem Háskólasetur Vestfjarða býður upp á í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Námið er á ensku.

(27. febrúar 2009)

Málstofa: Hvalir við Ísland: vistfræði og veiðar
Markmið málstofunnar er að stuðla að upplýstri og faglegri umræðu um þessi umdeildu dýr í sjávarlífríkinu.

Gísli Víkingsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnuninni, mun fjalla um útbreiðslu og fæðuhætti stórhvala á Íslandsmiðum og greina m.a. frá nýjum rannsóknaniðurstöðum.

Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, mun beina sjónum að vistfræðilegri stöðu hvala í sjávarlífríkinu og horfa gagnrýnum augum á ýmsar líffræðilegar forsendur að baki hvalveiðum.

Málstofan verður haldin á vegum Náttúruverndarsamtaka Íslands þriðjudaginn 24. febrúar í Öskju, Sturlugötu 7, stofu 131 og hefst kl. 16.45.
(23. febrúar 2009)

Loksins loksins sjálfsögð mannréttindi
Fullgilding Árósasamningsins er sérstakt fagnaðarefni. Bravó! Árósasamningurinn verður fullgiltur. Nokkuð er síðan hin Norðurlöndin staðfestu Árósasamninginn: Danir staðfestu Árósasamninginn 29. sept. 2000, Norðmenn 2. maí 2003, Finnar 1. sept. 2004, Evrópusambandið 17. febrúar 2005 og Svíar 20. maí 2005.

Hví er sá samningur svo mikilvægur?
í formála Árósasamningsins sem var undirritaður í Árósum 25. júní 1998:
- er sérstök áhersla lögð á tvö grundvallaratriði: umhverfisrétt sem mannréttindi annars vegar og mikilvægi aðgangs að upplýsingum [1], þátttöku almennings [2] og aðgangs að réttlátri málsmeðferð við sjálfbæra þróun hins vegar [3].
- er sú hugmynd að fullnægjandi umhverfisvernd sé undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda tengd þeirri hugmynd að hver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og honum beri skylda til að vernda umhverfið.
- er síðan dregin sú ályktun að til þess að geta krafist þessa réttar og sinnt þessari skyldu verði borgarar að hafa aðgang að upplýsingum [1], hafa rétt til þátttöku í ákvarðanatöku [2] og njóta réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum [3].
- er viðurkennt að sjálfbær og vistvæn þróun byggist á virkri ákvarðanatöku stjórnvalda sem grundvallist bæði á umhverfislegum sjónarmiðum og framlagi almennings. Þegar stjórnvöld veiti almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál og geri honum kleift að eiga aðild að ákvarðanatöku stuðli þau að markmiðum samfélagsins um sjálfbæra þróun
.

3. apríl 2006 var fyrsti af þremur þáttum Árósasamningsins löggiltur á Íslandi: Lög um upplýsingarétt um umhverfismál (EES-reglur). Sjá: Samningar
(12. febrúar 2009)

Almenningur skal færa Helguvík fórnir
Tillaga um suðvesturlínur og styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi liggur frammi til kynningar frá 29. janúar til 13. febrúar 2009 hjá Skipulagsstofnun.
Allir hafa rétt til að kynna sér tillöguna og leggja fram skriflegar athugasemdir, sem skulu berast eigi síðar en 13. febrúar 2009 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík.
Athugasemd Landverndar.
(6. febrúar 2009)

KRAFLA, GJÁSTYKKI, ÞEISTAREYKIR
Kærufrestur vegna rannsóknaborana er til 14. janúar 2009.
Þegar ákvarðanir Skipulagsstofnunar eru lesnar kemur í ljós að umhverfisáhrifum vegna borunar rannsóknahola er skotið undan SAMEIGINLEGU mati á umhverfisumróti vegna álbakka (tímamótaúrskurður umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008) að því er virðist í skjóli orðsins "samtímamat". Boranirnar eru álitnar forleikur. Nokkuð umfangsmikill forleikur því hér er um allt að 11 holur að ræða.
- 4 holur við Kröflu (pdf-skjal)
- 3 holur í Gjástykki (pdf-skjal)
- 4 holur á Þeistareykjum (pdf-skjal)
Rannsóknaholur og boranir gerast ekki ókeypis og spurning hver borgi bröltið. Lánadrottnar? Við?
(6. janúar 2009)

Munurinn á jarðvarmaorkuverum og jarðgufuvirkjunum
"Jarðvarmaorkuver eru hagkvæmari en jarðgufuvirkjanir. Í þeim fyrrnefndu er framleitt bæði heitt vatn til upphitunar og raforka, sbr. orkuverin í Svartsengi og á Nesjavöllum, og þá er auðlindin líka best nýtt og á sem umhverfisvænastan hátt.

Jarðgufuvirkjanir eins og þær í Kröflu, á Hellisheiði og Reykjanesi framleiða eingöngu raforku, nýta varmaorkuna mun verr og eru ekki eins vistvænar." Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og hefur starfað að jarðhitarannsóknum og -nýtingu í 40 ár. Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32.

Nýting jarðhita til raforkuframleiðslu léleg
"Þorsteinn benti á að við raforkuframleiðslu með jarðhita nýtist um 12% af orkunni sem kemur úr iðrum jarðar. Hin 88% fari út í umhverfið, fyrst og fremst í mynd varmaorku. "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni," sagði Þorsteinn [Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands] ". Mbl. 18. okt. 2007.
(6. janúar 2009)© Jóhann Óli Hilmarsson

Votlendi er mikilvæg náttúruauðlind og forsenda fyrir ríkulegu og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi

Endurheimt votlendis hefur verið á dagskrá margra náttúruverndarfélaga, svo sem Fuglaverndarfélags Íslands enda byggja yfir 90% íslenskra varpfugla, umferðarfugla og vetrargesta, afkomu sína að einhverju eða öllu leyti á votlendi. Nú síðast hefur endurheimt votlendis verið sett á dagskrá náttúrusjóðsins Auðlindar, sem stofnaður var 1. þessa mánaðar.

Í skýrslu (pdf-skjal, 2006) sem gefin var út af nefnd um endurheimt votlendis kemur fram að:
"Frá 1941 hafa verið grafnir u.þ.b. 32.0000 km af skurðum til að framræsa mýrar. Talið er að flatarmál þess votlendis sem hefur verið framræst sé yfir 4000 km2. Allt fram til ársins 1987 var framræsla styrkt af ríkinu. Þegar styrkveitingar lögðust af var búið að framræsa stóran hluta alls votlendis á láglendi."

Alþjóðlegi votlendissamningurinn eða Ramsarsamningurinn fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa og er Ísland aðili að honum síðan 1978. Lesa má um samninginn í: Ramsarsamningurinn og votlendissvæði á Norðurlöndunum. Um verndun og aðra landnýtingu (pdf-skjal, 2004).

8. desember 2008 voru Ramsarsvæðin í heiminum 1822 og náðu yfir 168 þúsund hektara en aðeins eru þau 3 á Íslandi : Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður (Leirárvogar).

"Verulegur hluti gróins lands á Íslandi er einhvers konar votlendi, en auk mýrlendis tejast til votlendis samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu hvers kyns vötn, fjörur og grunnsævi út á 6 m dýpi. Í þessari grein er lýst helstu búsvæðum íslenskum sem flokkast undir votlendi. Getið er rannsókna sem fram hafa farið frá því að yfirlit um íslensk votlendi var síðast tekið saman, árið 1975 (Rit Landverndar 4). Lýst er helstu þáttum sem ráða gerð votlenda og þar með lífríki þeirra. Fjallað er um fæðuvefi, einkum með tilliti til votlendisfugla." Íslensk votlendi. Verndun og nýting 1998, bls. 13 (Arnþór Garðarsson). Sjá: Samingar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra talaði fyrir endurheimt votlendis í Poznan, Póllandi, á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
(14. desember 2008)© Hans Strand

Náttúruverndaráætlun 2009-2013 komin í umhverfisnefnd
Eftir lýðræðisútrás á Alþingi mælti umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrir merkri náttúruverndaráætlun (kl. 17.28). Langisjór og Þjórsárver eru meðal 13 svæða sem verndinni er ætlað að ná til. Þá er eftir að sjá hvernig til tekst. Vert er í því sambandi að minna á: "Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna." Úr stjórnarsáttmála.
Tjáningin tók á sig margar myndir í dag og fær mbl.is vinninginn fyrir vandaða umfjöllun: mbl.is kl. 16.12 og sjónvarp mbl.is kl. 17.41. Menn eru að meiri.
Álfheiður Ingadóttir spurði um Teigskóg (birkiskógur) og friðlýsingu viðkvæmra hafsvæða, sérlega kaldkórallasvæði. Svar Þórunnar var jákvætt. Álfheiður nefndi tvö nöfn sérstaklega varðandi velheppnaðar nafngiftir á mosum og fléttum, Hörð Kristinsson og Bergþór Jóhannsson.
(ritstjóri 8. nóvember 2008)

Umhverfisráðherraembættið tvítugt 23. febrúar 2010
Iðnaðarráðherranöfnin frá 1989 eru Jón Sigurðsson oftar en einu sinni, Sighvatur Björgvinsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir og Össur Skarphéðinsson. Umhverfisráðherrar: Júlíus Sólnes (23. febrúar 1990-1991), Össur Skarphéðinsson (1991-1995), Guðmundur Bjarnason (1995-1999; einnig landbúnaðarráðherra), Siv Friðleifsdóttir (1999-2003), Sigríður A. Þórðardóttir (2003-2004), Jónína Bjartmarz (2004-2007) og okkar skelegga Þórunn Sveinbjarnardóttir sem hefur unnið í erfiðu stjórnarumhverfi síðustu 18 mánuði. Hún hefur mátt þola þungan áróður gjörnýtingarsinna, sem hamast af mikilli heift m.a. gegn umhverfismati síðan í ágúst. Fyrir þá sem ekki vita var Þórunn önnur af tveimur þingkonum Samfylkingar sem greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma (hin var Rannveig Guðmundsdóttir). Á Borgarafundinum Háskólabíói í gær sagði Þórunn: "Meðan ég man, eitt orð við Einar Má : Það þarf ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að fara illa með auðlindir á Íslandi. Við höfum hingað til verið fullfær um það sjálf." Marga vildum við tafarlaust burt en ekki hana.
(ritstjóri 26. nóvember 2008, 16. maí 2009)

Þaulseta
"Tillögur um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra, ... skulu þó ræddar og afgreiddar við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu um þingsályktunartillögur." (44. grein þingskapalaga). "Útvarpa skal umræðu um vantraust ef þingflokkur krefst þess." (75. grein sömu laga eftir breytingu frá 2007; áður "níu þingmenn"). En er þingmeirihluti fyrir vantrausti? Nei, vantrauststillaga var felld 24. nóvember 2008 42/12 (einn ráðherra og tveir þingmenn, allir þrír úr Samfylkingunni fjarverandi); einn þingmaður stjórnarandstöðunnar greiddi atkvæði gegn vantrauststillögunni. Þar með tryggja þeir sjálfum sér þaulsetuna. "Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum (sjá: lög um ráðherraábyrgð). Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál." (sjá: 14. grein stjórnarskrár). Er þingheimur tilbúinn til að ábyrgjast gerðir ráðherra? "Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir, að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags." (24. gr. stjórnskipunarlaga). En hefur forseti frumkvæði? Einfaldast væri að sumir segðu af sér... því þeir hafa einfaldlega ekki stuðning fólksins í landinu. Mótmæli (og verkföll) eru tjáningarmátinn á milli kosninga í lýðræðisríki og á þau þurfa stjórnvöld að hlusta og nú er nauðsyn sem aldrei fyrr að fjölmiðlar segi loks satt og rétt frá. Við í náttúruverndarbaráttunni höfum mátt þola margt í þeim efnum í gegnum tíðina.
(ritstjóri 16., 17., 24. nóvember 2008)

EES og fjármálaráðherrar á davíðstímum
Lög 1993/2 um Evrópska efnahagssambandið (EES) tóku gildi 1. janúar 1994 og fela þau einna helst í sér fjórfrelsi : frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsa fjármagnsflutninga.
EES-samningurinn er mikilvægur þar eð hlutfall utanríkisverslunar Íslands
við EES er hátt; tímabilið janúar-september 2007-2008 var hlutfall útflutnings til landa EES 78,9% og hlutfall innflutnings 66,5% (sjá hagstofa.is).
En fjármálaráðherrar á davíðstímum hafa allir verið úr Sjálfstæðisflokki: Friðrik Sophusson (1991-1999), Geir H. Haarde (1999-2004), Árni M. Mathiesen (2004-2008)...
Hvað kemur þetta náttúruvernd við? Jú, ráðherrarnir sitja sem fastast, jafnvel í rjúkandi rústum (sjá: Ráðamenn og heimtufrekir krakkar), og ganga þess utan aftur víða. Friðrik Sophusson varð t.d. forstjóri Landsvirkjunar 1999 og verður enn...
Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins... (forsætisráðherra úr Sjálfstæðisflokki 1987-1988...)
Síðan eru "bakdyrnar" á aðild að EES þær að Íslandi ber að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins (ESB) en útfærslan er í höndum alþingis og ríkisstofnana. Íslensk stjórnvöld hafa yfirleitt dregið lappirnar þegar um lög og reglur er varða náttúruvernd hefur verið að ræða, s.s. hin mikilvægu Lög um upplýsingarétt um umhverfismál (EES-reglur) sem tóku loks gildi 1993 (breyttust með lögum frá 2006). Lögin eru ein grein Árósasamningsins af þremur en hann hafa öll Norðurlöndin nema Ísland staðfest í heild og Evrópusambandið líka. Okkar skeleggi umhverfisráðherra hefur það einmitt á verkefnaskrá sinni að "fullgilda Árósasamninginn og auka möguleika almennings og félagasamtaka til þátttöku við undirbúning ákvarðana á sviði umhverfismála." Sjá: Áherslur umhverfisráðherra (pdf-skjal).
(ritstjóri 16., 17., 26. nóvember 2008)© Halla Kjartansdóttir

Urriðafoss er náttúruperla
"Að gefnu tilefni vilja landeigendur, bændur og meginþorri íbúa á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar minna á afstöðu sína varðandi framkvæmdir við Urriðafossvirkjun.
Við teljum ávinning af framkvæmdinni lítinn miðað við þær fórnir sem við og aðrir landsmenn þurfa að færa vegna framkvæmdarinnar.
Stjórnvöld hafa að undarförnu gefið út yfirlýsingar um að umtalsverðar stóriðjuframkvæmdir séu leið út úr efnahagsþrengingunum. Við teljum þessa leið ófæra og ekki líklega til að skapa almenna samstöðu og þann samtakamátt sem þarf til að endurbyggja efnahagslíf þjóðarinnar.
Við krefjumst þess að stjórnvöld og Landsvirkjun láti sem fyrst af öllum áætlunum um Urriðafossvirkjun. Slík yfirlýsing mun létta af óvissu og auka bjartsýni okkar, íbúa svæðisins. Það mun auðvelda okkur að vinna okkur út úr efnahagslægðinni."
Ályktun Vina Urriðafoss frá 18. okt. 2008.
(9. nóvember 2008)

Ríkisstjórnir koma og fara
Lýðveldið er 64 ára. Af núverandi flokkum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórn í rúm 50 ár alls og Framsóknarflokkurinn í rúm 40 (af forverum Samfylkingar: Alþýðuflokkurinn 26 ár alls og Alþýðubandalagið 12 ár). Ríkisstjórnir hafa þó aldrei verið langlífar á Íslandi þótt sumir forsætisráðherrar hafi gengið aftur (sjá hér). Aðeins einu sinni hefur sami forsætisráðherrann ríkt lengur en Bjarni Benediktsson (7 ár), sem hafði fram að því setið lengst, en það er Davíð Oddsson sem ríkti samfellt í 13 ár...
(8., 9. nóvember 2008)

Atkvæði þingmanna
Kosturinn við bandaríska þingið er að þingmenn eiga atkvæði sitt en ekki flokkurinn eins og í svo mörgum lýðræðisríkjum nú til dags, s.s. á Íslandi. Vegna vaxandi flokksræðis sl. áratuga er hætt við að þingmenn greiði ekki alltaf atkvæði eftir eigin sannfæringu og pólitíkusinn fæðist sem er fær um að tala fyrir hverju sem er. Hvenær skyldi sannfæringin hverfa undir flokkslínuna? Stundum höfum við horft af pöllunum á takkatímann á Alþingi (atkvæðagreiðsluna) furðu lostin yfir því sem okkur hefur virðst tæknileg útfærsla á einhverju allt öðru en persónulegri ábyrgð þingmannsins á atkvæði sínu. (ritstjóri 7., 8. nóvember 2008)

Fulltrúum æskufólks boðið...
Við lestur formennskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009 kemur margt gott fram en einnig sú meinloka íslenskra stjórnvalda að geta ómögulega nefnt umhverfi án orku: "umhverfis- og orkumálum", "orku- og umhverfistækni". Kannski vegna þess að á Íslandi er umhverfið einna helst rannsakað í tengslum við framkvæmdir. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar síðan 1. janúar 2007 er Halldór Ásgrímsson. Með hegðun íslenskra stjórnvalda síðasta áratug í huga vekur hroll að lesa: "Fulltrúum æskufólks á Norðurlöndum verður boðið í náms- og kynnisferð um Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð Evrópu, í því skyni að kynna þeim hugmyndafræði náttúruverndar og hvernig samtvinna má vernd og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda." Ísland gegndi síðast formennsku árið 2004 undir yfirskriftinni Auðlindir Norðurlanda. Leiðarstefin voru lýðræði, menning, náttúra. Hljómaði ákaflega vel en enn setur að manni hroll. Hví skyldi það vera? (ritstjóri 2. nóvember 2008)

Hugmynd
"Norrænu umhverfisráðherrarnir sjá mikla möguleika í tengingu efnahagsmála og umhverfisverndar. Nýsköpun á sviði umhverfisverndar hefur jákvæð áhrif á atvinnulíf og vinnumarkað, og fjármálakreppan veitir mögulega þá hvatningu sem til þarf til að skapa sjálfbært efnahagslíf." Umhverfisvernd og atvinnuþróun hönd í hönd í Norðurlandaráði (2. nóvember 2008)

Skilningsleysi af ásettu ráði?
Framkvæmdaglaðir álíta mat á umhverfisáhrifum óþarfa TÖF og kostnaðarsama (framkvæmdaraðili þarf að borga brúsann). Hver er tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum? "Lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Matinu er einnig ætlað draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. Ennfremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir." Sjá hér. Annaðhvort eru áhangendur álbræðslulausnarinnar ólæsir eða óhugsandi. Sjá frétt á Vísi. Hvað er svona erfitt að skilja? Álið sprettur ekki upp af sakleysi. Báxítvinnslan nærist á arðráni og spillingu. Gróðahugsunin er úr sér gengin, kæru drengir.
(ritstjóri 1. nóvember 2008)

Upplýsingatregðan
Getur verið að ítök stjórnvalda í fjölmiðlum hefjist við forsætisráðherratíð Davíðs nokkurs Oddssonar 1991? Eða hefjast þau við lok Þjóðviljans 1992? Mótmæli hafa lengi verið erfið á Íslandi en stór hluti þeirra hefur einfaldlega verið barátta fyrir því að koma upplýsingum til fólks. Það er erfitt að mynda sér skoðun þegar allar upplýsingar liggja ekki fyrir, þegar upplýsingum er beinlínis haldið frá fólki. Þegar fjölmiðlar breytast smám saman í framlengdan arm valdhafa í þjóðfélaginu er landinn varnarlaus. Þá vaknar spurningin um það hvort fjölmiðlar séu færir um að gagnrýna hlut sinn. Að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni eða hlutverki sínu sem mótvægi við valdið. Sár reynsla okkar sem höfum reynt að koma náttúru Íslands til bjargar er sú að við höfum oftar en ekki verið svert eða þögguð í hel. Fréttin á DV um Dularfullan ritstjórafund með aðstoðarmönnum ráðherra 27. október eru ekki góð tíðindi. (ritstjóri 29. október 2008)

Alræði framkvæmdarvalds á Alþingi
Framkvæmdarvaldið hefur lengi verið einrátt á Alþingi með stjórnarfrumvarpaflóði og formennsku og varaformennsku þings og allra fastanefnda. Formaður allsherjarnefndar viðurkennir að stjórnarfrumvörp hafi forgang í öllum þingnefndum, sem gerir Alþingi beinlínis að afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Glöggt er gests auga: "Þrátt fyrir ýmis ytri merki er íslenskt þingræði nafnið eitt. Í raun eru flest afgreidd lög frá Alþingi runnin undan rifjum ríkisstjórnar (stjórnarfrumvörp)." Útdráttur úr Portrait de l'Islande eftir Jacques Mer. París 2004. Sjá Nýju fötin keisarans.
(25. október 2008)

Þjóðhagsstofnun / The national economic institute
Þjóðhagsstofnun var stofnuð 1. ágúst 1974: "Fela skal sérstakri stofnun að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum." Hvers vegna Þjóðhagsstofnun? Að leggja niður stofnunina var stjórnarfrumvarp flutt af Davíð Oddssyni 8. apríl 2002 og var stofnunin lögð niður 1. júlí 2002.
21. júlí 2008
vilja þingmenn endurreisa Þjóðhagsstofnun. 11. september 2008 vill seðlabankastjóri ekki endurreisa stofnunina. (25. október 2008)

Stóriðjuþrýstingurinn (íslenskar verkfræðistofur og útlend álfyrirtæki): Sameiginleg umhverfisáhrif ekki metin?
Hvernig stendur á því að Tillaga að matsáætlun fyrirhugaðs álvers á Bakka (allt að 346 þúsund tonna ársframleiðsla) er gerð sér? Frestur til athugasemda til 6. nóvember 2008. Pdf-skjalið hér. Hver útbýr tillöguna? Jú, HRV Engineering, þ.e. Hönnun, Rafhönnun og VST. Og saman auglýsa þeir á vef sínum sem hefur aldrei verið á íslensku: "We have played a leading role in all three of Iceland's Aluminum Smelter plants, numerous geothermal power plants, hydroelectric power plants, high-voltage power transmission lines, road infrastructure, public utilities and waterworks, harbor construction, airport development and much more."
Verkfræðistofurnar ganga grimmt í eina sæng: "Mannvit byggir á grunni þriggja verkfræðistofa sem stofnaðar voru á sjöunda áratug síðustu aldar: Hönnunar hf. (1963), Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. (1963) og Rafhönnunar hf. (1969). Tvö fyrstnefndu fyrirtækin sameinuðust í fyrirtækið VGK-Hönnun 2007 og nú hefur Rafhönnun bæst í hópinn." "Vatnsaflsvirkjanir hafa alltaf verið stór þáttur í starfsemi VST," segir á vef stofunnar og ennfremur að hún sé "elsta og jafnframt ein stærsta verkfræðistofa landsins og hefur ávallt verið í fararbroddi verkfræðistofa við mannvirkjagerð á Íslandi." Það er til lítlis að ætla að fjölmiðlar uppfræði okkur því þeir ganga einnig í eina sæng.
Það er engin tilviljun að verkfræðistofurnar spretta upp á sjöunda áratugnum: "Árið 1965 hófst þriðji kaflinn í raforkusögu Íslands, tími stórvirkjana og orkuvinnslu til stóriðju, og stendur hann enn yfir. Orkuvinnsla jókst nú hraðar en dæmi höfðu verið um áður. Í upphafi tímabilsins var stofnað opinbert fyrirtæki, Landsvirkjun, til að reisa og reka þessar virkjanir." Útdráttur úr bókinni Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eftir Helga M. Sigurðsson og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (VST) gaf út árið 2002 á sjötugsafmæli sínu.
(22. október 2008)

Hugrekki
Við héldum að með lögum skyldi land byggja og með ólögum eyða. Nýju umhverfismatslögin eru vissulega verri en þau eldri en hugrekki umhverfisráðherra að láta þó samkvæmt þeim "meta sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur" er sjálfstæðis- og framsóknarmönnum þyrnir í augum. Það er mikill munur á milli fréttar á vef ruv.is og fréttar í útvarpi. Af hverju? Ekkert að fréttinni í morgunfréttum í útvarpi. (14. október 2008)

Munur á umfjöllun fjölmiðla
Sérkennilega unnin útgáfa á frétt á vef ruv.is að kvöldi 13. um atvikið á Alþingi landsmanna varðandi umhverfismat. Aðför sjálfstæðismannsins á Alþingi er mun víðtækari og alvarlegri en fréttin á vef ruv.is segir til um; aðför þingmannsins er fullkomin óvirðing og snýr að starfi þingmanna ("flækjast fyrir framkvæmdum"), hlutverki Alþingis, hlutverki laga í landinu ("reglur sem tefðu fyrir"). Fréttin á MBL Sjónvarpi er þvert á móti vel unnin og verulegt skúp um hugarfar sem þingmaðurinn er fulltrúi fyrir.
(14. október 2008)

Loksins alvöru umhverfisráðherra ! Bravó !
Undarleg ummæli þingmanns Sjálfstæðisflokks á sjálfu Alþingi varðandi umhverfismat en í ætt við áróðurinn gegn umhverfismati sem hefur verið þungur síðan í ágúst. Frábær frammistaða umhverfisráðherra. Góð umfjöllun og upplýsandi á MBL Sjónvarpi. Tvöfalt bravó ! (13. október 2008)

Endurvinnsla pólitíkusa í fjölmiðlaheiminum
Getum við byrjað að reka Nýja-Ísland með gamla gjaldmiðlinum?" spurði Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, í viðtali við Björn Inga Hrafnsson í þættinum Markaðurinn með Birni Inga nú fyrir hádegið." segir á Vísi.is 11. október. Sjálfhverfa? Þeir taka viðtal hvor við annan, sjálfstæðis- og framsóknarmaðurinn, og sá 3. skrifar um það grein... Þegar stjórnvald vill hvergi heyra gagnrýni (með góðum flokksböndum um alla fjölmiðla) verður þeim auðvitað á. (11. október 2008)

Aðalóvinurinn umhverfismat?
Óli Björn Kárason, titlaður blaðamaður, og Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Markaðarins (!) [á Íslandi vilja pólitíkusar nefnilega vera fjölmiðlamenn líka...] í Kastljósi 6. október 2008. Blaðamaðurinn er með úrræði (sem er alla jafna ekki hlutverk blaðamanna): "Ég held til dæmis að það eigi að afnema lög um umhverfismat þannig að það sé hægt að taka ákvörðun um að ráðast í stórvirkjanir og álver..." Spyrjandinn (Sigmar) : "Já, það er sem sagt alveg innstæða fyrir því að það eru miklar náttúruauðlindir hérna í landinu og það verður vafalítið minni mótstaða fyrir því að virkja þær með einum eða öðrum hætti."
"Alþingi getur sett sérlög um ákveðnar framkvæmdir, líkt og gert var um Kárahnjúkavirkjun," er haft eftir Halldóri Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, á vísir.is 11. okt.
"Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að norska fyrirtækið [REC Group sem vill byggja sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn] hafi fengið þau svör frá umhverfisyfirvöldum að það tæki sex til átján mánuði að vinna umhverfismat vegna verksmiðjunnar. Þetta voru ekki fagleg vinnubrögð. Við förum eindregið fram á að þetta endurtaki sig ekki."" segir í frétt á vísi.is 11. okt. Hvað? Hvað eru ekki fagleg vinnubrögð? Að hvað endurtaki sig ekki?
"Tími sparðatínings í íslenskri stjórnsýslu er liðinn og fara verður í allar framkvæmdir sem í boði eru, þar á meðal álvera í Helguvík og á Húsavík," segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmastjóri SA. "Hann segir að ekkert verði eins og það var áður eftir atburði dagsins," er fyrirsögn fréttar á Stöð 2.
Þetta er nákvæmlega samkvæmt uppskrift. Er ekki kominn tími til að kynna sér
The Shock Doctrine Naomi Klein, góðir Íslendingar? Myndband.
(11. október 2008)

Græðgisvæðingin
Öll eggin voru í bankakörfu frjálshyggjunnar, eftirlitslaust að því er virðist. Hverjir vildu annars húsnæðislánin til bankanna? Verður áfallið til þess að allt verði sett í álkörfuna næst? Er það tilviljun að forstjóri Alcoa er skipaður akkúrat í kjölfar bankaáfallsins? Jón nokkur Sigurðsson var forstjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB) þegar lánað var til Kárahnjúkavirkjunar en bankinn starfar að öllu jöfnu "eftir strangri umhverfisstefnu". Í frétt á mbl. 6. mars 2004 var haft eftir sérfræðingi bankans í umhverfismálum að "Umhverfismatsvinnan á Íslandi hefði að mati bankans verið bæði vönduð og ítarleg." Ekki var látið fylgja með að niðurstaða umhverfismatsvinnunnar hjá Skipulagsstofnun var nei (veruleg, óafturkræf, neikvæð umhverfisáhrif) 1. ágúst 2001 jafnvel þótt Siv hafi sagt já rétt fyrir jólin sama ár og verið viðstödd sem "umhverfisráðherra" fyrstu skóflustunguna að álverinu í Reyðarfirði 8. júlí 2004. En þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi stunduðu jú sömu röksemdafærslu að þremur konum undanskildum.
(ritstjóri 10. október 2008)

Friðum Skjálfandafljót
Stofnaður hefur verið áhugahópur um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Það er markmið hópsins að vinna að friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts, stuðla að friðun og varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna nytja." Úr fréttatilkynningu. (24. september 2008)

Falir fylgjendur

Heilbrigt lýðræði þolir illa fjölmiðla sem syngja í stjórnarkór. Fjölmiðlar eiga að hafa hemil á valdhöfum, benda á það sem betur mætti fara, vera óragir við að gagnrýna og tilbúnir að upplýsa hvað sem tautar eða raular í hæstu hæðum. Það er ekkert lýðræði án gagnrýnna fjölmiðla. Svo einfalt er það.
(ritstjóri 1. september 2008)

Undarleg viðbrögð við ákvörðun
Viðbrögðin við lögmætri ákvörðun umhverfisráðherra sýna svo ekki verður um villst að álbleyður telja mat á umhverfisáhrifum formsatriði. Margt bendir til að reynt verði að hafa áhrif á niðurstöðuna og ef það tekst ekki þá liggur sú hótun í loftinu að niðurstöðu verði ekki unað. Hvernig má skilja það öðruvísi þegar fullyrt er að álverið muni SAMT rísa og að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sé bara töf! Ítök Alcoa í íslensku þjóðfélagi virðist vera meiri en heilbrigt er litlu lýðræði. Eitthvað er það sem blindar Össur og Geir. (ritstjóri 2. ágúst 2008)

Loksins, loksins, heilbrigð ákvörðun !
"Umhverfisráðherra hefur úrskurðað að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum beri að meta sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur." Bravó ! (1. ágúst 2008)

Stórkostlegir náttúrutónleikar í Laugardal
Hvert félag hafði sinn háttinn á að kynna sig og viðfangsefnin við tónleikana, enn önnur höfðu verið kynnt í Grapevine (nr. 8) og í sérstökum kálfi á íslensku og ensku (Spécial nature issue) með Reykjavíkurblaðinu, til dæmis. Náttúruvaktin mætti í Laugardal með Náttúruvaktarfánana sem blöktu við náttúruverndarfélagatjaldið baksviðs og á tónleikunum enda fánaveður gott. Þarna voru Fuglavernd, Landvernd, NSÍ, Saving Iceland, Náttúra.is, Sól á Suðurlandi o.fl. Sérlega skemmtilegt að kynnast loks fólkinu frá Sól á Suðurlandi. Þau eru hreint frábær. Kærar þakkir til allra.
(ritstjóri 29. júní 2008)

NÁTTÚRA: Heimsviðburður í Laugardal kl. 17 í dag
Björk Guðmundsdóttir og Sigur Rós ásamt Ólöfu Arnalds halda tónleika í Þvottalaugabrekkunni í Laugardal laugardaginn 28. júní kl. 17. Tónleikarnir eru haldnir til að vekja fólk til vitundar um umhverfismál á Íslandi. Listamennirnir þiggja ekki greiðslu fyrir tónleikana en lögð er rík áhersla á að aðgangur að tónleikunum sé gestum ókeypis. Öllum náttúruverndarfélögum (NGO) er boðið að kynna starfsemi sína.
(Laugardaginn 28. júní 2008)

Ólöglegt athæfi ráðherra 6. júní ?
Hvernig geta tveir ráðherrar, viðskiptaráðherra (Samfylkingar) og fjármálaráðherra (Sjálfstæðisflokks), tekið skóflustungu að enn einni álbræðslu, nú í Helguvík, sem hefur hvorki fengið starfsleyfi né losunarheimildir... sem sætir þess utan stjórnsýslukæru vegna útgáfu byggingarleyfis ? Eiga útlendu álauðhringirnir (Century Aluminum, Alcoa, Rio Tinto Alcan...) íslenska ráðherra?
"Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda."
segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2007.

(ritstjóri 22. júní 2008)

Stjórnmálaflokkar í blindingsleik?
Haft er eftir viðskiptaráðherra: "Björgvin segir byggingu álversins ekki í andstöðu við stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum [allir í þeim flokki - nema tveir þingmenn - vildu jú Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði], enda hafi undirbúningur þess verið langt kominn [og?] við síðustu kosningar, aldrei hafi verið ætlunin [nú?] að slíta það ferli úr sambandi." (Mbl. 7. júní, bls. 8). Hvernig tekst umhverfisráðherra að vinna í þessu umhverfi?
Björgvin mætti lesa ályktun flokks síns og blaðamenn mættu að ósekju kynna sér hana því þetta hljómar sem kosningasvik: "Samfylkingin vill að frekari stjóriðjuáformum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildaráætlun yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Tryggð verði friðun Þjórsárvera, Langasjós, Jökulsár á Fjöllum, Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.
Loftslagsváin er nú helsta sameiginlega úrlausnarefni mannkyns. Samfylkingin vill tímasetta metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar."
segir í Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar frá 2007.
(ritstjóri 22. júní 2008)

Back to Nature for Björk and Sigur Rós
Tilefni tónleikanna er hins vegar skemmtilega skýrt á heimasíðu Iceland Express og vísað á vef Sigur Rósar ; sjá færslu 6. júní HÉR.
(21. júní 2008)

Flugfélögin auglýsa
Millilandaflugfélögin sendu út póst til kúnna sinna með tilboðum vegna Laugardalstónleikanna en tilefni þeirra vildi á stundum gleymast. Icelandair, London, segir í pósti 6. júní ekkert um tilefni tónleikanna en er með slóðir á vef Sigur Rósar og Bjarkar. Iceland Express upplýsti kúnna sína 7. júní um konsertinn: "Iceland's two most popular musical exports are teaming up for a free outdoor concert 28 June" en ekki orð um tilefni tónleikanna. Icelandair, Kaupmannahöfn, upplýsir kúnna sína 9. júní um tónleikana - SIGUR RÓS OG BJÖRK - 28. JUNI GRATIS KONCERT UNDER ÅBEN HIMMEL I REYKJAVÍK - og byggir á orðum Bjarkar: "Formålet med koncerten er i al sin enkelhed, at de to verdensnavne vil have os alle til at tænke lidt mere over naturen og hvad der sker med vores planet. Ikke for at løfte pegefingre eller fordømme, men simpelthen at få os til at standse op et øjeblik for vores alle sammens skyld." Icelandair, París, hefur þetta nokkuð almennt í pósti sínum 10. júní: "Le but de cet évènement est d'éveiller les consciences sur l'importance de la Nature." En sjaldan hefur Reykjavík fengið eins góða auglýsingu.
Listamennirnir hyggjast setja saman vef með "alternatives to heavy industry for the Icelandic economy" eins og segir á vef Sigur Rósar. "The goal of the concert is to raise awareness on environmental issues in Iceland
," eins og segir á vef Bjarkar.
(21. júní 2008)
ps
Þegar álversæði hleypur á íslenska stjórnmálamenn er jákvætt (lýðræðinu) og hollt (náttúrunni) að gagnrýna þá. ...herinn fór jú en allir auðhringirnir komu í staðinn!

Laugardalstónleikarnir NÁTTÚRA 28. júní kl. 17
Björk Guðmundsdóttir og Sigur Rós ásamt Ólöfu Arnalds halda tónleika í Þvottalaugabrekkunni í Laugardal á laugardaginn kemur. Tónleikarnir eru haldnir til að vekja fólk til vitundar um umhverfismál á Íslandi. Listamennirnir þiggja ekki greiðslu fyrir tónleikana en lögð er rík áhersla á að aðgangur að tónleikunum séu gestum ókeypis. Vel er hugað að öllu.
(20. júní 2008)

Trölladyngja á Reykjanesskaga
Náttúruminjasvæðið á Reykjanesi er einfaldlega fallegt göngusvæði og stutt frá höfuðborgarsvæðinu: "Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir."
"Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan [Reykjanes]fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg, einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergsfjöll og -stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu." Allt jarðrask er þar bannað en "undanskilin er hagnýting jarðhita" o.s.frv. Sjá einnig með hýru auga jarðhitakort og kort af Krýsuvíkursvæðinu á háhitavef Orkustofnunar.
"Háhitasvæðið á Reykjanesi er eitt af minnstu háhitasvæðum landsins (2 km2) og er í um 20 m hæð yfir sjó. Svæðið er á suðvesturhorni Reykjanesskaga og er basalthraun ríkjandi á svæðinu en upp úr því standa móbergs og bólstrabergshryggir (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Reykjanesið í heild sinni er á náttúruminjaskrá m.a. vegna hverasvæðis og stórbrotinnar jarðfræði (Náttúruverndarráð 1996). Í drögum að Náttúruverndaráætlun 20042008 er lagt til að svæðið verði friðlýst (Umhverfisstofnun 2003)."
Úr Þrjú háhitasvæði á Suðvesturlandi (pdf-skjal). Undirbúningur að mati á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða
(2005).
Sjá nánar: Orkuauðlindir Íslands á vef Orkustofnunar.

(14. júní 2008)

Nature in Iceland : Kings
An English version of the documentary is now available.
"A documentary about a projected hydro-electric power-plant in Iceland to be built in 1999, to provide electricity for an aluminium smelter. Its construction would have meant the destruction of Eyjabakkar. But those preparations were the prelude to the now built dams at Karahnjukar, north of Vatnajokull, in the East of Iceland. The geothermal region Hagongur west of Vatnajokull had already been destroyed in 1998 by damming for hydro-electric power." Documentary by Helga Brekkan and Helgi Felixson. Idé film 2000. 46 min. [Names are lacking on the screen : Guðbergur Bergsson, writer, Ómar Ragnarsson, journalist, Finnur Ingólfsson, Minister of Industry 1995-1999, Smári Geirsson, Chairman of the Association of East Iceland Municipalities at the time, Kolbrún Halldórsdóttir, Member of the Parlement since 1999 for the Left-Green mouvement, Davíð Oddsson, Prime Minister 1991-2004, Minister of Foreign Affairs 2004-2005, Halldór Ásgrímsson, Minister of Fisheries 1983-1991, Minister of Foreign Affairs 1995-2004, Prime Minister 2004-2006, Guðmundur Páll Ólafsson, biologist, etc.]
(6. / 8. júní 2008)

Kóngar
Samkvæmt lögum nr. 60/1981 var virkjanaveisluborð ríkisstjórnar og Landsvirkjunar stórt. Í umhverfismatslögunum nr. 63/1993, sem hafa nú verið felld úr gildi, var hið illræmda bráðabirgðaatkvæði II sem gaf orkufyrirtækjum og stjórnvöldum samviskulaust bessaleyfi "eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum". Það voru nokkrar náttúruperlur sem voru í bráðri hættu eða hurfu í þessa glufu, þar mætti nefna Hágöngur sem eyðilagðar voru 1998 og Eyjabakka, sem áttu að fara sömu leið 1999. Sumir vildu eðlilega að fyrirhugaðar framkvæmdir að Fljótsdalsvirkjun færu í umhverfismat, aðrir vildu nýta sér glufuna, sem var reyndar sérstaklega hönnuð til handa orkufyrirtækjum er framfylgdu stefnu stjórnvalda, og keyra fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun í gegn, nákvæmlega eins og þeim hafði alltaf tekist. Þessi örlagaríku ár eru umfjöllunarefni heimildarmyndarinnar: Kóngar eftir Helgu Brekkan og Helga Felixson.

(17. maí 2008)

Ölkelduháls : síðasti dagur frestsins
Senda athugasemdir í dag á [email protected] eða [email protected] (þar var aðalskipulagstillagan til sýnis) eða á [email protected] (skipulags- og byggingarfulltrúinn undirritar auglýsinguna) og setja þær um leið í póst. Sjá upplýsingar hengilvefnum.
(12. maí 2008)

Mótmæli
Sérstaða mótmæla á Íslandi er að þeir sem vilja gera athugasemdir við fyrirætlanir ríkis, sveitarfélaga, orkugeirans, fjölþjóðafyrirtækja á Íslandi o.s.frv. þurfa að berjast fyrir því að upplýsingar um fyrirætlanir, kosti þeirra og galla, komist til almennings og það vegna slæmrar frammistöðu fjölmiðla sem heyra oftast bara með öðru eyranu. Því meiri hagsmunir sem í húfi eru því ágengari verður þrýstingurinn. Ástandið mætti vera betra.
(9. /12. maí 2008)

Ölkelduháls : stöðvum fyrirætlanir um gufugróða!
Látum fjölmiðlana ekki þegja okkur í hel. "Hengilssvæðið hefur lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði á náttúruminjaskrá. Það er ekki síst mikilvægt bakland bæjafélagsins Hveragerði, bæði sem útivistarsvæði íbúa og fyrir ímynd bæjarins sem heilsu- og ferðamannabæjar. Hengilssvæðið er eitt örfárra á suðvesturhorninu þar sem hægt er að ganga um í friði og ró og njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar." segir í fréttatilkynningu. Fresturinn til athugasemda er til þriðjudagsins 13. maí. Hér eru upplýsingar.
(5. maí 2008)

Fjölmiðlatregða
Það vantar mjög á Íslandi að blaðamenn kynni sér málin og upplýsi almenning í tíma. Hvenær rætist sá draumur? Fjölmiðlar upplýsa og hafa áhrif. Vegna hins síðarnefnda er valdinu annt um fjölmiðla. En fjölmiðlar hafa einmitt það hlutverk að sporna við valdinu, pólitík og peningum, og upplýsa kjósendur. Þannig gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi.
Dæmi um hlutdræga og það sem mætti túlka sem "keypta" umfjöllun birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 27. apríl. Þar birtist á forsíðu "Minni mengun frá álverum" og í í innblaði mikill lofsöngur um álverið í Straumsvík. Tvær heilsíðuauglýsingar fylgja, Mannauðs (Árvakur er þar einn samstarfsaðilinn) og Rio Tinto Alcan. Hví öll þessi læti, jú, umhverfisráðherra sér fram á að Ísland brjóti sáttmála Kyoto og viðbótarheimild Íslands um mengun. Trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi er í húfi. En peningaöflunum er nokk sama og vitnað er í ungan verkfræðing sem svarar hátt og snjallt: "Álið er framtíðin!" og blaðamaður bætir við "Þarf frekari vitna við?" (bls. 14). Þarna er trúverðugleiki Morgunblaðsins í húfi.

(ritstjóri 4. / 5. maí 2008)

Ölkelduháls
"Þeir sem ekki gera athugasemdir við breytingartillöguna innan tilskilins frests teljast samþykkir henni." segir á vefsíðu Landmótunar. Var það viðbótin á auglýsingunni 31. mars? Nei, setning sú er ekki þar. Nýja útgáfan er ekki á vef Skipulagsstofnunar... Sjá hér.
(4. maí 2008)

Ölkelduháls : fresturinn er til 13. maí
Breyting á aðalskipulagi - til að troða Bitruvirkjun inn - hefur verið auglýst (19. mars). Fresturinn samkvæmt auglýsingu er til 2. maí... Hví er fresturinn sagður til 13. maí hér? Svarið er að auglýst var tvisvar, 19. mars og 31. mars, vegna galla í fyrri auglýsingu (athugasemdafrestur of stuttur) og var frestinum um leið breytt úr 2. maí í 13. maí. Eins og stendur hér. Nú er að gera athugasemdirnar í tíma: fyrir 13. maí. Sjá hér.
(3. / 4. maí 2008)

Ölkelduháls : "hagsmunir"
Í auglýsingunum stendur hið klassíska lagabragð: "Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við aðalskipulagið." Eins og við öll vitum er þetta íslensk sýndarmennska með "lagalegu" ívafi. Nákvæmlega eins og allt er varðar aðalskipulag sem og mat á umhverfisáhrifum: almenningur má fá allar upplýsingar, hann má klæða sig upp og skoða skipulag í bæjarskrifstofum og á Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, og allt og allt EN EF sá hinn sami almenningur vogar sér að gera athugasemdir er honum svarað að hann sé almenningur sem : "ekki verður séð að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta". Lykilorðið gott fólk eru "hagsmunir", sem notað er til að svara almenningi að honum komi þetta hreint alls ekki við.
Því skyldi aðeins fyrsta grein Árósasamningsins vera staðfest á Íslandi? Sá samningur fjallar nefnilega um umhverfisrétt sem mannréttindi annars vegar og mikilvægi aðgangs að upplýsingum [1], þátttöku almennings [2] og aðgangs að réttlátri málsmeðferð við sjálfbæra þróun [3] hins vegar. Öll hin Norðurlöndin hafa staðfest Árósasamninginn (á árunum 2000 til 2005), sem og Evrópusambandið (2005), en Ísland staðfesti loks AÐEINS fyrstu greinina fyrir þrýsting frá EES árið 2006 ... Svo lengi sem hin meginatriði Árósasamningsins (2 og 3) eru ekki staðfest, fáum við hvorki að taka þátt né fáum við réttláta málsmeðferð... Ísland er enn skussi í umhverfismálum.
(3. / 4. maí 2008) Sjá einnig "Almenningur - þykistuorð í íslenskum lögum" í Eldri fréttir

Meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun
"býr nemendur undir að takast á við eitt af mest knýjandi viðfangsefnum framtíðarinnar, nýtingu og stjórnun auðlinda. Kennsla fer fram við Háskólasetur Vestfjarða en námsleiðin er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Umsóknarfrestur til 5. júní 2008,"
segir í auglýsingu frá setrinu. Nánari upplýsingar hér.
(15. apríl 2008)

Jökulsárnar í Skagafirði, Hofsjökull, Þjórsárver, Kerlingarfjöll og Þjórsá
"Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði lýsir yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillögu um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði." Þingsályktunartillagan var flutt 15. okt. 2007 og fór fyrri umræðan fram 24. janúar sl. Hún var stutt en góð. "Með friðlýsingunni opnast möguleiki á stofnun þjóðgarðs, sem hugsanlega yrði hluti af enn stærri þjóðgarði og næði a.m.k. yfir Hofsjökul og umhverfi hans, m.a. Þjórsárver og Kerlingafjöll." segir í yfirlýsingu Áhugahópsins. Þingsályktunartillagan um jökulsárnar í Skagafirði er nú til umfjöllunar í umhverfisnefnd sem og tillagan um Friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár sem flutt var 4. nóv. og rædd 27. nóv. 2007. Þar er einnig þingsályktunartillagan um Óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá sem flutt var 15. okt. 2007 og rædd 4. mars sl. "Það er einnig von okkar að aðrir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, sjái og skilji að mál er orðið að huga betur að náttúru Íslands og samhengi hennar en verið hefur fram til þessa." segir enn í fréttatilkynningu Áhugahópsins.
(22. mars 2008)

Heimurinn að uppskrift Monsanto
Afrakstur margra ára rannsóknarvinnu Marie Monique Robin á bandaríska fyrirtækinu Monsanto var birtur í heimildarmynd (109 mínútur) sem sýnd var á Arte 11. mars sl. og á bók sem kom út fyrir stuttu: Le monde selon Monsanto. Rannsóknin er til á DVD og í morgun var viðtal við hana á France Culture. Rannsóknin kemur okkur öllum við þar sem hún snertir heilsu fólks um allan heim og beinlínis framtíð okkar á hnettinum. Hreint ótrúleg svindlasaga eins fyrirtækis þar sem nær allir þröskuldar - vísindaheims, fjölmiðlaheims, umhverfissamtaka, laga og reglugerða ríkisins og pólitískt kjörinna fulltrúa - bregðast. En eins og hjá öllum fjölþjóðafyrirtækjum heims er hvatinn ágóði, sóknin áróðursmeistarar og skjólgarður lögfræðingaher. En saga fyrirtækisins er ekki liðin tíð! Skyldi fyrirtækið ná til Íslands?
(15. mars 2008)

Nýju fötin keisarans
Þrískipting valdsins í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald er grundvöllur lýðræðis.
Framkvæmdarvaldið á Íslandi
- hefur ítök í dómsvaldinu : skipun dómara.
- hefur ítök í löggjafarvaldinu : 1) einrátt á Alþingi með stjórnarfrumvarpaflóði og 2) formennsku og varaformennsku þings og allra fastanefnda; það virðist ekki duga því þess utan 3) neytir það sterks þingmeirihluta (2/3) til að ná málum fram með afbrigðum (79. gr. þingskapalaganna; greinin breytist ekki 1. janúar 2008), þ.e. í trássi við reglur þingsins; 4) og 28. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um hægt sé að gefa út bráðabirgðalög í þinghléi EN AÐEINS þegar "brýna nauðsyn ber til"; 5) og nú viðurkennir formaður allsherjarnefndar að stjórnarfrumvörp hafi forgang í öllum þingnefndum sem gerir Alþingi beinlínis að afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Glöggt er gests auga: "Þrátt fyrir ýmis ytri merki er íslenskt þingræði nafnið eitt. Í raun eru flest afgreidd lög frá Alþingi runnin undan rifjum ríkisstjórnar (stjórnarfrumvörp)." ("Malgré certaines apparences, ce système ne correspond pas à un "régime d'assemblée". En effet, la plupart des lois votées sont d'origine gouvernementale." Útdráttur úr Portrait de l'Islande eftir Jacques Mer. La documentation française 2004, bls. 35.)
- hefur ítök í fjölmiðlum : flokksgírinn er áberandi hjá Fréttastofu Sjónvarps, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, DV, 24 stundum og Fréttastofu Stöðvar 2. Stjórnarandstöðublöð eru löngu liðin tíð.

= gagnrýnislaust framkvæmdarvald á lítið skylt við lýðræði og er hættulegt sjálfu sér (slæmar ákvarðanir endurtekið, t.d. í orkugeiranum) og um leið öllu þjóðfélaginu.
(ritstjóri 17. / 18. / 19. / 20. des. 2007 / 6. / 7. mars 2008)

Þjóðin stendur með Þjórsá
Baráttufundur í Fríkirkjunni sunnudaginn 17. febrúar nk. kl. 16 á vegum Sólar á Suðurlandi.

(12. febrúar 2008)

Útvarp Alþingi - þingsályktunartillaga
Þann 24. janúar sl. var stórmerkileg tillaga til þingsályktunar flutt á Alþingi af þingmönnum allra flokka: Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás. Stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist eigi síðar en þegar þing kemur saman haustið 2008. "Það er því mat flutningsmanna að beinar útvarpssendingar frá Alþingi ættu að vera sjálfsagður hlutur í nútímalýðræðisþjóðfélagi, á öld upplýsinga og fjölmiðlunar. Þær væru og í anda fyrri málsliðar 57. gr. stjórnarskrárinnar um að fundir Alþingis skuli haldnir í heyranda hljóði." Útdráttur úr greinargerð með tillögunni. Þann 4. febrúar kom tillagan til fyrri umræðu og var henni vísað til allsherjarnefndar og síðari umræðu eftir stutta umræðu.
(30. janúar / 7. febrúar 2008)

Græna hættan
Þegar fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins skrifar leiðara kemur ekkert á óvart. Hann er hliðhollur sínum mönnum. Samkvæmt fyrrverandi ráðherrum er nefnilega allt misskilningur sem þeim er ei þóknanlegt: "Það er misskilningur að valdaleysi á Alþingi þýði sjálfkrafa algjört áhrifaleysi."! Þegar fyrrverandi ráðherra skrifar er öll andstaða óholl: "Möguleg jaðaráhrif Vinstri græns gætu orðið meiri en hollt er..." Ja hérna, er hann að vara samstarfsflokkinn við? Hvað eru ráðherrar að gera báðum megin borðs? Meira en hollt er... lýðræði.
(ritstjóri 13. janúar 2008)

Bakkabræður
Það nægir að taka fiskinn frá öllum sjávarþorpum landsins til þess að íbúar ánetjist álinu án teljandi vandræða. Hvenær tekur álversvitleysan enda? Greinilega lítil hjálp í ráðherra iðnaðar er Húsavíkuráform um álver varðar. Að kóa með alcoa virðist vera ný þjóðaríþrótt og fyrirtækið lætur nægja að veifa trjáhríslum gegn mengun og náttúruskemmdum. Næsta skref er að klæðast bolum og höttum fyrirtækisins og fyllast álversæði með sérstöku ofstæki sem mun útiloka alla þá sem ekki eru á sömu línu. Þá kemur þrýstingur orkufyrirtækja og kóun fjölmiðla, sem mæta bara á rétta fundi. Við sem látum okkur annt um landið kunnum þetta utan að. Bæjarbúar hljóta að hafa aðrar hugmyndir um framtíð sína.
(ritstjóri 8. / 9. janúar 2008)

Nýárskveðja frá Náttúruvaktinni
Náttúruvaktin óskar landsmönnum öllum hamingju á nýju ári sem og lýðræðislegri framtíð.
(1. janúar 2008)

Jólakveðja frá Saving Iceland
Á laugardag ráfuðu nokkrir jólasveinar inn að Hellisheiðarvirkjun við Hengil og sýndu mótstöðu sína við uppgang stóriðju og aðra þá iðju sem rústar náttúru Íslands. Einnig vildu þeir sína mennskum náttúruverndarsinnum samstöðu. "Hin viðkvæmu háhitasvæði við Hengil hafa þegar mátt þola næga misnotkun af hendi OR. Nú þegar framleiðir Hellisheiðarvirkjun um þrisvar sinnum meiri orku fyrir stóriðju en til heimilisnota. Áætlanir um að þrefalda virkjunina eru yfirvofandi og OR hefur lýst því opinberlega yfir að ein ástæðan fyrir stækkun sé vaxandi eftirspurn eftir rafmagni til stóriðju. Hluti rafmagnsins verður fengið úr hinum friðlýsta Innsta dal." Úr fréttatilkynningu SI.
(18. des. 2007)

Nýju fötin keisarans
Þrískipting valdsins í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald er grundvöllur lýðræðis.
Framkvæmdarvaldið á Íslandi
- hefur ítök í dómsvaldinu : skipun dómara.
- hefur ítök í löggjafarvaldinu : 1)
einrátt á Alþingi með stjórnarfrumvarpaflóði og 2) formennsku og varaformennsku þings og allra fastanefnda; það virðist ekki duga því þess utan 3) neytir það sterks þingmeirihluta (2/3) til að ná málum fram með afbrigðum (79. gr. þingskapalaganna; greinin breytist ekki 1. janúar 2008), þ.e. í trássi við reglur þingsins; 4) og 28. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um hægt sé að gefa út bráðabirgðalög í þinghléi EN AÐEINS þegar "brýna nauðsyn ber til".
- hefur ítök í fjölmiðlum : flokksgírinn er áberandi hjá Morgunblaðinu og Fréttastofu Sjónvarps og einn flokkurinn hefur meira og minna verið við völd alla tíð.
- fyrrverandi ráðherrar verða stjórar og herrar hér og þar með tilheyrandi ítökum framkvæmdarvalds.
(ritstjóri 17. / 18. / 19. / 20. des. 2007)

Hvar er aðhald framkvæmdarvaldsins?
Varla er hægt að tala um "þrískiptingu" valds eða lýðræði á Íslandi. Enn fremur er varla hægt að tala um þingræði og setja mætti spurningarmerki við réttarríkið. Minnihlutinn á Alþingi, þ.e. stjórnarandstaðan, hefur verið málaður út í horn. Fjölmiðlarnir sinna aðhaldshlutverki sínu ekki sem skyldi; kannski vegna þess hvað þeir eru einsleitir og samofnir ríkjandi öflum í þjóðfélaginu. Varðandi mótmæli, tilgangur þeirra kemst ekki til skila vegna slakrar frammistöðu fjölmiðla, sérlega þeirrar leiðu (og séríslensku) venju þeirra að skýra helst ekki frá hverju mótmælt er. Þá liggur beint við að spyrja: ríkir einræði framkvæmdarvalds á Íslandi?

(ritstjóri 17. / 18. / 19. / 20. des. 2007)

Dulbúningur
Stjórnarmeirihlutinn skammtar sér formennsku og varaformennsku í öllum fastanefndum Alþingis sem og þingsins sjálfs. Allt sem kemur frá minnihlutanum sætir töfum, er svæft í nefnd eða er fellt. Hvað var aftur aðalmálið með þennan óþarfa botnlanga þingsins? Tefur hann meirihlutann? Minnihlutinn mætti þess vegna ferðast í kringum hnöttinn á meðan stjórnarmeirihlutinn slær um sig... Síðan er bara að benda fjölmiðlum á lúsina meðan fíllinn valtar yfir samkvunduna. Það virkar í hvert einasta skipti.
(ritstjóri 16. des. 2007)

"Alþingi Íslendinga: valdmikið (þingræði) eða hlýðið?"
"Þrátt fyrir ýmis ytri merki er íslenskt þingræði nafnið eitt. Í raun eru flest afgreidd lög frá Alþingi runnin undan rifjum ríkisstjórnar (stjórnar- frumvörp). Vantraust á ríkisstjórn er afar sjaldgæft. Mikilvægustu ákarðanir eru hvorki teknar af Alþingi né í ríkisstjórn heldur af stjórnarflokkununum." (Le Parlement : tout puissant ("régime d'assemblée") ou soumis ? [...] Malgré certaines apparences, ce système ne correspond pas à un "régime d'assemblée". En effet, la plupart des lois votées sont d'origine gouvernementale. La censure du Gouvernement est rare. Derrière l'Althing et le Gouvernement, les décisions et choix les plus importants sont pris par les partis.") Útdráttur úr Portrait de l'Islande eftir Jacques Mer. La documentation française 2004, bls. 35.
(14. des. 2007)

Vinnubrögð með afbrigðum á Alþingi
Því eru umræður yfirleitt á Alþingi fyrst öll mál eru fyrirfram ákveðin af framkvæmdavaldinu? Jú, stjórnvöldum er væntanlega hlýtt til lýðræðisbragsins sem af því er... allt skal á yfirborðinu sýnast.
Sólarhringur skal líða milli 2. og 3. umræðu en afbrigði þingmeirihlutans (2/3) redda því með snari og því fór 3. umræða og lokaafgreiðsla þingskapafrumvarpsins fram í eftirmiðdaginn: 43 greiddu atkvæði með og 7 gegn (13 þingmenn fjarstaddir). Þar með er enn þrengt að minnihlutanum, stjórnarandstöðunni, sem alla jafna er valtað yfir af ákafa miklum á Alþingi, og þjóðin gleymir sér í jólavertíð með góðri hjálp fjölmiðla.

(ritstjóri 14. des. 2007, rétt fyrir klukkan 18)

Yfirgangur meirihlutans
Allt fellt frá minnihlutanum í þingskapamálinu. Hreint með ólíkindum að um sjálf störf Alþingis gildi meirihlutaofbeldið! Og málið gengur til 3. umræðu og lokaafgreiðslu. Það er ekkert þingræði á Íslandi, Alþingi er þar eintómt formsatriði. (14. des. 2007)

Frumvarp um breytt þingsköp: það þyrfti samþykki allra þingmanna!
Hvernig væri að standa saman þingmenn?

(kl. 2.33, 14. des. 2007)

Jafnræðis er þörf á þingi
Hví er okkur boðin þessi ósköp? Ekki einu sinni tekið tillit til starfsmanna þingsins. Hví er þingmeirihlutinn að þrjóskast við? Þingsköpin skipta máli út í þjóðfélagið. Réttindi stjórnarandstöðu eru mikilvæg lýðræðinu á öllum tímum. Við í náttúruverndarbaráttunni þekkjum það vel; höfum reynt það á eigin skinni. Hví svarar forseti allsherjarnefndar engu til um athugasemdir Félags starfsmanna þingsins?
(14. des. 2007)

Löggjafarvaldið undir hæl
44. þingfundur dagskrá fundar, m.a. 2. umræða þingskapafrumvarpsins. Bein útsending frá Alþingi. 2. umræða þingskapa NÚNA kl. 17.30. Meirihlutaálit komið fram en formanni allsherjarnefndar er nákvæmlega sama um minnihlutaálit... Undarleg vinnubrögð! Jæja, þingforseti samþykkir hlé á þingskapamáli til 18.10. Þurfti afbrigði til að hefja mál á ný vegna þess hversu stutt var frá því að minnihlutaáliti var dreift á þingi. Skyldi meirihlutinn kynna sér það? Hví liggur svona á? Hví er málið yfirleitt komið úr nefnd? Þrumuræða Atla Gíslasonar. Fundarhlé til kl. 20.
(13. des. 2007)

Þingskapafrumvarpið : klára málið en ekki ræða
Í erlendum bókum stendur að þingræði sé formið eitt á Íslandi. Flokkaræði sé það sem viðgengist á Íslandi því stjórnarflokkarnir líti svo á að ríkisstjórn og Alþingi séu formlegheit sem þurfi að líða; allar ákvarðanir séu hvort sem er teknar í flokkunum sjálfum. Þingmannamál hafa alltaf verið í miklum minnihluta.
Meðferð þingskapamálsins á Alþingi er hneykslanleg en skiljanleg miðað við álit meirihlutans á Alþingi sem einberri afgreiðslustofnun vilja hans: þingið er ekki allra Íslendinga heldur aðeins meirihlutans. Kunna fjölmiðlamenn ekki að spyrja annarra spurninga en hvenær kláriði málið???
Þingskapamálið var þykistutíma í allsherjarnefnd (viku!) þar sem skoða hefði átt faglega allar hliðar málsins... og málið tekið úr nefnd. Í 2. umræðu á "Alþingi Íslendinga" (sem er næst á dagskrá) valtar meirihlutinn kerfisbundið yfir minnihlutann í atkvæðagreiðslu, sem þýðir að öll umræða er til málamynda. Til háborinnar skammar. Erlendis er hlegið að þykistulýðræðinu á Íslandi! Óhugsandi að eins mikilvægt frumvarp sé keyrt áfram á yfirgangi meirihlutans. Um þingskapafrumvarp þarf að vera sátt allra þingmanna sem eru fulltrúar landsmanna allra. Hvar er samviska hins almenna þingmanns?

(ritstjóri 13. des. 2007)

Líffræðileg fjölbreytni ; athugasemdir FYRIR laugardaginn 15. des. nk.
Almenningi, félagasamtökum og stofnunum gefst nú tækifæri til að senda inn athugasemdir við drög að Stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni, sem kynnt voru á Umhverfisþingi 12.-13. október 2007. Athugasemdirnar má senda í tölvupósti á netfangið [email protected] fyrir 15. desember. Nýnæmi er að almenningi og félagasamtökum gefist tækifæri til að senda inn athugasemdir við drög að Stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni (National Biodiversity Strategy and Action Plan) og gefinn góður frestur. Ber að fagna því sérstaklega!
Það hefur þó þurft að bíða ansi lengi eftir þessari stefnumörkun því í ár eru 14 ár liðin síðan Ísland staðfesti Samninginn um líffræðilega fjölbreytni...
(28. okt. / 13. nóv. /12. des. 2007)

Er Alþingi afgreiðsla stjórnarmeirihlutans?
Hvaða frumvörp komast í gegn? Þingmannamál (frumvörp og þingsályktanir) eiga þau sjens? Er ekkert ÞINGRÆÐI á Íslandi?

(10. desember 2007)

Allt á korter til fimm mínútum
Um tilraunina til að skerða málfrelsi "annarra þingmanna" á Alþingi Íslendinga : tíma skal skipt að hálfu jafnt EN að hálfu eftir styrk þingflokka
... Hvers á minnihlutinn á Alþingi á hverjum tíma að gjalda? Kosnir þingmenn sem lenda í minnihluta á þingi eiga þeir sér múlbundna framtíð og um leið sá hluti þjóðarinnar sem kaus þá? Stjórnarandstaðan er mikilvægt aðhald stjórnvalds og það ættu fjölmiðlar reyndar að vera líka... Sjá umfjöllun Ögmundar.
(7. desember 2007)

Sýndarþingræðið : Að þagga niður í þeim litlu
Takið eftir 15. grein (sem er breyting á 72. grein) og 16. grein (sem bætist við sem 80. grein) frumvarpsins til laga um breytingarnar á þingsköpunum. Sjá
Lögin um þingsköp Alþingis 55/1991 sem reynt er við. Frumvarpið er komið í allsherjarnefnd (6. des. 2007).
(7. desember 2007)

Hverjir eru í umhverfisnefnd Alþingis?
Jú, þessi eiga þar sæti.
(7. desember 2007)

Er einræði meirihlutans á Alþingi æskilegt?
Hornsteinar stjórnskipunar Íslands, eins og annarra vestrænna lýðræðisríkja, er þrískipting valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig er leitast við að tryggja viðunandi jafnvægi í samfélaginu milli lýðræðislegs valds almennings, beins og óbeins, í gegnum kjörna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði Alþingis þar sem hér ríkir þingræði og þingbundin ríkisstjórn er við völd. Dómsvaldið sker úr ágreiningi. Almennt er ekki um það deilt að á Íslandi er þjóðþingið veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og hefur því miður fremur veikst en hitt undanfarinn einn til einn og hálfan áratug. Staða Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmdarvaldinu snýst eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi um möguleika og réttindi minnihlutans hverju sinni til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki, hlutverki stjórnarandstöðunnar, aðhaldshlutverkinu. Mikilvægur liður í þessu hlutverki stjórnarandstöðu, eða hvers og eins þingmanns ef svo ber undir, er að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá og út í samfélagið. Því má aldrei gleyma að hlutverk Alþingis er margþætt, sem sagt ekki bara löggjafarstarf, heldur er Alþingi líka helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og umræðu í landinu. Þar takast stjórnmálaflokkarnir og lýðræðislega kjörnir fulltrúar á og þeirri viðureign verður að skapa viðunandi umgjörð sem felst einkum og sér í lagi í því að tryggja réttindi minni hlutans, tryggja málfrelsi hans og rétt til þess að vera ávallt á varðbergi og koma ávallt að sínum sjónarmiðum.

Því fer fjarri að það sé ræðutíminn einn sem skipti hér máli heldur er hann hluti af stærri heildarmynd. Réttindi stjórnarandstöðunnar og ákvæði þingskapa sem tryggja eiga lýðræðisleg skoðanaskipti, umræður, vönduð vinnubrögð og vandaða lagasetningu Alþingis eru allt ein heild. Réttindi stjórnarandstöðunnar, þar á meðal möguleikar hennar til málflutnings, eru hluti af stærri heildarmynd og verða ekki frá henni skilin. Það er ekki markmið í sjálfu sér að halda langar ræður og þaðan af síður leiðinlegar eða innihaldsrýrar. Markmiðið er að tiltekið lágmarksjafnvægi sé alltaf til staðar á Alþingi Íslendinga, þar sem kjörnir fulltrúar allra helstu sjónarmiða í stjórnmálum landsins eiga sinn vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þingsköp Alþingis geyma þar af leiðandi fjölmörg ákvæði sem öll miða að því sama: að tryggja vandaða umfjöllun um mál, að tryggja að þingnefndir geti sinnt rannsóknaskyldu sinni, að tryggja að öll sjónarmið fái að heyrast og tryggja að framkvæmdarvaldið geti ekki í krafti meiri hluta síns rúllað umdeildum eða viðamiklum málum í gegn fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það gefist bæði tími, ráðrúm og aðstæður til þess að rannsaka mál og ræða og vekja um leið í gegnum hinn opna umræðuvettvang Alþingis, þar sem fundir fara fram í heyranda hljóði, athygli á því sem þar er á dagskrá. Úr ágætis greinargerð þingflokks VG.
Þingsköp Alþingis (starfstími Alþingis, eftirlitshlutverk, ræðutími o.fl.)
(7. desember 2007)

Áhugaverð erindi á umhverfisþingi
Upptökur Upptökur dagskrárinnar eftir hádegi 12. október hafa verið bilaðar ansi lengi...
(14. nóvember / 7. desember 2007)

Almenningur - þykistuorð í íslenskum lögum
- ...stuðla að því að almenningur hafi aðgang að upplýsingum...
- ...kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda...
- Almenningur skal eiga greiðan aðgang að...
- ...og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en...
- Framkvæmdaraðila ber að gera tillögu að matsáætlun og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi...
- Framkvæmdaraðili skal hafa forgöngu um að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu í þeim tilgangi að fá fram ábendingar og athugasemdir.
- Skipulagsstofnun kynnir almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan viku frá því að hún liggur fyrir.
= Til hvers að fræða almenning yfirleitt ef orðið er af honum tekið þegar til kemur?
Reglugerð um mat á umhverfisáhrifum 27. gr. 2. mgr. "Þeir einir geta skotið máli til ráðherra sem eiga lögvarða hagsmuni tengda fyrrgreindum ákvörðunum Skipulagsstofnunar í þeim tilgangi að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi njóta sama réttar, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að." Í raun getur hvaða framkvæmdaraðili sem er áformað hvað sem er í rólegheitunum og almenningur má jú vita, samkvæmt lögum, en á hann er kerfisbundið skellt þegar hann leyfir sér að gera athugasemdir (almenningur er brotinn niður í einstaklinga sem "ekki verður séð að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta").
(6. nóvember / 13. nóvember 2007)

Umhverfissamtök vaknið!
Frestur til 9. nóvember varðandi
Bitru- og Hverahlíðarjarðgufuvirkjanir til rafmagnsframleiðslu.
(6. nóvember 2007)

Hverfisfljót : virkjunaráformið þarf í umhverfismat
Samkvæmt ákvörðun ráðherra þarf áformið um allt að 2,5 MW virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu, Skaftárhreppi, að sæta eðlilegu mati á umhverfisáhrifum slíkrar framkvæmdar. Hverfisfljót, heimsminjaskrá og fiskveiðar.

(6. nóvember / 16. nóvember 2007)

Slórið
Ekkert hefur borist frá Íslandi til höfuðstöðva Samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD: Convention on Biological Diversity í Montreal, Quebec, sem Íslendingar undirrituðu í Ríó 1992 og staðfestu 1993) síðan 2001 (1. landsskýrsla) og 2003 (2. landsskýrsla). 3. landsskýrslan (sem eru svör við spurningalista) hefði átt að berast þangað fyrir tveimur árum... (Sjá "Iceland" hér).
Ekki bólar heldur á staðfestingu Íslands á Cartagena-bókuninni um lífvernd (Cartagena Protocol on Biosafety) frá árinu 2000 en "verið er að vinna að staðfestingu" hefur staðið í fjölda ára á vef ráðuneytisins. CPB-bókunin fjallar um erfðabreyttar lífverur og slórið því óskiljanlegt. Þó hafa Lög um erfðabreyttar lífverur verið í gildi hér á landi síðan 1996.
Öll hin Norðurlöndin standa sig betur í báðum tilfellum. Sjá staðfesta samninga.
(28. okt. 2007)

1. þáttur Árósasamningsins kominn (þökk sé EES!)
3. apríl 2006: Lög um upplýsingarétt um umhverfismál. "Markmið laga þessara er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál." Eftir eru tveir þættir Árósasamningsins, þ.e. þátttaka almennings í ákvarðanatöku og aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Öll hin Norðurlöndin hafa staðfest Árósasamninginn og Evrópusambandið líka. Sjá óstaðfesta Samninga.
(27. okt. 2007)

Hengilssvæðið : framtíðarjarðhitasvæði Reykvíkinga
"Jóhannes Zoëga, fyrrverandi hitaveitustjóri Hitaveitu Reykjavíkur, leit svo á starfsskyldur sínar að honum sem hitaveitustjóra bæri að hugsa langt fram í tímann og tryggja íbúum og fyrirtækjum borgarinnar, og síðar höfuðborgarsvæðinu öllu, heitt vatn til húshitunar um ókomna framtíð og á eins hagstæðu verði og mögulegt væri. Hann vildi varðveita Hengilssvæðið sem framtíðarjarðhitasvæði fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Síðasta verk hans í þessu lífi var að skrifa um þessi mál. Hugsjónir Jóhannesar og viðhorf eru til fyrirmyndar og eftirbreytni, sjálfstæðismönnum líka." Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og hefur starfað að jarðhitarannsóknum og -nýtingu í 40 ár. Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32.
(19. október 2007)

Af gefnu tilefni
"Jarðvarmaorkuver eru hagkvæmari en jarðgufuvirkjanir. Í þeim fyrrnefndu er framleitt bæði heitt vatn til upphitunar og raforka, sbr. orkuverin í Svartsengi og á Nesjavöllum, og þá er auðlindin líka best nýtt og á sem umhverfisvænastan hátt. Jarðgufuvirkjanir eins og þær í Kröflu, á Hellisheiði og Reykjanesi framleiða eingöngu raforku, nýta varmaorkuna mun verr og eru ekki eins vistvænar." Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og hefur starfað að jarðhitarannsóknum og -nýtingu í 40 ár. Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32.
(19. október 2007)

Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun ; aths. fyrir 9. nóv.
Frummatsskýrslurnar voru auglýstar 27. okt. (Skipulagsstofnun virðist ekki vita muninn á jarðvarmaorkuveri og jarðgufuvirkjun!). Vefsíða hefur verið opnuð af þessu tilefni.
Vegna breyttra umhverfismatslaga eru athugasemdir sendar framkvæmdaraðila sem sýður úr þeim eigin köku, án frekari auglýsingar! Ferlinu lýkur síðan með ÁLITI (ekki lengur ÁKVÖRÐUN) Skipulagsstofnunar.
OR áformar að byggja tvær JARÐGUFUVIRKJANIR til rafmagnsframleiðslu 135 MW og 90 MW. Hversu langt komast framkvæmdaraðilar á skammsýninni?
(29. október 2007)

Umhverfismatslögin
Sjá stjórnarfrumvarpið um breytingar á lögum, umræður á Alþingi, minni- og meirihlutaálit umhverfisnefndar og Lög 74/2005 um breytingar á umhverfismats- og skipulagslögum (1. umræða á þingi stóð í rúmar 3 klst.; frumvarpið var síðan til umfjöllunar í umhverfisnefnd í góðan tíma, frá nóvember 2004 og fram í maí 2005; 2. umræða, sem er í reynd flokkspólitísk, stóð í tæpar 2 klst. og 3. "umræða" er atkvæðagreiðsla, 1 mínúta). Umhverfismatslög 106/2000 - fyrir breytingar.
Stjórnartíðindi 12. des. 2005: Reglugerð um mat á umhverfisáhrifum 1123/2005.
(29. október / 6. nóvember 2007)

Grændalur
Úrskurðir 2001: Nei Skipulagsstofnunar, númer 2 árið 2001: Grændalur, sem er skammt frá umræddu Hengilssvæði. Hitt nei-ið var Kárahnjúkavirkjun. Rannsóknarleyfi RARIKs rann út 2002 (sjá Fræðandi frétt í Eldri fréttum). En orkuúlfarnir vakta bráðina og biðja enn...
(29. október 2007)

Í sátt við umhverfið...
"Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum.

Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda.

Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt [?] og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum.

Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar.

Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar. Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.

Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna." (útdráttur úr stjórnarsáttmála)
(26. október 2007)

Hvorki má einkavæða vatnsveitur né hitaveitur
"Neysluvatn og jarðhitavatn eru staðarverndaðar auðlindir. Hvorugt verður flutt mjög langar vegalengdir. Á Íslandi getur enginn orkugjafi keppt við jarðhitavatn fyrir upphitun húsa. Samkeppni verður því ekki við komið. Einkaaðili sem ræður yfir slíkri auðlind hefur einokunaraðstöðu (einokun þýðir að einn getur kúgað annan). Þegar um er að ræða þjónustufyrirtæki í lýðræðisþjóðfélagi eins og vatnsveitu og hitaveitu er einokunaraðstaða ekki fyrir hendi. Hún er aðeins fyrir hendi hjá einkaaðila í þessu sambandi. Opinberu þjónustufyrirtæki er veitt aðhald af kjósendum og opinberri umræðu um hið opinbera fyrirtæki. Nákvæmlega þetta á sér nú stað um hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur. Samkeppni er ekki eina leiðin til aðhalds. Af öllu þessu leiðir að hvorki má einkavæða vatnsveitur né hitaveitur sem þjóna sveitarfélögum eða þær auðlindir sem þær byggja á." Stefán Arnórsson, Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32 (galli hjá vefútgáfu Fbl. ; nafn höfundar kemur hvergi fram!)
(19. október 2007)

Útrásin
Stefán Arnórsson Fbl. 12. okt. 2007
Stefán Arnórsson Hádegisviðtal Stöð 2 15. okt. 2007.

(19. október 2007)

Rasað um ráð fram
"Þorsteinn benti á að við raforkuframleiðsla með jarðhita nýtist um 12% af orkunni sem kemur úr iðrum jarðar. Hin 88% fari út í umhverfið, fyrst og fremst í mynd varmaorku. "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni," sagði Þorsteinn [Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands]". Mbl. 18. okt. 2007.
(19. október 2007)

Umhverfisþing
Umhverfisþing fer fram á Nordica föstudag og laugardag 12. og 13. október. Dagskrá á vef umhverfisráðuneytisins. Þátttaka er öllum opin og fer skráning fram til 8. október á netinu eða í síma ráðuneytisins á skrifstofutíma 545 86 00. Þingið stendur frá kl. 9 til 17 föstudag (mestmegnis tala embættismenn náttúrunnar fyrsta daginn: Þingsetning, Stefnumörkun stjórnvalda og tvær málstofur: Náttúruvernd á 21. öld og Náttúra og byggð. Þá er kokteill) og 9 til 13 laugardag (...það er spurning hvort embættismennirnir sofi út...). Dagskráin er þétt og menn tala yfirleitt í 10 mínútur eða korter. Kristín Helga Gunnarsdóttir er fulltrúi frjálsra félagasamtaka eða NGOs (Non-Governmental Organisations) sem eru mikilvægt mótvægi við stjórnvöld um heim allan. Hún fær 10 mínútur á föstudagsmorgun. Takið frí í vinnunni ef þið mögulega getið og fjölmennið báða dagana! Nýmæli er að hægt verður að hlusta á ræðumenn í vefvarpi. Mikið væri gott ef upptökurnar væru áfram á vef óskaráðuneytisins okkar. Okkur öllum til hamingju, Þórunn! Okkur varð að óskum :) Upptökur erinda á umhverfisþingi
(4. / 6. / 8. /13. / 14. / 26. október 2007)

Fjallhringurinn frá Öskju
...Vikrafell, Herðubreið, Herðubreiðartögl, Þríhyrningur, Upptyppingar, Vaðalda, Dyngjufjöll, Svarthöfði, Öskjuop, Kollur, Stórakista, Kollóttadyngja, Eggert, Vikrafell, Herðubreið... Rauði skjálftapunkturinn Jarðskjálftarnir
og Herðubreiðartögl eru skammt suðvestan við Herðubreiðarlindir
(19. október 2007)


Skjálftar við Upptyppinga og fylling Hálslóns: stórfrétt !

Jarðskjálftar og misgengi á Kárahnjúkasvæði. Mat á vá og ábendingar um frekari athuganir er skýrsla sem gerð var í mars 2005 af Freysteini Sigmundssyni (formaður) og Páli Einarssyni, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Páli Halldórssyni, Steinunni Jakobsdóttur og Kristínu Vogfjörð, Veðurstofu Íslands, Ragnari Sigbjörnssyni og Jónasi Þór Snæbjörnssyni, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði, Háskóla Íslands.
Rúv.is (Rás 1 og 2) flytur fréttir af því 5. apríl 2005: "Virkni á víðáttumiklu svæði á norðanverðu landinu kann að valda vá á Kárahnjúkasvæðinu að mati jarðvísindamanna. Misgengjakerfið við Kárahnjúkastíflu er viðameira en áður var talið. Jarðvísindamenn telja svæðið ekki fyllilega stöðugt. Vá kunni að skapast þar vegna jarðhræringa. Umtalsverð hætta er talin á því að sprungur á virkjunarsvæðinu gleikki og eru margar þeirra mjög lekar. Virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum meðal annars Öskju, Kverkfjöllum og Snæfelli kann einnig að leiða til misgengishreyfinga við Kárahnjúka." En hvað með aðra fjölmiðla? Ekkert? Ja hérna og þá verða skjálftarnir í sumar.
Mbl.is 3. ágúst 2007: þar segir Karl Grönvold, jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands: "Aðspurður hvort eitthvert samhengi geti verið milli fyllingar Hálslóns og jarðskjálftahrinunnar í Upptyppingum segir Karl það af og frá. Bendir hann á að til þess séu skjálftarnir á of miklu dýpi, auk þess sem þeir séu það langt frá lóninu.
"
Visir.is 13. ágúst 2007: "Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í samtali við fréttastofu telja það vera tilviljun eina að skjálftahrinur á þessum stað byrjuðu að mælast á sama tíma og fylling lónsins hófst. Ekkert benti til að þetta tengdist á neinn hátt."
Visir.is 15. ágúst 2007: "Steinunn Sigríður Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir enga skjálfta hafa mælst á svæðinu sem komi á óvart. Áhyggjur sem fólk hafði fyrir fyllingu Hálslóns af því að sprungur myndu gliðna séu óþarfar, í það minnsta enn sem komið er."
Ómar Ragnarsson á vef sínum 14. september 2007: "Samband á milli skjálftanna og fyllingar Hálslóns?"

Útvarp Saga 24. september 2007. Hvað sagði Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, meðal annars? Útdrættir úr viðtalinu:
"Það sem hefur verið rannsóknarefni síðustu árin eru jarðskorpuhreyfingar í tengslum við Kárahnjúka vegna fargs lónsins og vatnsþrýstingsins í lóninu. Það eru hugmyndar uppi um breytingar í tengslum við það." ...
"Það hefur alltaf verið fastlega búist við því að það yrði einhver skjálftavirkni í tengslum við fyllinguna í Hálslóni" ...
"Hins vegar þá verðum við að hafa það í huga að þetta er náttúrlega engan veginn um garð gengið" ...
"Í mörgun af þessum tilfellum sem þekkt er í heiminum þá hefur skjálftavirknin náð hámarki nokkrum árum eftir að fyrsta fyllingin á sér stað.
Þannig að svona lón þau sveiflast venjulega um einhvers konar árssveiflu og það mun verða þannig í Hálslóni að það verður tæmt úr því lóni á veturna og fyllt aftur á sumrin. Þannig að hvort að raunverulega verða skjálftar eða ekki, að það fæst nú ekki úr því skorið fyrr en eftir nokkur ár og fyrr en að búið er að fylla nokkrum sinnum á lónið. Þannig að raunveruleg prófun á þessu kemur kannski ekki fyrr en að árum liðnum." ...

- En eru dæmi um svona allstóra skjálfta eftir einhvern dáldinn tíma erlendis frá?
"Já, það er þekkt og meira segja skjálftar sem hafa valdið tjóni á svæðum sem annars eru skjálftalaus. Og þekktasta dæmið er nú kannski frá Koyna í Indlandi, annað dæmi er frá Aswan-stíflunni í Egyptalandi. Í báðum þessum tilfellum þá komu stærstu skjálftarnir fjórum eða fimm árum eða jafnvel seinna eftir að lónið var myndað fyrst.
Svoleiðis að það er engan veginn búið að bíta úr nálinni með það hvað gerist undir Hálslóni eða í nágrenni við það.
Annað sem að virðist stundum gerast er að skjálftavirknin, þessi sem að tengist þessu, er í dálítilli fjarlægð, hún er kannski ekki alveg beint undir lóninu eða í næsta nágrenni. Og upp í Koina-dæminu í Indlandi, til dæmis, að þá byrjaði skjálftavirknin í um 20 km fjarlægð frá lóninu." ...
- Þannig að þessi hugmynd sem að ÓR var að tala um um daginn, hún er ekkert út í hött?
"Ef við lítum nú á svo stórt svæði umhverfis Kárahnjúkalónið, þá náttúrlega falla inn í það ýmis svæði, eins og t.d. Upptyppingar, það fellur innan þess.
Það verður þá talsvert stærra svæði sem sem við þurfum að líta á sem áhrifasvæði fyrir þetta. En þetta verður erfitt að staðfesta fyrr heldur en bara með tímanum hvort að það er raunveruleg fylgni þarna á milli.
Það er eftirtektarverkt að skjálftarnir við Upptyppinga að þeir hófust um það bil sem að fyllingarhraðinn var mestur í Kárahnjúkum.
Það er ákveðin fylgni þarna á milli, það er ekki hægt að loka augunum fyrir því."

Vefmiðlar Visir.is, kvöldfréttir 25. september 2007: "Tengsl virðast vera milli skjálftanna við Upptyppinga í sumar og fyllingar Hálslóns. Á fjórða þúsund skjálftar mældust við Upptyppinga í sumar." ... Gunnar B. Guðmundsson jarðeðlisfræðingur: "Okkur finnst vera ákveðin samsvörun þar á milli. En... það getur auðvitað verið tilviljun."
(4. / 9. október 2007)

Varðandi Kárahnjúkavirkjun og varfærni fræðimanna
Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í forðafræði jarðhita, fékk sérstaka meðferð vegna skýrslu sinnar.
(5. /6. október 2007)

Athyglisverðar greinar um vetni
Greinar Sigþórs Péturssonar í Morgunblaðinu (aðsendar greinar) vekja athygli. "Var öllum sem tóku þátt í þessari skoðanakönnun kynnt sú staðreynd að notkun vetnis í þessum tilgangi sóaði 75-80% af dýrmætri orku sem hlaðið var í vetnið við framleiðslu þess en um 90% af þessari orku kæmist til skila ef raforkan væri notuð beint í rafknúin samgöngutæki? Ný rafhlöðutækni er þegar til sem gerir rafknúna bíla raunhæfan kost og það er þegar hægt að kaupa blendingsbíla sem nota þessar rafhlöður í bílaumboðum hér á Íslandi." Úr grein Sigþórs Nú er lag fyrir okkur Íslendinga að henda peningunum í vitleysu Morgunblaðinu 28. apríl 2006.
(3. ágúst 2007)

Ágætis úttekt
Er hugað nóg að umhverfisáhrifum skógræktar? "Breytt ásýnd landsins: Á hverjum degi bætist að jafnaði við skógur á stærð við sex knattspyrnuvelli. Hér er stunduð umfangsmikil atvinnuskógrækt sem ríkið styrkir um hundruð milljóna króna á ári. Yfirlýst markmið sumra forsvarsmanna skógræktar er að þekja 10 % alls landsins með skógi en samkvæmt því gæti skóglendi slagað hátt upp í helming af öllu láglendi - og enn meira sé aðeins miðað við gróið land. Þrátt fyrir víðtæka sátt um skógrækt eru þeir til sem telja ekki nægilega vel hugað að mögulegum neikvæðum áhrifum skógræktar á umhverfið, svo sem á fuglalíf og landslag." Viðskiptablaðið, opna 20-21, 22-23, föstudaginn 1. júní 2007.
(3. ágúst 2007)

Fróðleg úttekt
LOFTSLAGSMÁL: Um 4% af flatarmáli Íslands hafa verið ræst fram með yfir 30 þúsund km af skurðum: Koltvísýrings-sprengjan sem þú vissir ekki að væri til" Viðskiptablaðið, opna bls. 22-23, föstudaginn 25. maí 2007.
(2. ágúst 2007)

Fræðandi frétt
Á vef ríkisútvarpsins er áhugaverð frétt Fréttastofu Útvarps um rannsóknarleyfi: "10 rannsóknaleyfi vegna virkjana á síðustu 8 árum".
(9. júní/2. ágúst 2007)

Hvað þarf til?
Stór fyrirtæki hreiðra um sig hjá okkur og fjölmiðlar, um hvað fjalla þeir? Hvað þarf að mótmæla lengi til þess að fá fjölmiðla til að gefa okkur heildarmynd? Kanna málin. Leita eftir samhengi hlutanna. Mengun er áhyggjuefni, náttúruspjöll eru áhyggjuefni, stóriðjuvæðing er áhyggjuefni... Hvar er rannsóknarblaðamennskan? Hvar er forvitnin? Hvar er kunnáttan? Hvar er þorið? Hvenær getum við farið að treysta því að fjölmiðlar leggi hömlur á peningavald og/eða pólitísk vald með umfjöllun þegar það fer offari og vari okkur við? Fjölmiðlar, stjórnarandstaða og frjáls félagasamtök eru mikilvægir öryggisventlar í lýðræðisþjóðfélagi.
(ritstjóri 23./24. júlí 2007)

Umhverfisráðuneyti
9. júlí 2007: Samráðsfundur umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka.
"Það er von ráðuneytisins að fimmta Umhverfisþing verði vettvangur upplýstrar umræðu og skoðanaskipta um náttúruvernd, sem nýtist stjórnvöldum við endurskoðun náttúruverndaráætlunar og mótun stefnu um líffræðilega fjölbreytni og almennt til að efla umræðu um þessi mál hér á landi." 12. og 13. október 2007: Umhverfisþing boðað um drög að náttúruverndaráætlun 2009-2013 og að áætlun um líffræðilega fjölbreytni.
En starfshópurinn... er hann líklegur til að gera tillögu um að vernda þau svæði sem orkugeirinn ágirnist? Verða drögin aðgengileg fyrir Umhverfisþingið?
(23. júlí/24. júlí 2007)

Áherslubreytingar?
jú, 13. júlí 2007: Iðnaðarráðherra hefur vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi
en... Fjárfestingarstofa:
Energy intensive industries

en... 16. júní 2007: Þekking Íslendinga í orkumálum kynnt fyrir sendiherrum
(23. júlí 2007)

Skýrsla til Alþingis er varðar Kárahnjúkavirkjun
12. október 2006: Kárahnjúkavirkjun: "Áætlað er að langtímaáhrif á landsframleiðslu verði um 1% og um 0,7% á þjóðartekjur."
(23. júlí 2007)


STAR, Fjárfestingarstofan og iðnaðarráðuneytið 1997-2002

"Heildargreiðslur Fjárfestingarstofunnar orkusviðs vegna verkefna í nafni eða á verksviði STAR á árunum 1997 til 1. nóvember 2002 hafa numið samtals 29.415.035 kr." "Kostnaður ríkissjóðs hefur verið greiddur af fjárveitingum Fjárfestingarstofunnar orkusviðs og iðnaðarráðuneytis" við undirbúning álvers í Reyðarfirði árin 1997-2002: 199.774.342 kr. Svar við fyrirspurn á Alþingi 4. desember 2002
(23. júlí 2007)

Úrskurðir
"Réttarheimild.is er yfirlitssíða þar sem hægt er að nálgast helstu lagagögn og réttarheimildir, s.s. lög og reglugerðir, dóma, stjórnvaldsúrskurði, alþjóðasamninga, niðurstöður alþjóðadómstóla og fleira. Á síðunni birtist meðal annars hundruða stjórnvaldsúrskurða og úrskurða Félagsdóms. Heimasíðan er hluti af vef stjórnarráðsins og er komið á fót í samræmi við tillögur nefndar um miðlun lagagagna á netinu sem dómsmálaráðherra skipaði í nóvember 1999."
Úrskurðir umhverfisráðuneytisins ná aftur til ársins 2000.
(23. júlí 2007)

Reykjanesfólkvangur
Gönguferðir í fyrramálið á Helgafell og á sunnudaginn á Sveifluháls. Mæting í báðar ferðirnar kl. 10. Allir velkomnir. Fólkvangurinn. Kort 1. Kort 2.
(20. júlí 2007)

Tilefni mótmæla er aðalatriðið !
a. Hverju er verið að mótmæla?
b. Kannið málið

c. Eru áhyggjur mótmælenda réttmætar?
d. Kannið málið
e. Ef þið kannist ekki við neitt...
f. ...er kominn tími til að kanna málið!

(20. júlí 2007)

Mótmæli
...eru tjáning nauðsynleg lýðræðinu þegar allt annað þrýtur
1. Kynnið ykkur málið
2. Lesið á mótmælaspjöld og/eða -borða
3. Hlustið eftir slagorðum
4. Lesið fréttatilkynningar ef til eru
5. Hví er mótmælt akkúrat þann daginn?
6.
Ef um fjöldamótmæli er að ræða, berið saman tölur lögreglu og mótmælenda sjálfra um fjölda mótmælenda og gefið hvort tveggja upp við umfjöllun
7. Þegar mótmælin eru táknræn, lesið í þau
8. Leitið ekki eingöngu að "þekktum" andlitum
9. Leggið spurningar fyrir þá sem ábyrgir eru fyrir því sem verið er að mótmæla, sem og mótmælendur
10. Athugið, mótmæli eru alltaf til að vekja athygli á einhverju
= Fjölmiðlar eru mikilvægt mótvægi valds í lýðræðisríki
(18. júlí 2007)


Hnattræn áhrif álbræðslu

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að áhugi erlendra stórfyrirtækja á íslenskum náttúruauðlindum er gríðarlegur um þessar mundir. Að sama skapi hefur áhugi Íslendinga á því að kynna sér þessi sömu fyrirtæki í hnattrænu samhengi ekki verið eins mikill. Gríðarleg orku- og baxítþörf áliðnaðarins hefur haft geigvænleg áhrif um allan heim. Baxít er grafið upp hvar sem það finnst og flutt langar leiðir þangað sem ódýrast er rafmagnið. Ísland er aðeins brot af heildarmynd sem nær til Jamaíku, Amazon, Afríku, Ástralíu og Asíu. Saving Iceland hefur fengið til landsins prófessora, talsmenn ættbálka og íbúasamtaka frá fimm heimsálfum til að miðla af reynslu sinni. Úr fréttatilkynningu Saving Iceland.

(6. júlí 2007)

Frumskógarnir hverfa - "lungu jarðar"
Út er komin bókin Ces forêts qu'on assassine eftir frumtegundafræðinginn Emmanuelle Grundmann. Formála ritar Jane Goodall. París, Calmann-Lévy.
(6. júlí 2007)

Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna
Ráðstefna Saving Iceland helgina 7. til 8. júlí 2007, kl. 11 til 18 laugardag og sunnudag, Hótel Hlíð (milli Hveragerðis og Þorlákshafnar). Fyrirlestrar á ensku. Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis. Nýtt íslenskt ferðaeldhús býður upp á lífrænt grænmetisfæði á kostnaðarverði. Einnig verður barnapössun á meðan fundir standa fundargestum að endurgjaldslausu. Frjáls framlög vel þegin. Saving Iceland Conference 2007: Verndun íslenskrar náttúru tengist beint málefnum sem eru hitamál um allan heim, eins og loftslagsbreytingar og orkumál, segir Jaap Krater frá Hollandi, einn skipuleggjenda. Ráðstefna okkar mun horfa á baráttuna gegn stóriðju á Íslandi út frá þessum þáttum og hún verður einstakt tækifæri fyrir fólk frá meira en tólf löndum til að deila reynslu sinni. Við viljum ekki frekari stóriðju eða stórstíflur, ekki á Íslandi og hvorki í þriðja heiminum né fyrsta heiminum. Við stefnum öll að því að stöðva þróun sem er farin fram úr sjálfri sér og viljum efla félagslegt réttlæti og lífshætti í samhljómi við náttúruleg kerfi jarðarinnar. Á ráðstefnunni verða framsögumenn frá Náttúruvaktinni, Fuglaverndarfélagi Íslands, Framtíðarlandinu, Saving Iceland og Sólarhópunum og öðrum íslenskum hópum sem verjast stóriðju á sínum heimasvæðum, auk erlendra gesta frá Kanada, Brasilíu, Suður Afríku, Suður Asíu, Englandi, Trínidad og Tóbagó, Indlandi, Þýskalandi, Hollandi og Bandaríkjunum.
Úr fréttatilkynningu SI.
(2. maí / 25. júní / 6. júlí 2007)

Að sökkva eða stökkva
Listaverkauppboð fimmtudaginn 5. júlí kl. 17 í Start Art listamannahúsi að Laugavegi 12b. Á uppboðsdaginn verða verk og höfundar kynnt klukkutíma áður en uppboð hefst. Birna Þórðardóttir stjórnar uppboðinu. Listaverkauppboðið er til styrktar ráðstefnunni Saving Iceland 2007 sem haldin verður helgina 7. og 8. júlí. Þar munu sérfræðingar og fulltrúar baráttusamtaka frá fimm heimsálfum fjalla um hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna. Eftirtaldir listamenn hafa gefið verk til uppboðsins: Áslaug Thorlacius, Birgir Andrésson, Eggert Pétursson, Erling Klingenberg, Eygló Harðardóttir, Gaga Skorrdal, Haraldur Jónsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Kristinn G. Harðarson, Kristinn E. Hrafnsson, Kristín Reynisdóttir, Magdalena Kjartansdóttir, Magnús Pálsson, Ólafur Lárusson, Ragnhildur Stefánsdóttir, Sigrid Valtingojer og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Gullið tækifæri til að slá flugurnar tvær í einu höggi: annars vegar að eignast dáyndisgott listaverk og hins vegar að styðja og styrkja lýðræðislega umræðu og ákvarðanatöku um málefni sem skipta mun sköpum fyrir okkur öll jarðarinnar börn. Úr fréttatilkynningu Start Art listamannahúss.
(5. júlí 2007)

Voice of the Wilderness
Nýtt blað Saving Iceland á íslensku og ensku: netúgáfa.
(2. júlí 2007)

Stórtónleikar gegn stóriðju á Nasa í kvöld (2. júlí) kl. 20
Hljómsveitir og tónlistamenn sem fram koma eru meðal annarra: Múm, Ólöf Arnalds, Bogomil Font og félagar, Magga Stína, Rúnar Júl, Ellen Eyþórs, Mr. Silla og Mongoose, Bloodgroup, Evil Madness, Skátar, Ljótu Hálfvitarnir, Retro Stefsson, Strakovsky Horo, Dj Árni Sveins. Miðaverð er 2.500 krónur og rennur allur ágóði til náttúruverndar. Miðar verða seldir við innganginn. Frjáls framlög eru einnig vel þegin. Allir listamennirnir gefa vinnu sína til stuðnings samtakana Saving Iceland og verndunar náttúru Íslands. Úr fréttatilkynningu Saving Iceland og Hætta-hópsins.
(25. júní / 2. júlí 2007)


Flóahreppur í álögum?
Villingaholtshreppur gengur aftur og talar röddum. Íbúafundur í kvöld kl. 20.30 í Þjórsárveri. Fossar og annað þvíumlíkt í Þjórsá þagnar á meðan og tún blotna. Heyrst hefur að fulltrúasveit Landsvirkjunar sjái um bakraddir og meðlæti. Sjá nánar viðburðatal.
(25. júní 2007)

Hverfisfljót
"Fyrirhuguð virkjun í Hverfisfljóti er innan svæðis sem enn er að mestu leyti óraskað. Svæðið er viðkvæmt fyrir raski og býr yfir töluverðri náttúrufegurð. Framkvæmdin mun hafa áhrif á jarðmyndanir, þ.e. eldhraun og fossa, sem njóta sérstakrar verndar skv. 37 gr. laga um náttúruvernd. Umhverfisstofnun hefur lagt til að Skaftáreldahraun verði friðlýst, en framkvæmdir við virkjunina felur m.a. í sér lagningu nýs vegar um hraunið. Fossar í Hverfisfljóti eru á skrá Náttúruverndarráðs um fossa sem æskilegt er talið að vernda..." Úr Umsögn UST frá 24. apríl 2007. "Delta des Hverfisfljót Fluss". Skaftáreldaganga hjá Mountainguide.is. Útivistarsvæði. Náttúrufar og náttúruminjar umhverfis Vatnajökul: "Hverfisfljót kemur undan Síðujökli í mörgum kvíslum. Skaftá og Hverfisfljót eru áhrifamikil öfl í landmótun suðvestan Vatnajökuls." (bls. 19). Allt að 2,5 MW virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu, Skaftárhreppi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. maí er framkvæmdin EKKI háð mati, þ.e. áhrif á umhverfi verða ekki metin neitt frekar. Kærufrestur til umhverfisráðherra til 25. júní 2007.
(20. / 21. júní 2007)

Fræðandi frétt
Á vef ríkisútvarpsins er áhugaverð frétt um rannsóknarleyfi: "10 rannsóknaleyfi vegna virkjana á síðustu 8 árum".
(9. júní 2007)

Hálendi hugans
9. landsbyggðarráðstefna Sagnfræðingafélags Íslands og Félags þjóðfræðinga á Íslandi verður haldin á hinu nýja Heklusetri á Leirubakka í Landsveit í samvinnu við heimamenn helgina 1.-3. júní 2007. Ráðstefnugjald er ekkert en í boði er gisting í tvær nætur.
(16. maí /28. maí 2007)

Gjástykki
Rannsóknarleyfi gefið út rétt fyrir kosningar!
"Gjástykki er það svæði, sem í dag er minnst raskað og best varðveitt af þeim svæðum sem áætlað er að hefja boranir á miðað við fyrirliggjandi tillögur. Það er algjörlega óásættanlegt að hafist verði handa með jarðrask á því viðkvæma svæði sem í framtíðinni getur átt eftir að verða mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í Þingeyjarsýslum. Gjástykki er einstakt svæði til að nýta í tengslum við fræðslu og skilning á jarðfræði og landrekskenningunnni og þeim öflum sem í jörðinni búa." 9.11. 2006: Úr bókun Ásbjarnar Þ. Björgvinssonar við 4. lið fundar byggðarráðs Norðurþings.
(25. maí 2007)

Trölladyngja
Hvenær var rannsóknarleyfið framlengt? Fyrirspurn send til iðnaðarráðuneytis. Sjá
lög um upplýsingarétt um umhverfismál frá 3.4. 2006: "Markmið laga þessara er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd.." málið leyst? @eldur.stjr.is hleypir netpósti ekki að! Samkvæmt svari frá lögfræðingi ráðuneytisins var rannsóknarleyfið veitt 11. desember 2006.
(25. maí / 6. júní 2007)

Þjórsárver
Út er komin bókin Hernaðurinn gegn landinu: Þjórsárver, hjarta landsins eftir Guðmund Pál Ólafsson: "Höfundur lýsir í greinargóðu máli og með hjálp ægifagurra mynda hvað í húfi er, og rakin er skipulega sagan um stöðuga ásælni orkuyfirvalda sem aldrei hafa gefið upp á bátinn að sökkva þessari hálendisvin til að framleiða rafmagn handa álbræðslum." Úr lýsingu Máls og menningar.
(26. maí 2007)

Þjórsá og verndun hennar
Þrjú
náttúruverndarfélög hafa sprottið upp til verndar Þjórsá og Þjórsárverum í gegnum árin: NSS 1973, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera 2001 og Sól á Suðurlandi 2006.
(26. maí 2007)

Ásælni Landsvirkjunar í Þjórsá
Landsvirkjun stofnaði á sínum tíma Norðlingaölduvef en lagði hann niður, nú stofnar hún til útboðs og tekur tilboði álvers/virkjanasérfræðinganna VST hf., VGK-Hönnunar hf., og Rafteikningar hf. (ekki Rafhönnun?) upp á 1370 milljónir eins og ekkert hafi í skorist. Og enn bætist vefur í safnið: Nýjar virkjaRnir í Þjórsá og hvert er veffangið? thjorsa.is...
(26. maí 2007)

Skagfirsku jökulsárnar í gíslingu stóriðjustefnunnar
Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði skorar á verðandi ríkisstjórn að vernda skagfirsku jökulsárnar. "Mikil andstaða er í Skagafirði við Skatastaða- og Villinganesvirkjanir. Uppbygging álvers á Bakka við Húsavík mun engu að síður krefjast þessara virkjana. Til að vernda Jökulsárnar í Skagafirði - og aðrar náttúruperlur - er því nauðsynlegt að fallið verði frá áætlunum um að reisa álver á Bakka, að öðrum kosti verða þær áfram í gíslingu stóriðjustefnunnar." Úr fréttatilkynningu Áhugahópsins.
(22. maí 2007)

Katla
Árið 2005 kom út bókin Katla. Saga Kötluelda eftir Werner Schutzbach hjá Lafleur útgáfunni. Frábær lesning.
(16. maí 2007)

Náttúra, vald og verðmæti
Út er komin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi bókin Náttúra, vald og verðmæti eftir Ólaf Pál Jónsson. Í bókinni er glímt við ýmsar grundvallarspurningar um samband manns og náttúru, meðferð valds í lýðræðissamfélagi og rætur þeirra verðmæta sem gefa mannlegri tilveru gildi. Bókin er í senn greining á þeim hugtökum sem notuð eru til að fjalla um náttúru, vald og verðmæti - hugtökum eins og náttúra, umhverfi, framfarir, lýðræði og eignarréttur - og beitt gagnrýni á margt af því sem hefur verið sagt og gert síðustu ár.
Í þessu fyrsta Umhverfisriti Bókmenntafélagsins er tekist á við nokkur helstu átaka- og álitamála í samtímanum með aðferðum heimspekinnar.
(4. maí 2007)

Bæklingi Íslandsvina dreift á heimili
Upplýsingabæklingur Íslandsvina um áliðnað og virkjanaáform á Íslandi gefinn út. "Að okkar mati hallar verulega á lýðræði varðandi upplýsingaflæði til fólks, þar sem stóriðjufyrirtæki og ríkisstofnanir, s.s. Landsvirkjun, hafa úr miklu fjármagni að moða til að koma sínum málstað á framfæri, auk þess sem Landsvirkjun starfar í krafti ríkisvaldsins sem sjálft rekur stóriðjustefnuna. Bæklingur Íslandsvina hefur þann tilgang að jafna vogarskálarnar örlítið og verður honum dreift á öll heimili landsins á næstu dögum. Hann lýsir álframleiðslu í alþjóðlegu samhengi, þeirri mengun sem hlýst af báxíðnámugreftri og því að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að bræða súrál auk þeirrar gríðarlegu mengunarlosunar sem eitt álver felur í sér. Einnig fjallar bæklingurinn lítillega um mengun frá jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum. Sú röksemdarfærsla að það sé hnattræn skylda Íslendinga að nýta allar sínar orkuauðlindir til álbræðslu sem framlag í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum er hrakin í bæklingnum." Úr fréttatilkynningu Íslandsvina.
(3. maí 2007)

Þjórsá og sunnlensk framtíð
- framboðsfundur um Þjórsá og framtíðina á Suðurlandi
Frambjóðendur flokkanna ræða við sunnlenska kjósendur um áætlaðar virkjanir í Þjórsá og hvort af þeim verður.
Hvers vegna er virkjað og fyrir hverja er virkjað.
Fundurinn verður haldinn í Þingborg næstkomandi laugardag 28. apríl kl. 14. Fundarstjóri er Ólafur Sigurjónsson í Forsæti.
Í pallborði verða frambjóðendur flokkanna.
Fundinn boða: Unnendur Þjórsár og Sól á Suðurlandi.
(26. apríl 2007)

Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði
Stofnaður hefur verið áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði, þ.e. Jökulsá eystri og vestri ásamt Héraðsvötnum. Markmið hópsins er að vernda árnar og að þegar í stað verði horfið frá öllum hugmyndum um virkjun þeirra. Hópurinn ætlar að beina sjónum fólks að óafturkræfum áhrifum virkjana í ánum, allt frá jökli til sjávar, og áhrifum þeirra á skagfirskt samfélag. Sjá nánar www.jokulsar.org

Stíflan sem stækkar og stækkar
Í upphafi var Kárahnjúkastífla 190 m á hæð hið mesta (sjá bls. 12)

Á vef Landsvirkjunar er hins vegar "mesta hæð stíflu" orðin 193 m

Í bæklingi Landsvirkjunar er virkjunin orðin 198 m á hæðNú (24. júlí 2006) stendur á spjöldum á myndbandi Landsvirkjunar (frá apríl 2005) í Végarði um framkvæmdina að stíflan sé 200 metra há.

Náttúruvaktin spyr: Þjást kynningarfulltrúar Landsvirkjunar af stórmennskubrjálæði eða stendur til að hækka Kárahnjúkastíflu um allt að 10 metra á meðan byggingu hennar stendur í trássi við lög og samþykktir?

Fjölskyldubúðir allra Íslandsvina við Kárahnjúka 21.-31. júlí 2006
Fjölskyldubúðir verða reistar við Snæfell skammt frá Kárahnjúkum 21.-31. júlí 2006 til að gefa fólki kost á að upplifa stórkostlega náttúru Kárahnjúkasvæðisins fyrir þann tíma sem áformað er að fylla Hálslón.

Orkulindin Ísland. Ráðstefna 10. mars 2006
Föstudaginn 10. mars kl 14 17.30 verður haldin ráðstefna á Hótel Nordica á vegum Fuglaverndarfélags Íslands, Hætta-hópsins, Náttúruvaktarinnar og Náttúruverndarsamtaka Íslands, um atvinnu og umhverfi, undir heitinu Orkulindin Ísland: Náttúra, mannauður og hugvit. Náttúruverndarsamtökum er gjarnan legið á hálsi fyrir að berjast á móti stóriðjustefnu en benda ekki á aðrar leiðir í atvinnumálum þessi ráðstefna er liður í að gera einmitt það.

Fyrirlesarar eru Reynir Harðarson stofnandi CCPAA, Rögnvaldur Sæmundsson, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar HR í nýsköpunar- og fjölmiðlafræðum, Árni Finnson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Magnús Sigmundsson framkvæmdastjóri Hestasport-Ævintýraferða. Að loknum fyrirlestrum verða pallborðumræður með fulltrúum stjórnmálaflokkanna.

Stórtónleikar laugardaginn 6. janúar í Laugardalshöll
Laugardaginn 6. janúar verða haldnir sannkallaðir stórtónleikar í Laugardalshöll og hefjast þeir klukkan 8. Fram koma margir heimsfrægir listamenn, m.a. Björk, Sigur Rós og Damon Albarn. Löngu er orðið uppselt á þessa tónleika en allur ágóði rennur til náttúruverndarmála.
Náttúruvaktin verður með borð í anddyri Hallarinnar þar sem hægt er að afla sér upplýsinga um starfsemi félagsins, náttúruverndarmál, skaðsemi Kárahnjúkavirkjunar ásamt því sem bolir og barmmerki verða til sölu.

Ljós í Myrkri. Tónleikar í Hallgrímskirkju 21. desember 2005 kl. 20.00
Miðvikudaginn 21. desember verða haldnir tónleikar í Hallgrímskirkju til styrktar náttúruverndarmálum. Flytjendur eru kvartettinn Amina, Guðrún Ásmundsdóttir leikkona, Laufey Sigurðardóttur fiðluleikari, Ólöf Sesselía Óskarsdóttir fiðluleikari, Herdís Anna Jónsdóttir, Steef Oosterhout, Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari.

Ólafur Páll Jónsson heimspekingur, Katrín Fjeldsted læknir, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og séra Sigurður Pálsson flytja hugvekjur. Kynnir er Arnar Jónsson leikari.

1. október 2005
132. löggjafarþing sett laugardaginn 1. október. Sama dag taka ný umhverfismatslög gildi... Umræðan. Fyrri umhverfismatslög. Framkvæmdaraðilar framvegis kóngar í ríki náttúrunnar? (27. ágúst 2005)

Gróðurvin miðhálendisins borgið?

Samvinnunefnd miðhálendis samþykkti [12. ágúst] auglýsta tillögu með þeirri breytingu að ekki verði gert ráð fyrir set- og veitulónum eða mannvirkjum þeim tengdum suðaustan Hofsjökuls og norðaustan friðlands Þjórsárvera. (25. ágúst 2005)

Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps verndar náttúruperlu
Á fundi hreppsnefndar 9. ágúst 2005 var bókun meirihluta hreppsnefndar frá 3. maí sl. áréttuð þar sem Norðlingaölduveitu er alfarið hafnað.
Þess má geta að tvær þingsályktunartillögur um friðlandið í Þjórsárverum voru fluttar á síðasta þingi
; önnur þeirra um stækkun þess, sem flutt var í fjórða sinn, er komin í nefnd en hin hefur enn ekki verið rædd
. Sjá einnig: Verndartillögu Umhverfisstofnunar (10. ágúst 2005)

Fróðleikskvöld í máli og myndum og dagsferð í Þjórsárver
Sjá vefi Ferðafélags Íslands og Landverndar. Kvöldvaka í Árnesi á laugardagskvöld hefst kl. 20 og á sunnudagsmorgun 14. ágúst kl. 8 er lagt í ferð þaðan í Þúfuver. Hægt er að kaupa far hjá Ferðafélagi Íslands til kl. 16 miðvikudaginn 10. ágúst. Þegar hafa yfir 200 manns skráð sig. (10. ágúst 2005)

Fyrirhugað álver í Reyðarfirði
Eins og kunnugt er féll dómur í Hæstarétti 9. júní 2005 (20/2005) þar sem úrskurður umhverfisráðherra um að álverið í Reyðarfirði þyrfti ekki að sæta umhverfismati er ómerktur.
Umhverfismatsferlið er þar af leiðandi í fullum gangi og er frestur til að skila inn athugasemdum við Tillögu að matsáætlun HRV/ALCOA til mánudagsins
15. ágúst nk. [Reyðarfjörður allt að 346 þús. áltonn á ári; til samanburðar er ársframleiðsla Grundartanga nú 90 þús. og Straumsvíkur 178 þús.] (5. ágúst 2005)

Samtök um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í Eyjafirði
Stofnfundur Samtaka um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í Eyjafirði var haldinn í Deiglunni á Akureyri laugardaginn 28. maí 2005. Frummælendur á fundinum: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, formaður Samtaka um Náttúruvernd á Norðurlandi, Bergþóra Aradóttir, starfsmaður hjá ferðaþjónustuklasa, Jón Kristófer Arnarson, framkvæmdastóri Skógræktarinnar í Kjarna, Ragnheiður Þorláksdóttir frá Náttúruvaktinni og Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Bókun meirihluta hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Meirihluti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps lagði fram bókun á fundi hreppsnefndar 3. maí 2005 þar sem Norðlingaölduveitu er hafnað. Segir í bókuninni að: "Ekki hefur verið sýnt fram á þjóðhagslega nauðsyn þess að Norðlingaölduveita verði að veruleika. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nú á fleiri höndum en áður eins og sannast á því að aðilar aðrir en Landsvirkjun hafa svarað eftirspurn og gert samninga um raforku til stóriðju.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur innan sinna marka tvær virkjanir. Því til viðbótar liggur fyrir að samþykktar verða tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þar með telja undirritaðir fulltrúar í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að stuðningur við raforkuframleiðslu í landinu hafi verið með fullum sóma frá hendi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þó að nú verði látið staðar numið."

Þjórsárveranefnd hafnar Norðlingaölduveitu
Sjá vef
Áhugahóps um verndun Þjórsárvera

Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Náttúruvaktin hefur gerst styrktaraðili að ráðstefnunni. Því býðst félögum Náttúruvaktarinnar 25% afsláttur af ráðstefnugjaldi og þurfa aðeins að borga 9.700 kr. í stað 12.900 kr ef þeir skrá sig fyrir 11. apríl. Annars borga þeir 12.900 í stað 15.500.

Námskeið í borgaralegu hugrekki
Dagana 5. og 6. júní verður boðið upp á stutt námskeið og umræður um borgaralegt hugrekki og friðsamar beinar aðgerðir. Námskeiðið er mjög
hentugt fyrir þá sem ekki komust á námskeið Milan Rai og Emily Johns í júní á síðasta ári. Í kjölfarið, eða helgina 11.-12. júní, verður ítarlegra námskeið. Frekari upplýsingar og skráning á .

Alþjóðlegar tjaldbúðir við Kárahnjúka í sumar
Til stendur að slá upp alþjóðlegum búðum við Kárahnjúka síðari hluta júnímánaðar. Tjaldbúðirnar, sem munu standa fram í ágúst/september, eða svo lengi sem veður leyfir, munu verða vettvangur fyrir fólk að koma á framfæri mótmælum sínum við virkjunarframkvæmdirnar. Boðið verður upp á fjölbreytta menningardagskrá, fræðslufundi og gönguferðir með leiðsögumönnum. Að búðunum standa engin samtök, heldur fjöldi einstaklinga úr öllum áttum sem láta sig varða framtíð og örlög náttúrugersema okkar. Öllum er velkomið að taka þátt.
Frekari upplýsingar á www.savingiceland.org eða með tölvupósti á
.

Bíósýning og umræður 23. maí 2005
Næstkomandi mánudag, 23. maí, verður sýnd mynd um virkjanir og síðan verða óformlegar umræður um mótmæli í sumar. Fundurinn verður í Kaffi Hljómalind og hefst kl. 20. Hann fer fram á ensku.

Hver hefur unnið vel og ötullega að verndun umhverfis- og náttúru? Tilnefningar óskast
Átta umhverfis- og náttúruverndarsamtök hafa tekið höndum saman í þeim tilgangi að heiðra verðugan einstakling fyrir einstakt framlag til náttúru- og umhverfisverndarmála. Valnefnd óskar eftir tillögum um einstakling sem vegna verka sinna og athafna er þess verðugur að hljóta þessa viðurkenningu. Æskilegt er að tilnefningu fylgi stutt greinargerð þar sem færð eru rök fyrir henni. Tillögur skulu sendar skrifstofu að Ránargötu 18, 101 Reykjavík eða til , Hringbraut 121, 107 Reykjavík og skal umslagið merkt "Viðurkenning - tilnefning". Frestur til að skila tillögum er til 18. maí n.k.

Aðalfundur Náttúruvaktarinnar
Aðalfundur Náttúruvaktarinnar var haldinn 28. apríl síðastliðinn og fór vel fram. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins en nýir meðlimir stjórnar eru þau Eygló Harðardóttir, Inga Dóra Jóhannsdóttir og Nikulás Blin. Eru þau boðin velkomin til starfa.

Nýr baráttuvefur
Athygli er vakin í nýrri heimasíðu, savingiceland.org. Þetta er baráttuvefur gegn virkjanabrjálæðinu og er þar að finna mikið af áhugaverðum upplýsingum.

Náttúran rokkar: Tónleikar Náttúruvaktarinnar 14. apríl 2005
Náttúruvaktin stendur fyrir rokktónleikum í næstu viku. Fram koma sex frábærar hljómsveitir: Dikta, Lokbrá, Jan Mayen, Lights on the Highway, Jeff who? og Brylli. Tónleikarnir verða á Gauki á Stöng, húsið opnar kl. 21.00 og það kostar 500 kr. inn. Allur ágóði rennur til starfsemi Náttúruvaktarinnar.

Aðalfundur Náttúruvaktarinnar 28. apríl 2005
Aðalfundur Náttúruvaktarinnar verður haldinn þann 28. apríl í ReykjavíkurAkademíunni. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Fundurinn hefst kl. 17.00 og er öllum félagsmönnum opinn.

Kárahnjúkasvæðið virkara en Landsvirkjun gerði ráð fyrir
Rannsóknir jarðeðlisfræðinga á Kárahnjúkasvæðinu hafa leitt í ljós að svæðið er ekki stöðugt og jarðfræðilegar hættur fleiri en aðstandendur virkjunarinnar höfðu áður talið. 4 stórar sprungur eru undir stærstu stíflunni og umtalsverð hætta á að þær gliðni. Mesta hættan sem stafar af svæðinu er áformuð fylling Hálslóns sem gæti haft umtalsverð áhrif á sprungusvæðið undir stíflunni.
Fyrir örugglega alveg einskæra tilviljun viðurkenndi Landsvirkjun í gær að Kárahjúkastífla verði reist á sprungusvæði sem er mun virkara en fyrirtækið og verkaðilar gerðu áður ráð fyrir. Stjórn fyrirtækisins hefur samþykkt að áhættumat skuli endurskoðað. Sérfræðingar vilja að öryggisráðstafanir verði auknar með viðbótarkostnað upp á 150 milljónir kr. (5. apríl 2004)
Fréttir Ríkisútvarpsins 5. apríl ...
Fréttir Ríkisútvarpsins 4. apríl ...
Fréttir Ríkissjónvarpsins 4. apríl...
karahnjukar.is...
Við minnum á að ýmist jarðvísindafólk og náttúruverndarsinnar hafa þegar vakið athygli á þessu vandamáli, m.a. Hjörleifur Guttormsson um síðustu áramót og Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur, snemma árs 2002.
Athygli er vakin á
viðtali við Grím Björnsson á Helgarvaktinni og frétt um hvernig skýrslu hans var stungið undir stól 10. apríl

Baráttubolirnir komnir
Náttúruvaktin hefur látið gera baráttuboli sem eru nú til sölu. Þeir eru til í tveimur litum, mörgum stærðum og kosta 2500 kr. Allur ágóði rennur til starfsemi Náttúruvaktarinnar. Bolirnir eru til í mjög takmörkuðu upplagi en þá má nálgast með því að hafa samband í síma 6950851, 8614832 eða senda póst á veffangið [email protected] (22. mars 2005)

Pallborðsumræður á vegum Náttúruvaktarinnar vegna Alþjóðlegs baráttudags fyrir vatnsföllum
Náttúruvaktin boðar til fundar í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi til varnar vatnsföllum "International day of action for rivers" 14. mars. Dagur þessi er skipulagður um allan heim af náttúruverndarsamtökunum Rivers Network. Umræðuefnið verður framtíðin og hálendið, út frá kortinu Ísland örum skorið. Fundurinn verður kl 17 í ReykjavíkurAkademíunni í JL- húsinu, Hringbraut 121, 4 hæð. Sumarliði Ísleifsson verður fundarstjóri. Í pallborðinu verður fólk frá Útivist, Ferðafélagi Íslands, Jeppaklúbnum 4x4, Flúðasiglingum og Fuglavernd (Fuglaverndarfélagi Íslands) ásamt Náttúruvaktinni. (13. mars 2005)

Bresk þingkona leggur fram þingsályktunartillögu um að breska stjórnin beiti sér fyrir því að sannfæra íslensk stjórnvöld um að hætta við stíflubyggingará hálendinu
Breska þingkonan Sue Doughty hefur lagt fram þingsályktunartillögu fyrir breska þingið þess efnis að stjórnvöld þar í landi beiti sér fyrir því að fá íslensk stjórnvöld ofan af áætlunum um stíflubyggingum á hálendinu.
Í fréttatilkynningu segir:
"The Liberal Democrat Shadow Environment Minister and member of the influential Environmental Audit Select Committee has given her backing to campaigners in Iceland calling for international support in their opposition to the building of the dams, which will have a devastating effect on the Icelandic wilderness."
Ennfremur er haft eftir Doughty sjálfri:
"Iceland has a stunningly beautiful highland wilderness and a proud independent tradition, both of which are in danger of being undermined by the encroachment of powerful multinational companies.
The dams are not only an environmental disaster, but the whole project is beset by serious concerns about safety, financial integrity and even its legality. We've all heard similar stories about projects in parts of the developing world where there are concerns about democratic accountability, but you do not expect this from one of the most advanced countries in the world like Iceland.
The final decision on whether to continue construction of the dams is of course for Iceland to make. But the Icelandic government must be aware that the world is watching and that they should not be surprised to find that their international relations suffer if they do not take their environmental obligations seriously."
Sjá fréttatillkynningu í heild á pdf-formi
Sjá fréttatillkynningu í íslenskri þýðingu á pdf-formi

Nánari upplýsingar má finna hér (10. mars 2005)

Áttundi laugardagsfundur ReykjavíkurAkademíunnar um Virkjun lands og þjóðar verður haldinn laugardaginn 12. mars kl. 12:00 í JL-húsinu, Hringbraut 121. 4. hæð.
Á fundinum verður kynnt ný Gallupkönnun þar sem fram kemur afstaða landsmanna til þekkingariðnaðar, stóriðju ofl. atvinnugreina.
Haldin verða tvö framsöguerindi um byggðastefnu og skilyrði til nýsköpunar og aðstæður sprotafyrirtækja. Frummælendur verða Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur og Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri. Á eftir verða umræður þar sem fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka ræða hvert stefnir í atvinnumálum (10. mars 2005)

Síðustu forvöð að senda in athugasemdir vegna Þjórsárvera
"Nú liggja frammi til kynningar tillögur um breytingar á svæðisskipulagi Miðhálendisins og tillaga að aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Tillögurnar fela í sér að náttúruverndarsvæðum er breytt í iðnaðar og orkuvinnslusvæði. Gert er ráð fyrir Norðlingaöldulóni og setlóni með veitu við Þjórsárjökul, við friðlandsmörkin austan við Arnarfell. Verði þessar tillögur samþykktar er ljóst að náttúruverndargildi svæðisins verður spillt og fótunum verður kippt undan hugmyndum um stækkun friðlandsins og skráningu þess á heimsminjaskrá." Þetta er tekið af síðunni www.thjorsarverfridland.is og þar neðast á síðunni er að finna minnispunkta sem nota má til að senda inn athugasemdir um aðalskipulag

Sjöundi laugardagsfundur ReykjavíkurAkademíunnar um Virkjun lands og þjóðar verður haldinn laugardaginn 5. mars kl. 12:00 í JL-húsinu, Hringbraut 121. 4. hæð.
Á fundinum verður fjallað um eignarhald og hugsanlega einkavæðingu Landsvirkjunar og vikið að því hvers virði fyrirtækið sé. Steingrímur Ari Arason fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra og Helgi Hjörvar alþingismaður halda stutt framsöguerindi. Á eftir stjórnar Erna Indriðadóttir framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar umræðum. (2. mars 2005)

Skráning hafin. Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Náttúruvaktin hefur gerst styrktaraðili að ráðstefnunni. Því býðst félögum Náttúruvaktarinnar 25% afsláttur af ráðstefnugjaldi og þurfa aðeins að borga 9.700 kr. í stað 12.900 kr ef þeir skrá sig fyrir 11. apríl. Annars borga þeir 12.900 í stað 15.500. (2.mars 2005)

Áfangasigur í baráttunni fyrir aukinni náttúruvernd
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu umhverfisráðherra um að unnið verði að því að fella Jökulsá á Fjöllum og Eyjabakkasvæðið verði fellt inn Vatnajökulsþjóðgarð. Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að landið þar hafi nokkra sérstöðu í heimunum. Einnig kemur fram hjá nefnd sem vann að tillögunum að vel gæti hugsast að Vatnajökulsþjóðgarður með svæðunum norðan jökuls ætti heima á heimsminjaskrá SÞ. Gert er ráð fyrir að ferðamannastraumur aukist í kjölfar stofnunar þjóðgarðsins. NSÍ hafa lýst því yfir að samþykktin sé mikill sigur fyrir náttúruvernd (26. janúar 2005)
Tillögur nefndar um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls

Impregilo til sölu?
Gemima SpA hefur tilkynnt að áhugi sé fyrir að kaupa hlutafé þeirra í Impregilo (um 20%). Kaupin myndu fela í sér endurfjármögnuna á fyrirtækinu þar sem það þarf um 800 milljónir evra til að endurgreiða lán sem munu falla á það á næstu mánuðum. Helstu lánastofnanir Impregilo munu halda fund með aðstandendum fyrirtækisins á morgun til að fara yfir fjárhagsmálin. Raddir eru uppi um að hugsanleg sala fyrirtækisins sé til að fresta gjaldþroti þess og að lánastofnanirnar hafi ekki í huga að veita meira fé til starfseminnar. (24. janúar 2005)
meira...
og meira...

Opið hús í kaffi Hljómalind
Kaffi Hljómalind hefur boðið Náttúruvaktinni að halda fundi eða vera með opið hús. Kaffihúsið er á horni Klapparstígs og Laugarvegs þar sem áður var kaffihúsið Bleika Dúfan. Við höfum ákveðið að taka þessu góða boði og vera þar með viðburði öll miðvikudagskvöld kl. 20.15.

Þetta verður frekar óformlegt en ætlunin er að vera með stuttar framsögur, fyrirlestra eða annað svo sem ljóðalestur og tónlist til að uppfræða og efla baráttuandann. Ekki verður um auglýsta dagskrá að ræða en félagar eru hvattir til að koma og ræða málin. Um leið leitum við til allra náttúruunnenda sem eru aflögufærir með ljóð eða annan góðan efnivið svo þessi kvöld verði enn frekari hvatning til baráttunnar fyrir hálendi Íslands.

Þess ber að geta að á Kaffi Hljómalind er boðið upp á grænmetisrétti á viðráðanlegu verði og er reyklaust. (24. janúar 2005)

"Ísland örum skorið"
Tíu íslensk náttúruverndarsamtök gefa út Íslandskort, "Ísland örum skorið", sem sýnir hvaða breytingar verða á miðhálendi Íslands ef stóriðjuáform stjórnvalda ná fram að ganga.

Í tilefni af útgáfu kortsins verður haldinn kynningarfundur á Hótel Borg föstudaginn 21.janúar kl. 13. Fundarstjóri er Ásta Arnardóttir leiðsögumaður og jógakennari. Dr Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur kynnir kortið og erindi flytja: Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur, Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur og dr Ragnhildur Sigurðardóttir, líffræðingur. Rússíbanar spila ljúfa tónlist.
meira...

Úrskurður skipulagsstofnunar um undanþágu fyrirhugaðs álvers Alcoa í Reyðarfirði frá umhverfismati ómerktur
Í dag felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð í máli sem Hjörleifur Guttormsson höfðaði. Þremur kröfum var vísað frá en jafnframt var ómerktur úrskuður skipulagsstofnunar um að fyrirhugað álver Alcoa í Reyðarfirði væri undanþegið umhverfismati á grundvelli þess að áður fyrirhugað álver Norsk Hydro hefði þegar gengið í gegn um umhverfismat. Var þá litið til aukins útblásturs á skaðlegum lofttegundum frá álveri Alcoa. Álverið þarf s.s að fara í umhverfismat en framkvæmdir eru þegar hafnar. Umhverfisráðuneytið ætlar að áfrýja dómnum.
Meira...
og meira...

Barmmerki Náttúruvaktarinnar til sölu
Náttúrvaktin hefur látið búa til barmmerki með áletruninni "Björgum hálendinu, Náttúruvaktin". Merkið kostar 300 kr. en fjögur merki kosta 1000 kr. Merkið ert til sölu á eftirfarandi stöðum:
Saumastofunni Hnappi, Njálsgötu 11, s. 511 29 10
Guðrúnu Guðmundsdóttur, Hinu horninu, Laugavegi 100
Ragnheiði Þorláksdóttur, s. 695 08 51, og á [email protected]
Tólf tónum, Skólavörðustíg

Hópur frá Náttúruvaktinni afhendir alþingismönnum Kárahnjúkaleir
Í dag fengu alþingismenn jólagjöf frá Náttúruvaktinni. Í pakkanum var Kárahnjúkaleir (leir úr Jöklu) sem ætlað var að minna þingheim á þær afleiðingar sem Kárahnjúkavirkjun mun hafa í för með sér þegar ryk úr Hálslóni fer að fjúka í tonnatali yfir hálendið. Halldór Blöndal ætlaði upphaflega að taka á móti gjöfinni fyrir hönd þingmanna en eitthvað varð skyndilega tvísýnt um að hann gæti mætt. Þessi í stað birtist nafni hans og sjálfur forsætisráðherra Ásgrímsson sem sagðist geta veitt gjöfinni viðtöku (heimildir herma að þar hafi þó verið misskilningur á ferð). Þorleifur Hauksson las tilkynningu sem Náttúruvaktin sendi frá sér og Ásta Þorleifsdóttir spjallaði við forsætisráðherra um þann skort sem virðist vera á tilraunum með mótvægisaðgerðir gegn fokinu.

Þessi "jólagjöf virkjanasinnans" verður til sölu í fallegum gjafaumbúðum og rennur ágóðinn til styrktar starfsemi Náttúruvaktarinnar. Nánari upplýsingar fást í síma 861 4832 eða á netfanginu (10. desember 2004)

Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Náttúruvaktin hefur gerst styrktaraðili að ráðstefnunni. Því býðst félögum Náttúruvaktarinnar 25% afsláttur af ráðstefnugjaldi og þurfa aðeins að borga 9.700 kr. í stað 12.900 kr.

Tónleikar með Súkkat og Þóri næsta sunnudag, 12. desember 2004
Næstkomandi sunnudag hefst tónleikaröð Náttúruvaktarinnar "Kveðjum sinnuleysið!". Á fyrstu tónleikunum koma fram Súkkat og trúbadúrinn Þórir. Tónleikarnir verða haldnir á Grand Rokk og hefjast kl. 21.00. Aðgangseyrir er 500 kr.

Góðkunningjar íslenska sendiráðsins í London koma fyrir rétt á föstudag
Fimmenningarnir sem handteknir voru þann 26. nóvember sl. eftir að hafa rutt sér leið inn í íslenska sendiráðið í London verða leiddir fyrir dómara á föstudaginn 10. desember. Eins og kunnugt er heimsóttu 11 breskir mótmælendur sendirráðið til að láta í ljós andúð sína á framkvæmdunum við Kárahnjúka. Fimm þeirra tókst að komst inn á skrifstofur sendiráðsins og einum tóks jafnvel að læsa sig inni á skrifstofu og þrufti á hjálp slökkviliðs til að ná mótmælandanum út.
Meira...

Impregilo rannsakað vegna bókhaldsbrota
Ítalska fyrirtækið Impregilo sem nú vinnur að byggingu Kárahnjúkavirkjunar sætir nú rannsókn vegna meintra bókhaldsbrota sem tengjast lánum til dótturfyrirtækisins Imprepar sem nú er gjaldþrota. Málið tengist fimm yfirmönnum fyrirtækisins. Í kjölfar rannsóknarinnar hröpuðu hlutbréf í fyrirtækinu um þriðjung. (25. nóvember 2004)
Meira...

Laugardagsfundur í ReykjavíkurAkademíunni 27. nóvember 2004
Næsti laugardagsfundur ReykjavíkurAkademíunnar í fundaröðinni "Virkjun lands og þjóðar" heldur áfram með þema síðasta fundar. Næsta laugardag mun Ólafur Páll Jónsson flytja framsögu um lýðræði. Fundurinn hefst kl. 10.00 og verður sem fyrr á 4. hæð ReykjavíkurAkademíunnar í JL-húsinu við Hringbraut.
(25. nóvember 2004)

Ríkisstjórnin ætlar að óska eftir undanþágu til að menga meira
Fram kom í máli Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag að erindrekar ríkisstjórnarinnar myndu fara fram á auknar undanþágur frá Kyoto-bókuninni við umræður um næsta skuldbindingartímabil. Umræðurnar hefjast um miðjan desember. Þegar hafa Íslendingar undanþágu til að auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 10% á árunum 2008-2012 miðað við árið 1990 og að auki heimild til að auka koltvísýringsmengun um 1600 þúsund tonn á ári frá stóriðju á meðan önnur ríki skuldbundu sig til að draga úr útstreyminu. Halldór sagði jafnframt að gæði lífskjara í landinu yltu á stóriðjuuppbyggingunni sem nú er farin í hönd. Jafnaði hann andstöðunni við virkjunum og stóriðju við andstöðu gegn bættum lífskjörum.

Náttúruvaktin spyr: síðan hvenær er íslenska þjóðin svo hugmyndasnauð að ekki megi bæta lífskjör án þess að auka mengun og stuðla að náttúruspjöllum? Eru stjórnvöld ekki að misskilja Kyoto-bókunina þegar þau líta á hana sem ávísun á aukna mengun og stóriðjuuppbyggingu? (22. nóvember 2004)

Sigur Rós í baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun
Hljómsveitin Sigur Rós hefur birt yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem þeir fordæma framkvæmdirnar við Kárahnjúka og lýsa yfir stuðningi sínum við baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun. Hljómsveitarmeðlimirnir hafa lengi verið andstæðingar fyrirhugaðrar virkjunar enda var Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar handtekinn fyrir að senda borgarstjórn Reykjavíkur tóninn þegar hún samþykkti framkvæmdirnar. (22. nóvember 2004)

Laugardagsfundur í ReykjavíkurAkademíunni 20. nóvember 2004
Þema næsta laugardagsfundar í ReykjavíkurAkademíunni verður upplýsingar til almennings og lýðræði. Framsögumenn verða Dr. Ragnhildur Sigurðardóttir og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins.
(15. nóvember 2004)

"Maður náttúra og pólitískt vald" 18. nóvember 2004
Í fyrirlestri Ólafs Páls Jónssonar 18. nóvember nk. verður spurt þriggja spurninga. Hvað er náttúra? Hvernig getum við skilið náttúru? og Hvernig eigum við að umgangast náttúru? Fyrirlesturinn verður í stofu 103 í Lögbergi, Háskóla Íslands og byrjar kl. 12.05. (15. nóvember 2004)

Ráðstefna Orkustofnunar um óhefðbundna orkukosti 17. nóv 2004
Þann 17. nóvember næstkomandi stendur Orkustofnun fyrir ráðstefnu um óhefðbundna orkukosti á Grand Hótel við Sigtún kl. 8.30-12. Á ráðstefnunni verðu m.a. fjallað um gerð vindatlass, virkjun sjávarfalla, jarðhitaleit á köldum svæðum, smávirkjanir og varmadælur.
Aðgangur er öllum heimill en áhugasamir eru beðnir að skrá sig á
heimasíðu Orkustofnunar (14. nóvember 2004)

Félagsfundur Náttúruvaktarinnar miðvikudaginn 10. nóvember 2004
Félagsfundur Náttúruvaktarinnar verður haldinn næstkomandi miðvikudag 10. nóvember kl 20 í Kornhlöðunni sem er bakhús veitingahúsins Lækjarbrekku (efri hæð). Á dagskrá eru kynning á verkefninu Kárahnjúkaleir, Náttúruvaktarkórinn. Anna Svavarsdóttir og Jón Bjarnason munu halda framsögur um mögulegar virkjanir í Skagafirði og Sigþrúður Jónsdóttir mun fjalla um stöðuna í Þjórsárveramálinu. Ólafur Páll kynnir starfið framundan. Verkefnahópar Náttúruvaktarinnar starf þeirra og skipulag. Fjölmennum á fundinn (8. nóvember 2004)

Tvær listasýningar sem fjalla m.a. um Kárahnjúkavirkjun
Nú standa yfir listasýningar tveggja kvenna sem báðar hafa náttúru Íslands og virkjanaáform að viðfangsefni. Heidi Strand hefur sett upp sýninguna Þráðhyggja í ráðhúsi Reykjavíkur og Alda Sigurðardóttir sýninguna Landslagsverk í Kunstraum Wohnraum á Akureyri (9. nóvember 2004)

Opinn fundur um Þjórsárver 9. nóvember 2004
Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, í samstarfi við Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands, boðar til opins fundar í Norræna húsinu í Reykjavík þriðjudag 9. nóvember kl. 16.30-18.30. Á fundinum verða sýndar nýlegar myndir Jóhanns Ísberg úr Þjórsárverum, tillaga að breyttu svæðisskipulagi kynnt og sagt verður frá nýlegum skýrslum erlendra sérfræðinga um náttúruverndargildi Þjórsárvera (8. nóvember 2004)

Eru átök í umhverfismálum menningarlegir árekstrar eða hagsmunabarátta?
Þriðjudaginn 9. nóvember heldur Helga Ögmundardóttir fyrirlesturinn "Eru átök í umhverfismálum menningarlegir árekstrar eða hagsmunabarátta?" Helga segir að hægt sé að hugsa sér að ólíkar skoðanir á ýmsum umhverfismálum séu sprottnar úr ólíkum lífsháttum og sýn fólks á umhverfi sitt og þannig séu átök um náttúruauðlindir í rauninni átök ólíkra menningarheima. Sé Ísland sett í þetta samhengi, og átökin sem eiga sér stað bæði innanlands og milli Íslands og annarra ríkja um auðlindir lands og sjávar skoðuð út frá því, er hægt að spyrja sig hvort þarna sé um að ræða átök menningarlega aðgreinanlegra hópa eða að þarna sé einfaldlega um hreinræktaða hagsmuna- og valdabaráttu að ræða.
Fyrirlesturinn verður haldinn á 4. hæð ReykjavíkurAkademíunnar í JL-húsinu og hefst kl. 20.00.
(4. nóvember 2004)

Umhverfissiðfræði og tæknihyggja. Laugardagsfundur ReykjavíkurAkademíunnar 6. nóvember 2004
Laugardaginn 6. nóvember verður þriðji laugardagsfundur ReykjavíkurAkademíunnar í fundaröðinni Virkjun lands og þjóðar. Fundarefnið er umhverfissiðfræði og tæknihyggja.

Meðan framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun verða æ sýnilegri, áform um fleiri virkjanir á hálendinu eru áberandi og farið að tala um álver á Norðurlandi sem varla verður hægt að útvega orku nema Jökulsá á Fjöllum verði virkjuð, er tímabært að spyrja grundvallarspurninga um virkjanamál. Að þessu sinni er spurt: Er það skylda okkar að nýta allar þær náttúruauðlindir sem til eru? Eða á náttúran einhvern rétt?

Frummælandi verður Þorvarður Árnason náttúrufræðingur sem flytur erindi er nefnist "Er vit í visthverfum viðhorfum". Á eftir stjórnar Jón Ólafsson heimspekingur og formaður stjórnar ReykjavíkurAkademíunnar pallborðsumræðum þar sem meðal annars taka þátt heimspekingarnir Sigríður Þorgeirsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
(2. nóvember 2004)

Söfnum liði! 1000 félagar fyrir maí 2005
Stefnt er að því að félagar Náttúruvaktarinnar verði orðnir 1000 fyrir í maí á næsta ári. Því eru allir félagsmenn hvattir til að safna liði enda eru allir náttúruverndarsinnar (sem eru 22% landsmanna skv. nýlegri rannsókn) og áhugafólk um náttúruvernd velkomnir í félagið. Nánari upplýsingar um hvernig gerast má félagi og safna liði er að finna hér. (2. nóvember 2004)

Manngerður jarðskjálfti upp á 2,1 á Richter mælist við Kárahnjúka
Í gær milli 17 og 18 mældist jarðskjálfti upp á 2,1 á Richter ca. 6 km frá stíflustæði Kárahnjúkavirkjunar og annar í fyrradag á sama tíma upp á 3 á Richter við stíflustæðið. Samkvæmt sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar var fyrri skjálftinn á 1,1 km dýpi en sá síðari á 3 km dýpi (sjá "Snæfell" í dálknum "Staður"). Upp á síðkastið hafa mælst nokkrir skjálftar á svæðinu sem hafa verið allt að 3 á Richter. Þarf varla að taka það fram að þetta eru stórir skjálftar sem gætu m.a. valdið berghruni í göngum. Iðulega eru þeir manngerðir og orsakast af sprengingum Landsvirkjunar.

Því er spurt: Hvað er verið að sprengja þegar það framkallar svo stóra skjálfta? Hvaða efni eru notuð? Gætu sprengingarnar haft áhrif á sprungusvæðið sem stíflan verður byggð á? (29. október 2004)

Skipulagsmál í víðu ljósi. Hvert stefnum við? 8. nóvember 2004
Í tilefni af alþjóðlega skipulagsdeginum mun skipulagsfræðingafélag Íslands halda morgunfund þann 8. nóvember kl. 8.30-10. Það verður velt upp ýmsum spurningum og svörum um stöðu og þróun skipulagsmála á Íslandi. Fundurinn verður haldinn á efri hæð Iðnó og er öllum opinn. (29. október 2004)

Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Náttúruvaktin hefur gerst styrktaraðili að ráðstefnunni. Því býðst félögum Náttúruvaktarinnar 25% afsláttur af ráðstefnugjaldi og þurfa aðeins að borga 9.700í stað 12.900 kr. (27. október 2004)

Þáttur um Kárahnjúkavirkjun á France Culture frestað til 6. nóvember 2004
Þætti um Kárahnjúkavirkjun sem átti að vera í í þætti Ruth Stegassy, Terre à Terre, á menningarrás franska ríkisútvarpsins, France Culture, þann 16. október hefur verið frestað til 6. nóvember vegna tæknilegra örðugleika. Þátturinn er klukkutímalangur og verður m.a. talað við Rúrí og Hönnu Steinunni Þorleifsdóttur. Má hlusta á þáttinn á netinu að útsendingu lokinni. (27. október 2004)

Fyrirlestur um aftengingu umhverfis og hagvaxtar 27. október 2004
Miðvikudaginn 27. október, kl. 12.15, mun Jón Þór Sturluson, sérfræðingur við Hagfræðistofnun, flytja erindi um aftengingu umhverfis og hagvaxtar í málstofu á vegum Hagfræðistofnunar og Viðskiptafræðistofnunar, í Odda stofu 101.

Í málstofunni verður fjallað um yfirstandandi rannsóknarverkefni um aftengingu umhverfishnignunar og hagvaxtar, sem unnið er að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar. Í fyrirlestrinum verður sjónum einkum beint að mælingum á sjálfbærni og aftengingu einstakra umhverfisvandamála frá undirliggjandi efnahagsþáttum og notagildi slíkra mælikvarða fyrir stefnumótun stjórnvalda.
Málstofan er öllum opin.

A workshop on Karahnjukar dam at European Social Forum 16th October 2004 / Málstofa um Kárahnjúkavirkjun á European Social Forum, London, 16. október 2004
A workshop on Karahnukar dam will be held at European Social Forum next Saturday at 2pm with the Icelandic activist Ólafur Páll Sigurðsson. Videos about the dams will be screened continuously throughout 16th October 2 - 10pm also at RampARTs.

Málstofa um Kárahnjúkavirkjun verður haldin á European Social Forum næsta laugardag kl. 14.00 undir stjórn Ólafs Páls Sigurðssonar. Kvikmyndir um virkjunina verða sýndar sama dag frá 14-22.

Location/Staður:
RampARTs 15 - 17 Rampart Street London E1.

More/Meira ...

Virkjun lands og þjóðar. Annar fundur 16. október kl. 12.00 í JL-húsinu
Annar fundur ReykjavíkurAkademíunnar um VIRKJUN LANDS OG ÞJÓÐAR verður haldinn í JL-húsinu Hringbraut 121, laugardaginn 16. október kl. 12:00.
Umræðuefnið verður umhverfisáhrifin við Kárahnjúka. Framsögumenn verða Einar Þorleifsson fuglafræðingur og Sigurður Arnalds verkfræðingur frá Landsvirkjun. Að erindum loknum verða almennar umræður um efnið. Fram koma upplýsingar um atriði sem lítt hafa verið í kastljósi fjölmiðla til þessa.
Þema nóvembermánaðar verður lýðræði og upplýsingar til almennings.
(14. október 2004)

World of Solitude valin til verðlauna á kvikmyndahátíð í Rússlandi
Kvikmynd Páls Steingrímssonar og Magnúsar Magnússonar, World of Solitude, hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni "Green Vision" sem haldin var í St. Pétursborg í Rússlandi dagana 21.-24. september. Páll keppti við rúmlega 350 kvikmyndir og hlaut verðlaun fyrir "kjarkmikla kvikmyndagerð um umhverfismál". Myndin var sýnd á kvikmyndahátíð Landverndar fyrr á árinu en íslensku sjónvarpsstöðvarnar hafa ekki enn ákveðið að taka hana til sýningar. (7. október 2004)
meira...

Virkjun lands og þjóðar. Fundaröð ReykjavíkurAkademíunnar hefst á laugardaginn 9. október kl. 12.00
Í vetur verða haldnir tveir til þrír fundir í mánuði um virkjanamál og umhverfisvernd í ReykjavíkurAkademíunni undir styrkri stjórn Viðars Hreinssonar. Fyrsti fundurinn verður haldinn laugardaginn 9. október kl. 12.00 á fjórðu hæð í JL-húsinu við Hringbraut. Á fundinum mun Ómar Ragnarsson kynna bók sína Kárahnjúkavirkjun. Með og á móti. Síðan munu Þorstein Sigurlaugsson og Smári Geirsson reyna að svara þeirri spurningu hvort það borgi sig að hætta við Kárahnjúkavirkjun. Umræður verða að erindunum loknum. (5. október 2004)

Ómar Ragnarsson hlýtur fyrstu verðlaun fyrir myndina In Memoriam? á alþjóðlegri kvikmyndahátíð á Ítalíu
Kvikmynd Ómars Ragnarssonar "In Memoriam?" hlaut í gærkvöldi fyrstu verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð sem var haldin skammt frá Torino á Ítalíu. Þetta var í fimmta sinn sem kvikmyndahátíðin Ecofilm Festival var haldin en vatn var þemað í ár. Fjölmargar sendu myndir inn á hátíðina en mest áberandi voru myndir framleiddar af evrópskum sjónvarpsstöðvum. In Memoriam? hlaut sem fyrr segir fyrstu verðlaun en tvær viðurkenningar voru veittar á hátíðinni. Hin verðlaunin hlaut mynd um ánna Níl sem sem BBC framleiðir og leikstýrt er af Tim Scoones. (3. október 2004)

Stofnfundur Náttúruvaktarinnar
Stofnfundur Náttúruvaktarinnar var haldinn í gær 2. október Í Iðnó. 62 stofnfélagar voru skráðir í samtökin á fyrsta degi. Á fundinum voru lög samtakanna samþykkt og fimm manna stjórn kjörin. Í stjórn sitja Þorleifur Hauksson, Ragnheiður Þorláksdóttir, Margrét Jónsdóttir, Íris Ellenberger og Einar Þorleifsson. Framkvæmdastjóri er sem fyrr Ólafur Páll Sigurðsson en varamenn stjórnar eru Sumarliði Ísleifsson og Ásta Þorleifsdóttir. Einnig samþykkti fundurinn að Ragnheiður Þorláksdóttir skyldi sjá um að taka á móti nýjum félögum, Guðrún Birna Eiríksdóttir er fjölmiðlafulltrúi samtakanna og Íris Ellenberger ritstjóri náttúruvaktarinnar.com. (3. október 2004)

Stofnfundur Náttúruvaktarinnar
Stofnfundur Náttúruvaktarinnar verður haldinn laugardaginn 2. október í Iðnó kl. 14.00. Náttúruvaktin var stofnuð sem baráttuhópur fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði í aðdraganda hálendisgöngunnar 27. febrúar 2003. Síðan hefur hópurinn staðið fyrir fjölda aðgerða í þeim tilgangi að berjast gegn náttúruspjöllum á Íslandi. Á laugardaginn verður Náttúruvaktin stofnuð sem formleg samtök. Á dagskrá stofnfundarins verða samþykkt laga og stjórnarkjör.
(30. september 2004)

Landsvirkjun að hefja viðræður við Skagafjörð og Akrahrepp um Skatastaðavirkjun
Úr frettum á skagafjordur.com
"Í fréttum Stöðvar 2 skömmu fyrir helgi var sagt frá því að viðræður séu að hefjast milli Landsvirkjunar og Skagfirðinga um að reisa eina stærstu virkjun landsins, Skatastaðavirkjun. Landsvirkjun vill beisla vötnin sem renna frá norðanverðum Hofsjökli til Skagafjarðar og hefur sótt um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðherra.
Landsvirkjun hefur óskað eftir fundi með viðkomandi sveitarfélögum, Skagafirði og Akrahreppi og er stefnt að viðræðum í kringum næstu mánaðamót. Ráðamenn í Skagafirði sjá fyrir sér að orkan verið nýtt til stóriðju á Brimnesi sunnan Kolkuóss, en þar gera menn ráð fyrir lóð undir iðnaðarstarfsemi."
Skagfirðingar höfnuðu nýlega Villinganesvirkjun og fagnaði Náttúruvaktin því ásamt því sem samtökin fordæmdu hótanir Valgerðar Sverrisdóttur í garð Skagfirðinga.

Almennar upplýsingar um Skatastaðavirkjun
(23. september 2004)

Náttúruvaktin mótmælir við Þjómenningarhúsið í tilefni af fundi Alþjóðafélags um vetnishagkerfi
Hópur frá Náttúruvaktinni kom saman að morgni 23. september fyrir framan Þjóðmenningarhúsið þar sem fram fór rfundur Alþjóðafélags um vetnishagkerfi, IPHE. Hópurinn bar mótmælaborða og dreifði tilkynningu þar sem fram kom tilgangurinn með mótmælunum: "Vetni og vetnishagkerfi eru meðal áhugaverðustu nýjunga í umhverfisvænni orkuframleiðslu. Orkufrekar virkjanir til álframleiðslu hljóta hins vegar að skerða mjög svigrúm til vetnisframleiðslu. Meðan stjórnvöld stunda tröllaukin umhverfisspjöll á borð við Kárahnjúkavirkjun getur áhersla þeirra á vetnishagkerfi ekki talist annað en auvirðilegt ímyndarþvætti."

Fréttatilkynning Náttúruvaktarinnar
Fréttatilkynning á ensku / Press release in english (23. september 2004)

Námsstefna og málþing um sjálfbæra þróun 24.-25. september í H.Í.
Laugardaginn 25. september n.k., frá kl. 13 til 18, verður haldið málþing þar sem kynntar verða helstu niðurstöður rannsóknarverkefnisins Forsendur sjálfbærrar þróunar í íslensku samfélagi. Málþingið er jafnframt sjálfstæður liður í viðameiri námsstefnu um sjálfbæra þróun sem hefst föstudaginn 24. september og stendur fram að hádegi á laugardag Meginmarkmið námsstefnunnar er að veita nemendum, kennurum og öðru áhugasömu fólki tækifæri til að fræðast um sögu og viðfangsefni nokkurra húmanískra umhverfisgreina og kynnast sjónarhornum þeirra á inntak og stöðu sjálfbærrar þróun. Jafnframt verður fjallað sérstaklega um ýmis grunnatriði í íslenskum umhverfismálum. Sjá nánar www.hi.is/page/sjalfbaer (19. september 2004)

Náttúruvaktin fagnar ákvörðun Skagfirðinga um að hafna Villinganesvirkjun
Náttúruvaktin hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem samtökin fangar ákvörðun Skagfirðinga um að hafna Villinganesvirkjun í Austari-Jökulsá í Skagafirði. Með virkjuninni yrði miklu fórnað fyrir mikinn kostnað og stuttan líftíma og telja samtökin að vænlegra sé að halda áfram uppbyggingu á náttúruvænni ferðamennsku, m.a. á grundvelli fljótasiglinga í jökulsánum.
Náttúruvaktin fordæmir jafnframt hótanir Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra í garð Skagfirðinga. (14. september 2004)

Græni flokkurinn í Ástralíu styður baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun
Grænir héldu í gær blaðamannafund með þáttöku þingmannsins Bob Brown og Álfheiðar Ingadóttur. Fundurinn var haldinn í tilefni af erindi Landsvikjunar á Alþjóða orkumálaráðstefnunni í Sidney sem stendur yfir til 10. september. Erindið nefndist "Sustainable Generation" og vill Græni flokkurinn að Landsvirkjun og Alcoa séu krafin um svar við því hvernig það getur talist sjálfbærni að eyðileggja náttúruna. Bob Brown líkti áformum um Kárahnjúkavirkjun við eitt sinn fyrirhugaða stíflu í Franklin-ánni á Tasmanínu: "The scheme parallels Tasmania's Franklin River experience, with an island state going after hydro-industrialisation, promising cheap energy and destroying the potential for a clean green future based on nature, landscape, and wildness." Eftir hatramma baráttu gegn virkjun Franklin-árinnar unnu andstæðingar hennar sigur og nú er áin ómissandi hluti af blómlegum ferðamannaiðnaði á svæðinu. Frekari upplýsingar um blaðamannafund Græna flokksins er að finna á heimasíðu flokksins og á heimasíðu Bob Brown. (9. sept 2004)


Kárahnjúkavirkjun mótmælt við íslenska sendiráðið í London

Hópur frá náttúruverndarsamtökunum Earth First mótmælti Kárahnjúkavirkjun fyrir framan íslenska sendiráðið í London og ræddi við Ólaf Sigurðsson, starfsmann sendiráðsins. Hópurinn sagði að náttúruverndarsinnar í Evrópu væru íslenskum stjórnvöldum reið vegna þeirra náttúruspjalla sem framkvæmdirnar við Kárahnjúka hafa í för með sér. Einnig tilkynnti hópurinn að Earth First og önnur evrópsk náttúruverndarsamtök væru staðráðin í að vinna gegn Kárahnjúkavirkjun og öðrum framkvæmdum skaðlegum náttúru Íslands.Michael Murphy og Ólafur Sigurðsson ræða saman

Mótmælandinn Michael Murphy ræddi við Ólaf Sigurðsson, starfsmann íslenska sendiráðsins í London og ku Ólafur hafa varið íslensk stjórnvöld með þeim rökum að vatnsorka væri eina orkulind Íslendinga og eini raunhæfa efnahagslausnin til að vega á móti fiskiðnaði. Murphy sagði hins vegar að hvorki Kárahnjúkavirkjun né álverið í Reyðarfirði gæti verið Íslendingum til hagsbóta þar sem framkvæmdirnar sköðuðu náttúruna, verðmætustu eign þjóðarinnar. Hann spáði því einnig að mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun færu vaxandi í Bretlandi og að framkvæmdirnar hefðu neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn á Íslandi, sérstaklega þar sem þær koma í kjölfarið á hvalveiðum Íslendinga. (28. ágúst 2004)


Mótmælendur fyrir framan íslenska sendiráðið í London

Innsetningarræða forseta Íslands 1. ágúst
Morgunblaðið 3. ágúst 2004: Hvert er erindi Íslendinga? "...Forlögin hafa fært okkur einstakt land, víðáttu og fegurð, litadýrð og náttúruundur, öræfi og grösuga dali, straumþungar ár og iðandi fossa.
Við skulum kappkosta að varðveita vel þetta draumaland sem við höfum fengið í arf svo að börn okkar og afkomendur geti um aldur og ævi þakkað þau forréttindi að vera Íslendingur
..."
(5. ágúst 2004)

Ummæli forseta fyrir forsetakosningar
Það sem forseti Íslands sagði mánudaginn 21. júní 2004 í Íslandi í dag á Stöð 2 kom okkur á náttúruvaktinni mjög á óvart og urðum við reyndar sum hver bálreið og átti hver það við sig hvernig hann brást við en við skiluðum ansi mörg auðu í mótmælaskyni. Hvað sagði hann nákvæmlega? Hann var spurður: "Það hafa komið upp fjölmörg mál, líka í þinni tíð sem hafa kallað á umræðu um að nýta málskotsréttinn.... (ÓRG: Það er rétt...) Það er öryrkjamálið, það er Kárahnjúkamálið. Hvað er öðruvísi í þessu máli?"
Ólafur Ragnar svarar: "Ég hef fagnað því núna síðustu daga að fyrirrennari minn ágætur hefur lýst því yfir að ef hún hefði verið forseti í Kárahnjúkamálinu myndi hún hafa beitt málskotsréttinum í Kárahnjúkamálinu. Vegna þess að sumir hafa viljað túlka yfirlýsingu hennar um EES-samninginn á þann veg að búið væri að ýta málskotsréttinum til hliðar og nú hefur Vigdís alveg tekið af skarið með það og sagt að hún hefði í Kárahnjúkamálinu beitt málskotsréttinum. Ég..." Spyrjandi óþolinmóður grípur fram í: "Ólafur, hvað er örðuvísi við þetta mál? Forsetinn: "Já, ég ætla að svara því...
Ég er hins vegar ekki sammála því vegna þess í Kárahnjúkamálinu hafði rækilega um það verið fjallað í í alþingiskosningum, það hafði verið lengi á dagskrá varðandi stefnu flokkanna, það var kosið til þings á þessum grundvelli. Varðandi öryrkjamálið þá var það fyrst og fremst hvort að það stæðist stjórnarskrá. Það er dómstóla að skera úr því."
Öllum þeim sem heyrðu þetta eða fréttu af þessu blöskraði ummæli forsetans og þau bárust eins og eldur í sinu út um allt. Hann hafði sagt í Kastljósi að hann hefði íhugað að skjóta þessum tveim málum til þjóðarinnar. Þarna er hann að réttlæta ákvörðun eða ákvörðunarleysi sitt á afar, ef má komast svo að orði um orð forseta, ódýran hátt. Það sem sæmir ekki svo háttsettum manni er að ganga svo fram af heiðvirðu fólki; hann fer einfaldlega ekki með rétt mál.
Um málið hafði ekki verið fjallað rækilega í Alþingiskosningunum sem skiptu máli varðandi Kárahnjúkavirkjun, þeirra sem fram fóru árið 1999, það les enginn stefnuskrá flokkanna, það var aldrei haft hátt um fyrirætlanir í þessu máli og það var hreint alls ekki kosið til þings á þessum grundvelli! Halló! Minni landsmanna er nú ekki svo skert að 2004 sé hægt að fara með tóma vitleysu. Landsvirkjun og co vanvirtu m.a. ríkisstofnun og Alþingi landsmanna og eðlilegri framvindu í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða út verkfræðivinnu Kárahnjúkavirkjunar FYRIR úrskurð Skipulagsstofnunar og FYRIR atkvæðagreiðsluna á Alþingi. Þetta mál var keyrt í gegn án tilhlýðilegar kynningar á réttum tíma, þ.e. FYRIR kosningar, og alla leið með þvílíkum þótta að vart finnast verri dæmi. Og það er ekkert lýðræðislegt við ákvörðunarferli Kárahnjúkavirkjunar. Það er ekki að ástæðulausu að Skipulagsstofnun gerði athugasemd við kynningartímann sem hún hafði lögum samkvæmt. Ritstjóri vefsíðunnar leyfði sér að fara fram á það opinberlega (Rás 2 í dægurmálaútvarpinu 27.6) að forseti Íslands biðjist afsökunar á ummælum sínum. (29. júní 2004; leiðr. 4. ágúst)

Fugla- og náttúruskoðun í friðlandinu í Flóa
Lagt verður upp í gönguna kl. 20 á sunnudagskvöld (13. júní) og gengið eftir fræðslustíg um friðlandið, sem hefst og endar í Stakkholti. Ekið er upp í friðlandið frá afleggjara að bænum Sólvangi og er vegvísir við Eyrarbakkaveg, sem á stendur: Nesengjar, friðland fugla. Annar vegvísir með korti er við Sólvang. Um 4 km eru frá þjóðveginum að Stakkholti. Kort og fleiri upplýsingar eru á vef Fuglaverndar.
Fuglalíf er nú í hámarki og ómar loftið af söng lóma, lóuþræla, jaðrakan, hrossagauka, þúfutittlinga og margra annarra fugla. Fuglarnir eru venjulega fjörugastir kvölds og morgna. Einnig verður hugað að gróðri og öðru lífi, en hin sjaldséða sjöstjarna er nú í blóma. Fjölfróðir náttúruvísindamenn verða með í för. Friðlandið er samstarfsverkefni Fuglaverndar og Árborgar og er styrkt af Pokasjóði. Munið eftir stígvélunum og sjónaukanum. (11. júní)

Námskeið um borgaralega óhlýðni eða borgaralegt hugrekki að nýta sér mótmælafrelsi
Í nútíma lýðræðissamfélagi er borgaralegt hugrekki mikilvæg gdygð. Það er mikið ánægjuefni að hingað til lands hefur verið boðið alþjóðlega þekktum sérfræðingum og aktívistum til að halda námskeið í borgaralegu
hugrekki eða borgaralegri óhlýðni. Rithöfundurinn Milan Rai og listakonan Emily Johns eru breskir friðar-
og umhverfisverndarsinnar. Þau munu halda þrjú námskeið um borgaralegt hugrekki dagana 12.-14. júní. Hægt er að velja um laugardaginn 12. kl. 15-20, sunnudaginn 13. eða mánudaginn 14. júní. Áhugahópur um virkara lýðræði.
Ekki þó víst að enn sé pláss! (12. júní). Upplýsingar á Gagnauganu (af forsíðu frá 30. maí)

Viðurkenning frjálsra félagasamtaka fyrir að hafa skarað fram úr með framlagi sínu til náttúruverndar og umhverfismála 2. júní síðastliðinn var Elínu Pálmadóttur blaðamanni veitt viðurkenningin fyrir framlag sitt í áratugi. Fjórir náttúrufræðingar höfðu síðustu ár fengið viðurkenninguna: Guðmundur Páll Ólafsson, Helgi Hallgrímsson, Sigrún Helgadóttir og Hjörleifur Guttormsson. Eins og kunnugt er hefur Elín m.a. beitt sér fyrir verndun Þjórsárvera. Ein setning er ritstjóra sérstaklega minnisstæð úr ávarpi Elínar: "Almenningur hefur ekki tíma til að átta sig á valkostum". Veit fólk annars um Kvíslárveitu 6 sem er falin í nýjum búningi í núverandi tillögum að Norðlingaölduveitu? (6. júní)

Dr. Louise Crossley umhverfis- og vísindasagnfræðingur heldur fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni þriðjudaginn 25. maí kl. 20: Baráttan gegn Franklin-virkjuninni í Tasmaníu og barátta gegn höggi ósnortinna skóga (20. maí)
Ýmislegt má finna um Franklin-ána í Tasmaníu og baráttuna fyrir verndun hennar gegn ásælni áljöfra á árunum '70-'80 á
vefsíðu alþingismanns Tasmaníu, Bob Brown. Einnig má fræðast um þau öflugu samtök sem urðu til í baráttunni og sigrinum sem vannst í Tasmaníu The Wilderness Society Defending Australia's WildCountry. Ebro-áin sleppur með skrekkinn á Spáni Spain to scrap disputed river rerouting, says Zapatero (22. maí) Sjá einnig Ástralir áttuðu sig eftir Gunnar Örn Sigvaldason og Sigríði Þorgeirsdóttur; stytt útgáfa af greininni birtist í Mbl. 27. febrúar 2003 (23. maí)

Alþjóðlegur náttúruverndardagur sem lagt er til að verði tileinkaður hafinu laugardaginn 5. júní 2004 - en hvert land velur sér þó umfjöllunarefni eftir aðstæðum, t.d. í Ástralíu er það verndun fornra villtra skóga (15. maí / 22. maí)

Fræðslufundur um leiðir og aðferðir í umhverfisbaráttu verður haldinn laugardaginn 22. maí kl. 15-18 í stofu 304 í Árnagarði Háskóla Íslands.
Erindi flytur dr. Louise Crossley umhverfis- og vísindasagnfræðingur. Hún hefur kennt umhverfisstjórnun og áhættumat vi umhverfisfræðadeild Tasmaníuháskóla og stýrt áströlskum rannsóknastöðvum á Suðurskautslandinu þar sem lögð er áhersla á umhverfisstjórnun og er einn aðalhöfunda leiðsögubóka um Suðurskautslandið.
Einnig hefur hún birt greinar um fræði sín og er höfundur útvarps- og sjónvarpsefnis um vísindi og samfélag, umhverfi og náttúru (21. maí)

Kvikmyndahátíð Landverndar Náttúra Íslands í lifandi myndum í Háskólabíói 20. maí. Hátíðin hefst á uppstigningardag kl. 11 og eru myndir sýndar allan daginn, sú síðasta kl. 18. Passi á allar myndirnar kostar 1000 krónur. Klukkan 14 verður mynd Páls Steingrímssonar og Magnúsar Magnússonar frumsýnd World of Solitude (um Vatnajökul og nágrenni) (15. maí)

Fjöldafundur á Austurvelli miðvikudaginn 19. maí kl. 12.10
STÖNDUM VÖRÐ UM LÝÐRÆÐIÐ! ALLIR Á VÖLLINN! SÝNUM ÞEIM RAUÐA SPJALDIÐ!
Hingað og ekki lengra! Mætum með rauða og gula spjaldið, dómaraflautur, lúðra, trommur, hrossabresti, ýlur og blístrur. Látum í okkur heyra! Ýlur og blístrur verða til sölu. Rauðum og gulum spjöldum verður dreift.

Lýðræði byggist á umræðum, gagnsæi, ábyrgð, virðingu og trausti. Íslensk stjórnvöld sniðganga lýðræðislega umræðu í hverju málinu á fætur öðru og beita handafli til að koma fram málum. Írak, útlendingalög, umhverfismál, öryrkjar, réttindi launafólks, Hæstiréttur, Umboðsmaður Alþingis, kærunefnd jafnréttismála, og nú síðast fjölmiðlar. Nú er mælirinn meira en fullur. Leikreglur lýðræðisins eru ekki virtar. Við erum þjóðin, við berum ábyrgð á lífinu í landinu og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Látum í okkur heyra. Þrengjum okkur í gegnum hlustir ráðamanna. Við viljum raunverulegt lýðræði! Hingað og ekki lengra! Við mótmælum öll!
Áhugahópur um virkara lýðræði boðar til fjöldafundar á Austurvelli miðvikudaginn 19. maí kl. 12.10

Fuglavernd stendur fyrir kríudegi við Tjörnina (Þorfinnstjörn í Hljómskálagarðinum) í dag, 15. maí, kl. 15 og flórgoðadegi við Ástjörn í Hafnarfirði á morgun kl. 14-16. Ástjörn er syðst í Hafnarfirði, austan Reykjanesbrautar og er farið að tjörninni um hið nýja Áshverfi (15. maí 2004)

Viðar Hreinsson og Jakob Björnsson skrifast á um virkjunarmál (13. maí 2004)

Hádegiserindi Náttúrfræðstofnunar Íslands (22. október 2003 til 12. maí 2004)

Loftslagsráðstefna Hótel Nordica laugardaginn 24. apríl
Fyrirlesarar kl. 9-18 frá Kanada, Svíþjóð og Noregi ásamt Halldóri Þorgeirssyni (umhverfisráðuneyti), Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur (UNIS Svalbarða) og Halldóri Ásgrímssyni. Vísindavika 21.-28. apríl en dagskrár er ekki getið annarrar en laugardagsins. Samkv. Mbl. 22. apríl (bls. 12): "Hátt í tvö hundruð innlendir og erlendir vísindamenn, sem fást við rannsóknir á loftslagi, lífríki, umhverfi og mannlífi norðurslóða, taka þátt í ráðstefnunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu" og að dagskráin hafi hafist með vinnufundum...
(22. apríl)

Dagur umhverfisins í Smáralind á vegum umhverfisráðuneytisins 24. og 25. apríl
Á séríslenskum umhverfisdegi í tilefni af fæðingardegi Sveins Pálssonar náttúrufræðings 1762 vekur nokkra athygli kynning Alcan á Íslandi hf.: fyrirtækið "kynnir umhverfislega kosti áls, sem oft hefur verið kallað græni málmurinn". Eins og allir vita er álbræðsla orkufrekur iðnaður sem kallar á miklar virkjanir sem oftar en ekki eru afar óumhverfisvænar í okkar viðkvæmu hálendisnáttúru. Að öðru leyti sjá dagskrána í verslunarmiðstöðinni.
(19. apríl)

Kynning í Öskju á rannsóknum í raunvísindum við Háskóla Íslands 16. og 17. apríl
Tuttugu mínútna fyrirlestrar í sal N-131 eða N-132 og í Norræna húsinu báða dagana. Veggspjöld á 1. hæð Öskju með stuttum textum um ýmis efni (jarðvísindi, eðlis-/veður-/efna-/land-/stærð-/matvæla- og líffræði). Þingið stendur í tvo daga, föstudaginn 16. apríl 13.30-17 og laugardaginn 17. apríl 9-17.30. Veitingar í boði raunvísindadeildar í kaffihléum báða dagana. Ókeypis og öllum opið (sjá einnig viðtal bls. 8 Mbl. 11. apríl). Í beinu framhaldi verður náttúrufræðahúsið, Askja, opið almenningi sunnudaginn 18. apríl kl. 13-17. Þá gefst kostur á að kynnast enn frekar þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í Öskju í líf- og jarðvísindum, hlusta á fyrirlestra og skoða afrakstur margvíslegra rannsókna.
(11. apríl 2004)

Stjórnarformaðurinn biðst afsökunar á orðum í garð umhverfisverndarsinna
Hádegisfréttir Rásar 1 4. apríl 2004: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, hefur dregið til baka ummæli sem hann lét falla á samráðsfundi Landsvirkjunar í fyrradag. Hann hefur einnig beðist afsökunar á orðum í garð umhverfisverndarsinna. Þau hafi einungis komið fram í skrifaðri ræðu sem var dreift til fjölmiðla. Jóhannes Geir segir í tilkynningu að orðið "óprúttinn" sem hann hafði uppi um áróður umhverfisverndarsamtaka gegn Kárahnjúkavirkjun hafi aðeins komið á prent í skrifaðri ræðu sem var dreift á fundinum. Hann hafi strikað orðið út úr ræðunni áður en hann flutti hana. Jóhannes biðst afsökunar á þessum mistökum."
(4. apríl 2004)

Ómálefnaleg orðræða stjórnarformanns Landsvirkjunar
Mótmæli Náttúruverndarsamtaka Íslands Lágkúra Landsvirkjunar
Mótmæli framkvæmdastjóra Landverndar "Óprúttinn áróður, þjóðernisremba" og andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar: Mín skoðun
(3. apríl 2004)

Náttúran í ríki markmiðanna Ráðstefna á Selfossi 11. og 12. júní 2005
Hvert ætlum við okkur með náttúruna? Hvað ætlar náttúran sér með okkur? AlÞjóðleg ráðstefna um fagurfræði og siðfræði náttúrunnar verður haldin á Selfossi dagana 11. og 12. júní 2005. Markmið hennar er að huga að stöðu náttúrunnar í nútímanum, britingarmyndum hennar á ólíkum sviðum mannlífsins og mikilvægi hennar fyrir skapandi og innihaldsríkt líf. Ráðstefnan er haldin á vegum Fræðslunets Suðurlands. Þátttakendur m.a. frá Köln, Fort Collins/Colorado, Lancaster/New York, Reykjavík, Nancy/Frakklandi, Berlín og Boston.
(3. apríl 2004)

VERKFRÆÐINGAR OG UMHVERFIÐ
Miðvikudaga í sal 1 í Háskólabíói hafa verið flutt erindi um umhverfismál á vegum umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar Háskóla Íslands. Vegna forfalla flutti Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri hjá Orkustofnun, það sem líklega er síðasta erindið miðvikudaginn 31. mars kl. 11-12.15 um rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda (Sveinbjörn er ákaflega góður fyrirlesari sem á auðvelt með að setja flókin efni fram á skýran hátt).
(31. mars 2004)

Regnhlífamótmæli í Tate Modern í London
Kárahnjúkavirkjun var mótmælt á síðasta degi sýningar Ólafs Elíassonar Weather Project.
(21. mars 2004)

Nýjar greinar í greinasafni Náttúruvaktarinnar
Í greinasafni Náttúruvaktarinnar eru komnar greinarnar "Hin skrínlagða heimska" eftir Pétur Gunnarsson og "Allra hagur?" eftir Viðar Hreinsson. Einnig hafa bæst við þýðingar á grein Torgny Norden sem birtist í Göteborgs-Posten í janúar síðastliðnum og á grein eftir Mark Lynas úr desember-hefti The Ecologist.
(16. mars 2004)

Pokasölunni er lokið...
Sala burðarpoka með merki Náttúruvaktar stóð einungis 27. feb. - 6. mars því þeir seldust upp! Stofnað var til pokasölunnar til að standa straum af kostnaði við leigu á léni fyrir upplýsingavef Náttúruvaktar, natturuvaktin.com, og salan til styrktar vefnum gekk vonum framar :) Kærar þakkir fyrir stuðninginn.
Það skal tekið fram að allir gefa vinnu sína við vefinn.
(6. mars 2004)

Fundur í Norræna húsinu fimmtudaginn 4. mars kl. 16.30 um um frumvarp umhverfisráðherra um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
Fimmtudaginn 4. mars kl. 16.30 um verður haldinn fundur í Norræna húsinu um frumvarp umhverfisráðherra um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, einkum bráðabirgðaákvæði III sem fylgir með frumvarpinu og - ef samþykkt verður - mun opna fyrir hækkun stíflu í Laxá um 10-12 metra. Að fundinum standa Fuglaverndarfélag Íslands, Landssamband stangaveiðimanna, Náttúruverndarsamtök Íslands og Samtök um náttúruvernd á norðurlandi (SUNN). Erindi: Gísli Már Gíslason, prófessor við HÍ. Einsöngur: Kristinn Sigmundsson við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Ávarp: Ingólfur Jóhannesson, formaður SUNN.

Vefur Náttúruvaktar opnaður
Í tilefni eins árs afmælis Náttúruvaktarinnar 27. febrúar 2004 opnuðu Kristín Halla Helgadóttir, 10 ára, Ívar Hannes Pétursson, 9 ára, og Þórey Nína Pétursdóttir, 7 ára, nýjan vef Náttúruvaktarinnar.
(2. mars 2004)