1. október 2004
Villinganesvirkjun/Skatastaðavirkjun
Íris Ellenberger

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun hafa verið talsvert í fjölmiðlum að undanförnu. Þeim er ætlað að virkja jökulárnar sem renna undan Hofsjökli í Skagafjörð. Um þær var tekist fyrir seinustu kosningar með þeim afleiðingum að þeir tveir flokkar sem helst lýstu sig andvíga virkjuninni, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn, sitja nú í sveitarstjórn. Flestir töldu að þar með væri þessu máli lokið en það gerðist síðan í vikunni sem leið að einn Sjálfstæðismannanna lagði fram tillögu um að setja virkjanirnar á skipulag og verður tekin afstaða til þess á fundi í næstu viku. Villinganesvirkjun er í raun tilbúin en það strandar á sveitastjórninni að setja hana inn á skipulagið og gefa leyfi fyrir henni.

Fyrirhuguð Villinganesvirkjun er lítil vikjun, aðeins 33 MW, og er hugsuð sem viðbót við raforkukerfi landsins. Stíflað yrði milli bæjanna Villinganess og Tyrfingsstaða. Lónið yrði 1,7 fkm að flatarmáli og myndi rúma um 33,5 Gl. Virkjunin yrði tiltölulega ódýr með stofnkostnað upp á um 5 milljarða en líftími hennar yrði einnig stuttur, aðeins 40-50 ár. Hún hefði einnig mikil umhverfisáhrif sem mörg hver komust ekki á blað í matsskýrslunni sem unnin var af Verkfræðustofu Sigurðar Thoroddsen hf. fyrir Héraðsvörn ehf. sem er í eigu Rafmagnsveitna ríkisins og Norðlenskrar orku ehf. Matsskýrslan var í raun gölluð því hún fjallaði ekki um áhrif virkjunarinnar á umhverfið fyrir neðan stíflustæðið.

Fyrir neðan stíflustæðið eru flúðir sem munu verða aðeins svipur hjá sjón ef af virkjuninni verður og mun grafa undir þeirri 20 ára uppbyggingu sem verið hefur á flúðasiglingum á svæðinu. Flúðasiglingarnar skapa nú 25 heilsársstörf auk fjölda afleiddra starfa. Störf vegna hinnar fyrirhuguðu virkjunar yrðu hins vegar fá bæði í héraði og á landsvísu. Þess utan eru flæðiengjar nálægt ströndinni í verulegri hættu því framburður árinnar vegur á móti rofi sjávar. Þegar minnkar í ánni er hætt við að sjónum takist að brjóta sér leið gegnum brimgarðinn og flæða inn á láglendið. Ennfremur er það framburður árinnar sem gerir flæðiengjarnar frjósamar með reglulegum flóðum.

Láglendið og dalbotninn hafa hlotið viðurkenningu sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði eða IBA frá Birdlife International. Þar með er það einnig orðið mögulegt rannsóknasvæði. Breytingarnar á svæðinu vegna minnkandi framburðar í ánni gætu því haft mikil áhrif á fuglalífið á svæðinu ef frjósemi flæðimýranna minnkar eða ef sjór flæðir yfir svæðið. Einnig má geta þess að nokkur friðlýst svæði eru innan áhrifasvæðis virkjunarinnar og á þeim forsendum mætti kæra hana til Bernarsáttmálans.

Því hlýtur að vakna sú spurning af hverju ætti að fórna svo miklu fyrir litla virkjun með skamman líftíma. Svarið við þeirri spurningu liggur ef til vill í Skatastaðavirkjun.

Áformin um Skatastaðavirkjun felast í því að safna saman ám, m.a. bæði Vestari- og Austari-Jökulsám, á svæðinu norðan Hofsjökuls í stórt miðlunarlán með tilheyrandi veitum og jarðgöngum. Virkjunin yrði fimm sinnum stærri en Villinganesvirkjun, eða um 180 MW en einnig miklu dýrari, stofnkostnaðurinn yrði 25-32 milljarðar í stað 5 milljarða stofnkostnaðs Villinganesvirkjunar. Lón Skatastaðavirkjunar yrði grunnt og virkjunin því skammlíf líkt og Villinganesvirkjun.

Umhverfisáhrif Skatastaðavirkjunar og Villinganesvirkjunar yrðu að miklu leyti þau sömu nema að lón Skatastaðavirkjunar yrði náttúrulega stærra og þar myndu meðal annars hinar frægu og fágætu Orravatnsrústir fara á kaf. En vegna hinna svipuðu áhrifa af virkjununum tveimur er mikilvægt fyrir aðstandendur þeirra að Villinganesvirkjun nái fram að ganga því komist hún á kortið þarf Skatastaðavirkjun ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum og fylgir því nokkurn veginn í kaupbæti. Því er réttast að líta á virkjanirnar tvær sem eina heild því hin afllitla og skammlífa Villinganesvirkjun virðist aðeins einn áfangi á leið til Skatastaðavirkjunar.