15. september 2004
Er þetta satt?
Viðar Hreinsson

Meðan leirinn fýkur um hugi manna fyrir austan, tómahljóðið dynur um áliðnaðarbraut Verkmenntaskóla Austurlands og ALCOA bruggar ráð til að lækka fasteignverð ganga sögur fjöllum hærra. Kvisast hefur að forráðamönnum álrisans sé farið að ofbjóða sitt af hverju og verulega hafi farið um þá þegar vatnsmagn Jöklu hækkaði lítillega um daginn. Klúður við gerð hjárennslisganga, hvort sem það var nú vegna reikningsskekkju, skilningsskorts á þykkt jökulvatns eða nísku Impregilo, hafi ofboðið þeim. Þeir hafi jafnvel ekki trúað fimmhundruðáraflóðarugli Lansvirkjunar. Ef varnargarðurinn hefði brostið hefði ALCOA rift öllum samningum í krafti ákvæðis sem kallast "force major". Jafnvel hefur heyrst að nú sé aðeins verið að bíða eftir að eitthvað annað gerist sem bjargi ALCOA uppúr skítnum. Kannski leirfoksfarsinn geti dugað þeim, þessar ámátlegu hugmyndir um rykbindingu eða vökvunargræjur? Það er ólíklegt að sú hætta falli vel að þessu umhverfisvæna Janusarsmetti sem ALCOA og Landsvirkjun reyna að snúa í sameiningu að þjóðinni.
Getur verið að eitthvað af þessu sé satt???